Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2007 September

06.09.2007 22:50

Á dragnótaveiðum....

Þar sem nokkrir dragnótabátar hafa verið hér í Skjálfandaflóanum undanfarna daga datt mérí hug að birta þessa mynd af dragnótaveiðum fyrir rúmum 40 árum. Þessi mynd er úr safni Hreiðars Olgeirssonar og sýnir þá Jón Olgeirsson tv. og Eirík Jónsson um borð í Kristbjörgu ÞH 44. Þarna er ekki tromlum og þess háttar græjum fyrir að fara en veiðarfærið snöggtum minna en það er í dag. Eiríkur var oftast kenndur við Víkingavatn í Kelduhverfi en þangað var hann tekinn í fóstur við fimm ára aldur. Hann stundaði landbúnaðarstörf og sjómennsku alla tíð, síðast á Þerney RE 101 en hann lést um aldur fram árið 1994.

06.09.2007 21:03

Rifsnes SH 44 tók niðri í höfninni á Raufarhöfn.

Línuskipið Rifsnes SH 44 frá Snæfellsbæ strandaði á sandrifi í höfninni á Raufarhöfn í morgun. Rifsnesið var að koma inn til löndunar með um 30 tonna afla þegar óhappið varð. Björgunarbáturinn Gunnbjörg náði að losa Rifsnesið af strandstað seinnipartinn í dag og að sögn Tómasar Sigurðssonar hafnarvarðar virtist skipið vera óskemmt. Kafari var væntanlegur til Raufarhafnar síðdegis til að kanna skemmdir á skipinu.  Heimild RUVAK.

                                                                        1136.Rifsnes SH 44 ex Örvar BA 14.

                                                                  
Einsog margir vita strandaði Rifsnesið í Grenivík í Grímsey í októbermánuði 1996. Vonskuveður var og lamdist skipið í fjöruborðinu en það strandaði um miðja nótt. Síðdegis daginn eftir náðu Margrét EA (1484), Dagfari GK (1037) og Sæljón SU (1028) að draga Rifsnesið af strandstað. Þorleifur EA (1921) sá um að koma taugum á milli skipanna. Margrét EA dró síðan Rifsnesið til hafnar á Akureyri. Heimild Morgunblaðið.


05.09.2007 23:31

Ljótu Hálfvitarnir hundfúlir en stoltir...

Eins og fram kom á mbl.is á dögunum hét hljómsveitin Ljótu Hálfvitarnir því að ef 1. deildar lið Völsungs í kvennaknattspyrnu kæmist upp í Landsbankadeildina myndi hljómsveitin etja kappi við þær í knattspyrnuleik sem og  halda tónleika þar sem allur aðgangseyrir rynni til Völsungsliðsins.

En þetta dugði ekki til því Völsungar töpuðu eins og kunnugt er fyrir Aftureldingu í dag. En hver eru viðbrögð Ljótu Hálvitanna við þessu ?

Ég hafði samband við Arngrím Arnarson og innti hann viðbragða þeirra Hálfvita.

"Við Hálfvitar komum saman á kaffihúsi í dag og fylgdumst með beinni útsendingu á vef Völsungs frá leiknum. Það var gríðarleg spenna í loftinu og hálfvitataugar okkar þandar til hins ýtrasta. Við vorum einnig í símasambandi við okkar bandamenn á vellinum og fengum regluleg tíðindi af þróun mála. Að sjálfsögðu var mikið í húfi, bæði úrvalsdeildarsæti fyrir Völsungsstúlkur og auðvitað áheit okkar um að mæta þeim. Við héldum í vonina allt fram á síðustu mínútu þegar Afturelding skoruðu þriðja markið og vonbrigði gripu um sig í herbúðum okkar Hálfvita" sagði Aggi sem er margreyndur í knattspyrnufræðunum. Lék lengi með Völsungum auk þess að hann lék með landsliðum íslands undir 16 ára og undir 18 ára.

"Við vorum auðvitað hundfúlir að kvennalið Völsungs skyldi ekki ná að tryggja sér sæti í Úrvalsdeildinni en samt sem áður stoltir af frammistöðu þeirra í sumar og í úrslitakeppninni. Kíktum einmitt á útileikinn um síðustu helgi þar sem þær stóðu sig geysilega vel. Einnig var okkur farið að hlakka mjög mikið til að mæta þeim í einvígi ársins á Húsavík. Við höfðum það mikla trú á að þær myndu vinna að við vorum farnir að undirbúa allskonar skemmtilegheit eins og Hálfvitabúninga fyrir leikinn og ræða taktík og föst leikatriði. Samningaviðræður við þjálfara voru komnar af stað og ég veit ekki hvað og hvað. Hálfvitaliðið hefði auðvitað verið vel skipað og eflaust reynst Völsungsstúlkum erfitt viðureignar! Meðal annars hefðu þar verið fyrrverandi leikmenn Geisla í Aðaldal og Leifs heppna úr Kelduhverfi. Og auðvitað gamlir misfrægir Völsungsrefir. Hefði líklega orðið eitt fjölbreyttasta og skemmtilegasta fótboltalið landsins" sagði Aggi og bætti við "en þó verði ekki af einvíginu að þessu sinni munum við halda tónleika á Nasa á fimmtudagskvöld kl. 21 ásamt Hvanndalsbræðrum og þar munum við spila Völsungslagið ?Allir í gallana!? til heiðurs góðum árangri Völsungsstúlkna í sumar Og þá gefum við sko ekkert eftir frekar en við hefðum gert þegar við hefðum mætt Völsungsstúlkum. Við óskum að sjálfsögðu Völsungstúlkum til hamingju með glæstan árangur og munum halda áfram að styðja þær á næsta tímabili. Áfram Völsungur sagði Aggi að lokum.


 Arngrímur Arnarson var liðtækur í boltanum og hér er hann að skora í leik með Völsungi fyrir tveim árum.

05.09.2007 23:09

Sjöfn EA 142 landaði á Húsavík.

Eins og ég skrifaði í gær máttu dragnótaveiðar innan línu á Skjálfanda hefjast um síðustu mánaðarnót og hafa nokkrir aðkomubátar verið við veiðar ásamt heimabátunum Dalaröst og Sæborgu. Þeir voru að koma að landi í kvöld og meðal þeirra voru nýja Sjöfnin frá Grenivík og nýja Sæbjörgin frá Grímsey. Sjöfn var áður Sæbjörg .

1848.Sjöfn EA 142 ex Sæbjörg EA 184.

2047.Sæbjörg EA 184 ex Linni SH 303.


04.09.2007 21:23

Á sama tíma að ári...

Í dag kom Strákur SK 126 til hafnar á Húsavík en hann er á dragnótaveiðum. Ég tók myndir þegar hann kom en ég myndaði hann líka fyri einu ári, upp á dag. Reyndar munar 6 mínútum, fyrstu myndina í seríunni í ár tók ég kl.15.43 en í fyrra var sú fyrsta tekin kl.15.49. Dragnótaveiðar í innanverðum Skjálfanda voru heimilaðar þann 1. september sl. og hafa nokkri bátar verið við veiðar í flóanum. Í dag var bræla og auk heimabáta lágu Grímseyjarbátarnir Hafborg og Sæbjörg við bryggju á Húsavík. Strákur Sk var við veiðar á Öxarfirði í dag en kom til löndunar á Húsavík.


1100.Strákur SK 126 ex Strákur ÍS.


1100.Strákur SK 126 ex Strákur ÍS.
03.09.2007 23:36

Vonin önnur

Hér koma tvær myndir af sama bátnum, þetta er undir það síðasta í sögu þessa báts sem bar alla tíð nafnið Vonin II. Vonin II var smíðuð í Vestmanneyjum árið 1943 og var upphaflega með einkennisstafina VE 113..


910.Vonin II ST 6 ex Vonin II SF 5.


910.Vonin II GK 136 ex Vonin II ST 6.

02.09.2007 21:30

Nýr bátur til Patreksfjarðar.

Nýr bátur, Valgerður BA 45, kom til heimahafnar á Patreksfirði fyrir helgi. Valgerður BA hét áður Bára SH 27 en upphaflega Friðrik Bergmann SH 240. 
Í svæðisútvarpi Vestfjarða segir að það sé útgerðarfélagið Skriðnafell ehf. sem er eigandi bátsins sem er rúmlega sextíu brúttó tonn að stærð, smíðaður árið 2000. Enginn kvóti fylgir bátnum. Eigendur eru Óskar H. Gíslason, Fanney Sif Gísladóttir, Ásbjörn Óttarsson og Margrét Scheving. Óskar var síðast skipstjóri á Þorsteini BA og eftir fjórtán ár í þjónustu annarra ætlar hann nú að sigla eigin báti. Valgerðar nafnið kemur frá ömmu skipstjórans, frá Skriðnafelli á Barðaströnd.

Guðlaugur Albertsson ( www.123.is/gullialla) tók mynd af bátnum við komuna til Patreksfjarðar og lánaði mér til birtingar á síðunni. Kann ég honum bestu þakkir fyrir.


2340.Valgerður BA 45 ex Bára SH 27.

02.09.2007 14:12

Nýr EA 10 kominn í flota akureyringa.

Ég sá á Akureyri að það er kominn nýr EA 10 í flota akureyringa, held þó að hann sé ekki í eigu Samherja eins og Baldvin Þorsteinsson sem áður bar  EA 10. Þessi heitir Brimfaxi og er snöggtum minni en Samherjaskipin.


6686.Brimfaxi EA 10 ex Snorri NK 59.

02.09.2007 10:12

Ný Álsey VE kom til Vestmannaeyja í gær.

Síðdegis í gær kom nýtt uppsjávarveiðiskip til Vestmannaeyja, Álsey VE 2 í eigu Ísfélagsins. Ég fékk góðfúslegt leyfi hjá www.eyjar.net að birta mynd af skipinu sem þeir tóku.


2772.Álsey VE 2 ex Delta.

Fréttin af www.eyjar.net frá því í gær og segir frá komu skipsins er hér að neðan.

01. september kl. 19.09 | eyjar.net |

Álsey VE 2 komin til heimahafnar
-nýr bátur í flota eyjamanna.

Það var rétt yfir 18:00 í dag sem Álsey VE 2 lagðist að bryggju í Vestmannaeyjum. Álsey er nýtt skip í eigu Ísfélags Vestmannaeyja, skipið er smíðað í Noregi 1987 og er ca 66 metra að lengd og ca 13 að breidd.

Skipstjóri á Álsey er Ólafur Á. Einarsson og mun skipið fljótlega halda til veiða.


Á heimasíður Ísfélags Vetmannaeyja hf. www.isfelag.is komu þessar upplýsingar fram fyrr í sumar:

Ísfélag Vestmannaeyja hf. hefur gert samning um kaup á uppsjávartogskipinu M/V Delta. Skipið sem var smíðað árið 1987 í Flekkefjord í Noregi er 65,65 metrar að lengd en 12,60 metra breitt og vel tækjum búið. Burðargeta þess er um 2.000 tonn í 9 tönkum sem eru útbúnar með öflugu RSW kælikerfi. Með öflugri kælingu á aflanum kemur skipið til með að skila ferskara og betra hráefni í landvinnslur félagsins á Þórshöfn og í Vestmannaeyjum. Vél skipsins er Bergen, 4.400 hestöfl. Skipið verður afhent Ísfélaginu í ágúst. Ólafur Á. Einarsson hefur verið ráðinn skipstjóri á M/V Delta og Steingrímur Matthíasson hefur verið ráðinn yfirvélstjóri.


 

 

02.09.2007 01:12

Færeyska flutningaskipið Rona.

Ein er sú mynd sem ég hef oft velt vöngum yfir í gegnum tíðina. Hún er af flutningaskipinu Rona á siglingu inn með Tjörnesi.
Ég tel að myndin hafi verið tekin haustið 1985 og mig minnti að skipið hafi sokkið austan við land þá um haustið. Nú hef ég fundið heimildir í Íslenskum annál fyrir árið 1985. Rona var færeyskt skip og hafði lestað á Seyðisfirði og var statt austur af landinu þegar mikil slagsíða kom á það. Hún ágerðist og að lokum hvolfdi skipinu en áhöfn þess komst í björgunarbát og var bjargað um borð í skuttogarann Sveinborgu frá Siglufirði eftir níu tíma volk. Rona var 500 lesta skip og var þriggja manna áhöfn á því.
 


Rona á siglingu við Tjörnes.
Ég byggi þá skoðun mína á að myndin hafi verið tekin haustið 1985 á því að faðir minn var á rækjuveiðum í Öxarfirði það haust og fram á veturinn 1986.

01.09.2007 11:27

Brimnes RE landar á Akureyri.

Nýjasti frystitogari landsmanna, Brimnes RE 27,  kom úr sinni fyrstu veiðiferð í gærmorgun. Hann lagðist að bryggju á Akureyri í morgunsárið og sagði Reynir Georgsson skipstjóri í samtali við fréttavef Vikudags (www.vikudagur.is) að veiðiferðin hafi staðið yfir í einn mánuð.
 
Að sögn Reynis var togarinn á veiðum allt í kringum landið. Alls landar togarinn um 530 tonnum af afurðum og er afli upp úr sjó um 700 tonn. Aflinn er blandaður, grálúða, þorskur, ýsa og ufsi. Um borð í Brimesi er gert að aflanum, hann hausaður og frystur.
 
Fram kom í Vikudegi í fyrradag, að um helmingur aflans verður þýddur upp til vinnslu í landvinnslu ÚA á Akureyri og er hér um mjög spennandi tilraun að ræða. Ef vel tekst til er hér hugsanlega komin ný vinnslutækni, sem gæti þýtt að frystitogarar fari almennt að koma með afla til vinnslu í landi. Reynir skipstjóri sagði að þessi fyrsta veiðiferð hefði gengið mjög vel, fyrir utan smá stirðleika í byrjun. Þetta er alveg fantaskip, mjög öflugt og fer vel með fólk," sagði Reynir en í áhöfn eru 18 manns. Brimnes heldur á ný til veiða í kvöld og þá með nýrri áhöfn. Aðspurður sagði Reynir að nokkrir Akureyringar væru í áhöfn skipsins, m.a. þrír vélstjórar og 1. stýrimaður. Sjálfur er Reynir af Snæfellsnesinu.

Gunnar Arason, yfirhafnarvörður á Akureyri, mætti á bryggjuna í gærmorgun og færði Reyni að gjöf skjöld með mynd af Akureyri, frá Hafnasamlagi Norðurlands.


2770.Brimnes RE við bryggju á Akureyri í gær.

Flettingar í dag: 491
Gestir í dag: 133
Flettingar í gær: 595
Gestir í gær: 109
Samtals flettingar: 9396827
Samtals gestir: 2007668
Tölur uppfærðar: 9.12.2019 20:40:10
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is