Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2007 Desember

31.12.2007 18:03

Þakka fyrir innlitið á árinu.....


Áramótabrennan á Húsavík 2006. © Hafþór.

30.12.2007 23:59

Bátur vikunnar var smíðaður í Hollandi.

Bátur vikunnar var smíðaður í Hollandi árið 1954 og hét sama nafninu alla tíð. Eigendur hans frá upphafi árs 1955 voru þeir Þorstein Sigurðsson og Ólaf Sigurðsson í Vestmannaeyjum. Hér er um að ræða stálbátinn Ófeig III VE 325 sem upphaflega mældist 66 brl. að stærð. Ófeigur III var lengdur á Akranesi 1965 og mældist þá 81 brl. að stærð. Þá var einnig skipt um aðalvél. í stað 220 hestafla Grenaa var sett í hann 380 hestafla Caterpillar. í lok árs 1970 er Þorsteinn Sigurðsson einn skráður eigandi bátsins. Bátnum var breytt 1974 og hann endurmældur, mældist þá 86 brl. að stærð. Ný 425 hestafla Caterpillar var sett í bátinn árið 1977 og árið 1985 var skráður eigandi Ófeigur sf. í vestmannaeyjum. Ófeigur III strandaði við Þorlákshöfn árið 1988 og eyðilagðist en áhöfnin, 3 menn, bjargaðist til lands. Heimild Íslensk skip.


707.Ófeigur III VE 325. © Hreiðar Olgeirsson.

29.12.2007 23:20

Þessir tveir voru smíðaðir fyrir ólsara.

Hér koma myndir af tveimur eikarbátum sem smíðaðir voru á Akureyri fyrir ólafsvíkinga. Á efri myndinni er Fanney SK 83 sem upphaflega hét Jón Jónsson SH 187 og var smíðaður fyrir Halldór Jónsson 1959. Á neðri myndinni er Hafborg SI 200 sem upphaflega hét Jökull SH 126 og var smíðaður fyrir þá bræður Víglund og Tryggva Jónssyni árið 1957. Jón Jónsson var upphaflega mældur 70 brl. en Jökull var nokkru minni eða 54 brl.


619.Fanney SK 83 ex Hrafnsey SF. © Hafþór.

625.Hafborg SI 200 ex Hafborg SK 50. © Hreiðar Olgeirsson.

Nú væri gaman að fá nánari upplýsingar um smíði þessara báta. Voru þeir ekki smíðaðir hjá sömu skipasmíðastöð ? Hver teiknaði þá ?

28.12.2007 18:02

Um borð í Héðni ÞH 57.

Hér koma tvær myndir sem Sigurgeir Harðarson tók um borð í Héðni ÞH 57. Þær eru teknar þegar Héðinn var við síldveiðar í Norðursjó.
Um borð í Héðni ÞH 57. © Sigurgeir Harðarson.

27.12.2007 18:51

Þröstur ÍS 222.

Þessi bátur hét upphaflega Búðafell SU 90 en þegar ég tók þessa mynd hét hann Þröstur ÍS 222. Myndin er tekin í Þorlákshöfn á vetrarvertíðinni 1982. Í dag heitir þessi bátur Maron Gk 522.


363.Þröstur ÍS 222 ex Þröstur HU 131. © Hafþór.

26.12.2007 19:40

Hvað eiga þessir bátar sameiginlegt ?

Hér koma myndir af tveim bátum og ég spyr hvað eiga þeir sameiginlegt í sinni útgerðarsögu ?
Það kom fljótt það sem ég var að fiska eftir, þeir voru báðir í eigu Sigurðar Péturssonar og hétu Pétur Sigurðsson RE 331. En þá spyr ég aftur, átti stálbáturinn systurskip í íslenska flotanum ?


708.Jóhanna Magnúsdóttir RE 70. © Hafþór.


167.Sigurjón Arnlaugsson HF 210. © Hreiðar Olgeirsson.


26.12.2007 13:51

Hver er báturinn # 25 2007 ?, Jú það er Kristján SH 6.

Kristján SH 6 er báturinn og á myndinni er hann tilbúinn til sjósetningar í október 1961. Sigurður Bergsveinsson sendi mér myndina sem Ágúst Sigurðsson tók. Báturinn var teiknaður og smíðaður af Kristjáni Guðmundssyni sem kallaður var Stjáni Slipp en hann fæddist 1911 og lést 1999. Stjáni slipp lærði skipasmíðar hjá Gunnari Jónssyni í Skipasmíðastöð KEA á Akureyri. Kristján SH 6, sem er með skipaskrárnúmerið 647, er fyrsti plankabyggði báturinn sem var smíðaður í Stykkishólmi. Hann er 21 brl. að stærð, 14,64 metrar að lengd, 4 metrar á breidd og dýptin er 1,8 metrar. Kristján SH 6 hét síðar Konráð BA 152, Helga Björg HU 7, Reginn HF 228 og Sindri SH 121. Í dag heitir hann Gæskur KÓ og er í eigu Magnúsar Kristjánssonar sem rekur áfangaheimilið að hafnarbraut 21 í Kópavogi. Skipt var um brú á bátnum og Sigurður Pétursson í Grundarfirði sem átti bátinn um skeið kom með þá tilgátu að það hafi verið gert þegar hann var á Skagaströnd. Þangað kom báturinn í árslok 1972. Vita menn eitthvað um þetta, þ.e.a.s. hvenær var skipt um stýrishús á bátnum ? Hér er að neðan myndin sem Ágúst Sigurðsson tók, það er mynd af bátnum í Íslensk skip þar sem hann heitir Helga Björg, ég á myndir af honum sem Reginn HF en á einhver mynd af honum sem Konráð BA 152 ?
Ég vil þakka Sigurði Bergsveinssynir fyrir þessa mynd og þær upplýsingar sem fylgja henni.647.Kristján SH 6.


647.Reginn HF 228 ex Helga Björg HU 7. © Hafþór.
Það verður að taka áskorun um getraun, hver er hann þessi ?
Eru menn ekkert að leggja höfuðið í bleyti yfir jólin ?
Hver er hann þessi ?
25.12.2007 22:07

Arthur velur Sigurð Gunnarsson.....

Arthur Bogason skrifar grein í jólablað Fiskifrétta og í henni kemur við sögu Sigurður Gunnarsson trillukarl á Húsavík. Ég átti myndina af Sigurði sem birtist með greininni og fannst tilvalið að birta greinina hana hér. Ég hafði samband við Arthur og falaðist eftir henni sem og leyfi til að birta hana. Það var auðsótt mál og þakka ég Arthuri hér með fyrir liðlegheitin. En svona er greinin:


Sigurður Gunnarsson © Hafþór.


Útgerðarmaður ársins
Mitt í svartasta skammdeginu gengur í garð hátíðin sem kennd er við ljós og frið.  Vissulega tindra jólaljós á jörðu og stjörnur á himni, en ríkir friður í hjörtum okkar ?  Dag hvern streyma tugþúsundir tonna af stálblóði í bifreiðalíki eftir malbikuðum æðum borgarinnar, æðandi að Mammonsmusterunum sem eru við að hrynja undan verslunargóssinu.  
Hvern einasta morgun hraukast upp dagblöð, auglýsingapésar og einblöðungar inn um bréfalúgunnar, myndskreytt kjöti, flatskjám, undirfötum, Hummerum og tölvurusli.  Samhliða umfjöllun um bjóralið og nuddað nautaskjöt frá Japan á kílóverði sem jafngildir vikulaunum margra á vinnumarkaði eru greinar um fólk sem á hvorki í sig eða á.  Ætli afmælisbarninu sé skemmt ?

Ég skal fúslega játa að ég er jafn sekur og þorri landsmanna í þessum efnum.  Sem barn var tilhlökkunin fölskvalaus:  stórfjölskyldan sameinuð, sungin jólalög, farið í messu, ilmur af jólasteik, pakkarnir - og þessi ólýsanlega sæla að leggjast í nýuppábúið rúm með nýjustu Óla og Magga bókina og svífa inní draumalandið mitt í ævintýri.

Nú hnoðast ég sem aðrir eftir malbikinu, oftast á síðstu stundu, í leit að "viðeigandi" jólagjöfum, með öndina í hálsinum yfir því að gleyma einhverjum sem síst á það skilið.

Ástæða þess að ég tíni til framantalið er símtal sem ég átti um mitt ár við góðan vin, trillukarl frá Húsavík, Sigurð Gunnarsson.  Sigurður var einn dyggasti stuðningsmaður minn þegar ég stóð í því árið 1985 að stofna Landssamband smábátaeigenda.  Hann á þar stærri þátt en flesta grunar.  
Í spjalli okkar ræddum við sem endranær landsins gagn og nauðsynjar, fiskgengd og fuglafar, en á síðarnefnda sviðinu er hann sjálfmenntaður sérfræðingur.  Í samtalinu greindi hann mér hinsvegar frá nokkru sem hefur setið í huga mér æ síðan.  

Sigurður hafði tekið þá ákvörðun, meðvitaður um illvígan sjúkdóm sem hann glímir við og eftir að hafa frétt af hinum gríðarlega niðurskurði í þorskveiðiheimildum, að láta tveimur trillukörlum eftir kvótann sinn, endurgjaldslaust, meðan hann lífsandann drægi.  Hann sagði hreint út: "ég fer ekki oftar á sjó og við konan höfum nóg.  Börnin spjara sig prýðilega.  Ef ég geri þetta komast þeir betur en ella í gegnum þrengingarnar.  Ég myndi gjarnan vilja sjá einhverja fylgja þessu fordæmi".
Það er ekki á hverjum degi sem ég verð orðlaus, en svo sannarlega varð ég það í þetta skipti.  

Þessa dagana, mitt í öllu atinu kringum Mammon, verður mér hugsað til þessa vinar míns.  Mitt í öllu atinu er til maður eins og hann með hugarfar sem markast af fórnfýsi, samhug og kjarki til að taka ákvörðun langt fram yfir eigin hagsmuni.
       
Undanfarið hafa einstaklingar verið valdir "menn ársins" á hinum ýmsu sviðum þjóðlífsins.  Þessir einstaklingar hafa sýnt hugprýði og þor til að standa fram úr skaranum.   

Ég ætla því að nota tækifærið og velja útgerðarmann ársins, Sigurð Gunnarsson, trillukarl frá Húsavík.

Lesendum óska ég gleðilegra jóla og heillaríks komandi árs.  Megi friður og gleði fylgja ykkur.

Arthur Bogason
Formaður
Landssambands smábátaeigenda.

Sigurður hefur átt smábáta undanfarna áratugi sem hafa borið nafnið Sólveig. Ég á myndir af þeim tveim síðustu og hér koma þær.


Sólveig ÞH 226. © Hafþór.

Sólveig ÞH 226. © Hafþór.

Sigurður Gunnarsson var heiðraður á Sjómannadaginn árið 2003 og skrifaði ég frétt um það í Morgunblaðið, þar segir um Sigurð:

Sigurður Gunnarsson er fæddur í Arnarnesi í Kelduhverfi 1931. Sigurður byrjar til sjós 1958. Síðan var hann á smærri bátum frá Raufarhöfn þar sem þau hjón bjuggu í tvö ár. Sigurður flytur til Húsavíkur 1958 með fjölskylduna og setja þau upp heimili að Ytri-Hlíð þar sem hann býr enn. Árið 1961 stofnar Sigurður til útgerðar ásamt öðrum er þeir félagar kaupa 16 tonna bát sem þeir nefna Andvara ÞH 81 og síðar 36 tonna bát sem þeir nefndu Glað ÞH 150. Árið 1972 stofnar Sigurður til eigin útgerðar er hann kaupir 3 tonna trillubát, Sólveigu ÞH sem hann gerir út í sjö ár. Þá kaupir hann sér 7 tonna hálfdekkaðan bát sem hann gerir út í 17 ár og 1998 kaupir hann síðan 5 tonna plastbát en báðir þessir bátar fengu sama nafn og sá fyrsti. Sigurður stundar enn sjóinn á Sólveigu ÞH 226 og hefur verið farsæll í starfi. Kona hans er Þorbjörg Theódórsdóttir úr Öxarfirði.


Sigurður Gunnarsson og Þorbjörg Theódórsdóttir. © Hafþór.


24.12.2007 16:32

Gleðileg jól.


Húsavíkurhöfn 23.12.2007 © Hafþór.

 

24.12.2007 11:06

Konni Júl GK seldur.

Sá á heimasíðu einnar skipasölu að Konni Júl GK er seldur, veit einhver hver er kaupandinn ?


2704.Konni Júl GK 704. © Hafþór.

 

23.12.2007 23:59

Bátur vikunnar var smíðaður á Akureyri.

Það er engin ástæða til að sinna ekki síðunni þó það séu að koma jól. Þau koma. Bátur vikunnar að þessu sinni var smíðaður á Akureyri árið 1980. Reyndar er frekar um skip að ræða en bát því hér verið að fjalla um nóta- og togskipið Hilmi SU 171 sem var í eigu Útgerðarfélagsins Hilmis hf. á Fáskrúðsfirði. Hilmir mældist 642 brl. að stærð og var með 2400 hestafla Wichmann aðalvél. Hann var seldur til Chile 1993. Þá átti Síldarvinnslan hf. orðið helmings hlut í útgerðinni.


1551.Hilmir SU 171. © Hreiðar Olgeirsson.

22.12.2007 23:47

Annar Erling, nú KE 140.

Hér kemur annar Erling KE, nú KE 140. Þessi var smíðaður í Slippstöðinni á Akureyri 1966 og hét upphaflega Sigurbjörg ÓF 1. Hún var í eigu Magnúsar Gamalíessonar á Ólafsfirði til ársins 1979, var reyndar orðin ÓF 30 í árslok 1978. Það var Blakkur hf. á Patreksfirði sem keypti Sigurbjörgina og fékk þá skipið nafnið Pálmi BA 30. Í október 1983 er skipið selt Drift hf. og fékk nafnið Fylkir NK 102. Í maílok 1984 var Fylkir seldur til Meleyrar hf. á Hvammstanga og var nefndur Sigurður Pálmason HU 333. Sigurbjörgin var 346 brl. að stærð með 960 hestafla MWM aðalvél. 1970 var skipið endurmælt og mældist þá 278 brl. að stærð. Heimild Íslensk skip.
Ég er nú ekki með meiri upplýsingar á takteinunum en minnir þó að komin hafi verið nokkuð öflug Caterpillar aðalvél í skipið auk þess sem það var yfirbyggt hjá Slippstöðinn á Akureyri. Saltver hf. kaupir skipið frá Hvammstanga og nefnir Erling KE 140 og að síðustu hét hann Keilir KE 140. Ekki með það hver var eigandi hans. Að lokum lá leið þessa skips, sem bar íslenskum skipasmíðaiðnaði glæsilegt vitni, til Danmerkur í brotajárn. Ég treysti á spekingana til að koma með meiri fróðleik um þetta skip.


1016.Erling KE 140 ex Sigurður Pálmason HU 333. © Hafþór.

1016.Sigurður Pálmason HU 333 ex Fylkir NK 102 við Slippkantinn á Akureyri.

21.12.2007 22:24

Erling KE 45.

Erling KE 45 var gerður út rækju frá Húsavík hér áður fyrr og tók ég þessa mynd af honum er hann var að koma úr  rækjutúr. Eigandi skipsins var Saltver hf. í Keflavík. Erling hét upphaflega Pétur Jóhannsson SH 207, þ.e.a.s. á íslenskri skipaskrá, en skipið var keypt til íslands árið 1974. Erling var smíðaður í Noregi 1969 en það er Smári hf. í Ólafsvík sem kaupir hann til landsins. Í árslok 1976 var skipip selt Höfn hf. á Siglufirði, nafn og númer óbreytt, og tæpu ári síðar kaupa Ingvi Rafn Albertsson skipstjóri, Askja hf. og Friðþjófur hf. á Eskifirði skipið og nefna hann Seley SU 10. Það er svo haustið 1982 sem Saltver hf. kaupir Seleyna og fær skipið þá nafnið Erling. Erling var, eins og áður segir, smíðaður í Noregi 1969 og mældist þá 236 brl. að stærð. Í honum var 700 hestafla Wichmann aðalvél. Hann var yfirbyggður 1977 og síðan lengdur 1986. Eftir lenginguna mældist hann 328 brl. að stærð. 1985 var sett í hann ný aðalvél, 1100 hestafla B & W Man.    Heimild Íslensk skip.

Erling KE 45 sökk 11. desember 1990 eftir að hafa steytt á skerinu Borgarboða sem er skammt frá Hornafjarðarósnum. Þrettán skipverjar komust heilu og  höldnu í gúmíbáta og þaðan yfir í Þorstein GK 16 hálftíma eftir að skip þeirra steytti á skerinu. Heimild Morgunblaðið 12. desember 1990.


                                                             1361.Erling KE 45 ex Seley SU 10. © Hafþór.21.12.2007 14:31

Hvort á maður að hlæja eða gráta ?

Hvort á maður að hlæja eða gráta ? eftirfarandi frétt birtist í dag á www.visir.is :

Dala-Rafn heitir þorskskip sem Þórður Rafn útgerðarmaður í Vestmannaeyjum hefur fest kaup á. Skipið kom siglandi inn í höfnina í Eyjum fyrir stundu. Dala-Rafn er sjötta skipið sem bætist við flota Vestmannaeyinga á árinu en þrjú skip hafa verið seld frá Eyjum á þessu ári. Af þessum sex skipum eru þrjú þeirra nýsmíðuð. Talið er að Dala-Rafn sé fjárfesting uppá um þrjá milljarða króna og ríkti mikil hamingja á höfninni í Vestmannaeyjum þegar skipið kom siglandi.

20.12.2007 23:05

Þorsteinn EA 810.

Ég sá á dögunum spekúlaresjónir á netinu um Þorstein ÞH 360, áður Þorsteinn EA 810 og upphaflega Helga II RE 373. Mönnum fannst hann ekki beint laglegur eftir breytingarnar sem fram fóru í Póllandi á haustmánuðum árið 2000 og í ársbyrjun 2001. Morgunblaðið sagði frá komu skipsins til heimahafnar eftir breytingarnar á eftirfarandi hátt:
 

Miðvikudaginn 24. janúar, 2001 - Akureyri og nágrenni
ÞORSTEINN EA, fjölveiðiskip Samherja hf. á Akureyri, kom til heimahafnar frá Póllandi í gær, eftir umfangsmiklar breytingar og er skipið nú eitt það öflugasta í íslenska fiskiskipaflotanum. Skipið var lengt um 18 metra, stýrishús var fært fram um 11 metra, sett var 1.500 hestafla ljósavél um borð, auk ýmissa annarra breytinga. Með breytingunum eykst burðargeta Þorsteins EA um 75% og getur skipið nú borið um 2.000 tonn af loðnu, að sögn Kristjáns Vilhelmssonar, framkvæmdastjóra útgerðar Samherja.

Þorsteinn hélt til Póllands hinn 1. október í haust en breytingar á skipinu fóru fram hjá skipasmíðastöðinni Grysia í Stettin. Kristján sagði að verkið í Póllandi hefði gengið ágætlega en á því urðu nokkrar tafir, m.a. þar sem ráðist var í meiri framkvæmdir en ráð var fyrir gert í upphafi. Þorsteinn hélt frá Póllandi seint á fimmtudag og tók siglingin heim því rúma fjóra og hálfan sólarhring. Kristján sagði að siglingin heim hefði gengið vel en ráðgert er að skipið haldi til loðnuveiða eftir 2-3 daga.

Ég var á kajanum þegar Þorsteinn kom og tók margar myndir við fremur erfið birtuskilyrði og hér er ein þeirra. Neðri myndina tók Sigfús Jónsson og sýnir hún Þorstein fyrir breytingarnar.


1903.Þorsteinn EA 810 ex Helga II RE 373. © Hafþór.


1903.Þorsteinn EA 810 ex Helga II RE 373. © Sigfús Jónsson.

Flettingar í dag: 532
Gestir í dag: 97
Flettingar í gær: 725
Gestir í gær: 119
Samtals flettingar: 9252914
Samtals gestir: 1994752
Tölur uppfærðar: 21.8.2019 13:15:55
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is