Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2007 Ágúst

30.08.2007 22:15

Bliki ÞH 50 við bryggju á Húsavík.

Á þessari mynd, sem tekin er að ég held 1983, er eikarbáturinn Bliki ÞH 50 við bryggju á Húsavík. Hinrik heitinn Þórarinsson skipstjóri var með Blika um tíma en ekki man ég hvort hann var með hann þarna. Bliki var í eigu Njarðar hf. þegar þetta var, kom í hlut Njarðar hf. þegar Barðanum hf. var skipt upp 1978. Upphaflega hét Bliki, Ólafur Magnússon AK 102, hann var smíðaður í Svíþjóð 1948 fyrir Þorkel Halldórsson á Akranesi.


710.Bliki ÞH 50 ex Bliki GK 323.

29.08.2007 21:34

Skálavík og Bervík.

Hér eru tveir gamlir frá Ólafsvík, annars vegar Skálavík SH 208 og hins vegar Bervík SH 43.


893.Skálavík SH 208.

Hvar er brúin af Skálavíkinni niðurkomin ?


720.Bervík SH 43.

 

28.08.2007 23:01

Loðnuskip í eyjum 1983.

Þessa mynd tók ég í eyjum 1983 og sýnir hún fjögur loðnuskip sem þá voru í eigu eyjamanna.


1062. Kap II, 1401.Gullberg, 989.Sæbjörg, 1411.Huginn.

27.08.2007 22:17

Vertíðarbátar.

Set hér inn þrjár myndir sem ég tók á fermingarvélina, þær tvær fyrstu eru teknar í Þorlákshöfn og sú þriðja á Breiðafirði.Þessir eru auðþekkjanlegir en hver er saga þeirra ?

27.08.2007 21:26

Rjómablíða í dag.

Rjómablíða var á Húsavík í dag og flóinn skartað sínu fegursta. Þegar fég fór á Gónhólinn um miðjan daginn mátti sjá báta um allan flóa, ýmist fiskibáta ellegar hvalaskoðunarbáta. Línubátarnir fóru að týnast inn þegar leið á daginn og á myndinni hér að neðan er Ingólfur Árnason skipstjóri á Sigrúnu Hrönn ÞH að laga aflann svo hann fari vel í körunum.
Erla Guðmundsdóttir hjá Fiskmarkaði Húsavíkur var mætt...
...sem og Palli hjá GPG.

26.08.2007 23:10

Tónlistarveislan 2007.

Ég brá mér, ásamt frúnni, á stórgóða tónlistarveislu sem haldin var í íþróttahöllinni um helgina. Þar fór fríður flokkur undir stjórn Guðna Bragasonar með dægurperlur Björgvins Halldórssonar. Ég mun setja inn albúm frá tónleikunum innan skamms en set hér inn tvær myndir. Önnur af öllum flytjendunum saman á sviði og hin sem er af Ínu Valgerði er fyrir Höllu mína Marín en þær eru góðar vinkonur.

Það er ekki hægt að skilja kynnirinn út undan, Jóhann Kr. Gunnarsson.


26.08.2007 22:26

Bátur vikunnar hét eitt sinn Ásgeir ÞH 198.

Bátur vikunnar hét eitt sinn Ásgeir ÞH 198 og var gerður út frá Húsavík. Upphaflega hét báturinn Bliki EA 12 og var í eigu Blika hf. á Dalvík sem lét smíða hann á Akureyri. Bliki, sem var 20 brl. að stærð var smíðaður 1971 og var í eigu dalvíkingana til ársin 1975 er þeir selja hann til Ólafsvíkur. Þar fær hann nafnið Jói á Nesi SH 159 og eigendur eru Pétur F. Karlsson, Magnús Guðmundsson og Kim Mortensen. Til húsavíkur kemur báturinn 1978 og fær þá Ásgeirsnafnið, eigendur eru Magnús Andrésson og Þórður Ásgeirsson. Upphaflega var í honum 230 hestafla Scania aðalvél en árið 1982 setja þeir Doddi og Maggi í hann 328 hestafla Volvo Penta aðalvél. Þeir selja síðan bátinn til Ómars Valgeirs Karlssonar á Hvammstanga árið 1984 og fær hann nafnið Haförn HU 4. Haförn er seldur 1988 Einari Ásgeirssyni á Breiðdalsvík og verður Haförn SU 4.  Heimild Íslensk skip.


                                                               1186.Ásgeir ÞH 198 ex Jói á Nesi SH 159.

Eins og fram kemur að ofan er báturinn á Breiðdalsvík 1988, ég man nú ekki hvernig útgerðarsaga hans var eftir það en minnir að hann hafi verið í Hafnarfirði og síðan aftur á Hvammstanga. Þaðan var hann svo er keyptur aftur til sinnar upphaflegu heimahafnar, Dalvíkur, árið 2000 . Þar fékk hann nafnið Muggur EA 26 og hefur undanfarin ár legið í Dalvíkurhöfn. Þar var búið að rífa m.a. af honum stýrishúsið og einhver laumaði því að mér að til stæði að gera úr honum seglskip. Hann liggur nú í höfninni á Akureyri.26.08.2007 22:10

Vertíðarmyndir frá Þorlákshöfn

Hér koma tvær myndir sem ég tók í Þorlákshöfn á vetrarvertíð 1982. Ég ætla ekkert að skrifa um þær en óska eftir athugasemdum um þær í áliti. Ég er ekki frá því að eitthvað merkilegt kæmi upp. Þessar myndir, og fleiri frá þessum tíma sem kannski eiga eftir að koma fyrir sjónir ykkar, eru teknar á fermingarvélina mína af Kodak gerð. Nánar tiltekið svo kölluð vasamyndavél og (ó) gæðin eru eftir því.
25.08.2007 18:44

Jóhanna ÁR kemur að landi.

Hér er ein frá því ég var á Skálberginu ÞH 244 á netavertíð í Þorlákshöfn. Árið er 1982 og það er Jóhanna ÁR 206 sem hér kemur að landi. Jóhanna hét upphaflega Bergvík KE 55 og var smíðuð 1959 í Danmörku.


323.Jóhanna ÁR 206 ex Bergvík KE 55.

23.08.2007 19:20

Sjómenn í fótbolta á sjómannadaginn 1967

Þessi mynd hér að neðan er úr safni Hreiðars Olgeirsonar og sýnir sjómenn keppa í fótbolta á sjómannadaginn 1967. Keppt var á malarvellinum við barnaskólann og á myndinn sést að keppnin hefur veruð geysihörð.


 

23.08.2007 18:15

Æskan upp í sveit.

Sveinn Ingi Þórarinsson á skipasölunnu Álasundi sendi mér þessa mynd nýlega. Þarna er Æskan VE 222 komin upp í sveit, nánar tiltekið í Fljótshlíðina. Ég man nú þegar ég var að byrja til sjós var þessi bátur stundum að róa frá Húsavík og var þá EA 202. Sveinn Ingi spyr hvort þetta sé Bátalónsbátur, ég er ekki viss. Þá minntist hann á DAS báta, er þetta einn af þeim ?


1174.Æskan VE 222 ex Æskan GK 222.


1174.Særún EA 202 ex Dröfn SI 67.

21.08.2007 23:17

Grímur ÞH 25 við bryggju á Húsavík.

Hér er enn ein mynd úr safni Hreiðars Olgeirssonar. Sýnir hún vélbátinn Grím ÞH 25 við bryggju á Húsavík. Grímur ÞH var í eigu þeirra Ásgeirs Kristjánssonar,Kristjáns Ásgeirssonar og Þormóðs Kristjánssonar á Húsavík. Grímur, sem var smíðaður á Akureyri 1953, var 8 brl. að stærð með 44  hestafla Kelvin dísel aðalvél. 1962 var sett í hann 86 hestafla Ford Parson díselvél. Grímur ÞH 25 var seldur frá Húsavík til Siglufjarðar 1969 þar sem hann hét Grímur áfram en með einkennisstafina SI 5. Þaðan var hann seldur til Akraness 1972, enn hélt hann nafninu en einkennisstafirnir AK 5. Bátnum var siglt upp í Skarðsvík á Snæfellsnesi eftir að leki kom að honum. Mannbjörg varð. Báturinn var talinn ónýtur og tekinn af skrá 6. júlí 1973. Heimild Íslensk Skip.


466.Grímur ÞH 25.

20.08.2007 21:46

Bátur vikunnar er Náttfari ÞH 60.

Bátur vikunnar er Náttfari ÞH 60 sem smíðaður var 1962 í Noregi fyrir Barðann h/f á Húsavík. Hann var með 660 hestafla Lister aðalvél og mældist 169 brl. að stærð. Báturinn var lengdur árið 1966 og mældist þá 208 brl. að stærð. 7. desember 1966 var nafni og númeri bátsins breytt, hét þá Þorri ÞH 10, sömu eigendur og áður. Skipið var endurmælt 1970 og mældist þá 170 brl. að stærð. 10. febrúar 1975 var Þorri seldur Pólarsíld h/f á Fáskrúðsfirði, hét áfram Þorri en var nú SU 402. Þorri SU 402 sökk austan við Ingólfshöfða þann 18. október 1979. Áhöfnin, 10 menn bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát og síðan um borð í Gunnar SU 139 frá Reyðarfirði. Heimild Íslensk skip. 


156.Náttfari ÞH 60.

Í sögu Húsavíkur, IV bindi kemur fram að Þorri ÞH 10 hafi verið seldur vestur á Patreksfjörð og þaðan til Pólarsíldar h/f á Fáskrúðsfirði.

Náttfari ÞH 60 var fyrsti stálbátur þeirra bræðra Stefáns og Þórs Péturssona sem áttu Barðann h/f.

Hvar í Noregi var Náttfari smíðaður ? 
Hver eru systurskip hans ?


19.08.2007 22:45

Fréttir af mér og mínum.

Er búin að ákveða að hafa fréttir af mér og mínum á hliðarsíðunni sem áður hét Um mig en heitir nú Fréttir af mér og mínum. Þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með okkur verða að muna sjálfir eftir að kíkja þar inn því ekki verður minnst á það í hvert sinn. Ég geri þetta þar sem Halla Marín, elsta dóttir okkar, hyggst dvelja sem au pair stúlka á Ítalíu næsta árið. Því mun ég reyna hafa svolítið meira af fréttum af fjölskyldunni fyrir hana á síðunni og datt í hug að prófa að hafa það á hliðarsíðu. Fyrsta fréttin kom í kvöld og er hún af tannmissi Leu Hrundar yngstu systur Höllu Marínar.
 


Lea Hrund með tönnina góðu.

19.08.2007 20:26

Mokveiði við Grænland.

Fiskaði kvótann á tíu dögum við Grænland.
 
Skip moka nú upp vænum þorski við austur Grænland. Togari frá þýsku útgerðarfélagi í eigu Samherja kemur til Hafnarfjarðar í fyrramálið með metafla, 700 tonn af frystum flökum.

Fram kemur í fréttum á ruv.is að íslendingar eigi engan kvóta við austur Grænland en sjómenn segja að þar hafi verið mikil og góð þorskveiði undanfarin 2 ár. Skip frá Evrópusambandinu hafa nú í fyrsta sinn í langan tíma fengið kvóta við Grænland og hafa komist í mokveiði. Þýski togarinn Kiel, sem er óbeint í eigu Samherja, hefur undanfarið veitt þorsk við austur Grænland. Skipstjórinn Brynjólfur Oddsson er eini Íslendingurinn um borð en áhöfnin er þýsk. Á 10 dögum veiddist þar allur þorskkvóti skipsins sem gerði um 700 tonn af frystum flökum.

Brynjólfur skipstjóri segir að þetta sé orðinn besti túr sem um getur á skipinu, fyrir heildaraflann fáist á bilinu 400 til 450 miljónir. Í raun hafi þeir ekki haft undan að frysta aflann, í besta halinu hafi þeir fengið 30 tonn á 15 mínútum.

Góð þorskveiði við austur Grænland vekur athygli þegar dregið er úr þorskveiði hér við land, segir Kristján Vilhelmsson útgerðarstjóri Samherja.


 

Flettingar í dag: 535
Gestir í dag: 81
Flettingar í gær: 771
Gestir í gær: 113
Samtals flettingar: 9399629
Samtals gestir: 2008173
Tölur uppfærðar: 13.12.2019 12:41:15
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is