Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2008 Apríl

30.04.2008 22:34

Sigurfari og Grímsnes.

Dragnótabátarnir Sigurfari GK 138 og Grímsnes GK 555 voru meðal þeirra báta sem rötuðu fyrir linsuna hjá mér í Grindavík á dögunum. Sigurfari var áður VE 138 en hét Glomfjord þegar vestmannaeyingarnir festu kaup á honum. Grímsnes var upphaflega í eigu Varðarútgerðarinn á Stöðvarfirði og hét Heimir SU 100.


1743.Sigurfari GK 138 ex Sigurfari VE 138. © Hafþór.


89.Grímsnes GK 555 ex Sædís ÍS 30.  © Hafþór.

29.04.2008 16:12

Illa komið fyrir þessum.

Andskoti er nú illa komið fyrir þessum bát sem síðuritari steig ölduna fyrst á í gamla daga. Þá hét hann Kristbjörg, síðar Kristbjörg II og loks Skálaberg þar sem ég var í þrjú ár með Alla heitnum föðurbróður mínum. Í dag heitir þessi bátur Fanney RE þó standi á honum Bára ÁR. Hann liggur nú í Reykjavík en þangað var hann dreginn í síðustu viku. Heyrst hefur að gera eigi bátinn upp og vonandi er það rétt.


1053.Fanney RE 21 ex Bára ÁR 21. © Hafþór.

Sigurður Bergsveinson frá Stykkishólmi sagði mér að hann hefði unnið í Vélsmiðju Kristjáns Rögnvaldssonar veturinn 1967 þegar verið var að smíða bátinn, sem upphaflega hét Kristjón Jónsson SH 77, og því unnið töluvert í bátnum. Þetta er síðasti báturinn sem var smíðaður úti í gömlu dráttarbrautinni og að sögn Sigurðar var oft ansi kalt þennan vetur og snjóþungt. Hann segist muna að oft hafi verið erfitt að hafa sig út til að vinna við þær aðstæður, sem eftir á að hyggja voru ótrúlegar og sýndu kraftinn sem var þá í Hólmurum við að byggja upp skipasmíðaiðnað sinn. Skipavík flutti síðan í bragga við Reitarveg og þar voru allir bátarnir sem eftir komu smíðaðir utan sá síðasti (1487) sem var smíðaður í húsinu út í Skipavík þar sem starfsemin er núna. Kristbjörgin (1420) var reyndar byggð að hluta á Reitarveginum og síðan kláruð í húsinu í Skipavík.

28.04.2008 18:51

Stakkavíkurbátar.

Hér eru myndir af þrem bátum Stakkavíkur í Grindavík og eru þeir allir sömu tegundar, þ.e.a.s. af Gáskagerð. Myndirnar af Óla á Stað og Hópsnesi tók ég í síðustu viku en myndina af Þórkötlu árið 2006.


2670.Þórkatla GK 9. © Hafþór.


2672.Óli á Stað GK 99. © Hafþór.2673.Hópsnes GK 77. © Hafþór.

27.04.2008 21:23

Kominn aftur.................

Jæja þá er maður komin heim aftur eftir velheppnaðan túr á sv. hornið. Náði þó ekki að fara í Þorlákshöfn eins og ég ætlaði. Varðandi spurninguna sem ég varpaði fram hér að neðan þá kom Emil Páll með svarið. Þ.e.a.s. þetta voru Kristbjörg GK 404 sem strandaði á Stafnesi og Pétursey GK 184 sem strandaði við Grindavík minnir mig. Ef það er ekki rétt þá leiðréttir einhver það.

Hér kemur sýnishorn af því sem ég var að bauka síðustu daga.


1855.Ósk KE 5 ex Hafnarberg RE 404. © Hafþór.


2395.Ásdís GK 218 ex Brík BA 2. © Hafþór.

25.04.2008 01:33

Gleðilegt sumar.

Óska öllum sem hér koma við gleðilegs sumars, þó seint sé, og þakka fyrir veturinn. Nú er ég á horninu eins og sumir segja, þ.e.a.s. sv-horninu og hef alveg sloppið við tafir vegna óláta. Í dag var myndað á suðurnesjum en eitthvað á ég í vandræðum með að kma myndum í Æbúkkið sem ég er með og því eru engar myndir frá deginum í dag sýndar nú. En andskoti er orðið leiðinlegt að fara niður að Reykjavíkurhöfn og Hafnafjarðarhöfn engu skárri. Ef svo vildi til að bátur væri þar á ferð sem maður vildi ná er nánast ógjörningur að komast í færi við hann.

Ætlaði að setja gamla mynd inn með þessari færslu en þessi blessaða talva virðist ekki vera í stuði, frekar en ég. Varpa því fram einni spurningu til gamans, Hvaða tveir bátar sem gerðir voru út frá Húsavík strönduðu og eyðilögðust eftir að hafa verið seldir til Suðurnesja ?

22.04.2008 21:58

Háey II kemur að.

Það var ekki mikið síðra veðrið í dag þegar Háey II kom að landi á Húsavík en í gær þegar Lágey kom að.


2757.Háey II ÞH 275 kemur að með góðan afla. © Hafþór.

Konráð Sigurðsson skipstjóri og Gunnlaugur Karl í GPG. © Hafþór.

21.04.2008 22:54

Við höfnina í dag.

Það var vor í lofti við Húsavíkurhöfn síðdegis í dag og karlarnir kátir því vel hefur fiskast á línuna daga og grásleppan að gefa sig í netin.  Gunnlaugur Karl Hreinsson útgerðarmaðurog fiskverkandi í GPG var að taka á móti línubátnum Lágey ÞH í hans eigu.  
 ,,Þetta er góður afli en það er líka langt sótt eftir honum, 7 tíma stím hvora leið" sagði Gulli við tíðindarmann 640.is en Háey II ÞH sem er einnig í eigu útgerðarinnar landaði svipuðum afla í morgun.  Bátarnir hafa sótt alla leið vestur á Skagagrunn í síðustu róðrum og var uppistaðan í afla bátanna í dag þorskur sem fer til vinnslu í fiskverkun GPG á Húsavík.

Strákarnir á Eika Matta ÞH, Jón Óli, Höddi og Binni komu einnig að eftir að hafa vitjað um grásleppunetin.   Jón Óli skipstjóri var ánægður með aflabrögðin í dag sem voru átta og hálf tunna af sulli.


2651.Lágey ÞH 265 ex Aron ÞH 105. © Hafþór.


Brynjar Freyr Jónsson. © Hafþór.


21.04.2008 15:44

Trefjar afgreiða nýja Cleópötru til Skotlands.

Bátasmiðjan Trefjar í Hafnarfirði afgreiddi í síðustu viku nýjan Cleopatra bát til Burnmouth á austurströnd Skotlands. Að útgerðinni stendur John Affleck sjómaður frá Burnmouth sem jafnframt er skipstjóri á bátnum.

Nýji báturinn, sem er 15 brúttótonn, hefur hlotið nafnið Soph-Ash-Jay.  Soph-Ash-Jay er af gerðinni Cleopatra 38.  Nýji báturinn er annar báturinn sem Trefjar afhenda útgerðinni, sá nýji mun leysa af hólmi eldri og minni Cleopatra bát sem eigendurnir fengu afhentann frá Trefjum síðla árs 2003.
Aðalvél bátsins er af gerðinni Cummins QSM 11 610hp tengd ZF gír. Báturinn er útbúinn 12 KW rafstöð af gerðinni Westerbeke.  
 
Siglingatæki koma frá Simrad.  Hann einnig útbúin með vökvadrifinni hliðarskrúfu sem tengd er sjálfstýringu bátsins. Öryggisbúnaður bátsins er frá Viking. Í vistarverum er, svefnpláss fyrir þrjá til fjóra auk eldunaraðstöðu með eldavél, örbylgjuofn og ísskáp.
 
Báturinn er útbúinn til gildruveiða á humri og töskukrabba.  Reiknað er með að báturinn muni draga 1000 gildrur á dag. Í fiskilest bátsins, sem rúmar 14 stk.380 lítra kör, er sjálfvirkt sjóúðunarkerfi til að halda humri lifandi um borð.

Að sögn útgerðarinnar mun báturinn verða gerður út frá Burnmouth allt árið, reiknað er með að báturinn hefji veiðar í næstu viku.
Soph-Asg-Jay. © Trefjar.

20.04.2008 21:55

Sigurður Þorleifsson.

Hér er mynd af Sigurði Þorleifssyni GK 256 sem var í eigu Þorbjarnar hf. í Grindavík.  Báturinn var smíðaður á Akureyri 1973 og hét upphaflega Fjölnir ÍS 177 frá Þingeyri. 1974 var hann seldur til Keflavíkur, kaupendur Þórarinn Þórarinsson, Magnús Þórarinsson og Jónas Þórarinsson, og nefndu þeir bátinn Bergþór KE 5. 1977 kaupir Heimir hf. í Keflavík og gaf því nafnið Jóhann Guðnason KE 77. 1978 kaupir Þorbjörninn bátinn og er hann skráður í Grindavík 1988. Heimild Íslensk skip.

Ef ég man rétt þá gengur báturinn upp í kaupin á Snæfelli EA 740 frá Hrísey, hríseyingarnir eiga hann í stuttan tíma og selja hann síðan Kristjáni Guðmundssyni  á Rifi. Hann er síðan úreldur þegar feðgarnir á Rifi fá Tjaldana tvo frá Noregi.


1333.Sigurður Þorleifsson GK 256 ex Jóhann Guðnason KE 77. © HH.

19.04.2008 23:06

Víðir II GK 275.

Þessa mynd af aflaskipinu Víði II GK  275 tók Hreiðar Olgeirsson á síldarárunum. Þarna er Víðir II, sem var smíðaður 1960 í Noregi fyrir Guðmund Jónsson á Rafnkelsstöðum í Garði, að landa síld á Húsavík.
 

                                       219.Víðir II GK 275. © Hreiðar Olgeirsson.

                                

                        

18.04.2008 23:02

Þrír úr Eyjum.

Þá er komið að myndum frá eyjapeyjanum Tryggva Sig. Þær sýna þrjá báta úr flota Vestmannaeyinga, einn er þar ennþá, annar var seldur burt en sá þriðji sökk. Þetta eru Frigg VE 41 sem í dag heitir Frár VE 78, aðeins breyttur frá þessum tíma. Þá kemur Valdimar Sveinsson VE 22 sem í dag heitir Margrét HF 20 en hét upphaflega Súlan EA 300.  Svo er það Andvari VE 100, smíðaður í Póllandi 1989. Hann sökk 12 sjm. suður af Vík í Mýrdal þann 22. maí 1993. Mannbjörg varð, átta manna áhöfn Andvara bjargaðist um borð í Smáey VE 144.


1595.Frigg VE 41 ex Helga Jóh. VE 41. © Tryggvi Sig.

259.Valdimar Sveinsson VE 22 ex Jarl KE 31. © Tryggvi Sig.

1895.Andvari VE 100. © Tryggvi Sig.

17.04.2008 23:11

Blæs ekki byrlega fyrir þessum.

Það blæs ekki byrlega fyrir þessum þrem sem Aðalsteinn Á. Baldursson myndaði í Þorlákshöfn á dögunum. Þarna liggja Kambaröst RE 120, Sæfari ÁR 170 og Jón Gunnlaugs ÁR 444. Kambaröstin smíðuð í Noregi 1957, Sæfari í Póllandi 1988 og Jón Gunnlaugs í Reykjavík 1972. Kambaröstin 51 árs, Sæfari 20 ára og Jón Gunnlaugs 36 ára. Þeir hafa ekki landað neinum afla á yfirstandandi fiskveiðiári þesssir bátar enda ekkert farið á sjó. Ætli þeir fari nokkuð á humar í sumar ? Nei ætli það nokkuð.

                               Í Þorlákshöfn. © Aðalsteinn Á. Baldursson.

 

16.04.2008 23:22

Copasa-1

Hér er mynd af Arnarnesinu sem tekin var árið 2000 í Mexíkó. Sveinn í Álasundi sendi mér hana en fjölskylda hans átti skipið þegar það var í Garðinum og hét Ingólfur GK. Þá átti fjölskyldan einnig Erling GK og Sveinborgu GK á sama tíma. Arnarnesið heitir Copasa-1 á myndinni.


 

15.04.2008 23:20

Arnarnes.

Hér koma tvær myndir af Arnarnesinu sem við feðgar tókum á sínum tíma. Hreiðar Olgeirsson tók þá efri, mig minnir í janúar eða febrúar 1985 eða þá 1986. Þá neðri tók ég síðan 1989 að mig minnir, kannski 1988. Ég er ekkert að rifja upp sögu skipsins, sem er ansi merkileg, hún kemur.

                     1128.Arnarnes ÍS 42 ex Ingólfur GK 42. © Hreiðar Olgeirsson.

              1128.Arnarnes SI 70 ex Arnarnes ÍS 42. © Hafþór.

15.04.2008 15:18

Skjóta seli

Innlent | 15.04.2008 11:23:10

Skjóta seli í Ísafjarðarhöfn

Norska selveiðiskipið Havsel er nú í höfninni á Ísafirði en áhöfnin veiðir sel á Vestfjarðamiðum. "Skipið er nýkomið á miðin og mér skilst að þeir séu komnir með áttatíu seli," sagði Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri Ísafjarðarhafna, í samtali við Bæjarins besta á Ísafirði.

Vegna veðurs leitaði skipið til Ísafjarðar en þetta er þriðja árið sem skipið kemur til hafnar á Ísafirði. Selveiðarnar eru þannig framkvæmdar að keyrt er inn í ísinn og mannskapurinn fer út á breiðurnar með riffla og skýtur selina.

Fréttin hér að ofan er af visi.is í dag, finnst mönnum eitthvað samhengi í fyrirsögninni miðað við fréttina sjálfa sem tekin er af bb.is ?

Flettingar í dag: 535
Gestir í dag: 81
Flettingar í gær: 771
Gestir í gær: 113
Samtals flettingar: 9399629
Samtals gestir: 2008173
Tölur uppfærðar: 13.12.2019 12:41:15
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is