Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2008 Febrúar

29.02.2008 17:03

Af hvaða bát er bassaskýlið á......

Af hvaða bát er bassaskýlið á Húna II HU 2 ? Þorsteinn Pétursson, einn af hollvinum Húna, sagði mér það vera af húsvískum bát. Ausið nú úr viskubrunni ykkar lesendur góðir en ég tek fram að ég veit það ekki, enn.


108.Húni II HU 2. © Hafþór.

28.02.2008 20:08

Frægasti guli liturinn í ..............

Hér kemur sennilega frægasti guli liturinn í íslandssögunni, á Guggunni sem var gul og átti alltaf að vera gul. Guðbjörgin var þarna á siglingu út frá Akureyri, að mig minnir þá komin í eigu Samherja hf.


2212.Guðbjörg ÍS 46. © Hafþór.

27.02.2008 20:34

Tveir loðnubátar.

Svona í tilefni þess að Einar K. Guðfinsson sjávarútvegsráðherra er sæll og ánægður með að skyldi takast að finna loðnu í nægilega miklu magni til að hægt væri að hefja veiðar að ný koma hér tvær gamlar myndir af loðnumiðunum. Þessir tveir fá ekkert að veiða í ár enda löngu farnir í pottinn.


1504.Bjarni Ólafsson AK 70. © Sigfús Jónsson. 


1512.Grindvíkingur GK 606. © Sigfús Jónsson.

26.02.2008 20:04

Á útleið frá Húsavík.

Hér koma þrjár myndir af bátum og eiga þær það sameiginlegt að bátarnir eru allir að sigla út frá Húsavík. Baldur Árna landaði 18,5 tonnum af rækju þann 25 maí 2004 þegar myndin var tekin. Örvar landaði 53 tonnum af línufiski þann 28 september sama ár og var myndin tekin sama dag. Addi og hans menn á Sæþóri komu þó með verðmætasta farminn af þessum bátum því myndin er tekinn þann 30 september 2002. Þann dag kom Sæþór með skipbrotsmennina af Aron ÞH 105 sem sökk norður af Grímsey snemma að morgni þess dags.


158.Baldur Árna ÞH 222 ex Oddgeir ÞH 222. © Hafþór.


239.Örvar SH 777 ex Vestri BA 63. © Hafþór.


1291.Sæþór EA 101 ex Votaberg SU 14. © Hafþór.

25.02.2008 18:42

Bátur vikunnar mun leika í .....

Bátur vikunnar að þessu sinni verður innna skamms orðinn kvikmyndaleikari, já þarna er ég að tala um Jón á Hofi ÁR 62 en fram kemur í Fréttablaðinu í dag að hann er að fara að leika í kvikmyndinni Brim. Annars var Jón á Hofi smíðaður í Flekkufirði í Noregi 1969. Hann var innfluttur af Glettingi hf. í Þorlákshöfn 1980, hét áður Saukko III, og yfirbyggður 1984. Þá var afturenda hans slegið út. Jón á Hofi er 176 brl. að stærð og aðalvélin er upphafleg, 900 hestafla Wichmann. Eigandi bátsins í dag er Rammi hf. Eins og segir í Fréttablaðinu átti báturinn að fara í brotajárn en það frestast um nokkra mánuði. Rammi hf. keypti í fyrra Þuríði Halldórsdóttur GK 94 og hefdur hún nú fengið nafnið Jón á Hofi ÁR 42.


1562.Jón á Hofi ÁR 62 ex Saukko III. © Hafþór.

Á eða átti Jón á Hofi sér systurskip í íslenska flotanum ?

24.02.2008 23:38

Gullver NS 12.

Skuttogarinn Gullver NS 12 hefur alla tíð heitið Gullver og verið í eigu seyðfirðinga. Hann var smíðaður í Flekkufirði 1983 fyrir Gullberg hf. og samkvæmt skipaskrá á skip.is er hann með upphaflegu aðalvélina, 1770 hestafla MaK.


1661.Gullver NS 12. © Hafþór.

23.02.2008 19:22

Hera ÞH 60 kom til heimahafnar í dag.

Í dag kom til heimahafnar á Húsavík nýr bátur útgerðarfélagsins Flóka ehf. og var þó nokkur fjöldi manna á bryggjunni til að fagna komu hans. Báturinn, sem ber nafnið Hera ÞH 60, er 229 brúttótonna stálbátur, smíðaður í Noregi 1962.

Hera hét upphaflega Guðrún Jónsdóttir ÍS frá Ísafirði en lengst af Hafberg GK frá Grindavík. Flóki ehf. hyggst gera Heru út á dragnót en fyrir á útgerðin dragnótabátinn Dalaröst ÞH 40 sem verður seldur. Báturinn ber nafn Heru Sigurgeirsdóttur móður Óskars Karlssonar skipstjóra sem á Flóka ehf. ásamt konu sinni, Ósk Þorkelsdóttur.


67.Hera ÞH 60 ex Óli Hall HU 14. © Hafþór.

23.02.2008 10:59

Ragnar SF 550.

Hér er mynd af Ragnari SF 550 sem Magnús Smith hjá Sjóvélum sendi mér. Um borð i Ragnari er 22000 króka Mustad línubeitingakerfi. Fleiri myndir má sjá hér


2755.Ragnar SF 550. © Magnús Smith.

21.02.2008 20:36

Fanney í slipp og Fanney að fara í róður..

Fanney ÞH í slipp á Húsavík og útgerðarbíllinn í forgrunni. Bedfordvörubílar voru vinsælir útgerðarbílar á Húsavík hér áður fyrr og áttu m.a. Korri  og Útgerðarélagið Vísir slíka bíla.


1445. Fanney ÞH 130. © Hafþór.


398.Fanney ÞH 130 ex Byr. © Sigurgeir Harðarson.

Hér að ofan er Fanney ÞH 130, sú fyrri, að leggja í línuróður frá Húsavík.

20.02.2008 19:10

Nýr bátur í Hólminn.

Gunnlaugur Karl Hreinsson í GPG fiskverkun ehf. kaupir ekki bara báta til Húsavíkur því nýverið keypti Þórsnes ehf. í Stykkishólmi nýjan línubát. Þórsnes ehf., sem er í eigu Gunnlaugs, seldi línubátinn Brimil SH 31 og keypti í hans stað Jón Pál BA 133 frá Patreksfirði. Jón Páll, sem nú hefur fengið nafnið Landey SH 31, er af gerðinni Víkingur 1135, smíðaður hjá Samtak ehf. í Hafnarfirði árið 2006. Báturinn er tæp 15 brúttótonn að stærð með 500 hestafla Yanmar aðalvél.

Fram kemur í Stykkishólmspóstinum að Landey SH hafi þegar hafið línuveiðar. Róið er frá Ólafsvík fyrst um sinn en þaðan er áhöfn Landeyjar.


2678.Jón Páll BA 133 nú Landey SH 31. © Guðlaugur Albertsson.

20.02.2008 18:07

Skip vikunnar er Skjöldur SI.

Skip vikunnar er Skjöldur SI 101 sem var í eigu Ísafoldar hf. á Siglufirði á árunum 1984-1987. Upphaflega hét skipið Siglfirðingur SI 150, í eigu samnefnds útgerðafélags á Siglufirði. Siglfirðingur var smíðaður í Noregi árið 1964 og var fyrsti skuttogari íslendinga. Hann mældist þá 274 brl. að stærð og var með 750 hestafla Deutz aðalvél. 1969 var Siglfirðingur endurmældur, mældist þá 203 brl. að stærð.  Eftir 1970 er hann seldur Rafni Svanssyni og Ara Albertssyni á Breiðdalsvík en 1971 eru Gunnvör hf. Hrönn hf. og Íshúsfélag Ísfirðinga hf. skráður eigandi hans. Í október 1972 kaupa Sigurgeir Ólafsson og Eiríkur Heiðar Sigurgeirsson í Vestmannaeyjum skipið og nefna Lunda VE 110. Í desember 1976 kaupir Bás hf. á Húsavík Lunda VE og fær hann þá nanið Bjarni Ásmundar ÞH 320. 1977 var sett í skipið 1000 hestafla Brons aðalvél og árið 1978 er Bás hf. í Reykjavík skráður eigandi hans og einkennisstafirnir RE 12. 1980 var nafni skipsins breytt, fékk á nafnið Fram RE 12 sömu eigendur og áður. Í árslok 1981 kaupir Rafn hf. í Sandgerði skipið og nefnir það Sigurpál GK 375. Í príl 1984 kaupir svo Ísafold skipið og eins og áður hefur komið fram fékk hann nafnið Skjöldur SI 101. 1987, í október, kaupir Útgerðarfélag Norður-Þingeyinga skipið og nefnir það Súlnafell ÞH 361.  1989 er það selt til Hríseyjar, kaupandinn KEA. Það heldur nafni sínu en einkennistafir og númer verða EA 840. Í ársbyrjun 1995 kaupir svo Rif hf. í Hrísey Súlnafellið af KEA og fær það nafnið Svanur EA 14. Því nafni hélt það allt til loka en skipið var selt til niðurrifs í fyrra. Heimild: Íslensk skip og Morgunblaðið.978.Skjöldur SI 101 ex Sigurpáll GK 375. © Hreiðar Olgeirsson.


978.Siglfirðingur SI 150. © Steingrímur Kristinsson.

Þessa mynd hér að ofan lánaði Steingrímur Kristinsson á Siglufirði mér og kann ég honum bestu þakkir fyrir. Steingrímur heldur úti öflugri vefsíðu Lífið á Sigló sem má sjá  hér . Fréttin hér að neðan er tekin af síðu Steingríms en þetta er frétt úr Morgunblaðinu sem segir frá komu þessa fyrsta skuttogara íslendinga til landsins.

Fimmtudagur 9. júlí 1964.Ljósmynd: Steingrímur, texti Stefán Friðbjarnarson. (nema Athugasemd)

Skuttogarinn "Siglfirðingur" farinn á veiðar

Siglfirðingur SI 150 kemur til Siglufjarðar aðfaranótt mánudags 6. júlí 1964

SIGLUFIRÐI, 9. júlí.

HINN nýi skuttogari, SIGLFIRÐINGUR SI 150, kom til Siglufjarðar aðfaranótt mánudags 6. júlí. Skipið hélt út á veiðar aðfaranótt miðvikudags, en hefur enn ekkert fengið, enda engin veiði verið.

Skipið fór út með síldarnót af fullkomnasta tagi, en siðar er von á Þýsku flottrolli, sem ætlunin er að reyna í sumar. Skipið er alger nýjung í skipastól Íslendinga. það er 270 tonn, búið öllum fullkomnustu tækjum. Á heimliðinni reyndist það vel; mestur siglingarhraði 12 mílur Skipið er eign Siglfirðings hf. en aðalhluthafar þess eru yfirmenn skipsins, Kaupfélag Siglfirðinga og framkvæmdastjóra félagsins Eyþór Hallsson.

Skipstjóri er Páll Gestsson, stýrimaður Axel Schiöth og 1. vélstjóri Agnar Þór Haraldsson; allt ungir Siglfirskir sjómenn.

St.

Athugasemd S.K. árið 2001, Til fróðleiks:

Skuttogarinn Siglfirðingur SI 150, er fyrsti Skuttogarinn sem smíðaður er erlendis fyrir Íslendinga. Skuttogarinn Dagný SI 70, er fyrsti Skuttogarinn sem keyptur er notaður til Íslands og Skuttogarinn Stálvík SI 1, er fyrsti Skuttogarinn sem smíðaður er á Íslandi. Siglfirðingar voru frumkvöðlar í skuttogara útgerð. á þessum tímum.

19.02.2008 20:26

2x GK 555

Hér er mynd sem ég tók í Njarðvík fyrir nokkrum árum og sýnir tvo báta með GK 555. Það er ljóst að sá sem er fjær er Grímsnes áður Sædís en muna menn hver hinn er ?


© Hafþór Hreiðarsson.


18.02.2008 21:06

Júpíter 1963 og 2002.

Óskar Franz sendi þessa mynd af Júpíter RE 161 sem er af vef Shetland Museum. Myndin er tekin þann 10. september 1963, þá hefur Hafliði verið rúmlega þriggja ára og ekkert vitað um síðutogara.


130.Júpíter RE 161 ex Gerpir NK. © Shetland Museum.


130.Júpíter ÞH 61 ex Júpíter RE 61. © Hafþór.

Þessi mynd er tekin 16. marz 2002 þegar Júpíter kom til Húsavíkur þar sem áhöfnin fylgdi Aðalbirni Þormóðssyni til grafar en hann var á Júpíter þegar hann lést.

17.02.2008 16:33

Solberg og Nora í Þórshöfn.

Annar tveggja fréttaritara Skipamynda í Færeyjum, Guðvarður Jónsson, sendi mér þessa mynd áðan. Hún sýnir Seiglubátana tvo sem eru á leið til Karlsöy í Noregi. Guðvarður segir þá vera að bíða af sér veður áður en haldið er áfram.


Nora og Solberg við bryggju í Þórshöfn. © Varði.

17.02.2008 10:54

Nýr Ragnar SF sjósettur í gær.

Í gær sjósetti bátasmiðjan Samtak í Hafnarfirði nýjan Víking 1200, Ragnar SF 550. Ragnar SF er í eigu Nónu ehf. og kemur í stað eldri báts með þessu nafni. Sá er á söluskrá, heitir Guðmundur Sig. SF 650 í dag. Ragnar SF er samskonar bátur og 2757 og 2760 sem komu til Húsavíkur á síðasta ári. Húsvíkingurinn Ríkarður Ríkarðsson, nú búsettur í Hafnarfirði, var á vappi með myndavélina við Hafnarfjarðarhöfn í gær. Rikki tók nokkrar myndir af sjósetningunni og lánaði mér fúslega eina til birtingar. Rikki er með myndasíðuna www.123.is/rikkir og þar er margt og mikið að skoða.


2755.Ragnar SF 550. © Rikki.

Flettingar í dag: 508
Gestir í dag: 88
Flettingar í gær: 694
Gestir í gær: 121
Samtals flettingar: 9394433
Samtals gestir: 2007269
Tölur uppfærðar: 6.12.2019 13:55:12
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is