Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2008 Mars

07.03.2008 23:03

Sæborg ÞH 55 og Guðrún Björg ÞH 355.

Hér koma tveir bátar smíðaðir á Akureyri, nánar tiltekið hjá Gunnlaugi og Trausta. Þetta eru Guðrún Björg ÞH 355 sem var smíðuð 1970 og Sæborg ÞH 55 sem var smíðuð 1977.  Guðrún Björg hét upphaflega Sæborg en fékk þetta nafn þegar Sæborgin bættist í flotann. Myndirnar eru teknar sama dag árið 1986 minnir mig en ég var á Kristbjörgu ÞH 44 og voru bátarnir á dragnótaveiðum á Skjálfanda. Guðrún Björg var 16 brl. að stærð en Sæborg er 40 brl. að stærð.


1097.Guðrún Björg ÞH 355 ex Sæborg ÞH 55. © Hafþór.


1475.Sæborg ÞH 55. © Hafþór.

06.03.2008 18:04

Í Ólafsvíkurhöfn 1983.

Þessa mynd tók ég í Ólafsvíkurhöfn árið 1983 og þótti við hæfi að birta hana nú þar sem vetrarvertíð er í hámarki. Tveir þeirra báta sem eru á myndinni eru enn í útgerð, hverjir eru það ?

                                                                      Frá Ólafsvíkurhöfn 1983. © Hafþór.

Jú þetta eru 1475 sem þarna hét Sæborg ÞH 55 og 1438 sem hét Heiðrún EA 28. Sæborgin heitir í dag sama nafni en hét í millitíðinni Eyvindur KE 37. Heiðrún heitir í dag Njörður KÓ. Annars eru þetta Bervík SH innst, hún fórst, þá Auðbjörg SH sem var úreld og síðan Hugborg SH sem strandaði og eyðilagðist, Sæborg, svo kemur Skálavík SH sem var úreld og loks Heiðrún. Halldór Jónsson SH er ystur í aftari röðinni og Sveinbjörn Jakobsson innstur sýnist mér. Eigum við þá ekki að giska á að Greipur SH sé þar í miðið.


04.03.2008 19:01

Hvaða skip var eins og þessi ?

Þessi bátur á/átti sér systurskip í íslenska flotanum, vita menn hvaða skip er um að ræða ?

                                                                                            Grateful FR 271.

Jæja, ég lagði upp með það að Súlan EA 300 væri eina systurskip þessa skips hér að ofan en þau voru bæði smíðuð hjá Ankerlökken Verft Glommen A/S í Frederiksstad.  Grateful, sem hét upphaflega Stella Nova, var afhent 15.03.1967 smíðanúmer 166 og Súlan afhent í desember sama ár en smíðanúmer hennar er 167. Heimir SU 100 er líka nefndur til sögunnar, hann mun vera smíðaður eftir sömu grunnteikningu og þessi tvö skip. Hann var smíðaður hjá Ankerlökken Verft A/S í Florö. Eigendur Ankerlökken yfirtóku rekstur stöðvarinnar í Frederiksstad 1966 en hún hét áður Glommen Mek. Verksted A/S.
 Skrokkur Heimis SU var smíðaður hjá Kvina Verft A/S í Flekkefjord og var smíðanúmer 1. hjá þeirri stöð. Þessi stöð hefur smíðað alla skrokka þeirra skipa sem Flekkefjord Slipp og Mek. Verksted A/S hefur smíðað fyrir íslendinga eftir 1972.  Þessar upplýsinga gaf Óskar Franz mér.

 

 

 

03.03.2008 22:27

Súlan speglast.

Þessa flottu mynd af Súlunni EA 300 sendi Reynir Sveinsson í Sandgerði mér á dögunum. Myndina tók hann þegar Súlan kom til hafnar í Sandgerði síðasta sumar. Þá var skipið leig til veiða á smáhvölum við Reykjanes en ekki tókst að veiða þá í nótina þó oft væri kastað. Það var fjölþjóðlegur hópur vísindamanna sem stóð að verkefninu en ætlunin var að koma mælitækjum á hvalina.


1060.Súlan EA 300. © Reynir Sveinsson.

02.03.2008 18:56

Fjórir frá Mandal.

Hér koma myndir af fjórum bátum sem smíðaður voru í Mandal í Noregi 1974 og 5. Engin myndin sýnir bátana eins og þeir voru upphaflega og myndin af Arney er sú eina sem sýnir bátinn eins og hann lítur út í dag.


1401.Gullberg VE 292. © Hreiðar Olgeirsson.

1411.Huginn VE 55. © Sigfús Jónsson.

1413.Höfrungur AK 91 EX Árni Sigurður AK. © Hafþór.

1416.Arney KE 50 ex Ásborg EA 259. © Pétur Helgi.

01.03.2008 21:29

Krossanes SU 4

Hér er mynd sem Hreiðar Olgeirsson tók af Krossanesi SU 4 frá Breiðdalsvík. Drífa hf. á Breiðdalsvík keypti skipið erlendis frá árið 1982 en það er smíðað í Skotlandi árið 1979. Ekki var það lengi í eigu Drífu hf. því árið 1983 var það Hraðfrystihúsi Stöðvarfjarðar hf. á Stöðvarfirði. Skipið var upphaflega 267 brl. að stærð en árið 1986 er það lengt auk fleiri breytinga og mældist þá 299 brl. Sama ár færð það nafnið Álftafell SU 100.  Í nóvember 1989 kaupir Frosti hf. á Grenivík skipið af Samherja hf. sem hafði eignast það og nefnt Hjalteyrin II EA. Ekki er ég með það á hreinu hvort Samherji gerði skipið eitthvað út en man þó að ég á mynd af því Samherjalitunum.  Hjalteyrin II fékk nafnið Frosti ÞH 229 og hét það þangað til nýr Frosti ÞH 229 var keyptur. Þá var skipið sem upphaflega hét Krossanes SU, þ.e.a.s. á íslenskri skipaskrá, selt til Kanada að mig minnir.


1630.Álftafell SU 4. © Hreiðar Olgeirsson.

Flettingar í dag: 294
Gestir í dag: 65
Flettingar í gær: 691
Gestir í gær: 173
Samtals flettingar: 9397321
Samtals gestir: 2007773
Tölur uppfærðar: 10.12.2019 05:34:30
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is