Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2007 Febrúar

25.02.2007 11:52

Gamla mynd vikunnar

Gamla mynd vikunnar er tekin einhvern tímann á árunum 1983-1985, Skálabergið, sem var á snurvoð, kom inn um hádegisbil og karlarnir tóku voðina á land til viðgerðar. Varðandi það hvenær ég tók myndina þá var Skálabergið í útgerð hér til haustsins 1985. Ég keypti myndavélina sem ég tók þessa mynd í ágúst 1983 þannig að myndin er tekin þarna á milli. Ég hallast jafnvel að því að hún sé tekin í janúar 1984 þrátt fyrir snjóleysið.

25.02.2007 11:22

Hver er báturinn # 10 2007

Raggi P úr Grindavík var fyrstur með rétt svar. Þetta er Haförn SK 17 nú SkálafellÁR 50.

  

Hver er báturinn að þessu sinni ?

24.02.2007 19:20

Árshátíð Framhaldsskólans á Húsavík

Í gærkveldi var árshátíð Framhaldsskólans á Húsavík, FSH, haldin á Fosshótel Húsavík. Ég fór og tók myndir afárshátíðargestum fyrir nemendafélagið og eru þær myndir komnar inn í albúm hér á síðunni. Ég komst að því  við þessa myndatöku, hafði að vísu alltaf grunað það, að húsvísk ungmenni eru glæsileg upp til hópa og ekkert nema gaman að mynda þau. Sérstaklega var gaman að mynda Bjarka frænda minn Baldvinsson og bakaradrenginn Hallgrím.

Erling vinur minn Þorgrímsson er hér dreyminn á svip með með glæsimeyjar til beggja handa.

23.02.2007 19:04

Hver er báturinn #9 2007

Þ.A hafði rétt fyrir sér, þetta er 1103 Otur EA 162.

1103.Otur EA 162.

Otur var síðar seldur til Vestmannaeyja gerður þar út í nokkur ár undir nafninu Bjarmi VE. Bjarmi VE sökk vestur af Þrídröngum þann 23 febrúar 2002. Fjórir menn voru í áhöfn bátsins sem verið var að sigla til nýrrar heimahafnar í Grindavík. Tveir menn fórust en tveir komust lífs af úr þessu hörmulega sjóslysi.

 

Eru menn engu nær ?

 

Hvað er þetta eru menn alveg andlausir ?

Hver er báturinn ?

22.02.2007 23:57

Söngvakeppni FSH

Söngvakeppni FSH fór fram á Fosshótel Húsavík í kvöld. Hér eru myndir af þeim sem lentu í þrem fyrstu sætunum. Læt fleiri myndir inn í albúm við tækifæri, m.a. af Newcastle áhangandanum Bergi Jónmundssyni.

1. sæti Elís Már Guðvarðarson

Í öðru sæti Halla Marín Hafþórsdóttir.

Í þriðja sæti Elísabet Anna Helgadóttir. Hanna Jóna Stefánsdóttir sá um dansatriði við þetta lag.

 

22.02.2007 19:42

Nýr bátur til Dalvíkur.

www.dagur.net greinir frá því að nýr bátur hafi bæst við flota Dalvíkinga. Það er Þorkell Árnason GK 31 sem fær nafnið Darri EA 52.

1231.Þorkell Árnason GK 31.

Fréttin á dagur.net er svohljóðandi:

Miðvikudagur 21. febrúar 2007 12:22
 
Nýr bátur til Dalvíkur
Dalorka ehf. nýtt hlutafélag í eigu Steinars Agnarssonar og Jóns Arnar Þórðarsonar á Dalvík hefur fest kaup á tæplega 90 tonna bát og kom hann til heimahafnar á Dalvík sl. sunnudagsmorgun. Báturinn hefur fengið nafnið Darri EA 32, en hét áður Þorkell Árnason GK-21 og var gerður út frá Garði. Darri EA 32 er 90 tonna stálbátur smíðaður á Neskaupsstað árið 1972, en síðan var byggt yfir hann árið 1991. Samkvæmt upplýsingum Steinars Agnarssonar verður 4-5 manna áhöfn á Darra og gert út á línu. Gert er ráð fyrir að 8-10 manns fái vinnu í landi við beitningu og verið er að ganga frá aðstöðu til að beita í nyrðri verbúðinni við Dalvíkurhöfn. Verið er að gera skipið klárt til veiða og standa vonir til að hægt verði að fara prufutúr um helgina. Steinar segir að aflanum verði landað á Dalvík að stærstum hluta í föstum viðskiptum við þrjá aðila, sem hann vildi ekki nafngreina, en aukfiskur fer á markað. Ekki fékkst uppgefið hvort kvóti hefði fylgt með í kaupunum, en Steinar sagði að Dalorka ehf. hefði yfir nægum aflaheimildum að ráða til að halda Darra EA til veiða.

18.02.2007 23:01

Bátur vikunnar var seldur til Grænlands.

Bátur vikunnar var smíðaður fyrir Gísla Val Einarsson skipstjóra og útgerðarmann í Vestmannaeyjum 1988. Það var gert í Svíþjóð og mældist báturinn, sem hét Björg VE 5, 123 brl. og kom hann í stað eldri trébáts með sama nafni. Útgerð Bjargar VE var síðan sameinuð Vinnslustöðinni 2002 og Björgin seld til Breiðdalsvíkur í framhaldi af því. Björgin fékk einkennisstafina SU 3 og var gerð út á rækju en var síðar seld til Grænlands.

1935.Björg SU 3 ex Björg VE 5.

18.02.2007 00:44

Víst flaut Húsvíkingur...........

Víst flaut Húsvíkingur ÞH 1 við bryggju á Húsavík þó annað sé fullyrt í áliti við næstu færslu hér að neðan. Hann flaut nánar tiltekið við Norðurgarðinn. Það voru auðvitað slæm hafnarskilyrði fyrir svona stórt skip á Húsavík og varð að sæta lagi vegna veðurs. En Húsvíkingur kom a.m.k. í tvígang minnir mig til Húsavíkur og landaði þar og sannar myndin hér að neðan mál mitt hvað það varðar.

2216.Húsvíkingur ÞH 1 í heimahöfn.

Hvað varðar byggingu Bökugarðsins þá var nú einnig horft til skemmtiferða- og flutningaskipa. Lokun Kísiliðjunnar við Mývatn gerði það að verkum að Eimskip hætti strandsiglingum. Hefur það m.a. orðið til þess að frestað hefur verið að klára þessa framkvæmd en nú er horft til stóriðju við Húsavík og ef af henni verður er ráðgert að gera annan og mun stærri garð með stórskipahöfn nokkru norðan við þennan og þessi svæði samtengd.

Húsavíkurhöfn í september 2002.

17.02.2007 18:19

Gamla myndin #1 2007

Gamla myndin er að þessu sinni frá því í ágúst 1983. Hún er tekin við Húsavíkurhöfn og sýnir tvo báta Korra hf., annars vegar Kristbjörgu ÞH 44  og hinsvegar Geira Péturs ÞH 344. Kristbjörgin er þarna að landa úthafsrækju og verið er að taka trollið á Geira Péturs í land en hann var á fiskitrolli. Það sést í Sigþór ÞH 100 á bak við Geira Péturs og sunnan á bryggjunni liggur eittvert skipa Sambandsins sáluga.

Það er margt breytt frá þessum tíma, Korri hf. horfinn af sviðinu, Sambandið einnig. Geiri Péturs sokkinn (hét þá Una í Garði GK 100) og Sigþór farinn í brotajárn eftir eldsvoða um borð(hét þá Valur GK 6). Á myndinni sjást tveir bílar frá Bifreiðastöð Húsavíkur sem löngu er fallin í dá.Eymundur Kristjánsson er að taka rækjuna úr Kristbjörginni og Garðar Þórðarson að vinna við á Geira Péturs(báðir á Volvo). Fyri þá sem eru áhugasamir um vörubíla þá er mér sagt að þessir bílar séu báðir til enn þann dag í dag. Bíll Eymundar fór austur á Langanes og bíll Garðars fram í Aðaldal. Myndina tók ég á mína fyrstu SRL myndavél af Mamya gerð, hana keypti ég í Hljóð og Sport sem K.Þ rak á sínum tíma og eins og menn vita hætti Hljóð og Sport og K.Þ. fór á hausinn. (Reyndar knúið í gjaldþrot til að bjarga KEA segja fróðugir menn).

 

16.02.2007 21:02

Guðrún Þorkelsdóttir SU verður Lundey NS.

 

Samkvæmt frétt af heimasíðu HB Granda þann 9.2 mun Guðrún Þorkelsdóttir SU 211 ex Jón Kjartansson SU 111 fá nafnið Lundey NS 14. Skipið er nú í Reykjavík þar sem verið er að gera það klárt til veiða.

Svona gæti Lundey litið út, reyndar verður hún dekkri og þessar miður fallegu Granda strípur nennti ég nú ekki að gera. Ingunn AK er með skyggnið rautt en á flestum hinum skipunum er það hvítt. Skil ekki svona hringl.

 

 

15.02.2007 14:14

Ég veit að dallurinn er að fara niður.

1556.Arnarnúpur ÞH 272.
Guðmundur Vilhjálmsson sem nú býr á Húsavík var vélstjóri á Arnarnúp ÞH 272 vorið 1995 þegar skipið fór til veiða í síldarsmugunni. Hann sendi mér myndir sem húsvíkingurinn Guðmundur Sigurðsson tók og eftirfarandi línur:
Ég var vélstjóri á skipinu þegar þetta var og reyndar yfirvélstjóri í þessum túr. Þarna var margt Húsvískra sjómanna, Þórður Birgisson var annar stýrimaður og sést á mynd 2 krjúpa á lunningunni. Ásþór Sigurðsson sést á sömu mynd upp í mitti í sjó. Siggi Brill var kokkur og svo var ég í vélinni, ekki orðinn Húsvíkingur þá.
Þessi dallur var alveg skelfilegur.  Honum var breytt úr dauðþreyttum skuttogara í nótaskip á 5 vikum, einn daginn var bara farið á síld úr slippnum og allt óklárt.  Það lá svona mikið á vegna kvótasetningar og skipið fór á veiðar þó að hvorki væri búið að stöðugleikaprófa hann eða finna út hvort hann flyti undir farmi.  Svo var verulega ábótavant frágangi milli lestar og íbúða og blóðvatnið sprændi um allt.
Á þessum myndum vorum við búnir að fylla og þá maraði dallurinn svona í kafi með töluverða stjórnborðsslagsíðu.  Svo voru 300 tonn af síld enn í nótinni og voru á góðri leið með að draga skipið niður.  Mér er það minnisstætt að þegar hér var komið við sögu kallaði ég í yfirstýrimanninn sem þá var Gylfi Baldvins á Árskógssandi, "Heyrðu Gylfi, ég held að dallurinn sé að fara niður"  Hvað er þetta maður, svaraði Gylfi, heldurðu að dallurin sé að fara niður, "ÉG VEIT AÐ DALLURINN ER AÐ FARA NIÐUR" sagði Gylfi. Þá stóð karlgreyið í sjó upp að mitti við að stjórna kraftblökkinni.  En dallurinn flaut nú samt.

 

14.02.2007 22:02

Kleifaberg ÓF 2 selt.

Þormóður-Rammi hf. hefur selt frystitogarann Kleifaberg ÓF 2. Kaupandinn er sjávarútvegsfyrirtækið Brim hf. Í fréttum í dag sagðist Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brims hf. lengi hafa leitað að frystitogara. Hann fann hann svo út með firði, Eyjafirði. Djöfull er heimurinn lítill.

Á heimasíðu Þormóðs-Ramma hf. segir frá þessu í dag.

"Kleifaberg ÓF-2 selt
Þormóður rammi ? Sæberg hf. hefur selt Kleifaberg ÓF-2 til Brims hf. og verður skipið afhent nýjum eiganda 30. mars næstkomandi.
Brim hf. býður öllum skipverjum Kleifabergs ÓF-2 áframhaldandi skiprúm á skipinu. Þormóður rammi ? Sæberg hf. vonast til að með þessari ráðstöfun sé óvissu eytt um atvinnuöryggi skipverja á Kleifabergi ÓF-2, fram að komu nýs skips sem verið er að smíða í Noregi." svo mörg voru þau orð.

1360.Kleifaberg ÓF 2 ex Engey.
 

13.02.2007 22:48

Bátur vikunnar #6 2007 er skuttogari.

Bátur vikunnar er skuttogari, Oddeyrin hin fyrsta sem Samherjamenn gerðu út. Oddeyrin var smíðuð á Akureyri 1986 og var annað tveggja raðsmíðaskipa sem Slippstöðin smíðað á þessum tíma. Hitt var Nökkvi HU 15. Sigurður Ágústsson hf. í Stykkishólmi keypti Oddeyrina seinna og nefndi Hamra -Svan SH 201. Hamra-Svanur var síðan seldur til Færeyja þar sem hann er nú gerður út undir nafninu Kallsevni TN 330. Systurskipið Nökkvi HU var einnig seldur til Færeyja og heitir nú Grímur Kamban TN 320, hann er í eigu sama aðila og Kallsevni.

1757.Oddeyrin EA 210 á rækjuveiðum.

Í bókinni Íslensk Skip 1. bindi eftir Jón Björnsson er sagt að skipsnafnið Oddeyrin hafi verið til hér áður fyrr. Erlendur maður að nafni O. Housken hafi gert hana út hér við land á árunum 1885-1890.

Í færeysku skipaskránni www.skipalistin.fo er saga skipanna tveggja og vitnað í frétt af komu þeirra. Gaman er að lesa þetta og hér smá sýnishorn :

"Longdin av teimum nýggju skipunum liggur um 40 ávikavist 39 metrar meðan og breiddin liggur um góðar 8 metrar. Grímur Kamban hevur svínarygg og er tí umleið ein metur longri enn Kallsevni. Skipini eru bygd á Akureyri í 1986 ávikavist 1987 og eru skrásett til 502 ávikavist 472 bruttu tons".

 

12.02.2007 22:19

Hver er báturinn #8

Þetta kom fljótlega, Hafrún er báturinn.

Þessa mynd tók ég í Hafnarfirði þegar verið var að endurbyggja Hafrúnu, m.a. skipta um brú og var nýja brúin notuð, tekin af bát sem búið var að úrelda. Nú spyr ég af hvaða bát kom þessi brú ?

Hver er báturinn ?

11.02.2007 22:59

Nýja Oddeyrin EA 210 kemur til Akureyrar.

2750.Oddeyrin EA 210 ex Andenesfisk II.

Tók þessa mynd í dag þegar Oddeyrin EA 210 hin nýja kom til heimahafnar á Akureyri.  Set fleiri myndir inn í albúm fljótlega.

Á fréttavefnum www.akureyri.net segir:

Þriðja Oddeyrin til Akureyarar

Nýtt skip bættist í flota Samherja í dag þegar Oddeyrin EA 210 lagðist að Oddeyrartangabryggjunni nú í hádeginu. Þetta er þriðja skip Samherja með þessu nafni og eru 20 ár frá því að það fyrsta kom til Akureyrar. Fjöldi fólks var mættur til að taka á móti hinu nýja skipi þar á meðal bæjarstjóri Akureyrar Sigrún Björk og Þorsteinn Már framkvæmdastjóri Samherja. Skipið er smíðað á Spáni árið 2000 en kemur hingað frá Noregi þar sem það hét Andenesfisk II það er 55 metra langt og 12 metra breitt. Togarinn er útbúin til að draga tvö troll í einu og með búnaði til frystingar um borð. Skipstjórar á hinu nýja skipi verða þeir Hjörtur Valsson sem var að koma með Víði úr mettúr og Guðmundur Guðmundsson sem áður var á Akureyrinni. Í áhöfn er gert ráð fyrir að það verði 15-18 manns.

Guðmundur Freyr Guðmundsson, Þorsteinn Már Baldvinsson og Hjörtur Valsson.

Flettingar í dag: 89
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 664
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 9254637
Samtals gestir: 1995063
Tölur uppfærðar: 24.8.2019 01:05:55
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is