Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2008 Júlí

31.07.2008 23:42

Hvað var Níels Jónsson að gera á Húsavík ?

Hvað var Níels Jónsson að gera á Húsavík á dögunum. Ef þú vilt vita það farðu hér inn og þú veist það.

29.07.2008 23:12

Skátinn

Skátinn GK 82 er hér að koma að landi í Grindavík á sl. vetrarvertíð en báturinn réri með net. Þessi bátur var eitt sinn í húsvíska flotanum og hét þá Helga Guðmunds ÞH 230 og var í eigu Pálma Karlssonar. Upphaflega hét báturinn, sem smíðaður var hjá Vör á Akureyri, Frosti ÞH 230 og var gerður út frá Reykjavík. Pálmi flutti með bátinn til Reykjavíkur og varð hann RE 104 en síðan seldur upp á Skaga þar sem hann fékk nafnið Reynir AK 18. Ólafsvík var hans næsta heimahöfn, Egill SH 195 varð nafn og númer. Síðar Herdís SH og þá Ársæll Sigurðsson HF, Stakkaberg SH, Frosti SH, Kofri ÍS og loks Skátinn GK.


1373.Skátinn GK 82 ex Kofri ÍS. © Hafþór Hreiðarsson.

28.07.2008 23:28

Sæunn Sæmundsdóttir ÁR 60

Það hafa verið birtar myndir af þessum bát áður á síðunni, undir nöfnunum Björg NK 103 og Eyborg EA 59, og upplýsingar um smíðastað, smíðarár ofl. þess háttar staðreyndir.
Á þessari mynd Vigfúsar Markússonar ber hann nafnið Sæunn Sæmundsdóttir ÁR 60 og var þá í eigu Útgerðafélagsins Smára hf. í Þorlákshöfn.


217.Sæunn Sæmundsdóttir ÁR 60 ex Ölduberg ÁR 18.

25.07.2008 01:05

Seglskipið Activ.

Þessa mynd tók ég af seglskipinu Activ láta úr höfn á Húsavík í dag. Activ sem er þrímastra skonnorta er byggð 1951 í Danmörki og hefur legið í höfn á Húsavík um tíma. Reyndar farið í stuttar siglingar um Skjálfanda, m.a. með þáttakendur á siglinganámskeiði siglingadeildar Völsungs sem nú stendur yfir. Activ er annars á leið til Grænlands með vísindamenn.


Activ. © Hafþór Hreiðarsson.

23.07.2008 00:28

Geiri Péturs ÞH 44.

Þessi togari er til umfjöllunar á síðu Þorgeirs og því set ég til gamans inn mynd af honum. Hann var keyptur hingað til lands af útgerð Geira Péturs ÞH en fór aldrei til veiða og var seldur aftur úr landi.


2445.Geiri Péturs ÞH 344 ex Luutvik. © Hafþór Hreiðarsson.

20.07.2008 23:01

Bergur Vigfús GK 53.

Þessi hefur áður komið fyrir augu manna hér á síðunni. Á myndinni hér að neðan heitir hann Bergur Vigfús GK 53 og var í eigu Nesfisks í Garði þegar hún var tekin. Í dag er hann gerður út frá Grindavík undir nafninu Marta Ágústsdóttir GK 31.


967.Bergur Vigfús GK 53 ex Keflvíkingur KE 100. © Hafþór Hreiðarsson

19.07.2008 16:59

Hafnarvík ÁR 113.

Jæja þá er maður mættur aftur og hér kemur mynd úr safni Vigfúsar Markússonar. Hún er af Hafnarvík ÁR 113 á rækjuveiðum úti fyrir norðurlandi. Það hefur áður komið mynd af þessum báti hér þegar hann var að enda sína daga í Njarðvík. Upphaflega hét hann Engey RE 11 en að lokum Kristbjörg VE 70.


44.Hafnarvík ÁR 113 ex Brimnes EA 14. © Vigfús Markússon.

09.07.2008 11:16

Ný Cleopatra 36 til Bodö

Bátsmiðjan Trefjar í Hafnarfirði afgreiddi nú í lok júní nýjan Cleopatra bát til Bodø í Noregi. Kaupandi bátsins er Torfinn Kristiansen sem jafnframt verður skipstjóri á bátnum. Báturinn hefur hlotið nafnið Erato.  Báturinn mælist 15brúttótonn.  Erato er af gerðinni Cleopatra 36 sem er sérstök útgáfa af Cleopatra 38.
Aðalvél bátsins er af gerðinni Cummins QSM11 610hp tengd ZF V-gír.  Báturinn er útbúinn fullkomnum siglingatækjum af gerðinni Furuno. Báturinn er einnig útbúin með vökvadrifinni hliðarskrúfu sem tengd er sjálfstýringu bátsins. Öryggisbúnaður bátsins kemur frá Viking-björgunarbúnaði.

Rými er fyrir 11stk 660lítra kör í lest.  Í bátnum er upphituð stakkageymsla og sturtuklefi.  Borðsalur er í brúnni auk stóla fyrir skipstjóra og háseta.  Svefnpláss er fyrir fjóra í lúkar auk eldunaraðstöðu með eldavél, örbylgjuofn og ísskáp.

Báturinn er útbúinn til netaveiða og er reiknað með að báturinn hefji veiðar nú um miðjan júlí.


Erato N-100-B. © Trefjar.

08.07.2008 10:15

Sveitarfélagið Garður fær bát að gjöf.

Sunnudaginn 6. júlí færði Nesfiskur ehf Sveitarfélaginu Garði vélbátinn Hólmstein GK 20 til eignar veðbandalausan við bryggju í Sandgerði.  Með gjöfinni er sögu vélbátaútgerðar í Garði minnst.  Við þökkum kærlega fyrir þessa góðu gjöf.  Árið 1958 kom Hólmsteinn til Garðs frá Hafnarfirði.  Hólmsteinn er smíðaður á Íslandi og er óbreyttur frá fyrstu smíð.

Guðrún Jónsdóttir arkitekt og hennar samstarfsfólk vinnur nú að nýju skipulagi á Garðskaga.  Í hugmyndum sem kynntar voru á íbúafundi 21. maí s.l. er gert ráð fyrir tjaldstæði og smáhýsabyggð í kring um bát á svæðinu sem afmarkast af flugvellinum gamla, sem merktur er inn á mynd hér fyrir neðan, og malarveginum til Sangerðis.  Á myndunum sem eru hér fyrir neðan má sjá hvernig arkitektarnir settu fram hugmyndirnar.  Ef hugmyndirnar ná fram að ganga væri Hólmsteinn verðugur miðpunktur á slíku svæði.     www.garður.is


573.Hólmsteinn GK 20 ex Hafdís GK. © Hafþór.
Báturinn var smíðaður í Hafnarfirði 1946. Ekki er ég viss um að menn samþykki það sem stendur í textanum hér að ofa um að báturinn sé óbreyttur frá fyrstu tíð því bæði er búið að skipta um brú og setja hvalbak á hann.

07.07.2008 20:27

Sigurbjörgin með metafla úr Barentshafi.

Ríkisútvarpið greindi frá því að Sigurbjörgin ÓF hafi landað á Siglufirði í dag eftir túr í Barentshafið. Aflaverðmætið er 170 milljónir en það mun vera met á Sigurbjörginni sem var 34 daga í túrnum og aflinn  þorskur. Myndin hér að neðan sendi Guðmundur Guðmundsson (Gundi) mér. Myndina tók hann á austfjarðarmiðum í febrúar sl. en Gundi er skipverji á Frosta ÞH frá Grenivík.


1530.Sigurbjörg ÓF 1. © Guðmundur Guðmundsson.


07.07.2008 19:56

Einn 77 ára.

Hér er mynd af Ingólfi GK 125 koma til hafnar í Grindavík fyrir allmörgum árum. Báturinn var smíðaður í Frederikssund í Danmörki árið 1931. Hann er því eða verður 77 ára á þessu ári. Báturinn hét upphaflega Huginn GK 341 og var smíðaður fyrir Útgerðarfélag Vatnsleysustrandar í  Vogum. Hann hefur síðan borið nokkur nöfn sem ogmarga einkennisstafi og númer svo sem Jón Dan GK 431, Farsæll SH 30, Sæborg GK 86, BA 86, RE 328, SH 128, RE 325 og KE 102. Bergþór KE 5, Ingólfur GK 125, Fengsæll GK 262 og loks Fengsæll ÍS 83 sem hann heitir í dag. Heimild Íslensk skip.


824.Ingólfur GK 125 ex Bergþór KE 5. © Hafþór Hreiðarsson.

06.07.2008 10:58

Sylvía og Sæbjörg.

Hér mætast hvalaskoðunarbáturinn Sylvía og dragnótabáturinn Sæbjörg EA 184 í mynni Húsavíkurhafnar á dögunum.


1468.Sylvía og 2047. Sæbjörg EA 184. © Hafþór Hreiðarsson.

05.07.2008 23:43

Karlinn í brúnni, á Þorleifi EA 88.

Hér er mynd af Gylfa Gunnarssyni skipstjóra á Þorleifi EA 88 sem ég tók nú í vikunni.  Þorleifur kom þá og landaði á Húsavík en báturinn er á dragnótaveiðum.


Gylfi Gunnarsson. © Hafþór Hreiðarsson.

04.07.2008 23:16

Hugrún ÍS 7.

Hér kemur mynd af Hugrúnu ÍS 7 sem smíðuð var í Svíþjóð 1964 fyrir Einar Guðfinsson hf. í Bolungarvík. Báturinn, sem mældist í upphafi 206 brl. að stærð, var einn þriggja báta sem smíðaðir voru í Marstrand fyrir íslendinga. Hugrún var endurmæld 1970 og mældist þá 168 brl. að stærð. Í árslok 1987 er hugrún seld Bakkafiski hf. á Eyrarbakka sem nefnir bátinn Stakkavík ÁR 107 með heimahöfn á Eyrarbakka. Upphaflega var 675 hestafla Nohab Polar aðalvél í Hugrúnu og 1980 var henni skipt út fyrir nýja vél sömu gerðar og jafnmörg hestöfl og hin fyrri. Heimild Íslensk skip.
Ég er ekki með það alveg á hreinu hvenær Stakkavík var úrelt en það kemur örugglega fram. Myndina tók Vigfús Markússon frá Eyrarbakka.


247.Hugrún ÍS 7. © Vigfús Markússon.

04.07.2008 00:35

Sæljón EA 55.

Hér er mynd af Sæljóni EA 55 sem ég tók 1985, að mig minnir, en á var skipt um brú á bátnum á Húsavík. Sæljónið var í eigu samnefnds fyrirtækis frá Akureyri um tíma en Rán hf. á Dalvík var síðasti eigandi þess Sæljónið sökk 5 október 1988 um 25 sjómílum norður af Siglunesi. Þriggja manna áhöfn bjargaðist um borð í Bjarma EA frá Dalvík. Sæljónið var smíðað í Danmörku 1955 og var upphaflega RE 317. Það var síðan GK 103, SU 103 og SH 103 áður en það varð EA 55 árið 1979. Einhvern tímann var búið að dæma bátinn ónýtan en hann var endurbyggður. Heimild Íslensk skip.


839.Sæljón EA 55 ex Sæljón SH 103. © Hafþór Hreiðarsson.


Flettingar í dag: 498
Gestir í dag: 74
Flettingar í gær: 995
Gestir í gær: 134
Samtals flettingar: 9257745
Samtals gestir: 1995364
Tölur uppfærðar: 26.8.2019 10:02:14
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is