Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2007 Nóvember

01.12.2007 00:00

Hvar er myndin tekin ?

Hér er myndin sem ég klippti annan hvorn Jörundinn út úr. Þessa mynd held ég að móðurbróðir minn, Gunnar Hallgrímsson, hafi tekið. En hvar skyldi hún vera tekin ? ég hallast að það sé ekki hér við land eins og hinn ofurglöggi Hafliði frá Bræðrarborg gerir í áliti við "Hver er báturinn" hér að neðan.

30.11.2007 16:45

Nýr Cleopatra-bátur afgreiddur til Dublin á Írlandi

Bátasmiðjan Trefjar í Hafnarfirði afgreiddi nú í lok nóvember nýjan Cleopatra bát til Dublin á Írlandi. Að útgerðinni stendur Robert Creedon sjómaður frá Dublin sem jafnframt munu róa bátnum. Nýi báturinn hefur hlotið nafnið Kaligarian J. Báturinn er 11 brúttótonn að stærð og er af nýrri gerð Cleopatra 33 báta sem Trefjar hafa hannað. Aðalvélin er af gerðinni Doosan L086 315hp tengd ZF gír.
Báturinn er útbúinn siglingatækjum frá Furuno og Simrad. Hann er útbúinn til gildruveiða á beitukóngi og töskukrabba. Öryggisbúnaður bátsins er frá Viking. Rými er fyrir 14 stk. 380 lítra kör í lest. Í vistarverum er svefnpláss fyrir þrjá auk eldunaraðstöðu með eldavél, örbylgjuofn og ísskáp.
Að sögn útgerðarinnar mun báturinn verða gerður út frá Dublin. Uppistaða aflans er beitukóngur allt árið um kring en einnig mun báturinn stunda veiðar á töskukrabba hluta úr ári.  www.trefjar.is


Kaligarian J. © Trefjar.


29.11.2007 23:43

Hver er báturinn # 24 2007

Hver er báturinn ?

29.11.2007 23:17

Sjómannadagur í den.

Hér koma tvær myndir úr safni Hreiðars Olgeirssonar. Þær eru teknar á Húsavík, á sjómannadegi, einhvern tímann á árabilinu 1970-1974. Á efri myndinni má sjá keppni í línubeitningu,  Hreiðar Jósteinsson er þarna í skyrtunni en þeir sem snúa baki við ljósmyndaranum eru Jón Olgeirsson tv. og Viðar Eiríksson. Á neðri myndinn er Arnór Kristjánsson og dettur rmér í hug að hann hafi verið heiðraður þenna sjómannadag og ef svo er, er spurning hvort einhver er með ártalið rétt.


Keppt í beitningu á hafnarstéttinni. © Hreiðar Olgeirsson.

Arnór Kristjánsson. © Hreiðar Olgeirsson.

28.11.2007 21:45

Háfað og dælt um borð í nótaskip.

Hér koma tvær myndir teknar um borð í nótaskipum í gamla daga. Fyrri myndina tók Hreiðar Olgeirsson um borð í síldarskipinu Dagfara ÞH 70 árið 1967. Sigurgeir Harðarson tó þá neðri um borð í loðnuskipinu Gísla Árna RE 375 einhverjum árum síðar.


Síldin háfuð um borð í Dagfara ÞH 70. © Hreiðar Olgeirsson.

Loðnunni dælt um borð í Gísla Árna RE 375. ©Sigurgeir Harðarson.

Það er m.a. eitt atriði í sögu þessara skipa sem tengja þau saman, vita menn það ?

27.11.2007 19:44

Faxaborgin tekin upp í slipp......fyrir ári síðan.

Hér er mynd sem ég tók fyrir rúmu ári síðan þegar verið var að taka Faxaborgina SH upp í slipp á Akureyri. Faxaborgin, sem hét upphaflega Sléttanes ÍS, er 335 brúttótonna línubátur í eigu KG fiskverkunar ehf.í Snæfellsbæ.


1023.Faxaborg SH 207 ex Skarfur GK 666. © Hafþór.
Eftir að báturinn, sem smíðaður var í Boizenburg 1967, hét Sléttanes fékk hann nafnið Sölvi Bjarnason BA. Þá Eyjaver VE, síðan Fylkir NK og loks Skarfur GK áður en hann fékk Faxaborgarnafnið.

26.11.2007 23:39

Aflahæsta skipið það sem af er síldarvertíðinni.

Krossey SF 20, sem áður hét Björg Jónsdóttir ÞH 321, er aflahæsta síldarskipið á síldarvertíðinni sem nú stendur yfir. Þetta kemur fram í Fiskifréttum en þó er rétt að taka það fram að það vantar hluta af afla vinnsluskipa en tilkynningar um landanir þeirra skila sér stundum seint til Fiskistofu. Eftir því sem fram kemur í Fiskifréttum er Krossey efst með um 6.000  tonn. Næstur er Áskell EA með 5.350 tonn og þá hafa Margrét EA og Jóna Eðvalds SF einnig landað yfir 5.000 tonnum.


2618.Björg Jónsdóttir ÞH 321 nú Krossey SF 20. © Hafþór.

26.11.2007 19:27

Verðlagning á lambakjöti..............

Það hefur ýmislegt verið skeggrætt fyrir neðan bakkann á Húsavík í gegnum tíðina, m.a. um landsins gögn og nauðsynjar. Svo var einnig dag einn á haustmánuðum 2002 þegar þeir Guðmundur G. Halldórsson frá Kvíslarhóli og Pétur Helgi Pétursson þáverandi matsveinn á Björgu Jónsdóttur ÞH mættust á bryggjunni. Umræðuefnið að þessu sinni var verðlagning á lambakjöti.  Ekki man ég gjörla um hvað málið snérist, eitthvað um verð á lambakjöti, en man þó að Guðmundur dró fram dagblað með auglýsingu frá Fjarðarkaupum í Hafnarfirði máli sínu til stuðnings. 


Guðmundur G. Halldórsson og Pétur Helgi Pétursson. © Hafþór.

25.11.2007 22:21

Bátur vikunnar var seldur til Chile 1985.

Bátur vikunnar hét Jón Finnsson GK 506, var innfluttur árið 1972 en hafði verið smíðaður í Noregi 1969. Hann var í eigu Gauksstaða hf. í Garði til ársins 1978 er hann var seldur Gísla Jóhannessyni í Reykjavík. Jón Finnsson var 308 brl. að stærð með 900 hestafla Wichmann aðalvél. Hann var yfirbyggður 1976 og gerður út hér við land til ársins 1985 að hann var seldur til Chile. Heimild Íslensk skip.


1283.Jón Finnsson GK 506. © Sigurgeir Harðarson.
Var ekki brúnni lyft á bátnum ?

25.11.2007 17:07

Farþegaskipið Explorer.

Farþegaskipið Explorer sem sökk Suðuríshafinu eftir að hafa rekist á ísjaka kom nokkuð oft til Húsavíkur upp úr aldamótunum síðustu. Ég tók myndir af því á þessu árum, 2000-2003 og kannski lengur. En árið 2002 kom það að landi á Húsavík þann 18 júní. Við það tækifæri færði hafnarvörðurinn á Húsavík, Stefán Stefánsson, skipstjóranum mynd af skipinu við bryggju á Húsavík sem ég hafði tekið árið áður. Sendi ég frétt í Morgunblaðið af skipakomunni en þetta var fyrsta skemmtiferðaskipið sem kom til Húsavíkur þetta sumar.


Explorer að koma til Húsavíkur 18. júní 2002. © Hafþór.

Laugardaginn 22. júní, 2002 - Landsbyggðin

Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins

FYRSTA skemmtiferðaskip sumarsins kom til Húsavíkur á dögunum, þar var á ferð ms. Explorer, 2.400 tonna skip með heimahöfn í Afríkuríkinu Líberíu, gert út af þýskum aðilum. Áður en til Húsavíkur kom hafði skipið haft viðkomu á Hornafirði og í Grímsey og með því voru rúmlega 50 farþegar, aðallega Bandaríkjamenn.

Skipið kom að kveldi til og litu farþegarnir á mannlífið á Húsavík áður en gengið var til náða. Snemma morguns daginn eftir voru þeir svo drifnir upp í hópferðabíla og ekið var með þá í skoðunarferðir í Mývatnssveit og nágrenni. Þaðan var svo ekið með farþegana til Akureyrar þar sem þeir stigu aftur um borð í Explorer sem siglt hafði þangað meðan á útsýnisferðinni stóð.

Stefán Stefánsson hafnarvörður á Húsavík færði skipstjóra skipsins ljósmynd af skipinu í Húsavíkurhöfn að gjöf frá höfninni. Skipstjórinn, kapteinn Uli Demel, þakkaði fyrir gjöfina og færði Stefáni að gjöf bókina Ship in the Wilderness.


Stefán Stefánsson og kafteinn Uli Demel. © Hafþór.

Bókin Ship in the Wilderness er um skipið Explorer og ferðir þess.


24.11.2007 17:47

Séra Jón kominn til Kópaskers.

Nýr bátur, Séra Jón SH 163, kom til hafnar á Kópaskeri í gærkveldi. Báturinn sem er 11,3 brúttótonn að stærð er gerður út af  Axarskafti ehf. og kemur í stað minni báts sem hefur verið seldur. Báturinn var smíðaður í Guernesey á Englandi 1988 og hét upphaflega Séra Jón HF. Síðar var hann seldur til Reykjavíkur þar sem hann fékk nafnið Grunnvíkingur RE 163. Báturinn var síðar seldur Kristni J. Friðþjófssyni ehf. í Snæfellsbæ og fékk hann aftur nafnið Séra Jón og nú SH 163.
Báturinn hefur gengið í gegnum talsverðar breytingar frá því hann kom til landsins, hann var skutlengdur 1991 og yfirbyggður 2004. Þá hefur einhvern tímann verið sett á hann perustefni ásamt breytingum á framenda. Þá var skipt um aðalvél 1999 og er nú í honum 167 hestafla Perkinsvél. Séra Jón hafði viðkomu á Húsavík á siglingu sinni til Kópaskers og þá tók ég þessa mynd af honum.


2012.Séra Jón SH 163 ex Grunnvíkingur RE 163. © Hafþór.


2012.Grunnvíkingur RE 163 ex Séra Jón HF. © Hafþór.

2327.Steini Ólafs Björns ÞH 14 ex Svanlaug Björns ÍS. © Hafþór.
Þetta er báturinn sem Séra Jón leysir af hólmi.

23.11.2007 22:19

Hólmatindur SU 220.

Hér mynd úr safni Olgeirs Sigurðssonar af Hólmatindi SU 220 frá Eskifirði. Hólmatindur var smíðaður í Gdynia í Póllandi 1974 en var keyptur til landsins árið 1980. Hann er 499 brl. að stærð, með 2000 hestafla Crepelle aðalvél, og eigandinn var Hraðfrystihús Eskifjarðar hf. sem keypti hann frá Frakklandi. Hann var seldur til Namibíu árið 2001 og sigldi sína síðustu ferð út Eskifjörð þann 4. semptember það ár.


1567.Hólmatindur SU 220 ex Georges Cadoudak. © Olgeir Sigurðsson.

22.11.2007 23:15

Freyr ÞH 1.

Hér kemur mynd af bát sem var um tíma með heimahöfn á Húsavík. Þetta er Freyr ÞH 1 sem Vísir hf. átti og gerði út á línu.
Í dag heitir hann Siggi Þorsteins ÍS 123, var í eigu Fiskvinnslunnar Kambs ehf. á Flateyri en ekki veit ég hver á hann í dag.
Freyr ÞH 1 hét upphaflega Arnfirðingur RE 212 og var smíðaður í Noregi 1963, nánar tiltekið í Molde.


11.Freyr ÞH 1 ex freyr GK 157. © Hafþór.

Á þessari mynd er Freyr að leggja úr höfn á Húsavík þann 3. október 2003 kl. 17.19.

21.11.2007 19:02

Björgmundur ÍS 49 lagður í' ann til Bolungarvíkur.

Hér er mynd af Björgmundi ÍS 49 sem ég tók þegar Vignir Arnarson skipstjóri og útgerðarmaður lagði í'ann ásamt áhöfn sinni áleiðis til Bolungarvíkur í dag.


2690.Björgmundur ÍS 49 ex Karólína ÞH 111. © Hafþór.

2690.Björgmundur ÍS 49 ex Karólína ÞH 111. © Hafþór.
Vignir tók fyrir mig hring áður en hann tók stefnuna vestur Skjálfanda og tók ég slatta af myndum. Set fleiri myndir í albúm sem mun heita Björgmundur ÍS.

Vignir Arnarson merkir nýja bátinn í fyrrakvöld. © Hafþór.

20.11.2007 22:05

Dragnótabátar koma að landi í Keflavík.

Hér mynd sem ég tók í Keflavík árið 2005, á fyrsta degi vertíðar dragnótabáta í Faxaflóa. Á myndinni eru tveir bátar að koma að bryggju eftir róður dagsins. Þessir bátar, Reykjaborg KE 6 og Ósk KE 5 voru þá í eigu sama útgerðarmannsins, Einars Þ. Magnússonar. Í dag er Reykjaborgin, sem heitir nú Geir KE 6, í eigu Nesfisks ehf. í Garði en Ósk, sem heitir Gunnar Bjarnason SH 122, í eigu Útgerðarfélagsins Hauks ehf. í Ólafsvík. Reykjaborgin var upphaflega RE 25 og í eigu samnefndar útgerðar. Rún hf. var fyrsti eigandi að Óskinni sem hét þá Rúna RE 150.


2325.Reykjaborg KE 6 og Ósk KE 5. © Hafþór.

Flettingar í dag: 89
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 664
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 9254637
Samtals gestir: 1995063
Tölur uppfærðar: 24.8.2019 01:05:55
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is