Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2007 Apríl

29.04.2007 22:37

Gamla mynd vikunnar er ekki svo gömul en...

Gamla mynd vikunnar er ekki svo gömul en þó það gömul að það er liðin tíð að rækjubátar séu gerðir út eða landi á Húsavík enda engin rækjuverksmiðja starfandi hér lengur. Á þessari mynd er Kristbjörg ÞH 44 að koma að landi eftir rækjutúr.


1009.Kristbjörg ÞH 44 ex Kristbjörg II ÞH 244.

 

29.04.2007 18:03

Jóhanna Gísladótti ÍS v Guðrún Guðleifsdóttir ÍS

Tók þessa mynd á Akureyri í gær og athyglisvert er að sjá hér nýjasta Vísisbátinn Jóhönnu Gísladóttir ÍS 7 og bát sem Vísir seldi þegar þeir fóru að stækka bátana með kaupunum á Páli Jónssyni og síðan Jóhönnu Gísladóttur. Þvílíkur stærðarmunur er á þessum bátum, Sævíkin sem síðar Hét Valur ÍS 82 heitir nú Guðrún Guðleifsdóttir ÍS 25 og hefur báturinn því fengið sitt upphaflega nafn.


1076.Jóhanna Gísladóttir ÍS 7 og 971.Guðrún Guðleifsdóttir ÍS 25.


971.Guðrún Guðleifsdóttir ÍS 25 ex Valur ÍS 82.

27.04.2007 18:38

Glæsileg verður hún nýja Þórunn Sveinsdóttir VE

Glæsileg verður hún nýja Þórunn Sveinsdóttir VE 401 eins og þessi tölvuteikning sýnir en hana fékk ég hjá  Álasundsmönnum í Keflavík.
Gylfi Sigurjónsson, Sigurjón Óskarsson & Viðar Sigurjónsson skrifa undir smíðasamning við Karstensen Shipyard.

Ég þakka þeim Einari Mar og Sveini Inga hjá Álasundi fyrir myndirnar. www.alasund.is

26.04.2007 22:56

Þrír hákarlar á hákarlalínuna

Þeir voru vel vænir, en ófrýnilegir, hákarlarnir þrír sem Aðalsteinn P. Karlsson á línubátnum Kalla í Höfða ÞH kom með að landi á Húsavík í gær.
Hákarlalínuna hafði Aðalsteinn, eða Steini í Höfða eins og hann er oft kallaður, lagt fyrir nokkrun dögum í Skjálfanda við annan mann. Gengið var strax í það að byrja að skera hákarlana en eins og áður segir voru þeir vel vænir en Aðalsteinn verkar þá sjálfur. 
Hákarlaveiðar frá Húsaví hafa gengið ágætlega í vetur og hafa þeir félagar Helgi Héðinsson og Óðinn Sigurðsson landað þeim nokkrum líkt og þeir á Kalla í Höfða.
 

Ekki vildi ég borða þessar ófrýnilegu skepnur, jafnvel þó búið sé að míga yfir þær og láta úldna.

26.04.2007 21:11

Hvalaskoðunin byrjar með bravör.

Hvalaskoðunarsumarið við Skjálfanda hefur byrjað með bravör og nú þegar hafa farþegar Norður-Siglingar fengið að sjá stærsta dýr jarðar, steypireyð í ferðum Bjössa Sör um flóann. Þá hafa fjórir hnúfubakar og jafnmargar hrefnur sýnt sig til þessa.
Norður-Sigling er með eina ferð á dag um þessar mundir og óhætt að segja að veðurspáin fyrir næstu daga lofar afar góðu fyrir hvalaskoðun, sól og sunnanvindar með hitastigi nálægt 20 gráðum. Faldur, hvalaskoðunarbátur Gentle Giants, mun einnig hefja siglingar á hvalslóðir nú um mánaðarmótin.


Bjössi Sör á siglingu í gær.


Þessa mynd tók ég svo út á Gónhól, sem er rétt norðan Húsavíkur, í kvöld.

25.04.2007 23:06

Ný Von GK í Garðinn.

Á sumardaginn fyrsta kom nýr bátur til hafnar í Sandgerði, reyndar með heimahöfn í Garðinum. Þetta er Von GK 113 sem er í eigu samnefnds fyrirtækis í Garði. Reynir Sveinsson kollegi minn (Fréttaritari Morgunblaðsins) í Sandgerði tók myndir við þetta tækifæri og var svo almennilegur að lána mér nokkrar til birtingar hér á síðunni. Kann ég honum bestu þakkir fyrir.


2733.Von GK 113.

Von GK er smíðaður hjá Trefjum ehf. í Hafnarfirði og er af gerðinni Cleopatra 38, yfirbyggður með 730 hestafla Yanmar aðalvél.


Von verður gerð út á línu sem beitt er í landi en hægt er að setja beitningarvél í bátinn.

 

24.04.2007 18:18

Misjöfn örlög eikarbáta...

Það var mikið um að vera við dráttarbrautina á Húsavík í gær þegar ég átti leið þar hjá. Verið var að taka hvalaskoðunarbátinn Náttfara upp en starfsmenn Norður-Siglingar eru nú í óða önn að undirbúa bátana fyrir sumarið. Fyrsta ferðin þessa vertíðina var farin í fyrradag þegar Bjössi Sör fór með sextán farþega af ýmsu þjóðerni á hvalaslóðir og sáust bæði hrefnur og höfrungar í ferðinni.
 
Í brautinni er þessa dagana að rífa eikarbátinn Reyni GK 177 frá Sandgerði (1105) en báturinn hefur staðið þar síðan í september 2002. Eigandi bátsins hefur verið lýstur gjaldþrota og tók sveitarfélagið Norðurþing við bátnum til förgunar og ljóst að nokkur kostnaður hlýst af því fyrir sveitarfélagið.


Reynir og Náttfari voru báðir smíðaðir í Stykkishólmi, Náttfari 1967 og Reynir 1970.

Brúin farin af....Ein spurning að lokum ? voru þeir báðir smíðaðir í Skipavík eða smíðuðu fleiri báta að þessari stærð í Stykkishólmi ?

24.04.2007 16:20

Jakob Valgeir ehf., kaupir rúmlega 50% hlut í útgerðarfélaginu Rekavík.

Jakob Valgeir ehf., kaupir rúmlega 50% hlut í útgerðarfélaginu Rekavík.
Útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Jakob Valgeir ehf., í Bolungarvík hefur keypt yfir 50% í útgerðarfélaginu Rekavík ehf. í Bolungarvík sem gerir út bátana Guðmund Einarsson ÍS, Hrólf Einarsson ÍS og Einar Hálfdánsson, en með þeim fylgja 1.500 þorskígildistonn. Rækju- og bolfiskvinnslan Bakkavík var stærsti hluthafi Rekavíkur. Jakob Valgeir hyggst gera Guðmund og Hrólf áfram út frá Bolungarvík en flytja kvótann af Einari yfir á beitningavélabátinn Þorlák ÍS sem er í eigu Jakobs Valgeirs ehf., og selja Einar Hálfdánsson kvótalausan.

Jakob Valgeir Flosason, framkvæmdastjóri Jakobs Valgeirs, segir að auka eigi fiskvinnslu í landi hjá fyrirtækinu. Jakob Valgeir og tengd félög ráða eftir kaupin yfir 4.500 þorskígildistonnum sem er stórt hlutfall aflaheimilda í Bolungarvík. Kaupverð fæst ekki uppgefið. Frá þessu var greint á ruv.is í morgun.


1052.Albatros GK 60 nú Einar Hálfdáns ÍS verður seldur eftir að Jakob Valgeir ehf. keypti 50% hlut í Rekavík ehf. og flytur aflaheimildirnar yfir á Þorlák ÍS.


23.04.2007 17:25

Baldvin Þorsteinsson EA fluttur út...

Eftirfarandi frétt var á vísir.is í dag :

Frystitogarinn Baldvin Þorsteinsson fluttur til Þýskalands


Frystitogarinn Baldvin Þorsteinsson, skip Samherja, verður fluttur út til Þýskalands í sumar og mun framvegis gera út frá Cuxhaven. Um 26 menn eru í áhöfn skipsins og hefur flestum þeirra nú þegar verið boðin önnur vinna hjá fyrirtækinu.

 

Að sögn Kristjáns Vilhelmssonar, útgerðarstjóra Samherja, er flutningur Baldvins liður í skipulagsbreytingu og uppstokkun skipastóls hjá Samherja. Þrjú ný skip hafa verið keypt til landsins og því hafi verið ákveðið að flytja Baldvin til dótturfyrirtækis Samherja, Deutsche Fischfang Union, sem hefur aðalstöðvar í Cuxhaven í Norður Þýskalandi. Hann segir flestum í 26 manna áhöfn skipsins hafa verið boðin önnur vinna hjá Samherja.

Kristján segir áætlað að Baldvin fari út síðla sumars. Deutsche Fischfang Union gerir nú út tvö skip.

Frystitogarinn Baldvin Þorsteinsson EA-10, áður Guðbjörg ÍS, bættist í flota Samherja þegar fyrirtækið rann saman við Hrönn hf í ársbyrjun 1997. Hann var seldur til Deutsche Fischfan Union árið 1999 en keyptur aftur til baka í lok árs 2001.2212.Baldvin Þorsteinsson EA 10.

Hvernig halda menn að hann verði fluttur út ?

21.04.2007 11:06

Bátur vikunnar er Sómi..

Bátar vikunnar þessa vikuna er Sómabátur frá Bátasmiðju Guðmundar í Hafnarfirði. Báturinn er sá stærsti sem þeir hafa afhent , a,m,k, til fiksveiða, til þessa og heitir Anna GK 540. Anna GK er í eigu Festi útgerð ehf. og hefur að mestu verið gerð út frá Djúpavogi. Anna GK var afhent vorið 2005 og fór Óskar hjá Bátasmiðju Guðmundar í sýningaferð á hafnir landsins við annan mann. Þeir komu við á Húsavík og þá tók ég þessar myndir.


2641.Anna GK 540.

Anna GK 540 er 14.9 bt. krókaaflamarksbátur.

19.04.2007 17:36

Ísfélagið kaupir Þórunni Sveinsdóttir VE 401.

Ísfélagið kaupir Þórunni Sveinsdóttur VE.

Búið er að skrifa undir samning um kaup Ísfélagsins á ísfisktogaranum Þórunni Sveinsdóttur VE 401. Fram kemur á vef Frétta í eyjum að Þórunn Sveinsdóttir komi í stað Heimaeyjar VE sem lagt var í vetur. Þórunn verður afhent nýjum eigendum 1. september og fylgir öll áhöfnin með.

Þórunn Sveinsdóttir VE 401 var smíðuð á Akureyri 1991 og hefur alla tíða verið mikið afla- og happaskip. Það er útgerðin Ós ehf. sem á og gerir hana út og framkvæmdastjóri er Sigurjón Óskarsson, margfaldur aflakóngur í Eyjum. Hann stefnir á nýsmíði.

Á vef Ísfélagsins kemur fram að engin aflahlutdeild né eða aflamark, kvóti á mannamáli, fylgi með í kaupunum.


Þórunn Sveinsdóttir var smíðuð í Slippstöðinni á Akureyri 1991þar sem þessi mynd var tekin

19.04.2007 00:18

Hver er báturinn # 16 2007

Berghildur SK er báturinn en hann hét áður Faxavík GK og það var komið fram.


1564.Berghildur SK 137.
Næsta spil komið á borðið, hver er báturinn ?
Hver er fyrsti bátur sumarsins ?

18.04.2007 23:41

Siggi Valli ÞH dró Aron ÞH til hafnar.

Þegar línubáturinn Aron ÞH frá Húsavík var langt kominn með að draga línuna í gær hætti stýri bátsins að virka, var fast út í annað borðið. Varð Konráð Sigurðsson skipstjóri og áhöfn hans því að hætta drætti og kalla eftir aðstoð.

Aron var á Grímseyjarsundi líkt og fleiri húsvískir línubátar. Konráð hafði samband við Olgeir Sigurðsson skipstjóra á Sigga Valla, sem var ekki langt undan, og lét hann vita hvernig komið var. ?Konni hringdi í mig rétt fyrir klukkan eitt og þá átti ég eftir að draga þrjá bala? sagði Olgeir sem lauk við að draga áður en hann hélt að áður en hann hélt að Aroni og tók hann í tog.

?Við biðum bara rólegir eftir Olla og fengum okkur kaffisopa? sagði Konráð en Aron var kominn í tog um tvöleytið og komu bátarnir síðan til hafnar á Húsavík á sjöunda tímanum í gærkveldi. Veður var gott á þessum slóðum í gær og sagði Olgeir dráttinn hafa gengið vel en Aron er miklu mun stærri bátur en Siggi Valli.


Olgeir á Sigga Valla hefur hér sleppt Aron lausum og Konráð skipstjóri sigldi honum síðasta spölinn
að bryggju og notaði hliðarskrúfuna til að stýra bátnum.

16.04.2007 20:36

Gamla mynd vikunnar er frá Húsavík.

Gamla mynd þessarar viku tók Hreiðar Olgeirsson á Húsavík 1980, sýnir hún hafnarstéttina með skúrana í forgrunni. Verbúðirnar þar á bak við og upp á bakkanum gnæfir yfir kirkjan yfir ásamt húsum þeim er Bjarni Ben byggði. Syðst sést í hornið á Fiskiðjusamlaginu og yst á bakkanum er Klemma.Nú skora ég á menn sem þekkja að segja okkur sem ekki vita hver á hvaða skúr.

15.04.2007 13:42

Hver er báturinn # 15 2007

Moby Dick eða Fagranesið gamla er báturinn eins og Óskar Franz kom fljótt með hér að neðan. Menn virtust sumir kannast við Flörolínur í skrokknum en Fagranesið var einmitt smíðað í Flöro.


46.Boby dick ex Fagranes.Hver báturinn að þessu sinni ? Síðast sköpuðust skemtileg skrif og kannski áttu menn ekki von á Þórsnesinu aftur en um að gera að skjóta. Gaman að fá þessar örsögur um skipin, halda áfram á þessari braut.

Flettingar í dag: 568
Gestir í dag: 82
Flettingar í gær: 771
Gestir í gær: 113
Samtals flettingar: 9399662
Samtals gestir: 2008174
Tölur uppfærðar: 13.12.2019 13:12:35
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is