Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2008 September

30.09.2008 14:05

Myndir af sokkinni Sif

Eins og kom fra hér að neðan sökk Sif HU við bryggju á Hvammstanga í gær. Ingi Bjarnason þar í bæ tók þessar myndir og sendi mér til birtingar. Hann sagði að Sif hefði náðst á flot aftur í gær og biði nú örlaga sinna við bryggjuna. Heyrst hefði að hún yrði rifin.Frá Hvammstangahöfn í gær. Ljósm. Ingi Bjarnason.

29.09.2008 23:14

Sif HU sökk í höfninni á Hvammstanga

Samkvæmt frétt í Norðanáttinni í dag sökk eikarbáturinn Sif HU 39 í höfninni á Hvammstanga en þar hefur hann legið undanfarin ár. Sif var smíðuð í Njarðvík 1956 og hét upphaflega Ólafur Magnússon KE 25. Þetta nafn bar hann allt til þess að hann fékk Sifjarnafnið fyrir þó nokkrum árum síðan. Reyndar með einni undantekningu, um tíma hét hann bara Ólafur ÁR en einnig Ólafur Magnússon ÁR. Lengi vel var hann gerður út frá Skagaströnd eða í um 20 ár en þá vék hann fyrir Þóri SF sem fékk nafns hans og númer. Þessari útgerð tengdust þeir Jósef Ægir og Guðmundur Stefánssynir eða Jobbi og Gummi eins og þeir kalla sig á 123.is/jobbioggummi. Eftir að hann var seldur frá Skagaströnd var gerður út fyrir sunnan og vestan áður en hann kom aftur norður og fékk Sifjarnafnið. Hafði þá verið með einkennisstafina SH, VE og HF. Heimild skip.is

711.Ólafur Magnússon HF 77 ex Ólafur Magnússon VE.Ljósm. Hafþór Hreiðarsson

29.09.2008 22:31

Sveinborg GK 70

Hér kemur mynd af skuttogaranum Sveinborgu GK 70. Áður hefur verið fjallað lítillega um hann á síðunni, þá sem Þorstein EA. Ekki er ég með það á hreinu hvað hann hét í upphafi en þegar hann er keyptur til landsins árið 1975 fær hann nafnið Trausti ÍS 300. Eigandi togarans, sem er smíðaður í Noregi 1968, var Útgerðarfélagið Freyja hf. á Suðureyri við Súgandafjörð. Haustið 1977 er hann seldur Skildi hf. á Patreksfirði og heitir hann Guðmundur í Tungu BA 214. 1980, nánar tiltekið í desember, kaupir svo Ísstöðin í Garðinum togarann og þá fær hann Sveinborgarnafnið sem hann ber á myndinni hér að neðan. 1985 er hann skráður á Siglufirði og fær SI 70 samkvæmt bók þeirri sem Jón Björnsson gaf út, Íslensk Skip. Síðla árs 1987  kaupir svo Samherji hf. togarann sem verður þá Þorsteinn EA 610. Aðfaranótt sunnudagsins 10. apríl 1988 var hann síðan fyrir skemmdum í ís þar sem hann var við veiðar í Reykjafjarðarál. Um tíma leit þetta ekki vel út, m.a. kom gat á skutinn og sjór flæddi inn en allt fór þó vel að lokum. Arnar HU náði að draga Þorstein út úr ísnum og þaðan til Akureyrar. Þyrla LH var búin að taka  fjóra úr áhöfn Þorsteins og flytja til Ísafjarðar en eftir að togarinn komst út úr ísnum var þar við látið sitja. Þorsteinn skemmdist það mikið að ekki þótti svara kostnaði við að gera við hann. Togarinn lá á Akureyri næstu árin eða til ársins 1994 að draga átti hann til írlands að mig minnir. Hvanneyrin, sem áður var vitaskipið Árvakur, lagði í'ann yfir hafið með Þorstein í drætti en ekki vildi betur til en svo að hann sökk einhversstaðar í námunda við Færeyjar. þannig fór það.

 1393.Sveinborg GK 70 ex Guðmundur í Tungu BA 214. Ljósmynd Vigfús Markússon.

28.09.2008 18:35

Árni á Bakka ÞH 380

Hér kemur mynd af Árna á Bakka ÞH 380, rækjuskipi Sæbliks á Kópaskeri. Hann var gerður út frá Kópaskeri frá árinu1987 og í 1-2 ár eftir það undir skipstjórn Eiríks Sigurðssonar frá Húsavík. Eftir að Sæblik fór í gjaldþrot leigði Jökull á Raufarhöfn verksmiðjuna og skipið í þrjá mánuði og lauk útgerð þess undir þessu nafni vorið 1989. Árni á Bakka var einn tappatogaranna sem smíðaðir voru fyrir íslendinga í Stralsund 1958-1959. Upphaflega hét hann Björgvin EA 311 og var í eigu Útgerðarfélags Dalvíkur hf. á Dalvík, smíðaður 1958. Skipið var selt frá Dalvík síðla árs 1973 en þá áttu Dalvíkinga nýjan Björgvin í smíðum í Noregi. Skipið var síðan gert út frá m.a frá Vestfjörðum, Reykjavík, Suðurnesjum og Hafnarfirði áður en það var keypt til Kópaskers. Júlíus Stefánsson í Hafnarfirði keypti síðan skipið og nefndi Árfara HF 127 og ef ég man rétt keypti útgerð Tjalds SH skipið og fékk það á einkennistafina SH. Það lá í fjörunni við Rif í einhvern tíma en mig minnir að það hafi endað inn við sundin blá þar sem það var rifið í brotajárn. Útgerðarfélag Dalvíkur fékk árið 1960 annnan tappa, Björgúlf EA 312, smíðaðan 1959. Hann var seldur Hópsnesi hf. í Grindavík síðla árs 1973 en útgerð hans fékk snöggan endi árið 1975. Skipið, sem hét Járngerður GK 477, var við loðnuveiðar undan Breiðamerkursandi í febrúarmánuði og sökk. Áhöfnin komst í gúmmíbjörgunarbáta og var bjargað þaðan af áhöfn Þorsteins RE 303 sem kom þeim til lands.  

 27.Árni á Bakka ÞH 380 ex Dreki HF 36. Ljósm. Hafþór Hreiðarsson

25.09.2008 19:08

Atlanúpur í vari við Grímsey.

Hér kemur skemmtileg mynd úr safni Trausta Ólafssonar á Húsavík. Trausti, var um árabil matsveinn á rækjutogurunum sem báru nafnið Júlíus Havsteen. Þessa mynd af Atlanúp ÞH 263  í spænuroki við Grímsey tók hann þann 2. október 1989.


21.Atlanúpur ÞH 263 ex Mummi GK 120. Ljósmynd Trausti Ólafsson.

24.09.2008 20:34

Sæfari ÁR 22

Sæfari ÁR 22 er báturinn og kom það mjög snemma fram. Sæfari hét upphaflega Hávarður ÍS 16 og var smíðaður í Danmörku 1959 fyrir Ísver hf. á Suðureyri við Súgandafjörð. Saga hans hefur komið hér fram áður en hann hét í lokin Sæbjörg ST frá Hólmavík.


554.Sæfari ÁR 22 ex Sæfari AK 171. Ljósm. Vigfús Markússon.

23.09.2008 23:09

Sigurður Þorleifsson GK 256.

Hér kemur mynd af Sigurði Þorleifssyni GK 256 sem Vigfús Markússon tók. Saga þessa báts kom nokkuð vel fram á síðunni í apríl sl. en á þeirri mynd var búið breyta honum Á þessari er búið að hálfbyggja yfir hann sýnist mér en það var vinsælt í grindavíkurflotanum.


1333.Sigurður Þorleifsson GK 256 ex Jóhann Guðnason KE 77.

22.09.2008 15:46

Hver er báturinn ?

Jæja hver skyldi hann nú vera þessi ?

21.09.2008 22:48

Karólína ÞH 100.


2760.Karólína ÞH 100. Ljósmynd Sigurgeir Harðarson 2008.

Myndina hér að ofan tók Sigurgeir um daginn. Lesa meira á www.640.is

20.09.2008 23:43

Argenova XXI

Hér koma myndir af línuskipinu Argenova XXI sem við þekkjum betur sem skuttogarann Vestmannaey VE 54. Myndirnar sendi Guðmundur Alfreðsson útgerðarstjóri hjá Berg-Huginn sem átti skipið og gerði út í yfir 30 ár.


Argenova XXI ex Vestmannaey VE 54.


19.09.2008 22:44

Newfound Pioneer við bryggju í Bay Roberts

Hér kemur mynd af skuttogara sem um tíma var í eifu ÚA á Akureyri og bar nafnið Svalbakur. Í dag heitir hann Newfound Pioneer og er gerður út frá Bay Roberts á Nýfundnalandi þar sem Bjarni Ásmundsson tók þessa mynd nú í byrjun september. Að sögn Bjarna hefur togarinn verið gerður út frá Bay Roberts til rækjuveiða og var kominn inn til löndunar áður en haldið  yrði í slipp til Halifax. Menn þarna ytra sögðu að hann hefði komið í land með allt bilað sen bilað gæti enda hafi það hreinlega verið keyrt út. Það stendur ekki steinn yfir steini þarna um borð og allt að verða ónýtt ef það er þá ekki þegar orðið ónýtt. Menn á bryggjunni töluðu um að ef togarinn kæmist af eigin rammleik til Halifax verði að taka það allt til lagfæringar. Bjarni segir að togarinn líti ekkert svo illa út, úr fjarlægð, væri fjarskafríður. Hann segir skipið samt vera búið að standa sig gríðarlega vel þessi ár sem það er búið að vera í rekstri þarna úti. "En maður spyr sig nú samt hvað menn eru að hugsa þegar meðferðin er svona" segir Bjarni sem þekkir skip og báta út og inn enda skipatæknifræðingur að mennt og starfar við sitt fag.Newfound Pioneer ex Svalbakur EA 2. Ljósmynd Bjarni Ásmundsson.

19.09.2008 21:47

Haugur í danaveldi.

Hér mynd sem ég fékk senda en hún er tekin í danaveldi. Þarna má sjá haug skipa sem verið er að rífa í brotajárn. Þarna má sjá eitt íslenskt skip sem brátt heyrir sögunni til.

                                                          Haugur brotajárnsskipa í Danmörku.

18.09.2008 21:28

Hafnarröst ÁR

Hér kemur mynd Péturs Helga af Hafnarröstinni ÁR 250 á siglingu. Að mig minnir hef ég fjallað um þennan bát áður en til upprifjunar þá var hann smíðaður í Noregi 1964 fyrir Harald Böðvarsson á Akranesi. Höfrungur III AK 250 hét hann allt þangað til hann var seldur Glettingi hf. í Þorlákshöfn 1975. Þar hélt hann nafni og númeri en einkennisstafirnir urðu ÁR. Skipið var yfirbyggt á Siglufirði 1989 að mig minnir og var selt árið 2000 en þá hafði Þormóður Rammi hf. sameinast Gletting. Þá hafði það fengið nafnið Hafnarröst einhverjum árum áður.

                          249.Hafnarrsöt ÁR 250 ex Höfrungur III ÁR 250. Ljósmynd PHP.

17.09.2008 20:57

Andvari VE 100

Hér kemur mynd af Andvara VE 100 koma til hafnar í Vestmannaeyjum. Myndina tók Hörður Harðarson og er ég ekki viss um hvenær hún var tekin. Það má þó gera skóna að því að þetta sé um 1990 eða þar um bil. Andvari VE hét upphaflega Drífa RE 10 og ekki er langt síðan birtist mynd af henni hér undir nafninu Hvalsnes KE 121. Í dag er báturinn allbreyttur, eða endurbyggður er réttara að segja og heitir Sveinbjörn Jakobsson SH 10.

                     1054.Andvari VE 100 ex Drífa ÁR 300. Ljósmynd Hörður Harðarson.

16.09.2008 23:37

Sleppa sagði kallinn...

Sleppa sagði kallinn um leið og búið var að taka olíuna. Hásetinn leysti landfestar lipurlega og fleyið sigldi hljóðlega úr höfn og út á spegilsétt Miðjarðarhafið.


Festar leystar. Ljósmynd Hafþór 2008.

Flettingar í dag: 535
Gestir í dag: 81
Flettingar í gær: 771
Gestir í gær: 113
Samtals flettingar: 9399629
Samtals gestir: 2008173
Tölur uppfærðar: 13.12.2019 12:41:15
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is