Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2007 Desember

19.12.2007 21:20

Eitt ár í dag síðan Wilson Muuga strandaði við Hvalsnes.

Í dag er ár liði frá strandi flutningaskipsins Wilsons Muuga í Hvalsnesfjöru. Svo segir á www.vf.is í dag :

Í dag, þann 19. desember, er liðið eitt ár frá strandi flutningaskipsins Wilson Muuga í Hvalsnesfjöru. Veður var afleitt og foráttubrim við strandstað þennan örlagaríka morgun og aðstæður hrikalegar.

Átta skipsverjar á danska varðskipinu Triton voru hætt komnir í brimsköflunum þegar gúmbát þeirra hvofldi. Einn þeirra drukknaði en hinum var bjargað með ævintýralegum hætti úr öldum sem voru á hæð við þriggja hæða hús og vann þyrlusveit Landshelgisgæslunnar þar mikið afrek.

Fljótlega var ljóst að skipið sat pikkfast í fjörunni og því yrði engan veginn bjargað. Árni Kópsson og hans menn voru því ekki sammála og í byrjun apríl tókst þeim með útsjónarsemi og miklu snarræði að koma skipinu aftur á flot.

Reynir Sveinsson fréttaritari Morgunblaðsins í Sandgerði, faðir Gísla á www.aflafrettir.com, sendi mér þessa mynd á sínum tíma og þakka ég honum fyrir hana hér og nú.

                                                          Wilson Muuga á strandstað. © Reynir Sveinsson.

Nú fyrir jólin kom 14. bókin í Útkallsbókaflokknum eftir Óttar Sveinsson og að venju lýsir hann þessum atburðum á dramatískan og líflegan hátt. Ég var með bókina, Útkall, þyrluna strax !, að láni úr bókasafninu á dögunum og er óhætt að mæla með henni. Hefði helst viljað lesa hana alla í einu en þá hefði ekkert birst á síðunni þann daginn svo ég las hana í tvennu lagi.

19.12.2007 18:53

Þorsteinn GK 16 kemur að bryggju.

Hér mynd af netabátnum Þorsteini GK 16 koma að bryggju í Grindavík fyrir nokkrum  árum. Báturinn, sem í dag heitir Kristbjörg SK 82, hét upphaflega Torfi Halldórsson ÍS og var smíðaður á Ísafirði 1971.


1159.Þorsteinn GK 16 ex Svanur SH 111. © Hafþór.

18.12.2007 23:51

Skipaskrá og sjómannaalmanak Áraklóar komið út.Skipaskrá og sjómannaalmanak Áraklóar, önnur útgáfa, er komin út og er bókinni dreift frítt til skipa og báta í rekstri, auk fleiri aðila. Dreifingu á bókinni lýkur fyrir áramót. Auglýsingar kosta bókina. Skipaskráin og sjómannaalmanakið er hefðbundin handbók sjómanna með upplýsingar um: sjávarföll, vita- og sjómerki, veður og sjólag, fjarskipti, öryggismál og fleira er í bókinni.

Lagakaflinn er á geisladisk og það fyrirkomulag nýtur vinsælda hjá sjómönnum, ýmislegt annað efni eins og eyðublöð, afla- og fiskikort og aðrar upplýsingar eru á geisladisknum. Í skipaskrá eru öll skip og bátar sem eru á skrá hjá Siglingastofnun, skránni er skipt í tvo hluta, mynda- og textaskrá. Í myndaskrá eru skip og bátar sem eru í rekstri, þar með taldir opnir bátar. Í textaskrá eru upplýsingar um önnur skip og báta.
Ritstjóri bókarinna er Jón Sigurðsson, útgefandi er Árakló slf.      

                                                                                               www.interseafood.com18.12.2007 21:36

Fyrir daga nýsköpunar.

Hafliða Óskarssyni hefur oft verið mikið niðri fyrir þegar salernismál í fiskiskipaflotanum hefur borið á góma. Við höfum nefnilega rætt þetta áður. Hann sendi mér því mynd sem sýnir hvernig menn fóru að því að tefla við páfann hér áður fyrr. Myndina tók Sigurgeir heitinn Pétursson fyrrum togaraskipstjóri og kallaði hann myndina Fyrir daga nýsköpunar.


Fyrir daga nýsköpunar.

17.12.2007 22:48

Plast, tré, stólar, kojur, árið 1907 eða 2007.

Hafliði fyrrum skipsfélagi minn hæðist að lýsingu þeirra Trefjamanna (eða kannski hann sé að bauna á mig) á nýjum báti sem lýst er hér að neðan. Þá hafa oftar en einu sinni komið athugasemdir um hve mikið sé framleitt af plastbátum í dag. Skrýtið að enginn sé að smíða minni skip út tré eða stáli, kannski bara enginn vilji kaupa þá ?  Ég set hér inn myndir af tveim bátum, annars vegar eikarbátnum Dagrúnu ST 12 og hinsvegar plastbátnum Sæþór EA 101. Dagrún smíðuð árið 1971 á Skagaströnd og eflaust verið fallegt fley á þeim tíma sem og í dag og ekki er ég að lasta bátinn. tek hann bara sem dæmi. Sæþór var smíðaður í Hafnarfirði og afhentur í lok árs 2006 og er glæsileg smíði. Ég er ekkert að upphefja Sæþór, tek hann bara sem dæmi. Ef, og ég segi ef, ég væri að leita eftir plássi á netabát undir 30 tonnum og mér byðist að koma um borð í annan hvorn þessa báta, það væri róið frá sömu stöðum og á sömu kjörum, þá yrði Sæþór fyrir valinu. Af hverju ? jú eins og Hafliði Óskarsson sagði í álitinu við bátinn frá Trefjum, það er árið 2007.


1184.Dagrún ST 12 ex Guðmundur Þór HU. © Hafþór.
Stærð og mál:

Brúttórúmlestir 20.0 Nettótonn 7.6
Brúttótonn 25.5 Rúmtala 88.5
Mesta lengd 14.76 Skráð lengd 14.2
Breidd 4.08 Dýpt 1.63


2705.Sæþór EA 101. © Hafþór.
Stærð og mál:

Brúttórúmlestir 23.6 Nettótonn 8.7
Brúttótonn 29.0 Rúmtala
Mesta lengd 14.99 Skráð lengd 14.97
Breidd 4.18 Dýpt 1.62

Plastbátar eru plastbátar og það eru til bæði ljótir og fallegir plastbátar.
Trébátar eru trébátar og það eru til bæði ljótir og fallegir trébátar.
Stálbátar eru stálbátar og það eru til bæði ljótir og fallegir stálbátar.

Svo er spurning hvort 99.99 % (áætlað) plastbáta þurfi endilega að vera hvítir.

17.12.2007 18:57

Ný Cleopatra 36 til Finnmerkur.

Ný Cleopatra 36 til Finnmerkur

Bátasmiðjan Trefjar ehf. í Hafnarfirði afgreiddi í síðustu nýja Cleopata 36 bát til Kjøllefjord, í Finnmerkurfylki í Noregi.
Kaupandi bátsins er Striptind AS. Eigendur Striptind AS eru Frode Lyngdal, Tor Petter Krogh og Jonny Pedersen sem jafnframt verða skipverjar á bátnum.

Báturinn hefur hlotið nafnið Vårliner. Báturinn mælist 15brúttótonn. Vårliner er af gerðinni Cleopatra 36 sem er sérstök útgáfa af Cleopatra 38.

Aðalvél bátsins er af gerðinni Volvo Penta D12 715hp tengd ZF V-gír. Báturinn er útbúinn fullkomnum siglingatækjum af gerðinni Furuno og Simrad.
Báturinn er einnig útbúin með vökvadrifinni hliðarskrúfu sem tengd er sjálfstýringu bátsins. Báturinn er útbúinn til línu og netaveiða en mun auk þess stunda stunda veiðar á kóngakrabba línu hluta úr ári.
Búnaður til línuveiða er frá Beiti ehf, netaveiðibúnaður kemur frá Rapp í Noregi.
Öryggisbúnaður bátsins kemur frá Viking-björgunarbúnaði.

Rými er fyrir 11stk 660lítra kör í lest. Í bátnum er upphituð stakkageymsla og sturtuklefi. Borðsalur er í brúnni auk stóla fyrir skipstjóra og háseta. Svefnpláss er fyrir fjóra í lúkar auk eldunaraðstöðu með eldavél, örbylgjuofn og ísskáp.
Reiknað er með að báturinn hefji veiðar nú í janúar. Fyrst á línu fram á haust og skipti svo yfir á net.  www.trefjar.is


Vårliner © Trefjar.

16.12.2007 23:46

Bátur vikunnar er Gissur ÁR 6.

Hér er mynd sem Hreiðar Olgeirsson tók áf netabátnum Gissuri ÁR 6 koma úr róðri á vetrarvertíð í Þorlákshöfn árið 1982. Gissur, sem er bátur vikunnar að þessu sinni, var 138 brl. að stærð þegar þarna var komið við sögu en þegar hann var keyptur til landsins var hann 115 brl. að stærð. Gissur var smíðaður í Romsdal í Noregi árið 1966 en Baldur Karlsson í Þorlákshöfn kaupir hann til landsins árið 1971. Í bátnum var upphaflega 450 hestafla Wichmann aðalvél en árið 1981 var sett í hann 750 hestafla Grenaa aðalvél. Ljósavík hf. í Þorlákshöfn kaupir Gissur ÁR árið 1978. Báturinn var eins og fyrr segir 115 brl. en var lengdur árið 1982 og mældist þá 138 brl. að stærð. 1985 kaupir Tangi hf. á Vopnafirði bátinn og nefnir Lýting NS 250. 1988 eru höfð bátaskipti við Búlandstind hf. á Djúpavogi og fær báturinn þá nafnið Stjörnutindur SU 159. Síðar verður hann Gestur SU 160 frá Djúpavogi um tíma og er svo seldur aftur til Þorlákshafnar þar sem hann fær nafnið Sæberg ÁR 20. Þaðan er hann gerður út í nokkur ár en var svo seldur  burtu en hefur heitið áfram Sæberg. Einkennisstafirnir hafa verið BA, SH og eða HF en báturinn er gerður út af Ocean Direct í Hafnarfirði í dag.


1143.Gissur ÁR 6 ex Torjo. © Hreiðar Olgeirsson.

16.12.2007 00:50

Niðurrif skipa í Krossanesi.

Hér kemur mynd sem ég tók í gær við Krossanes þar sem menn eru í óða önn að rífa niður gömul fiskiskip. Skuttogarinn Hegranes SK er að verða að engu og eitthvað eru menn byrjaðir að kroppa í vélbátinn Pál á Bakka ÍS. Reyndar var það í fréttum í gærmorgun að eldur hefði komið upp í lestinni á Hegranesinu. www.vikudagur.is greindi frá þessu auk annara fjölmiðla.


Frá Krossanesi. © Hafþór.

15.12.2007 11:36

Í Aðaldalshrauni.

Þá drögum við okkur aðeins inn til landsins, þó ekki langt því þessi mynd er tekin í Aðaldalshrauni. Ég var þar með vélina á dögunum, snjór var yfir öllu og fallegt á að líta. Fyrir þá sem ekki eru kunnugir er þetta Húsavíkurfjall (417) sem gægist þarna upp úr.


Í Aðaldalshrauni. © Hafþór.

14.12.2007 23:24

Sæbjörg SU 403.

Hér kemur mynd sem Sigtryggur Georgsson frá Húsavík tók af Sæbjörgu SU 403. Sigtryggur var þá skipverji á Kolbeinsey ÞH 10. Sæbjörgin var í eigu Pólarsíldar á Fáskrúðsfirði á þessum tíma og er þarna á fiskitrolli. Sæbjörgin er einn svokallaðra tappatogara sem smíðaðir voru í Þýskalandi fyrir íslendinga. Upphaflega hét hann Pétur Thorsteinsson BA 12 frá Bíldudal. Hann var skráður á Bíldudal frá 1959 til 1972 er hann var seldur Gylfaútgerðinni hf. á Patreksfirði þar sem hann fékk nafnið Gylfi BA 12. 1980 var skipið yfirbyggt og sett í það 1125 hestafla Caterpillar aðalvél. Skipt var um brú á skipinu, spurning hvort það var einnig gert 1980. Í ágúst 1980 er það selt Drift hf. á Neskaupsstað og nefnist Fylkir NK 102. Það er svo ári seinna sem Pólarsíld hf. kaupir skipið og nefnir Sæbjörgu SU 403. Útgerðarfélagið barðinn kaupir Sæbjörgu 1987 og fær hún nafnið Náttfari RE 75. Á gamlársdag sama ár var skipt um einkennistafi og númer, Náttfari verður HF 185. Síðar varð hann Páll ÁR, Páll Jónsson GK, Edda KE, Jói Bjarna SF, Aðalvík SH og loks Sigurður G.S. Þorleifsson SH 443. Skipið hefur legið við bryggju undanfarin ár en síðasta löndun þess samkvæmt vef Fiskistofu var 15 nóvember 2004.


168.Sæbjörg SU 403 ex Fylkir NK 102. © Sigtryggur Georgsson.

13.12.2007 23:59

3 x grindvíkingar.

Enn á ný eru það gamlir grindvískir bátar sem birtast hér og að þessu sinni eru það þrír svokallaðir vertíðarbátar sem koma fyrir augu lesenda.


88.Geirfugl GK 66 ex Héðinn ÞH 57. © Hafþór.

120.Höfrungur II GK 27 ex Höfrungur II AK 150. © Hafþór.

93.Hrafn Sveinbjarnarson II GK 10 ex Stígandi II VE 477. © Hafþór.

Tveir þessara báta eiga eitt sameiginlegt, hvað er það ?

12.12.2007 23:30

Eldborg GK 13.

Hér kemur mynd úr safni Sigurgeirs Harðarsonar og sýnir hún Eldborgu GK 13 með nótina á síðunni í fjarska er Loftur Baldvinsson EA 24. Eldborgin var smíðuð á Akureyri 1967 og mældist 415 brl. að stærð. 980 hestafla MWM aðalvél var í skipinu sem var fyrsta tveggja þilfara skipið sem smíðað var á Íslandi. Eigandi var Eldborg hf. í Hafnarfirði en í desember 1978 er skipið selt Einari Guðfinnssyni hf. í Bolungarvík. Báturinn, sem fékk nafnið Hafrún ÍS 400, strandaði svo 2. marz 1983 undir Stigahlíð, utarlega. 11 manna áhöfn bjargaðist af sjálfdáðum í land. Hafrún eyðilagðist á strandstað. Heimild Íslensk skip.


1050.Eldborg GK 13. © Sigurgeir Harðarson.

 

12.12.2007 21:11

Rækjubátar í höfn á Húsavík 1993.

Á þessari mynd sjást tveir rækjubátar í höfn á Húsavík sumarið 1993, sem var alveg hundleiðinlegt  veðurfarslega séð. Kalt og blautt. Þessir bátar eru Kristbjörg ÞH 44 og Ögmundur RE 94 og nú spyr ég hvað eiga þessir bátar sameiginlegt ? fyrir utan allt það augljósa.


1009 Kristbjörg ÞH 44 & 212.Ögmundur RE 94. © Hafþór.

11.12.2007 22:12

Húsey ÞH 382.

Hér koma tvær myndir teknar að kvöldi dags þann 8. júní árið 2005. Á efri myndinni siglir Húsey ÞH 382 af stað áleiðis til Danmerkur þangað sem skipið hafði verið selt, annað hvort til niðurrifs eða til endursölu. Er ekki alveg með það á hreinu hvernig það fór. Húsey ÞH hét áður Hólmanes SU 1 í rúma þrjá áratugi, eða allt frá því það kom til landsins í febrúarbyrjun 1974 þangað til það var selt Íshafi á Húsavík í lok febrúar 2004. Togarin var einn svokallaðra minni spánartogara smíðaður í Vigo 1974.


1346.Húsey ÞH 382 ex Hólmanes SU 1. © Hafþór.

Bjarni Sveinsson skipstjóri á Húsey ÞH leggur hér í ´ann til Danmerkur.

11.12.2007 18:34

Bryggjuspjall, um enska boltann.

Þegar ég leit við á bryggjunni  í síðustu viku var Olli á Sigga Valla ÞH 44 að landa og var Sæþór sonur hans að hjálpa honum. Var á krananum þó ekki sé hann hár í loftinu, Sæþór allt svo. Heimir Bessaon bar þarna að og það var ekki sökum að spyrja umræðan snérist á svipstundu yfir í enska boltann. Arsenal hafði daginn áður rétt svo náð jafntefli gegn hinu stórgóða liði Newcastlemanna en Sæþór, og hans fjölskylda öll, er Arsenalmenguð í gegn. Heimir er gallharður Manchester United maður og ræddu þeir félagarnir þessi glötuðu stig hjá Arsenal. Arsenal hefur ekki séð til sólar frá því Newcastle tók á þeim og tapaði fyrir öðru norðausturliði um helgina. En svo maður gleymi sér ekki þá var Olli með um 100 kg. á balann.


Sæþór Olgeirsson og Heimir Bessason. © Hafþór.

Flettingar í dag: 110
Gestir í dag: 31
Flettingar í gær: 1100
Gestir í gær: 132
Samtals flettingar: 9395851
Samtals gestir: 2007457
Tölur uppfærðar: 8.12.2019 02:29:52
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is