Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2008 Maí

17.05.2008 13:07

Hver hann þessi ?

Hver er hann þessi hér fremst á myndinni ?

16.05.2008 23:38

Hver er báturinn ?

Auðunn EA 157 frá Hrísey er báturinn eins og Þ.A benti réttilega á. Auðunn var smíðaður hjá Slippstöðinni á Akureyri 1963 fyrir þá Garðar Sigurpálsson og Kristinn Jakobsson. Báturinn heitir í dag Knörrinn og er hvalaskoðunarbátur frá Húsavík. 


306.Auðunn EA 306.

16.05.2008 20:19

Niðurskurður.

Það hafa nú fleiri skip en Sóley Sigurjóns hin nýja lent í niðurskurði og hér koma tveir sem fóru nokkuð flatt á því. A.m.k. að framan. Efri báturinn er Geir SH 217 sem hét upphaflega, eftir að hann kom íslenska skipaskrá, Sigrún ÍS 900. Hann var fyrst í eigu Theodórs Nordquist og Svavars Péturssonar og síðar Ásrúnar hf. á Ísafirði. Hann var smíðaður í Finnlandi 1979 en sá neðri er Krossanes SU sem upphaflega hét Seley SU 10. Seley var smíðuð 1960 í Noregi fyrir Björgu hf. á Eskifirði.


1739.Geir SH 217 ex Sigrún ÍS. © Hafþór Hreiðarsson.

177.Krossanes SU 5 ex Bergvík VE 505. © Hafþór Hreiðarsson.

16.05.2008 15:57

Arnþór GK 20.

Nýlega fékk dragnótabáturinn Geir KE 6 nýtt nafn og heitir nú Arnþór GK 20. Báturinn fékk einnig á sig útlit dragnótabáta Nesfisks ehf., sem er snöggtum skárra en útlit togara  fyrirtækisins. Þarna á ég einungis við hvernig flotinn er málaður. Nesfiskur ehf. keypti bátinn af útgerðarfélginu Ósk ehf. fyrir nokkrum misserum síðan og nú hefur hann loksin fengið nýtt nafn og númer eins og áður segir. Arnþór GK hét upphaflega Reykjaborg RE 25 og var smíðaður á Ísafirði fyrir samnefnt fyrirtæki í Reykjavík. Báturinn kom til heimahafnar í Reykjavík föstudaginn 22. maí 1998 eftir siglingu frá Ísafirði í rjómablíðu eins og Friðrik Óskarsson skipstjóri sagði þá í samtali við Morgunblaðið. Reykjaborgin var síðan lengd árið 2001 og eftir að hann var seldur til Keflavíkur fékk hann einkennisstafina KE 6, síðan nafnið Geir KE 6 og loks Arnþór GK 20. Myndina af Arnþóri GK tók Sturla Högnason og ljáði mér hana til birtingar.


2325.Arnþór GK 20 ex Geir KE 6. © Sturla Högnason.


2325.Reykjaborg RE 25. © Hafþór Hreiðarsson.


15.05.2008 17:03

Gunny fer til Hellvik.

Nýr Siglufjarðar-Seigur var sjósettur á Siglufirði í gær og ber hann nafnið Gunny. Hann fer utan, til Hellvik í Noregi, og er í eigu trillukarls þaðan eftir því sem segir á Lífið í Fjallabyggð . Gunnny er af gerðinni Seigur 1067-C.


Gunny. © Steingrímur Kristinsson.

14.05.2008 19:01

Annar frá Harstad.

Hér kemur annar síldarbátur frá Harstad, smíðaður 1967. Fífill GK 54 hét hann og eigandi var Einar Þorgilsson & co h/f í Hafnarfirði. Faxi mældist í upphafi 347 brl. að stærð en var lengdur og yfirbyggður 1974 og mældist þá 331 brl. að stærð. Í febrúar 1990 er Fífill GK seldur frá Hafnarfirði til Faxamjöl hf. í Reykjavík þar sem hann fékk nafnið Faxi RE 241. Einar Þorgilsson & co átti einmitt lengi bát sem Faxi hét og var GK 44. Árið 2001 keypti Þorgeir Jóhannsson kafari skipið , sem þá hafði fengið nafnið Faxi II RE, og hugðist hann breyta því í seiða-og fiskflutningaskip en það endaði þó sem upplýsingamiðstöð/fræðslusetur  fyrir hvalaskoðun í Reykjavíkurhöfn þar sem það liggur nú.1048.Fífill GK 54. © Hafþór Hreiðarsson.


1048.Faxi RE 241 ex Fífill GK 54. © Hafþór Hreiðarsson

13.05.2008 20:42

Smíðaður í Harstad 1966, seldur til Nýfundnalands 2004.

Hér koma þrjár myndir af sama skipinu sem við feðgar höfum tekið. Þetta er síldarskip upphaflega sem hét fyrst Gísli Árni RE 375 og var smíðaður í Harstad í Noregi 1966. Þegar hann kom nýr til landsins var hann stærsta síldarskip flotans en Gísli Árni var  smíðaður fyrir Sjóla hf. í Reykjavík. 1988 var Gísli Árni seldur Fiskimjöl og Lýsi í Grindavík þar sem hann fékk nafnið Sunnuberg GK 199. 1996 er skipið selt Tanga hf. á Vopnafirði, það heldur nafninu en verður NS 199. Síðla árs 1998 er skipið komið í eigu Jökuls hf. á Raufarhöfn þar sem það fær nafnið Arnarnúpur ÞH 272. Eftir að ÚA kemst yfir Jökul hf. kaupir SR-mjöl hf. bátinn eða árið 2000. Um haustið 2004, eftir að hafa legið verkefnalaus á Reyðarfirði í þrjú ár, var Arnarnúpur seldur til Nýfundnalands þar sem hann fékk nafnið Siuk sem á máli Ínúíta þýðir Ís.


1002.Gísli Árni RE 375. © Hreiðar Olgeirsson.


1002.Sunnuberg GK 199 ex Gísli Árni RE 375. © Hafþór.

1002.Sunnuberg NS 199 ex Sunnuberg GK 199. © Hafþór.


12.05.2008 11:06

Sóley Sigurjóns komin heim.

Snemma í morgun kom togarinn Sóley Sigurjóns GK 200 til hafnar í Sandgerði eftir siglingu frá Póllandi. Þar var skipið í miklum og gagngerum breytingum sem m.a. höfðu það að markmiði að togarinn mætti toga upp að 4ja sjómílna mörkunum. Það er ávallt fagnaðarefni þegar ný skip koma til heimahafnar, í þessu tilfelli er reyndar Garður heimahöfn skipsins, en gert út frá Sandgerði. Til að fagna nýja togaranum fóru sjö skip og bátar Nesfisks á móti skipinu og tók Arnbjörn Eiríksson, eða Bjössi á Nýlendu, þessar myndir og sendi mér. Kann ég honum bestu þakkir fyrir.

                    2262.Sóley Sigurjón GK 200. © Arnbjörn Eiríksson.

2262.Sóley Sigurjóns GK 200 við komuna til Sandgerðis í morgun.

Fleiri myndir fá komu togarans er hægt að sjá hér á heimasíðu Bjössa.

11.05.2008 22:30

Dalaröstin seld suður.

Dalaröstinni ÞH 40 hefur verið forðað frá ofninum, i bili a.m.k. því báturinn hefur verið seldur suður á Reykjanes. Í gærkveldi lét báturinn úr höfn á Húsavík áleiðis til Njarðvíkur en kaupandi er Íslensk sjávartækni ehf. Samkvæmt mínum heimildum stefnir Íslensk sjávartækni ehf. að því að láta bátinn veiða skel í Hvalfirði og vinna úr henni einhverskonar Omega olíur fyrir matvæla- og lyfjaiðnað.

         1170.Baldur Árna ÞH 50 og Dalaröst ÞH 40. © Hafþór 2003.

Á myndinni hér að ofan eru Dalaröstin og Baldur Árna á útleið frá Húsavík áleiðis á rækjumiðin. Dalaröstinni hefur verið forða frá pottinum í bili en til stóð að sigla bátnum til Danmerkur. Baldur Árna var hins vegar eins og menn vita rifinn í Krossanesi fyrir skömmu.


 

11.05.2008 11:49

Lokadagur vetrarvertíðar.

Í dag 11. maí er lokadagur vetrarvertíðar en hér áður fyrr var talað um að vetrarvertíð fyrir suðurlandi hæfist 1. janúar og vertíðarlok væri 11. maí. Var sá dagur því jafnan nefndur lokadagur og þann dag var vetrarvertíðin gerð upp og sjómenn og fiskvinnslufólk gerðu sér jafnvel dagamun. En eftir að kvótakerfið var sett á hefur lokadagurinn ekki verið jafn í hávegum hafður og nánast liðin tíð að menn beri saman aflabrögðin þennan dag.

En fyrir þá sem ekki vita er maður einn, sem býr suður með sjó, sérlegur áhugamaður um aflatölur. Gísli Reynisson heitir hann og heldur t.a.m. úti heimasíðu um þetta áhugamál sitt. Á henni er hægt að fylgjast með aflabrögðum báta og skipa, jafnt á vetrarvertíð sem á öðrum árstíma. Slóðin á síðuna er www.aflafrettir.com


Stór,stærri, stærstur. © Hafþór.
10.05.2008 23:42

Mayborg VE á langa leið fyrir höndum.

Frystitogarinn Snorri Sturluson sem seldur hefur verið til Rússlands hefur fengið nafnið Mayborg VE. Hefur það eitthvað með það að gera að í Rússlandi eru reglur um nafnabreytingar nokkuð skrítnar, a.m.k. miðað við það sem við þekkjum.
Mayborg VE verður afhent nýjum eigendum í Reykjavík eftir helgi og fer síðan sem leið liggur í gegnum Súezskipaskurðinn til Pusan í Suður-Kóreu. Þaðan fer svo togarinn til veiða við austurströnd Rússlands.


1328.Snorri Sturluson VE 28 ex Snorri Sturluson RE. © Hafþór.

09.05.2008 22:38

Metafli hjá Karólínu.


2760.Karólína ÞH 100. © Hafþór.

Ævintýralegt fiskirí hefur verið undanfarna daga hjá línubeitningavélabátum í Öxarfirði undanfarna daga. Frétt þess efnis er hægt að lesa hér 
Spurning hvað Gísli segir, er þetta íslandsmet í aflahámarkskerfinu ?

Þess er svo gaman að geta að Karólína ÞH var aflahæsti báturinn í aflahámarkskerfinu í apríl með 122.563 kg. sjá www.aflafrettir.com

08.05.2008 21:19

Léttklæddir sjóarar.Er frekar upptekinn í augnablikinu svo ég ætla bara segja eins og maðurinn, hvað segið þið um þessa ?  meira síðar..........

07.05.2008 22:26

Stál og plast hjá Stakkavík.

Hér koma tveir línubátar Stakkavíkur í viðbót og er þeir ekki allir birtir enn. Sá efri er úr stáli vel að merkja, ekki allt plast í dag, og heitir Máni GK 109. Smíðaður á Seyðisfirði og hét upphaflega Þjóðólfur ÍS 86.  Sá neðri er Staðarvík GK 44, smíðaður í Noregi og hét upphaflega Gullfaxi NK eftir að hann kom í íslenska flotann.


1920.Máni GK 109 ex Þorbjörn GK. © Hafþór.


1600.Staðarvík GK 44 ex Guðbjörg Sigríður GK. © Hafþór.

06.05.2008 22:18

Ísborgin í landshöfninni á Rifi 1964.

Ísborgin er greinilega mörgum hugleikin því ég hef fengið tölvupósta um hana í dag auk þess sem álit hafa verið skrifuð við færsluna hér að neðan. BB.is sá t.a.m. ástæðu til að vitna í færsluna hér á síðunni um Ísborgina í dag enda Ísborgin ísfirðingum eftirminnileg. Sigurður Bergsveinsson sendi mér myndir teknar af Ísborginni veturinn 1964 í Rifshöfn. Með myndunum fylgdi þessi texti:

Myndirnar tók faðir minn, Bergsveinn Breiðfjörð Gíslason skipasmiður og  verksstjóri hjá Hafnarmálastofnun veturinn 1964 (þær eru framkallaðar í apríl 1964) Hann stjórnaði gerð Landshafnarinnar í Rifi á árunum 1963-65.
Á myndunum sést vel hvernig staðið var að því að reka niður stálþilið á "þurru" landi sem dælt var upp af Sandey og síðan var dælt frá stálþilinu aftur þegar það hafði verið rekið niður. Þarna hefur verið dælt frá smá svæði til að Ísborgin gæti lagst uppað en hún hefur væntanlega komið með efni í hafnargerðina og verið fyrsta skipið sem lagðist uppað þessum nýja hafnarkanti.
 
Gaman væri ef einhver þekkti manninn í brúarglugganum ?


123.Ísborg ex Ísborg ÍS 250. © Bergsveinn Breiðfjörð Gíslason.

Hver er maðurinn í brúnni ?

Flettingar í dag: 451
Gestir í dag: 126
Flettingar í gær: 595
Gestir í gær: 109
Samtals flettingar: 9396787
Samtals gestir: 2007661
Tölur uppfærðar: 9.12.2019 20:06:47
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is