Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2007 Ágúst

19.08.2007 15:47

Bátar við bryggju á Húsavík 1963.

Hér er ein gömul mynd úr safni Hreiðars Olgeirssonar. Á henni sjást bátar við bryggju á Húsavík, Fanney ÞH 130 fremst og þá Freyja ÞH 125. Ég er ekki viss hver er þarna aftast.


Frá Húsavíkurhöfn 1963.
Ég hef fengið þær upplýsingar að aftasti báturinn sé Andvari ÞH 81 (278)

19.08.2007 00:36

Víkingur 1200 og Cleopatra 38.

Hér að neðan eru tveir nýjustu bátarnir í húsvíska flotanum. Annars vegar er það Háey II ÞH 275 sem er af gerðinni Víkingur 1200 og aftan við hana liggur Sigrún Hrönn ÞH 36 sem er af gerðinni Cleopatra 38.


2757. Háey II ÞH 275 og 2736.Sigrún Hrönn ÞH 36.

 

18.08.2007 19:40

Fleiri myndir frá komu Háeyjar.

Hér eru fleir myndir frá komu Háeyjar II til Húsavíkur.


Blómin streymdu um borð eftir að lagst var að bryggju og hér kemur Hannes Höskuldsson með stóra körfu frá Eimskip á norðurlandi.

Gunnlaugur K. Hreinsson og Árninna Ósk Stefánsdóttir ásamt syni þeirra Ágústi Má.

2757.Háey II að pósa.

17.08.2007 21:39

Bátaskipti á Akureyri í október 1963

Eins og áður hefur komið fram hér á síðunni hóf afi minn, Olgeir Sigurgeirsson í Skálabrekku á Húsavík, útgerð með sonum sínum, Sigurði og Hreiðari þann 1. marz 1961. Þá keyptu þeir Njörð ÞH 44 af Sigurbirni Kristjánssyni ofl., 10 tonna bát smíðaðan á Akureyri 1925. Njörð gerðu þeir út í til haustsins 1963 en þá skiptu þeir á Nirði ÞH og  Hallsteini EA 130. Hallsteinn var 22 tonna bátur smíðaður í Danmörku 1934. Þessar myndir hér að neðan tók Hreiðar Olgeirsson á Akureyri þegar þeir feðgar skiluðu Nirði af sér og tóku við Hallsteini sem þeir nefndu síðan Kristbjörgu ÞH 44, þá fyrstu af fjórum.


Hér búið að skila Nirði af sér til nýrra eigenda, ég nefni enga af þessum bátum sem sjást á myndinni en gaman væri að fá athugasemdir um þá.


Þarna var svo tekið við Hallsteini EA 130.

17.08.2007 14:39

Nýr bátur til Húsavíkur.

Í morgun kom nýr bátur til heimahafnar á Húsavík. Um er að ræða 14,9 BT yfirbyggðan línubát af gerðinni Víkingur 1200. Báturinn sem heitir Háey II ÞH 275 er í eigu GPG fiskverkunar ehf. á Húsavík og var smíðaður hjá bátasmiðjunni Samtak í Hafnarfirði. Um borð í bátnum er 21 þúsund króka línubeitingavél af Mustad gerð og til að koma bátnum áfram er 720 hestafla Yanmar aðalvél. Háey II er einkar glæsileg á að líta, bæði að utan sem innan.


2757.Háey II ÞH 275.

Gulli bauð upp á veitingar og hér fær hann sér fyrstu tertusneiðina.

Konráð Sigurðsson skipstjóri á Háey II var ánægður með bátinn á heimsiglingunni.

Er búinn að setja inn myndband frá komu Háeyjar II í morgun. Þar sem ég var upptekinn með ljósmyndavélina tók Guðbergur Ægisson upp á vídeovélina fyrir mig.
Það er farið í myndbönd hér uppi hægra megin á síðunni.

 

16.08.2007 20:06

Ekki alveg fastur í fortíðinni.

Það má ekki alveg festa sig í fortíðinni því margt festir maður á kortið í samtímanum. Þessi bátur var að koma til hafnar á dögunum þegar ég smellti á hann. Þetta er Sigurpáll ÞH 130 sem er í eigu Guðmundar Karlssonar á Húsavík. Guðmundur var þarna að koma að landi eftir handfæraróður þar sem ufsinn var uppistaða aflans.


1262.Sigurpáll ÞH 130 ex Guðbjörg GK 517.


Gummi Karls að ísa ufsann.

16.08.2007 16:52

Steinað niður á grandanum

Hér er ein komin til ára sinna, á hennir sést verið að steina niður þorksanet í Gunna RE 51. Var hann ekki Bátalónsbátur ? Fórst síðan á Faxaflóa en þá var búið að setja á hann nýtt stýrishús að framanverðu.


1319.Gunni RE 51.

16.08.2007 16:44

Hver er báturinn # 22 2007

727 var það, Hraunsvík GK 68. upphaflega Akurey SF 52, þá Rán SU 58, Gissur ÁR 6 og loks Hraunsvík GK 68.

727.Hraunsvík GK 68 ex Gissur ÁR 6.


Jæja hver skyldi báturinn vera að þessu sinni ?

15.08.2007 23:51

Landað úr Benna Sæm GK.

Hér er ein sem ég tók í Keflavík fyrir nokkrum árum þegar verið var að landa úr dragnótabátum eftir fyrsta veiðidag í bugtinni. Hér er verið að landa úr Benna Sæm GK 26 sem var í eigu Nesfisks í Garði.

14.08.2007 17:56

Þrír rauðir Bátalónsbátar.

Þessa mynd tók ég í Hafnarfjarðarhöfn á sínum tíma og þá voru Bátalónsbátar áberandi í bátaflotanum.

14.08.2007 14:49

Ný Bergey VE 544 til Vestmannaeyja.

Í gær kom til heimahafnar í Vestmannaeyjum glæsilegt togskip sem útgerðarfélagið Bergur- Huginn ehf. lét smíða fyrir sig í Póllandi. Bergey er systurskip Vestmannaeyjar VE 444 sem útgerðin lét smíða fyrir sig í sömu skipasmíðastöð og kom til landsins í vor sem leið. Von er á þriðja svona skipinu til eyja síðar því í smíðum er nýr Dala-Rafn VE. Guðmundur Alfreðsson útgerðarstjóri Bergs-Hugins ehf. lánaði mér þessar myndir frá komu Bergeyjar og kann ég honum bestu þakkir fyrir.


2744.Bergey VE 544.


Bergey, Smáey og Vestmannaey við bryggju.


Á fréttavefnum skip.is er eftirfarandi frétt um komu Bergeyjar í dag :

Nýtt glæsilegt togskip, Bergey VE 544, sem Bergur-Huginn ehf. í Vestmannaeyjum hefur látið smíða í Póllandi, kom í fyrsta sinn til heimahafnar um kvöldmatarleytið í gær. Skipið kostar um hálfan milljarð króna. Fjöldi manna var viðstaddur komu skipsins.
Bergey VE er systurskip Vestmannaeyjar VE, sem útgerðin lét einnig smíða í Póllandi og kom til landsins fyrr á árinu. Skipin eru tæplega 29 metra löng og 10,4 metra breið togskip með aflvísi 1573. Stærð og afl eru við það miðað að þau geti veitt upp að þremur sjómílum frá landi, samkvæmt veiðireglum stjórnvalda. Hönnun annaðist Nautic ehf. og B.P. Skip ehf. hafði heildarumsjón með framkvæmd verksins. Skipstjóri á Bergey VE er Sigurður G. Sigurjónsson og yfirvélstjóri Svanur Gunnsteinsson.

Þetta er ekki fyrsta skip fyrirtækisins sem ber nafnið Bergey því árið 1983 keypti Bergur-Huginn skuttogarann Lárus Sveinsson SH 126 (1478)og nefndi hann Bergey VE 544.

13.08.2007 18:51

Þrír gamlir síldarbátar.

Úr safni Hreiðars Olgeirssonar koma þessar gömlu svarthvítu myndir og sýna síldarbáta í svartaþoku á miðunum.
 

12.08.2007 23:27

Völsungur-Sindri 1-1

Þessa frétt hér að neðan tók ég af vef Íþróttafélagsins Völsungs en þar segir af leik meistaraflokks Völsungs í 1. deild kvenna B-riðli sem fram fór á Húsavíkurvelli í gær. Ég tók slatta af myndum og síðar koma einhverjar inn í albúm.

Í gær spilaði mfl. kvenna við Sindra á Húsavíkurvelli í leiðindaveðri. Sindri var með  7 stig fyrir leikinn en Völsungur vann fyrri leikinn 5-0 fyrir austan. Það
vantaði nokkra leikmenn í byrjunarlið Völsungs en Berglind og systurnar Arna Benný og Gígja voru að keppa í frjálsum og svo Sigrúnu Björg sem verður ekki meira með í sumar þar sem hún er farin erlendis.. Pálína Bragadóttir kom og spilaði sinn fyrsta leik í sumar með Völsungi en hún spilaði áður með KR og auðvitað Völsungi á sínum yngri árum.  Á varamannabekknum sat Heiðdís Hafþórsdóttir sem er aðeins 13 ára gömul en hún kom inn á á 55. mínútu og stóð sig með prýði. 


Heiðdís í leiknum gegn Sindra..


Byrjunarlið: Birna, Ragna, Helga Björg, Unnur Mjöll (Kiddý 61. mín), Pálína, Ágústa (Heiðdís 55. mín), Hafrún, Gulla Sigga, Dagný Björk,  Elísabet, Harpa.

Varamenn
:, Guðrún Sigríður, Kiddý, Heiðdís, Áslaug, Guðrún Helga.
  

Í byrjun fyrri hálfleiks voru Völsungsstelpur sterkari og strax á 15. mínútu skoraði Elísabet. Þetta var góð byrjun og leit leikurinn ágætlega út fyrir Völsung. Ekki gerðist margt markvert eftir markið en þó var Völsungur sterkari aðilinn. Á 45.minútu fékk Sindri víti sem Sigurborg Jóna skoraði örugglega úr. Staðan í hálfleik 1-1. Í seinni hálfleik var jafnræði með liðunum en Völsungur átti ágætis spil á köflum. Á 66. mínútu var fékk leikmaður Sindra að líta rauða spjaldið eftir að hafa sparkað viljandi í leikmann Völsungs sem lá á vellinum. Ekki náðu stelpurnar að nýta sér liðsmuninn þó að þær hafi stundum verið nálægt því að skora undir lokin.

Lokastaða 1-1. 

 

Staðan í riðlinum eftir leikinn er þessi:

Félag L U   J   T      Mörk Stig
1 Völsungur 11   8   3 0    48  -  10   27
2 Höttur 11   6   4 1    25  -    8   22
3 Hamrarnir 11   6   0 5    28  -  33   18
4 Tindastóll 10   3   3 4    22  -  21   12
5 Fjarðabyggð 10   2   2 6    16  -  29 - 8
6 Sindri 10   1   5 4    14  -  27   8
7 Leiknir F. 11   2   1 8    17  -  42   7
                                                    

12.08.2007 21:41

Dagfari ÞH 40 er bátur vikunnar.

Dagfari ÞH 40 er bátur vikunnar að þessu sinni, hann var smíðaður 1965 í Boizenburg A-Þýskalandi fyrir bræðurnar Stefán og Þór Péturssyni á Húsavík. 1967 fékk fyrirtæki þeirra bræðra, Barðinnhf., tvö ný skip sem einnig voru smíðuð í Boizenburg en voru aðeins  stærri. Þau hétu Náttfari ÞH 60 og Dagfari ÞH 70, fékk þá eldri Dagfari nafnið Ljósfari ÞH 40. Ljósfari fékk síðar (1977) einkennsstafina RE 102 og um tíma nafnið Kári Sölmundarson RE 102. Þá hafði Barðanum verið skipt upp á milli afkomenda Stefáns og Þórs og ætla ég ekki að fara nánar út í það að öðru leyti en því að Júlíus Stefánsson var útgerðarmaður Ljósfara. 1977 var skipið yfirbyggt og ári síðar fékk það aftur Ljósfaranafnið. 1979 var skipið lengt og mældist þá 273 brl.  en upphaflega mældist það 264 brl. var síðan endurmælt og mældist þá 207 brl. Upphaflega var 660 hestafla Lister aðalvél í skipinu en árið 1980 var sett í það 1150 hestafla Mirrles Blackstone aðalvél. 1989 er Ljósfari aftur seldur til Húsavíkur, það fær nafnið Galti ÞH 320 og er í eigu fyrirtækis í eigu FH og Langanes hf. sem Brík hf. hét. Síðar eignast Langanes hf. skipið að fullu og nefnir það Björgu Jónsdóttur ÞH 321. Uppl úr Íslensk skip og Sögu Húsavíkur.

Þegar Langanes hf. kaupir Rauðsey AK árið 1992 fær skipið nafnið Björg Jónsdóttir II ÞH 320. 1996 var skipið selt til Siglufjarðar það sem það fékk nafnið Sigla SI 50 en fjórum árum síðar kaupir Langanes hf. það aftur og gefur því nafnið Sigurður Jakobsson ÞH 320. Uppl. Saga Húsavíkur.

Þegar Langanes hf. selur svo skipið til Reykjavíkur nokkru seinna fær það nafnið Straumnes RE og seinna Jón Steingrímsson RE 7 og hefur það lítið verið í útgerð undir þessum nöfnum. Hefur nú legið á Akureyri um tíma og ekkert fararsnið á því.

 
973.Dagfari ÞH 40 landar hér síld á Húsavík.


                                              

12.08.2007 11:37

Netin dregin.........

Á þessari mynd úr safni Hreiðars Olgeirssonar sést áhöfn Kristbjargar ÞH 44 draga þorskanetin. Ég hygg að þessi mynd sé tekin 1979.


1420.Kristbjörg ÞH 44.

 

Flettingar í dag: 491
Gestir í dag: 133
Flettingar í gær: 595
Gestir í gær: 109
Samtals flettingar: 9396827
Samtals gestir: 2007668
Tölur uppfærðar: 9.12.2019 20:40:10
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is