Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2007 Febrúar

10.02.2007 18:00

Ístöltskeppni Grana við Kaldbak.

Setti inn albúm með myndum sem ég tók í dag við Kaldbak þar sem Hestamannafélagið Grani stóð fyrir ístöltskeppni.

Jóhannes Jónsson á Slaufa.

Í dag stóð Hestamannafélagið Grani fyrir keppni í ístölti á ísilagðri tjörn við Kaldbak á Húsavík. Aðstaða til keppninnar var frábær og ekki spillti veðrið fyrir, glampandi sól og stillt.
 
Til keppni mættu tveir tugir knapa á hrossum sínum og eftir harða keppni stóð Gísli Haraldsson á Bjarklind uppi sem sigurvegari. Í öðru sæti var Kristján Sigtryggsson á Garra.
Jafnir í 3-5 sæti voru þeir Vignir Sigurólason á Hanska. Jóhannes Jónsson á Slaufa og Stefán Haraldsson á Glað.
 
Að keppninni lokinni buðu þau hjón í Kaldbak, Sigurjón Benediktsson og Snædís Gunnlaugsdóttir, upp á heitt kakó ofl. veitingar í Kaldbak en þar reka þau hjón ferðaþjónustu af miklum dug.
 
Ef þeir sem kepptu vilja geta þeir skrifað inn athugasemdir við myndir af hestum sínum í albúminu, t.d.  þar sem fram komi nafn þeirra, aldur og ættir. 

10.02.2007 12:13

Lindi hjálpar til með bjóðin.

Lindi, eða Vilberg Lindi Sigmundsson, er hér að aðstoða þá feðga á Sigga Valla ÞH að koma bjóðunum í skúrinn eftir róður á dögunum.

07.02.2007 23:00

Húsavíkurhöfn í dag.

Frá Húsavíkurhöfn í dag.

06.02.2007 22:25

Álaborg ÁR seld til Eyja.

Vísir, 06. feb. 2007 13:48

Álaborg seld með kvóta frá Þorlákshöfn

mynd

Álaborg ÁR-25
MYND/Hafþór Hreiðarsson

Bergur Huginn í Vestmannaeyjum hefur keypt tog- og netabátinn Álaborg ÁR 25 af Eyrum ehf. í Þorlákshöfn. Báturinn er seldur með öllum kvóta, sem er 364 þorskígildistonn. Álaborg er 138 brúttórúmlestir, smíðuð á Ísafirði árið 1974. Aðalvél er 761 ha. Caterpillar. Kaupverð fæst ekki uppgefið en það mun nema hundruðum milljóna króna. Það var skipamiðlunin Bátar og kvóti, sem annaðist söluna.

Þessi frétt hér að ofan var á www.visir.is í dag og að sjálfsögðu var myndin notuð í heimildarleysi, það hefur verið svo í þau skipti sem ég hef átt mynd á Vísi/Fréttablaðinu.

Það sem ég rek augun í í þessari frétt er að báturinn er sagður seldur frá Þorlákshöfn, keyptur af Eyrum ehf. þar í bæ. Samkvæmt bæði Fiskistofu og www.skip.is er eigandi bátsins sem fyrr Fiskiver á Eyrarbakka. Miðað viðað það sé rétt er þarna verið að selja helming alls fiskiskipaflota eyrbekkinga, einungis Máni ÁR 70 eftir.

1359.Álaborg ÁR 25 ex Sólborg RE.

Álaborgin er 138 brl. stálskip smíðað á Ísafirði 1974 og hét upphaflega Sturlaugur II ÁR.


06.02.2007 21:54

Bátur vikunnar #5 2007

Bátur vikunnar er einn af þeim síldarbátum sem smíðaðir voru fyrir íslendinga í Boizenburg A-Þýskaland. Þetta er 1035 Heimaey VE 1 sem upphaflega hét Náttfari ÞH 60 og var í eigu Útgerðarfélagsins Barðans hf. á Húsavík. Náttfari kom til landsins 1967. 1978 var hann skráður Náttfari RE 75 og Útgerðarfélagið Barðinn staðsett í Kópavogi. 1980 er Náttfari seldur Hraðfrystistöð Vestmannaeyja, nú Ísfélagið, og fær nafnið Heimaey VE 1. Ef ég man rétt var um skipaskipti að ræða, Útgerðafélagið Barðinn hf. fékk Heimaey VE 1 (1213) upp í en sá bátur var smíðaður hjá Slippstöðinni hf. á Akureyri.

1035.Heimaey VE 1 ex Náttfari RE 75.

Ég átti nú enga nýrri mynd af Heimaey enda ekki komið til Vestmannaeyja nema einu sinni og þá til að fara á Þjóðhátíð. Það er talsvert búið að breyta bátnum, m.a. komin pera, nýr skutur og brúnni breytt.

Heimaey er í fréttum í vikunni þar sem Ísfélagið hefur lagt bátnum eins og kemur fram á heimasíðu félagsins 5.2.2007 :

Heimaey VE kveður

Heimaey VE 1 kom til Eyja síðastliðin fimmtudag úr sinni síðustu veiðiferð fyrir Ísfélag Vestmannaeyja. Afli veiðferðarinnar var um 40 kör. Fyrr í vetur var tekin sú ákvörðun að leggja Heimaey VE. Skipið hefur verið gert út frá Vestmannaeyjum í hartnær 30 ár en það var keypt til Hraðfrystistöðvar Vestmannnaeyja árið 1980 sem síðar var eitt þeirra fyrirtækja sem myndaði sameinað Ísfélag Vestmanneyja hf.

Það verða viðbrigði fyrir þá sem stunda bryggjurnar í Eyjum að sjá enga Heimaey VE lengur. Skipið sem var byggt árið 1967 í Þýskalandi hefur reynst gott aflaskip í gegnum tíðina og hefur verið gert út á margskonar veiðiskap, meðal annars fiskitroll, net, nót og flottroll. Síðustu árin hefur Heimaey VE aðallega verið á ísfiskveiðum og landað aflanum til vinnslu í frystihúsi Ísfélagsins. Ekki er langt síðan Heimaey var gerð út á vetrarloðnuvertíð. Heimaey hefur ávallt verði mikið aflaskip og þess má m.a. geta að Hörður  heitinn Jónsson var fiskikóngur Vestmannaeyja með Heimaey VE árið 1983, en í þá daga var sá fiskikóngur sem afli best í tonnum talið á hefðbundinni vetrarvertíð. Af öðrum skipstjórum á Heimaey VE má nefna Sigurð Georgsson sem var með skipið frá 1991 til loka árs 2000 og síðan Sigurjón Ingvarsson sem tók við skipinu af Sigurði og hefur stýrt því síðan.

06.02.2007 17:32

Krossanesverksmiðjunni á Akureyri lokað.

Krossanesverksmiðjunni á Akureyri lokað

Það fór eins og marga grunaði að Ísfélag Vestmannaeyja myndi loka í Krossanesi í framhaldi af kaupum félagsins á Hraðfrystistö Þórshafnar. Fram kemur á heimasíðu félagsins í dag að tekin hafi verið sú ákvörðun að loka fiskimjölsverksmiðju félagsins á Krossanesi við Eyjafjörð. Þessi ákvörðun sé tekin í framhaldi af kaupum Ísfélagsins á Hraðfrystistöð Þórshafnar í síðustu viku og vegna sífellt minna hráefnis til bræðslu.Ísfélagið segir, að verkefni Krossnesverksmiðjunnar hafi minnkað mjög mikið á síðustu 3 árum vegna minnkandi loðnuveiði og svo hafi verið komið, að einungis var tekið á móti um 14.000 tonnum af hráefni í verksmiðjuna á síðasta ári. Ekki hafi verið tekin endanleg ákvörðun um hvað gert verður við verksmiðjuna en væntanlega verði hluti af tækjabúnaðnum notaður til að endurbæta verksmiðjurnar á Þórshöfn og í Vestmannaeyjum, en annað selt.

Hér er ein nokkurra ára gömul sem sýnir skip Ísfélagsins Guðmund og Antares við bryggju í Krossanesi.

 

04.02.2007 12:25

Björn Jónsson ÞH 345.

Netabáturinn Björn Jónsson ÞH 345 frá Raufarhöfn kom til viðgerða á Húsavík sl. föstudag og var honum kippt upp á Norðurgarðinn af gámalyftara Alla Geira hf. Þar unnu starfsmenn vélaverkstæðisins Gríms að viðgerðinni. Björn Jónsson var keyptur til Raufarhafnar á sl. ári frá Grindavík en þar hét hann lengst af Árni í Teigi GK 1 í eigu Víkurbergs ehf. En eftir að nýji Árni í Teigi kom hét báturinn Jói Bergs GK 33 þar til hann var seldur  Útgerðarfélaginu Röðli ehf. á Raufarhöfn.

2390.Björn Jónsson ÞH 345 ex Jói Bergs GK 33.

2390.Árni í Teigi GK 1.

03.02.2007 12:26

Hver báturinn # 10 2007


Raggi P í Grindavík kom fyrstur með rétt svar, þetta er Haförn SK 17 nú Skálafell ÁR 50.
Hver er báturinn ?
Menn eru enn á villigötum með þennan svo ég læt næstu mynd inn:

02.02.2007 17:24

Nýr bátur í höfn á Kópaskeri.

Nýr bátur í höfn á Kópaskeri.

Á fréttavefnum www.dettifoss.is segir frá því að nýr bátur hafi komið til Kópaskers. Ekki kemur nafn hans fram í fréttinni en um Frey ÍS mun vera að ræða. Freyr hét eitt sinn Huldu Keli ÍS en svona er fréttin:

"Fyrirtækið Axarskaft ehf kom með sinn annan bát sem það hefur í rekstri hingað til Kópaskers í dag.  Báturinn er af Kleópötugerð og er um 14 tonn.  Áður hafði komið um 7 tonna bátur fyrir nokkrum mánuðum.   

Báðir eru bátarnir á línuveiðum, sá stærri er með beitningarvél um borð en fyrir þann minni er beitt í landi.  Allur afli af þessum bátum verður að minnsta kosti slægður á Kópaskeri. Þessi uppbygging hér á Kópaskeri í útgerð kemur í framhaldi af því að Öxarnúpur ehf sem kom hér á fót fiskmarkaði og slægingu ásamt fleiru fyrir nokkrum árum hefur gengið þokkalega.  Nú er svo komið að tvær fölskyldur eru fluttar hingað og nokkrir einstaklingar.  Von er um að jafnvel fleiri fjölskyldur komi.  Allt er þetta af þeim litla sprota sem Öxarnúpur ehf var hér í upphafi. Er þetta svo orðið til þess að hér fer að verða húsnæðisskortur".

01.02.2007 22:15

Bátur vikunnar #4 2007

Bátur vikunnar, í síðustu viku, er stálbátur smíðaður á Neskaupsstað og Stykkishólmi 1979 (skrokkurinn á Neskaupsstað1978 ?) Gullfaxi SH 125 hét báturinn í upphafi og eigandi Kristinn Arnberg Sigurðsson í Grundarfirði. Gunnar Jónasson í Garðabæ kaupir bátinn 1980. 1981 er hann seldur norður á Árskógssand, til feðganna Konráðs Sigurðssonar, Gunnlaugs Konráðssonar og Sigurðar Konráðssonar og nefndu þeir bátinn Særúnu EA 251. Síðar seldur til Patreksfjarðar þar sem hann fékk nafnið Brimnes BA 800. Skutlengdur í Slippstöðinni á Akureyri.

1527.Brimnes BA 800 ex Særún EA 251.

1527. Særún EA 251 og 1417. Sólrún EA 151 við bryggju á Árskógssandi.

1527.Særún EA 251 ex Gullfaxi SH 125.

Þann 20 nóvember 1999 var frétt í Morgunblaðinu sem sagði frá því er Brimnesið var tekið inn í Slippstöðvarhúsið á Akureyri til breytinga. Þar kom m.a. þetta fram

"LÍNU- og dragnótaskipið Brimnes BA-800 frá Patreksfirði var dregið af sjó inn í nýsmíðaskemmu Slippstöðvarinnar á Akureyri í fyrrakvöld en þetta er í fyrsta skipti sem skip er tekið þá leið inn í skemmuna. Áður hafði mörgum skipum sem smíðuð voru í Slippstöðinni verið rennt út úr skemmunni og í sjó. Síðasta skipið sem fór þá leiðina var skuttogarinn Þórunn Sveinsdóttir VE".

Þá kom einnig fram að báturinn yrði skutlengdur um tvo metra, skipt um aðalvél auk fleiri minniháttar verka.

01.02.2007 21:38

Hver er báturinn # 7 2007

Patricia III var skipið.

Skipið kom og landaði hér á Húsavík afla úr Barensthafi og var Júlíus Sólnes einn útgerðarmanna skipsins.

Hver er báturinn að þessu sinni ? eða réttara sagt skip ?

01.02.2007 20:58

Er síðasti óbreytti síldarbáturinn að fara úr landi ?

Er síðasti óbreytti síldarbáturinn að fara úr landi ?

Raggi P segir á síðu sinni www.123.is/raggip að svo geti orðið.

Þessi bátur er 1000 Eldhamar GK 13 sem í upphafi hét Seley SU, síðar Flosi ÍS og þá Guðmundur Kristinn SU og að lokum Kristján RE áður en hann fékk Eldhamarsnafnið.

Eldhamar GK 13 kemur að landi í Grindavík fyrir nokkrum árum.

Þeir segja á spjallinu hjá Ragga að búið sé að selja Eldhamar til Króatíu þar sem hann verði notaður í ferðamannaiðnaðinum.

 

Flettingar í dag: 155
Gestir í dag: 39
Flettingar í gær: 1100
Gestir í gær: 132
Samtals flettingar: 9395896
Samtals gestir: 2007465
Tölur uppfærðar: 8.12.2019 03:34:52
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is