Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2008 Ágúst

31.08.2008 11:12

Sólfari brennur.

Þessi mynd hér að neðan sýnir dráttarbátinn Magna koma með Sólfara AK 170 á síðunni inn í Reykjavíkurhöfn. Þetta var í ágúst 1974 og Sólfari er stórskemmdur eftir að eldur kom upp í honum fyrir sunnan land. M/S Esja kom mikið við sögu þarna og tók hún Sólfara í tog til Reykjavíkur. Stórviðgerð fór fram á Sólfara sem fékk síðan nafnið Skjaldborg RE 40. Sólafari AK hét upphaflega Helgi Flóventsson ÞH 77 og var byggður í Risör sem komið hefur talsvert við sögu á síðunni síðustu daga. Samkvæmt hinni merku ritröð Jóns Björnssonar frá Bólstaðarhlíð, Íslensk skip, var Sólfari þegar þarna var komið við sögðu í eigu Meitilsins í Þorlákshöfn.


93.Sólafari AK 170 ex Helgi Flóventsson ÞH 77. © Axel E.

30.08.2008 21:11

Risör trebåtfestival

Risör í Noregi hefur komið við sögu í nokkrum færslum hér á þessari síðu og síðast í gær þegar fjallað var um Ögmund RE sem smíðaður var þar. Í Risör er haldin árlega trébátasýning, Risör Trebåtfestival, og í fyrra fór karl faðir minn á hana á vegum Norður Siglingar sem hann starfar hjá. Þarna koma hundruð segl- og trébáta síðla í ágúst og er þá jafnan mikið um dýrðir. Hér koma nokkrar myndir sem Hreiðar Olgeirsson tók og látum þær tala sínu máli.
29.08.2008 19:46

Ögmundur RE

Hér kemur mynd sem Hörður vinur minn Harðarson, kenndur við Sigþór ÞH, tók af Ögmundi RE þar sem hann var að rækjuveiðum í Skjálfandadýpi. Ögmundur hét áður Skagaröst KE og var smíðaður í Noregi árið 1960. Upphaflega hét hann Sæþór ÓF 5 og var í eigu Hraðfrystihúss Ólafsfjarðar hf. Ef ég man rétt er hann smíðaður í Risör. Breytingarnar sem gerðar voru á honum þegar hann hét Skagaröst, þ.e.a.s. yfirbygging, skipt um brú, skutursleginn út og sett á hann perustefni, voru að mig minnir framkvæmdar í Aas skipasmíðastöðinni í Vestnes. Í þeirri skipasmíðastöð, sem er ekki langt frá Molde, var Geiri Péturs smíðaður og einnig fóru þar fram þær breytingar sem gerðar voru á honum þegar hann var keyptur til Húsavíkur.
Ögmundur RE var síðan seldur til Grænlands og spurning hvort hann er þar enn ?


212.Ögmundur RE 94 ex Skagaröst KE 70. © Hörður Harðarson.

 • Átti skipið sér systurskip í íslenska flotanum ?

• Voru fleiri skip smíðuð fyrir íslendinga í Risör ?

28.08.2008 22:41

Fjölnir GK 17

Hér kemur mynd af Fjölni GK 17 sem var í eigu Vísis hf. í Grindavík á sínum tíma. Fjölnir hét upphaflega Gísli Jónsson GK 30 og var smíðaður í Þýskalandi árið 1960. Hann var þá 139 brl. að stærð, búinn 500 hestafla MAK díeselvél. Eigendur hans voru Jón Gíslason, Guðjón Gíslason, Óskar Gíslason og Sæmundur Jónsson Grindavík. Ekki áttu þeir hann lengi. Í hinni stórgóðu bók, Íslensk skip eftir Jón Björnsson, kemur fram að upphaflegir eigendur eru skráðir eigendur bátsins 12. ágúst en þann 29. október sama ár er hann seldur Búlandstindi hf. á Djúpavogi. Þar fékk hann nafnið Sunnutindur SU 59. 1966 er hann lengdur í Noregi og mælist þá 185 brl. að stærð. Glettingur hf. í Þorlákshöfn kaupir Sunnutind í ársbyrjun 1972 og nefnir hann Jón á Hofi ÁR 42. Það sama ár var sett í hann ný aðalvél, 830 hestafla MWM díeselvél. 4. september 1975 voru nafnaskipti á bátnum og hann nefndist Sólveig ÁR 42 sömu eigendur og áður. Rúmum mánuði síðar, eða 7. nóvember er Sólveig ÁR seld Sigurði hf. í Stykkishólmi og fær hún nafnið Sigurður Sveinsson SH 36. Rúmu ári síðar, eða þann 1. desember 1976 kaupir Vísir í Grindavík bátinn og hann fær nafnið Fjölnir GK 17. 1986 Kaupir svo Dögun hf. á Sauðárkróki bátinn, nefnir hann Röst Sk 17 og gerir hann út til rækjuveiða. Báturinn var tekinn af skrá og honum sökkt í september 1989.


203.Fjölnir GK 203 ex Sigurður Sveinsson SH 36. © Vigfús Markússon.

• Tók hann við af Sunnutindi (483) á Djúpavogi ?

• Var þetta fyrsta skipið sem bar nafn Jóns á Hofi hjá Glettingi ?

• Hvar var honum sökkt ?

28.08.2008 21:21

Sylvía og Bjössi Sör.

Hér kemur mynd af tveim hvalaskoðunarbátum frá Húsavík sem eiga það sameiginlegt að vera smíðaðir á Akureyri fyrir útgerðir við Eyjafjörð. Sylvía, sem hét upphaflega Sigrún, var smíðuð fyrir grenvíkinga en Bjössi Sör, sem upphaflega hét Sólrún, fyrir útgerð handan fjarðarins á Árskógssandi. Sylvía var smíðuð hjá Vör árið 1976 en Bjössi Sör hjá KEA ári áður. Í dag eru þessir bátar gerðir út til hvalaskoðunr frá Húsavík, Sylvía í eigu Gentle Giants en Bjössi Sör í eigu Norður-Siglingar. Myndina tók Sigurgeir Harðarson á dögunum um borð í Náttfara úti á Skjálfanda.


1468.Sylvía og 1417.Bjössi Sör. © Sigurgeir Harðarson.

26.08.2008 16:39

Örntind afhentur til Kjöllefjord

Bátsmiðjan Trefjar í Hafnarfirði afgreiddi nú í ágúst nýjan Cleopatra bát til Kjøllefjord í Finnmerkurfylki í Noregi.  Bátnum var siglt frá fram Íslandi á sjávarútvegsýningunna Nor-Fishing í Þrándheimi sem fór fram daganna 12.-15. ágúst, formleg afhending bátsins fór fram í lok sýningarinnar.

Kaupandi bátsins er Útgerðarfyrirtækið Striptind AS. Jonny Pedersen mun verða skipstjóri á bátnum. Báturinn hefur hlotið nafnið Ørntind.  Báturinn mælist 15brúttótonn.  Ørntind er af gerðinni Cleopatra 36 sem er sérstök útgáfa af Cleopatra 38. Báturinn er þriðji báturinn sem Trefjar afgreiða til útgerðarinnar á innan við ári en systurskipin Vårliner og Striptind fékk útgerðin afhent nú fyrr á árinu.  Vélbúnaður bátsins er af gerðinni Volvo Penta IPS450.

Báturinn er fyrsti fiskibáturinn í Noregi sem er búinn þessum búnaði.  Áður hafa Trefjar sett samsvarandi búnað í farþegabátinn Ingólf frá Ísafirði og annan Cleopatra 38 bát sem afgreiddur var til Svíþjóðar. Vélbúnaðurinn saman stendur af tveimur Volvo Penta D6 vélum sem hvor um sig skilar 330hö.  Vélarnar eru tengdar drifum sem jafnframt eru stýrisbúnaður bátsins.  Skrúfur bátsins vísa fram sem gerir að verkum að sjóflæði er óhindrað að þeim. Hámarksganghraði bátsins er 34 hnútar. Skrúfubúnaðurinn er beintengdur sjálfstýringu bátsins sem jafnframt gerir hliðarskrúfur óþarfar.

Báturinn er útbúinn fullkomnum siglingatækjum af gerðinni Simrad. Ørntind er útbúinn til línuveiða mun auk þess stunda stunda veiðar á kóngakrabba línu hluta úr ári. Búnaður til línuveiða er frá Beiti ehf. Öryggisbúnaður bátsins kemur frá Viking-björgunarbúnaði.

Rými er fyrir 11stk 660lítra kör í lest.  Í bátnum er upphituð stakkageymsla og sturtuklefi.  Borðsalur er í brúnni auk stóla fyrir skipstjóra og háseta.  Svefnpláss er fyrir fjóra í lúkar auk eldunaraðstöðu með eldavél, örbylgjuofn og ísskáp.

Reiknað er með að báturinn hefji veiðar nú í ágúst.

 


Örntind F-7-LB © Trefjar.

25.08.2008 22:44

Magnús orðinn rauður.

Magnús ÞH er nú orðinn rauður að lit og eins og ég hef komið hér áður fer rauður litur bátum yfirleitt best. Magnús, sem er í eigu Ugga fiskverkunar ehf. á Húsavík stundar nú netaveiðar.


2076.Magnús ÞH 34 ex Keilir AK. © Hafþór Hreiðarsson.

24.08.2008 22:42

Þorbjörn II GK

Hér kemur mynd af Þorbirni II GK 541 sem Vigfús Markússon tók. Báturinn hét upphaflega Sigrún AK 71. Hann var smíðaður á Akranesi 1962 og mældist þá 139 brl. að stærð. Hann var í eigu Sigurðar Hallbjarnarsonar hf. á Akranesi sem seldi hann 1965 norður á Höfðakaupstað sem í dag heitir Skagaströnd. kaupandi var Útgerðarfélag Höfðakaupstaðar hf. og fékk báturinn nafnið Helga Björg HU 7. Báturinn var endurmældur árið 1966 og mældist 114 brl. eftir það. Hann var aftur endurmældur 1971, við það varð hann 101 brl. og ári síðar var hann seldur Útveri hf. í Keflavík. Þá fékk hann nafnið Hólmsberg KE 16. 1977 er hann aftur seldur, nú Flös hf. í Garði sem nefnir hann Þórð Sigurðsson og er hann enn með KE 16. Lárus Guðmundsson og Brynjar Ólafsson í Grundarfirði kaupa bátinn 1980 og nú heitir hann Framfari SH 42. Seldur 1981 Stöð hf. í Grundarfirði, sama nafn og númer. Sama ár er sett í hann ný 500 hestafla aðalvél af gerðinni Greena en upphaflega var 525 hestafla MWM aðalvél í bátnum. 1982 er hann seldur til Reykjavíkur. Kaupendur eru Óli Guðmundsson og Hvalfell hf. og fær hann nafnið Jón Halldórsson RE 2. 1984 er hann enn og aftur seldur, nú Gesti Ragnarssyni í Grindavík sem nefnir hann Garðar GK 141. 1984 skiptir báturinn enn og aftur um nafn og númer þegar Hraðfrystihús Þórkötlustaða hf. kaupir hann og hann verður Þorbjörn II GK 540. Þessar heimildir eru úr ritverkinu Íslensk skip eftir Jón Björnsson og ná ekki lengra fram en til ársins 1988. Ég er því ekki með örruggar heimildir fyrir því hvað varð um bátinn eftir 1988 en minnir þó að Þorbjarnarnafnið hafi verið hans síðasta.


180.Þorbjörn II GK 541 ex Garðar GK 141.© Vigfús Markússon.

24.08.2008 22:04

Sunna EK

Ég birti mynd af Sunnu KE 60 á dögunum þar sem kom fram að hún hefði verið seld til Rússlands. Í framhaldinu var talið upp þau nöfn og númer sem skipið hefur borið frá því það kom til landsins. Inn í þá runu vantaði að skipið var skráð og ert út frá Eistlandi minnir mig frekar en Litháen eða Lettlandi. Guðvarður Jónsson var í vélinni á Sunnu þá og sendi mér af henni við bryggju í Danmörku undir erlendu flaggi. Skipið var eins og áður hefur komið fram selt til Rússlands á dögunum. Það hefur nú fengið nafnið Sea Hunter en eigandi skipsins er Pacific Fishery Company Ltd. í Magadan í Rússlandi og er Magadan heimahöfn þess.


ESCS.Sunna EK 0405. ex Sunna SI 67.© Varði 

20.08.2008 16:09

Örvar II verður Kristbjörg.

Gísli Reynisson er að velta því fyrir sér á aflasíðunnni hví Örvar II SH liggi í Sandgerðishöfn nafnlaus og án allra einkenna, nema þá skipasrárnúmersins sem er 239. Ég hringdi og aflaði mér upplýsinga og ef þær eru réttar þá er Svartibakki ehf. búinn að kaupa bátinn sem á að heita Kristbjörg. Fyrirtækið átti áður bát með því nafni sem fór í brotajárn fyrr í sumar, 1159 var skipaskránúmer hans. Hin nýja Kristbjörg verður gerð út til línuveiða frá Skagaströnd eftir því sem mínar heimildir segja.

                        239.Örvar SH 777 ex Vestri BA. © Hafþór Hreiðarsson.

19.08.2008 23:15

Ásberg og Ásgeir.

Á árunum 1966 og 1967 fékk Ísbjörninn hf. í Reykjavík afhenta tvo nýja síldarbáta sem smíðaðir voru í Hollandi. Þetta voru Ásgeir, sem kom 1966, og Ásberg sem kom eins og áður segir ári síðar. Þessa báta, sem voru lengdir í Noregi 1973, gerði Ísbjörninn út þar til ársins 1977 er þeir vikur fyrir nýjum skuttogurum og voru seldir til Noregs. Ég sá þessa báta aldrei en hef verið að leita að myndum af þeim og er vongóður um að finna þær innan skamms. Maður sem kallar sig Dunna leyfði mér að birta þessa mynd sem hann tók um borð í Ásberginu á sínum tíma. Ég er nú ekki svo fróður um sögu þessara skipa, dettur helst í hug að skipasmíðastöðin hafi tekið þá upp í skuttogarana. Frá Noregi fóru þeir til Kanaríeyja þar sem þeir stoppuðu í eitt ár. Þaðan fóru þeir til Chile og báðir voru þeir í eigu sömu útgerðar sem nefndi þá Zuiderester 4 (Ásberg) og Zuiderester 8 (Ásgeir). Ásbergið mun þó vera komið í eigu annars aðila en heitir enn það sama en bátarnir eru óbreyttir að öllu leyti í útliti. Það þýðir þó ekki að þeir hafi gengið í gegnum einhverjar breytingar því 1980 voru settir í þá kælitankar.


1041.Ásberg RE á landleið. © Dunni.

18.08.2008 23:56

Þrír eins, í upphafi.

Á síðum þeirra Golla og Ragga P voru birtar myndir á dögunum af Agli ÍS og Þorsteini BA. Í áliti hjá Golla minnist ég á þriðja bátinn sem var eins  og þessir tveir, þ.e.a.s. upphaflega. Þessi bátur, sá þriðji,  hét upphaflega Faxafell III GK 344. Í lok aprílmánaðar árið 1993 fórst þessi bátur á Faxaflóa og með honum tveir menn. þrír björguðust um borð í gúmíbjörgunarbát þaðan sem Halldór heitinn Þórðarson og hans menn á Freyju GK 364 björguðu þeim um borð til sín. Þegar þetta var hét báturinn Sæberg AK 220.

Þegar Faxafell III kom nýtt í Vogana var eigandi þess Fax hf. sem einnig stóð að smíði bátsins sem fór fram í skipasmíðastöðinni þar sem Stálvík hf. var áður til húsa. (Heimild. Morgunblaðið)


                                1982.Faxafell GK 344. © Hafþór Hreiðarsson.

Í ársbyrjun 1990 segir Morgunblaðið frá því að nýr bátur hafi bæst í flota Súðfirðinga þegar Faxafell GK 110 kom þangað. Þar segir að báturinn sé nýsmíði frá Vélsmiðju Jónasar Þórðarsonar í Garðabæ. Faxafell fékk síðar nafnið Blíðfari GK 275 og á myndinni hér að neðan er búið að lengja hann.


1979.Blíðfari GK 275 ex Faxafell GK 110. © Hafþór Hreiðarsson.

Þriðji báturinn hét upphaflega Toppur GK 70 en þegar þessi mynd hér að neðan var tekin hafði hann skipt um eigendur og fengið nafnið Þröstur RE 21.

1990.Þröstur RE 21 ex Toppur GK 70. © Hafþór Hreiðarsson.

17.08.2008 23:54

Hvalsnes og Akurey.

Um helgina las ég minningargreinar um Árna F. Vikarsson skipstjóra frá Keflavík sem lést fyrir skömmu. Hér eru myndir af tveim bátum sem hann stýrði. Hvalsnesið átti hann og stýrði sjálfur en ég veit ekki hvort hann átti Akurey en alltént var hann skipstjóri á henni.


1054.Hvalsnes KE 121 ex Sturlaugur ÁR 77. © Vigfús Markússon.

2.Akurey KE 121 ex Akurey SF 2. © Hafþór Hreiðarsson.

2.Akurey KE 121 ex Akurey SF 2. © Hafþór Hreiðarsson.

16.08.2008 00:46

Hver skyldi hann vera þessi ?

Hver skyldi hann vera þessi ?

14.08.2008 23:30

Máni GK 36 er báturinn.

Það er rétt hjá Vigfúsi Markússyni að báturinn í getrauninni hér að neðan er Máni GK 36. Smíðaður í Danmörku 1959 fyrir Hraðfrystihús Grindavíkur hf. og brytjaður í spað í Þorlákshöfn 2007. Hann hét lengst af Máni en þó Haförn um tíma og svo aftur Máni.


671.Máni GK 36. © Vigfús Markússon.

Flettingar í dag: 535
Gestir í dag: 81
Flettingar í gær: 771
Gestir í gær: 113
Samtals flettingar: 9399629
Samtals gestir: 2008173
Tölur uppfærðar: 13.12.2019 12:41:15
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is