Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2007 Mars

27.03.2007 23:15

Bátur vikunnar fékk 30 tonn í netin í dag.

Bátur vikunnar að þessu sinni er Gunnar Hámundarson GK 357 úr Garðinum. Hann var smíðaður árið 1954 í Ytri Njarðvík og er enn í eigu sömu fjölskyldu en fyirtækið heitir í dag Gunnar Hámundarson ehf. Báturinn er 53 brl. að stærð og með 360 hestafla GM aðalvél.

500.Gunnar Hámundarson GK 357.

 

Gunnar Hámundarson GK  var í fréttum á vef Víkurfrétta í kvöld en þar sagði frá mokfiskeríi sem báturinn lenti í í dag. Svona er fréttin af www.vf.is :

Kjaftfylltu bátinn af vænum þorski við Garðskaga
Bræðurnir á Gunnari Hámundarsyni GK frá Garði hafa verið í þægilegu fiskeríi síðustu daga. Þeir hafa verið að koma með örfá tonn á land um miðjan dag og gert sjálfir að aflanum.

Dagurinn í dag varð hins vegar mjög frábrugðinn síðustu dögum því þegar netin voru dregin út af Garðskaga í dag reyndust vera um 30 tonn af vænum þorski í netunum. Það var því ekki komið í landi fyrr en á tíunda tímanum í kvöld og má búast við andvökunótt í aðgerðinni úti í Garði. Báturinn var kjaftfullur af fiski.

Einn af reyndustu skipsstjórum Suðuresja var á bryggjunni í Keflavík í kvöld þegar Gunnar Hámundarson GK kom að landi og sagði hann að ástandið í sjónum nú hafi ekki verið svona gott í ein 30-40 ár.

Gunnar Hámundarson GK er með um 100 tonna kvóta og því hefði veiðiferðin í dag þýtt að um 30% aflaheimilda hafi veiðst á einum degi. Kvótinn er hins vegar löngu búinn og því þarf að leigja kvóta fyrir ævintýri eins og í dag. Þegar ljóst var hvert stefndi í dag var tekið upp og ekki verður róið á morgun.

25.03.2007 23:10

Þorbjörn hf. selur skip.

Þuríður Halldórsdóttir GK 94 seld

Þorbjörn hf. hefur gengið frá samningi um sölu á Þuríði Halldórsdóttur GK 94 til Árbergs ehf. í Grindavík, sem er dótturfélag Ramma hf. á Siglufirði. Jafnframt hefur verið samið um skipti á aflaheimildum á milli félagana þannig að Þorbjörn hf. lætur frá sér allar aflahemildir sínar í humri og einnig nokkuð af aflaheimildum í ýsu en fær í staðinn aflaheimildir í þorski. Þorbjörn hf. mun við þetta hætta allri vinnslu á humri en í þess stað auka vinnslu á þorski.
                                                             www.thorfish.is


1645.Þuríður Halldórsdóttir GK 94 ex Hafnarey SU

22.03.2007 21:51

Bræður kaupa báta til Ísafjarðar.

Frá því segir á vef Bæjarins Besta á Ísafirði að bræðurnir Arnar og Gísli Jón Kristjánssynir hafa báðir nýverið fest kaup á bátum og fært til hafnar á Ísafirði. Arnar keypti tog- og netabátinn Óla Hall HU-14 frá Blönduósi, en hann hét eitt sinn Guðrún Jónsdóttir ÍS. Báturinn sem er 188 brúttórúmlesta stálskip mun verða gerður út á úthafsrækju. Óla Hall keypti Arnar af Ísfirðingnum Hrólfi Ólafssyni sem í eina tíð var stýrimaður á Guggunni. Óli Hall var byggður í Noregi árið 1962. Báturinn er keyptur án kvóta og gerir Arnar ráð fyrir að hefja veiðar með hækkandi sól.


67.Óli Hall HU 14 ex Hafberg GK 377.Aldan ÍS-47 er báturinn sem Gísli Jón hefur keypt. Aldan var byggð í Noregi 1987 og innflutt 1988 og hét þá Arnar KE 260. Báturinn var lengdur á Seyðisfirði árið 1996 og er nú 59,7 brúttórúmlesta dragnóta- og togbátur. Báturinn hét síðast Guðrún Jakobsdóttir og var gerður út frá Dalvík. Bátnum fylgdu ekki aflaheimildir aðrar en þær sem leigðar höfðu verið á hann fyrir árið en það eru rúmlega 65 þorskígildistonn. Aldan verður gerð út á dragnót, þá aðallega á ýsuveiðar jafnframt því sem hún kemur til með að fiska í þorskeldi fyrir Álfsfell ehf.


1968.Guðrún Jakobsdóttir EA 144 ex María Pétursdóttir VE 14.
Nú Aldan ÍS 47.


22.03.2007 19:44

Oddi hf. kaupir Brimnes BA 800

Fiskvinnslan Oddi á Patreksfirði hefur keypt bát og kvóta útgerðarfélagsins Bjargs á Patreksfirði. Um er að ræða vélbátinn Brimnes, sem er 80 tonn að stærð, og aflaheimildir upp á tæplega 400 þorskígildistonn. Kaupverð er tæplega 800 miljónir. Þar með er tryggt að þessar aflaheimildir verða kyrrar í byggðarlaginu. Sigurður Viggósson, framkvæmdastjóri Odda, segist gera ráð fyrir því að Brimnesið verði áfram gert út frá Patreksfirði en skipið hefur bæði verið á snurvoð og línu. Góður afli hefur verið hjá Patreksfjarðarbátum að undanförnu en stórar brælur hafa gert mönnum erfitt fyrir. Steinbíturinn er aðeins farinn að láta sjá sig á miðum Patreksfirðinga og orðinn sæmilega feitur
www.ruv.is


1527.Brimnes BA 800

22.03.2007 19:39

Góður gangur hjá Páli Jónssyni GK 7

Góður gangur hefur verið að undanförnu á beitningavélabátnum Páli Jónssyni GK 7 sem er í eigu Vísis hf. Á dögunum kom báturinn til heimahafnar í Grindavík með metaflaverðmæti.
Aflinn í þessum róðri var 105.487kg og aflavermætið var 15.5 milljónir. Aflinn skiptist þannig að þorskur var 57 tonn, ýsa 8 tonn, langa 25 tonn, keila 8,5 tonn og annar afli var 7 tonn. Veiðiferðin stóð yfir í rétt rúma 5 daga og gerir það aflaverðmæti uppá 3 milljónir á dag.
 
Á heimasíðu útgerðarinnar segir að þess beri að geta að fiskverð hefur hefur hækkað talsvert frá fyrra ári og má nefna að ýsuverð hefur hækkað um tæp 57%, og þorskur hefur hækkað um 47%. Má því að líkum láta að þetta aflamet verði slegið von bráðar.
 
Gísli Jónsson skipstjórinn á Páli Jónssyni, var að sögn ánægður með róðurinn þó svo að hann hefði viljað hafa meiri afla.


1030.Páll Jónsson GK 7.

20.03.2007 22:42

Bátur vikunnar er nýr togbátur.

Bátur vikunnar er nýr togbátur sem kom til heimahafnar í Vestmannaeyjun á dögunum. Vestmannaey VE 444 heitir hann og er í eigu Bergs-Hugins hf. Myndirnar tók Guðmundur Alfreðsson útgerðarstjóri fyrirtækisins og kann ég honum bestu þakkir fyrir lánið.

                                              2444.Vestmannaey VE 444.  

Vestmannaey VE 444 er smíðuð í Póllandi og telst vera svokallað 3ja mílna skip, þ.e.a.s. skipið má veiða upp að þrem sjómílum frá landi .   Bergur-Huginn hf. á annað svona skip í smíðum, Bergey VE og svo er Gjögur hf. með einn svona, Vörð EA, í smíðum. 

Frétt frá komu skipsins á eyjavefnum eyjar.net :http://www.eyjar.net/?p=101&id=8936Skip Bergs-Hugins hf, Smáey VE og frystitogarinn Vestmannaey VE fóru til móts við nýju Vestmannaey VE og fylgdu henni síðasta spölinn til hafnar eftir siglinguna frá Póllandi.
19.03.2007 22:42

Ekki farinn fyrir stapann.

Arnar Sigurðsson á Húsavík sendi mér þessa mynd sem hann tók í Stykkishólmi sl. haust og sýnir trillubát. Tilefnið er að hér fyrir neðan er mynd af nokkrum trillum upp á landi á Húsavík. Í einni athugasemd við þá mynd er sagt að sennilega séu þær farnar fyrir stapann en myndin hans Arnars sýnir einmitt eina af þessum trillum. Það er trilla sem faðir hans, Sigurður Sigurðsson landskunnur skipstjóri m.a. á Erninum KE, átti og Vinur hét.


Gustur

15.03.2007 22:07

Gamla mynd vikunnar er frá Húsavík.

Gamla myndin að þessu sinni var tekin að ég held 1989, þarna eru húsvískar trillur upp á landi við smábátahöfnina.

Hvaða trillur eru þetta Þ.A ?

14.03.2007 21:32

Vélbáturinn Stanley

nú langar mig að forvitnast um það hvort einhver sem les þessa síðu mína þekkir sögu fyrsta vélbátsins á Íslandi. Þetta er eins og flestir vita Stanley frá Ísafirði en það sem mér liggur forvitni á að vita er eftir hverjum er báturinn skírður ? Þessari spurningu var beint að mér í dag vegna konu sem er að gera ritgerð um Stanley og hefur hvergi fundið hvernig nafnið er komið til.

13.03.2007 21:29

Bátur vikunnar er skuttogari og var í fréttum í dag.

Bátur vikunnar er skuttogari sem var í fréttum í dag. Þetta er Sóley Sigurjóns GK 200 í eigu Nesfisks í Garði.


                                                      1481.Sóley Sigurjóns GK 200 ex Eldeyjar Súla KE 20.

Sóley Sigurjóns GK strandaði á sandrifi þegar það mætti öðru skipi er það var að sigla inn í Sandgerðishöfn á sjöunda tímanum í morgun. Skipstjórinn brá skjótt við þegar hann sá Sigurfara GK 138, sem einnig er í eigu Nesfisks koma út úr höfninni, og bakkaði á fullu líkt og skipstjóri Sigurfara og með því forðuðu þeir árekstri skipanna. Við þetta fór togarinn af leið og tók niðri en giftusamlega tókst að losa hann af strandstað.
 Fréttir af strandinu náðu til athygli fréttavefsins dagur.net á Dalvík eins og hér segir:


Þriðjudagur 13. mars 2007 10:51
Togari strandar í Sandgerðishöfn.
Farsælt skip sem keypt var til Dalvíkur fyrir 30 árum.

Sagt hefur verið frá því í fréttum að snemma í morgun strandaði togarinn Sóley Sigurjónsdóttir GK í innsiglingunni við Sandgerðishöfn. Giftusamlega gekk að losa togarann af starndstað. Strandið í Sandgerðishöfn náði eyrum okkar hér á Degi sérstaklega fyrir það að þessi togari var eitt sinn gerður út frá Dalvík og hét þá Dalborg EA 317. Af þessu tilefni ætlum við að fara í smá sögulega upprifjun.


1481.Dalborg EA 317 ex Lucia Garrau.

 

Um þessar mundir eru liðin 30 ár frá því Dalborg EA 317 lagði af stað frá Italíu nánar tiltekið frá Caglíarí á Sardeiníu þaðan sem skipið var keypt. Á Ítaliu hét skipið Lucia Garrau og var byggt árið 1971  í Genua og þá sem rækjutogari. Skipið hafði verið á veiðum við strendur Senegals. Söltunarfélag Dalvíkur hf sem þá rak rækjuvinnsluna á Dalvík var kaupandi skipsins.

Frá Ítalíu fór skipið til Fridrikshavn í Danmörku þar sem vinnsluvélar fyrir rækju voru settar um borð og það endurbyggt að nokkru. Hingað til lands kom svo skipið í enda júní þetta ár (1977) fyrsti rækjutogari í eigu Íslendinga. Snorri Snorrason var skipstjóri á skipinu við rækjuveiðarnar en hann er viðurkenndur frumkvöðull á sviði úthafsveiða á rækju og Dalborg EA 317 allatíð verið samofin sögu hans og þessara veiða. Dalborg sem nú heitir sem sagt Sóley Sigurjónsdóttir GK hefur alla tíð verið hagkvæmt skip í rekstri og útgerð þess mjög farsæl til dæmis má geta þess að enn er sama aðalvélin í togaranum og var í upphafi, sem sagt 35 ára gömul 1000 hö Deutz vél.

www.dagur.net

Myndina hér að ofan tók ég á Akureyri eftir að togarinn fór í breytingar í Slippstöðinni þar sem ma. var skipt um brú á því. Held að þetta hafi verið 1987.
Síðar var Dalborgin seld Eldey hf. í Keflavík þar sem skipið fékk nafnið Eldeyjar Súla KE 20 og nokkrum árum seinna keypti Nesfiskur hf. skipið og hefur það farið í gegnum miklar breytingar eins og sjá má á myndunum.


                                                                    1481.Eldeyjar Súla KE 20 ex Dalborg EA 317.

Er þetta eina fiskipið sem verið hefur í íslenska flotanum sem smíðað var á Ítalíu ?


12.03.2007 15:37

Ný Dögg SF til Hafnar í Hornafirði.

Ný yfirbyggð Cleopatra 38 til Hafnar í Hornafirði

Útgerðarfélagið Ölduós á Höfn fékk í byrjun mánaðarins afhentann nýjan Cleopatra 38 línubeitningavélarbát.
Að útgerðinni stendur Vigfús Vigfússon.

Nýji báturinn hefur hlotið nafnið Dögg SF 18 og leysir af hólmi eldri bát með sama nafni. Báturinn er 15brúttótonn og 11.9brúttórúmlestir og er í krókaaflamarkskerfinu. Báturinn er með yfirbyggðu vinnudekki. Línubeitingarvél og rekkakerfi af gerðinni Mustad frá Sjóvélum hf. Línu og færaspil er frá Beiti.

Aðalvél bátsins er af gerðinni Yanmar 6HYM-ETE 700hp tengd ZF gír.
Báturinn er útbúinn siglingatækjum af gerðinni Furuno frá Brimrún. AIS staðsetningartæki kemur frá Sónar.
Báturinn er einnig útbúin með hliðarskrúfu sem tengd er sjálfstýringu bátsins.
Öryggisbúnaður bátsins kemur frá Viking.

Rými er fyrir 12stk 460lítra kör í lest í tveimur hæðum. Í bátnum er upphituð stakkageymsla. Borðsalur er í brúnni auk stóla fyrir skipstjóra og tvo skipverja. Svefnpláss er fyrir fjóra í lúkar auk eldunaraðstöðu með eldavél, örbylgjuofn og ísskáp.

                                                                                                                                                                                                         www.trefjar.is

11.03.2007 22:22

Eiríkur frændi

Eiríkur frændi minn Guðmundsson, eða Eiki Umma eins og við köllum hann alla jafna, rær þessi misserin á línuskipinu Sighvati GK 57.
Eiki, sem búsettur er um þessar mundir í Danaveldi, sendi mér nokkrar myndir teknar um borð í Sighvati í janúar sl.og hér er ein þeirra. Fyrirsæturnar eru Eiríkur sjálfur th. og þorskur einn sem seint hefði verið kallaður "norðlendingur".


10.03.2007 22:34

Hver er báturinn # 12 2007

Þetta er Haförn EA eins og kom snemma fram.

1334.Haförn EA 155.


Hver er báturinn ?

07.03.2007 21:05

Gamla mynd vikunnar er frá Húsavíkurhöfn.

Gamla mynd þessarar vikur er tekin við Húsavíkurhöfn einhvern tímann á árunum 1983-1985 held ég. Báturinn við bryggjuna er Lundey ÞH 350, eigandi Kristbjörn Árnason betur þekktur sem Bóbi á Sigurði. Þarna er hann að landa loðnu og ætli Árni Björn hafi ekki verið með honum (sonur hans). Aðalbjörn Þormóðsson (Addi Manna) stendur aftur í bátnum og fylgist með og Svavar Cesar stendur á bryggjutrénu (vörubílinn hans er í baksýn svo hann hefur verið á stöðinni á þessum tíma). Fiskiðjusamlagsmennirnir Ólafur Bjarnason og Aðalgeir Þorgrímsson rölta upp bryggjuna og Stefán í Steindal stendur hugsi þarna lengst til hægri. Ef mig misminnir ekki var hann með Óskari frænda mínum á Guðrúnu Björgu ÞH 355.

06.03.2007 19:13

Krókaaflamarksbátar í Grindavík og Húsavík margfalda afla sinn

Á vef Landssambands smábátaeigenda, www.smabatar.is, er eftirfarandi frétt í dag:

Krókaaflamarksbátar í Grindavík og Húsavík margfalda afla sinn
Þetta kemur m.a. fram í svari sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Guðjóns Hjörleifssonar (D) um afla krókaaflamarksbáta. Guðjón spurði: Hver var heildarafli línubáta á krókaaflamarki fiskveiðiárin 2001/2002 og 2005/2006, sundurliðaður eftir heimahöfn?

Á sl. fiskveiðiári skipuðu bátar frá Grindavík, Ólafsvík, Bolungarvík, Flateyri og Húsavík sér í 5 efstu sætin. Afli báta með heimahöfn í Grindavík jókst gríðarlega á þeim 4 árum sem fyrirpurnin náði til eða um 6.040 tonn. Þeir veiddu á sl. ári alls 8.519 tonn og skáru sig nokkuð úr frá bátum frá Ólafsvík sem komu næstir með 5.887 tonn.

Mikla athygli vekur afli línubáta í krókaaflamarki sem eiga heimahöfn á Húsavík, afli þeirra fiskveiðiárið 2001/2002 var aðeins 261 tonn, en á sl. ári var aflinn 3.203 tonn. Þannig færist Húsavík úr 35. sæti af 72 stöðum sem hýsa bátana í 5. hæsta sjávarplássið yfir afla þeirra. Vægi krókaaflmarksbáta á Húsavík er því orðið umtalsvert í atvinnulífi staðarins. Bjóðin tekin á land.

Flettingar í dag: 498
Gestir í dag: 74
Flettingar í gær: 995
Gestir í gær: 134
Samtals flettingar: 9257745
Samtals gestir: 1995364
Tölur uppfærðar: 26.8.2019 10:02:14
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is