Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2006 Nóvember

30.11.2006 22:16

Ólafur Magnússon HU 54

Ólafur Magnússon HU 54 var seldur fyrr í haust og skömmu síðar skipti báturinn aftur um eigendur. Hann heitir nú Guðbjörg Steinunn GK 37 og er  eigandi Útgerðarfélagið Marröstin ehf.

1236.Ólafur Magnússon HU 54 ex Þórir SF 77.

Báturinn var smíðaður í Garðabæ 1972 og hét upphaflega Þórir GK.

Hvað voru margir bátar smíðaðir eftir þessari teikningu í Stálvík ?

Hverjir voru þeir og eru allir á skrá ennþá ?

27.11.2006 22:45

Linni SH kominn norður

Linni SH, hinn nýi bátur Sæbjargar ehf. í Grímsey, er kominn norður á Akureyri þar sem ég tók þessa mynd af honum.

2047.Linni SH 303 ex Vébjörn ÍS.

Sæbjörgin EA var þarna líka svo ég set hana líka hér inn.

1848.Sæbjörg EA 184 ex Helga Sigmars NS.

25.11.2006 11:06

Bátur vikunnar er nótaskipið Súlan EA.

Bátur vikunnar að þessu sinni er nótaskipið Súlan EA 300. Súlan var 354 brl. að stærð, smíðuð í Fredrikstad í Noregi 1967 fyrir Leó Sigurðsson á Akureyri. Skipið var lengt í Hollandi 1974 og mældist þá 393 brl. og yfirbyggt 1975 og mældist þá 391 brl. 1983 er skráður eigandi Súlur h/f á Akureyri.                                                                                                                                                          Heimild Íslensk skip 1. bindi.

1060.Súlan EA 300.

Súlan hefur genngið í gegnum nokkrar breytingar frá því myndin að ofan var tekin, upp úr 1990 minir mig. Þær eru helstar að sett var ný brú á skipið ásamt bakka. Í dag mælist skipið 458 brl./651 BT. að stærð. Eigandi skipsins er Súlan ehf. en það hefur verið selt Síldarvinnslunni h/f og verður afhent að lokinni vetrarloðnuvertíð 2007.

1060.Súlan EA 300.

 

25.11.2006 10:38

Haukaberg SH 20 komið heim úr breytingum

Haukaberg SH 20 kom til heimahafnar í Grundarfirði í gærmorgun eftir að hafa verið í breytingum og endurbótum í Póllandi. Fimm mánuðir eru síðan skipinu var siglt áleiðis til Póllands en breytingarnar á skipinu, sem hannaðar voru af Jóni Ásmundssyni á Akureyri, fólust m.a. í því að ný brú var sett á skipið og skuti þess var slegið út. Þá voru borðsalur og eldhús endurnýjað og skipt var um aðalvél. Haukaberg SH 20 er í eigu Hjálmars ehf.  Sagt er frá þessu á www.grundarfjordur.is

Sverrir Karlsson í Grundarfirði var svo liðlegur að leyfa mér að birta hér mynd sem hann tók af Haukaberginu við bryggju eftir heimkomuna í gær og kann ég honum bestu þakkir fyrir. Sverrir er ljósmyndari góður og er með heimasíðuna www.123.is/sverrirk

1399.Haukaberg SH 20.

Haukabergið var smíðað á Akranesi 1974og hefur alla tíð verið í eigu sömu aðila. Skipið sem er 104 brl./176 Bt., fyrir þessar breytingar,var yfirbyggt 1997.

1399.Haukaberg SH 20.

Er Haukabergið síðasta skipið  í þessari raðsmíði hjá Þorgeiri og Ellert ?

Hvað voru smíðaðir margir bátar eftir þessari teikningu ?

Hvar eru þessir báta í dag ?

 

25.11.2006 00:27

Gaman að leika sér með myndirnar

Það er alltaf gaman að leika sér með myndirnar í Photoshop.

22.11.2006 21:45

Jökulsá á Fjöllum braut sér leið til sjávar.

Vatnavextir í Jökulsá á Fjöllum í rénun

Á vef Ríkisútvarpsins í dag segir að Jökulsá á Fjöllum hafi náð að brjóta sér leið til sjávar og eru vatnavextirnir því í rénun. Krapastífla myndaðist í ánni í fyrradag með þeim afleiðingum að varnargarður rofnaði.

Vatn er farið að sjatna í Skjálftavatni og hefur lækkað um nærri hálfan metra að sögn Sveins Þórarinssonar, bónda í Krossdal. Vatnið er þó enn töluvert stærra en venjulega. Sveinn segir ljóst að tjónið sé talsvert. Vegurinn um Vestursandsveg er í sundur á nokkrum stöðum auk þess sem viðgerða er þörf á varnargarðinum.

Jóhann Gunnarsson frá Víkingavatni fylgist með Jöklu í gærdag.

Ég mun setja inn albúm með myndum sem ég tók í Kelduhverfi í gær innan tíðar.

22.11.2006 21:24

Borgarhólsskóli 110 ára.

110 ára afmæli Borgarhólsskóla á Húsavík

Í dag var haldið upp á 110 ára afmælis Borgarhólsskóla á Húsavík en húsvíkingar byggðu sitt fyrsta skólahús árið 1896 og Barnaskóli Húsavíkur, síðar Borgarhólsskóli varð þá til.

Ýmislegt var gert í tilefni dagsins, m.a. kenndu kennarar Borgarhólsskóla og Tónlistarskóla Húsavíkur fyrir opnum tjöldum. Bæjarbúum var boðið að heimsækja skólann og taka þátt í skólastarfinu og var það boð vel þegið því fjöldi manns kom í skólann í dag.

 

Ýmsir gamlir munir úr skólanum voru dregnir fram og meðal þeirra var þessi ritvél sem Leedsarinn Agnar Þór Hilmarsson er að pikka á hér á myndinni. Hafþór Mar Aðalgeirsson, sem er stuðningsmaður Liverpool, fylgist grannt með félaga sínum.

21.11.2006 21:20

Vatn.

Tók þessa mynd austur í Kelduhverfi í dag. Þar var ég að mynda fyrir Morgunblaðið við Jökulsá á Fjöllum þar sem hún hafði rofið varnargarð og flætt um allt.

Þessi mynd er tekin við veginn niður á sand, norðan við Keldunes.

Hér má sjá frétt Ríkissjónvarpsins frá þessu http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4284385/6

 

19.11.2006 17:57

Húsavík í dag.

Setti inn nokkrar myndir sem ég tók á Húsavík og nágrenni í dag í nýtt albúm.

Húsavík í dag.

19.11.2006 16:26

Gullborgin verður rifin eða hvað ?

Í Fréttablaðinu í gær var eftirfarandi frétt um Gullborgina SH 338 áður VE 38, landsfrægt skip aflakóngsins Binna í Gröf.

Gullborg Binna í Gröf rifin

Hið sögufræga skip Gullborgin verður að öllu óbreyttu rifið á næstu dögum, segir Gunnar Richter, eigandi Daníelsslipps í Reykjavíkurhöfn. Gullborgin hefur staðið afskipt í slippnum frá því í byrjun ágúst í fyrra.

Gunnar á í viðræðum við yfirmenn Faxaflóahafna um hvenær Gullborgin verður rifin. Hann segir að ef af því verði muni beltagrafa mola hana niður. Gullborgin er þekkt fyrir að hafa verið mesta happaskip hins þekkta skipstjóra Binna í Gröf úr Vestmannaeyjum, sem varð aflakóngur í Eyjum sex vertíðir í röð eftir að hann tók við formennsku á skipinu árið 1954.

Árni Johnsen, Eyjamaður og fyrrverandi þingmaður, vinnur nú að því ásamt hópi manna, undir forustu Gunnars Marels Eggertssonar skipstjóra, að bjarga Gullborginni frá því að lenda á haugunum. Árni segir að það væri synd ef skipið yrði rifið því það sé sögufrægt og eitt fengsælasta skip Íslandssögunnar. Að sögn Árna hefur hópurinn sett sig í samband við yfirmenn hjá Faxaflóahöfnum sem einnig vilja bjarga Gullborginni. Árni segir að ef þeim tekst að bjarga skipinu verði það flutt til Reykjanesbæjar þar sem það verður gert upp.

Það skýrist endanlega í næstu viku hvort skipið verður rifið eða ekki, segir Árni.

Svo mörg voru þau orð, en hvað finnst mönnum ? á að bjarga skipinu ? setti inn skoðannakönnun hér til hliðar þar sem menn geta látið skoðun sína í ljós.

490.Gullborg II SH 338 ex Gullborg VE 38.

Þessi bátur á sér glæsta sögu, smíðaður í Svíþjóð 1946 og hét þar Erna Durnhuus. 1951 er báturinn keyptur til Íslands, Reykjavíkur nánar tiltekið, þar sem hann fær Gullborgarnafnið og einkennisstafina RE 38. 1952 er hann seldur til Keflavíkur en árið 1954 kaupa Einar Sigurðsson í Reykjavík og Benóný Friðriksson í Vestmannaeyjum, Binni í Gröf, bátinn sem fær einkennisstafina VE 38. 1973 er hann seldur Portlandi s/f í Vestmannaeyjum en 1974 var nafni fyrirtækisins breytt í Dyrhólaey s/f. Heimild: Íslensk skip 3. bindi.

Báturinn er náttúrulega ekki alveg sá sami og Binni í Gröf fiskaði sem mest á, honum hefur verið breytt talsvert, ný brú sett á hann sem og bátapallur.

Það eru skemmtilegar upplýsingar um bátinn á þessari slóð hér www.heimaslod.is/?title=Gullborg_VE

18.11.2006 20:40

Myndir frá Húsavík

Setti inn albúm með nokkrum myndum sem ég tók á Húsavík í dag og sýna þær vetrarskrúðann sem prýðir bæinn.

Þennan sel rakst ég á niður við höfn í morgun. Hvaða tegund er hann ?

17.11.2006 11:42

Nýr Ársæll Sigurðsson HF 80

Var á ferðinni í Hafnarfirði á dögunum og sá þá að það er kominn nýr Ársæll Sigurðsson HF 80. Um er að ræða 21,6 brúttótonna stálbát, smíðaðan í Hafnarfirði 1987. Síðan þá er búið m.a. að skutlengja hann og setja peru á stefnið. Báturinn hét upphaflega Bjarni KE, þá Bjarni BA og loks Askur Gk allt þar til í sumar er nýr Askur leysti hann af hólmi og fékk hann þá nafnið Már GK  þar til hann var seldur Sæla ehf. í Hafnarfirði.

1873.Ársæll Sigurðsson HF 80 ex Már GK 265.

15.11.2006 19:19

Bátur vikunnar hefur alla tíð heitið sama nafni

Bátur vikunnar hefur alla tíð heitið sama nafni, einkennisstafirnir breyttust þó fyrir nokkrum árum úr GK 444 í ÁR 444. Þetta er togbáturinn Jón Gunnlaugs sem er í eigu Humarvinnslunnar ehf. í Þorlákshöfn. Báturinn var smíðaður í Reykjavík 1972 fyrir Miðnes h/f í Sandgerði þaðan sem báturinn var gerður út allt til þess að hann var seldur til Þorlákshafnar. Jón Gunnlaugs var yfirbyggður árið 1988 en er að öðru leyti óbreyttur.

1204.Jón Gunnlaugs ÁR 444.

1204.Jón Gunnlaugs GK 444.

14.11.2006 16:41

Linni SH keyptur til Grímseyjar

Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að útgerðarfyrirtækið Sæbjörg ehf. í Grímsey hafi keypt Linna SH 303, 34,6 brúttótonna dragnóta- og netabát frá Ólafsvík. Fyrir á Sæbjörg ehf. Sæbjörgu EA 184, 21,3 brúttótonna dragnóta- og netabát og Jónínu EA 185, 9,5 brúttótonna sem er í krókaaflamarkskerfinu.

2047.Máni HF 149 ex Magnús Guðmundsson ÍS nú Linni SH 303.

1848.Sæbjörg EA 184 ex Helga Sigmars NS.

2451.Jónína EA 185 ex Svanni ÍS.

 

 

 

 

 

13.11.2006 14:14

Krækir kaupir Olla

www.dagur.net greinir frá því í dag að Krækir ehf í Grímsey hefur keypt nýjan bát frá Ólafsvík ásamt kvóta. Báturinn heitir Olli SH er af gerðinni Víkingur 1135 og er seljandi Torfi Sigurðsson, útgerðamaður í Ólafsvík. Báturinn er seldur með öllum kvóta sem er rúmlega 200 tonn í þorskígildum talið. Henning Jóhannesson framkvæmdastjóri Krækis ehf sagði í samtali við Dag að báturinn verði gerður út frá Grímsey og aflinn unninn í fiskvinnslu fyrirtækisins á Dalvík.

 

Fyrirtækið gerir nú út 3 báta frá Grímsey en er með fiskverkun á Dalvík. Eins og fyrr segir er seljandi Torfi Sigurðsson í Ólafsvík og er eftirfarandi haft eftir Torfa á skip.is: "Ég reyndi að bjóða mönnum í Ólafsvík bát og kvótann til sölu en það vildi enginn hér í bæ kaupa af mér svo þess vegna var báturinn seldur úr byggðarfélaginu. Því miður,". Báturinn kemur til Grímseyjar þegar veður skánar segir Henning.

2645.Olli SH 375.

www.dagur.net

Flettingar í dag: 89
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 664
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 9254637
Samtals gestir: 1995063
Tölur uppfærðar: 24.8.2019 01:05:55
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is