Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2006 Október

30.10.2006 21:55

Söguhorn Hafliða Óskarssonar

Þá hefur nýr liður hafið göngu sína hér á síðunni. Það er Söguhorn Hafliða og er linkur á hana hér til hægri. Ritstjóri og ábyrgðarmaður söguhornsins er Hafliði Óskarsson sem lengi var til sjós á millilanda- og fiskiskipum.

Hafliði Óskarsson.

Hafliði er mikill viskubrunnur varðandi skip og báta og þá sérstaklega gömlu síðutogarana,skuttogaranna auk fraktskipa og hefur safnað að sér miklu efni t.d. varðandi sögu nýsköpunartogaranna og fáum við að njóta þess í náinni framtíð hér á síðunni. Við Hafliði setjum okkur það markmið í byrjun að nýtt efni frá honum komi mánaðarlega og fyrsta frásögn hans er frá þeim tíma er hann var á ms. Jökulfelli. Þetta er árið 1981 og Mávurinn fer upp í fjöru í Vopnafirði. Lesið frásögn Hafliða á linknum Söguhorn Hafliða.

29.10.2006 19:03

Húsavíkurhöfn og aðrar hafnir

Var að setja inn tvö albúm og fleiri eru væntanleg með myndum frá höfnum landsins. Að þessu sinni eru þetta aðallega myndir teknar á filmu alls 543 myndir. Húsavíkurhöfn er í séralbúmi en í hinu eru m.a. myndir frá Reykjavík, Akureyri, Hafnarfirði, Þorlákshöfn og á Suðurnesjum auk annarra hafna landsins.

Húsavík.

29.10.2006 12:53

Hvar er Birtingur NK 119

Það kemur fyrir að ég fæ fyrirspurnir í pósti um ýmis skip og báta og allur gangur á því hvort ég get svarað þeim fullkomlega. Ein slík kom á dögunum og var spurt hvað hafi orðið um Birting NK 119, nótaskipið sem upphaflega hét Eldey KE og síðar Pétur Jónsson.

1061.Birtingur NK 119 ex Kambaröst SU.

Þessa mynd tók ég á Neskaupsstað 2004, er skipið ekki enn þar ? ef einhver er með upplýsingar um hvar skipið er niðurkomið er hægt að koma því á framfæri í álitinu hér að neðan.

28.10.2006 11:52

Gamla mynd vikunnar er tekin við Húsavíkurhöfn

Gamla myndin að þessu sinni er tekin að kvöldlagi við Húsavíkurhöfn einhvern tímann á árunum 1992-1994. Kristbjörg ÞH 44 er þarna við bryggju og framan við hana liggur Hafbjörgin EA frá Hauganesi.

25.10.2006 22:30

Á ég mínar myndir eða einhver annar ?

Það er oft sagt að þeir sem eigi nóg af peningum séu oft á tíðum nískari en andskotinn og ég held að það sé rétt í alltmörgum tilfellum . Fyritæki eitt í sjávarútvegi, alls ekki það minnsta, notaði mynd eftir mig á heimasíðu sína, ekki einu sinni, ekki tvisvar heldur oftar og ég ákvað að þar sem ég ætti nú höfundarréttinn af mínum myndum skyldi ég senda reikning fyrir þessari mynd sem ég og gerði. Nokkru síðar, eða í dag, hringdi í mig maður frá þessu fyrirtæki ekki par sáttur með framkomu mína, að dirfast að senda þeim reikning ! hann hafði að vísu nokkuð til síns máls með það að ég hefði nú getað hringt og þeir hefðu þá bara tekið myndina strax út af síðunni. Gott og vel það er kannski sjónarmið út af fyrir sig! auk þess benti hann mér á að þeir hafi keypt fyrirtækið sem átti skipið sem var á myndinni og heimasíða þess hlyti að hafa fylgt með í kaupunum en þaðan tóku þeir myndina. Ég benti manninum á að ég og enginn annar ætti höfundarréttinn af mínum myndum. Hann fylgir nefnilega ekki  þegar greifarnir gambla með fiskinn í sjónum og eitthvað af stáli.plasti eða gamallri eik og jafnvel heimasíður fylgi með í þeim pakka. Þess ber að geta að upphæðin á reikningnum var ekki hærri en svo að trillukarlar á Húsavík hafa borgað svipaðar upphæðir fyrir myndir frá mér, með bros á vör.

Ég sagði þessum manni sem hringdi að ef hann treysti sér ekki til að borga þetta þá skyldi ég láta þetta niður falla. Ég vil nefnilega ekki hafa það á samviskunni ef þeir geta ekki keypt upp einhverja smærri aðila á næstunni eða þá það sem verra væri, fyrirtækið rúllaði og atvinnulíf í heilu byggðarlagi myndi verða í uppnámi. Það vil ég ekki hafa á samviskunni vegna upphæðar sem dugar varla fyrir bensíni fráHúsavík  til heimabæjar þessarar útgerðarnirfla.

 

Margir virðast ekki líta á það sem þjófnað að taka myndir af vefnum, sem klárlega eru merktar höfundi sínum, og nota á sínar heimasíður heimildarlaust. Eftir að skipaskrár með myndum komu á netið hefur þetta verið talsvert vandamál því auðvelt hefur verið að stela myndunum þaðan.  Útgerðarfyrirtæki, skipasölur, þar sem jafnvel starfa löglærðir menn, vefmiðlar ofl. hika oft á tíðum ekki við að nota myndir sem fengnar eru svona, þ.e.a.s. stolnar því höfundarrétt ber að virða þó bara sé um ljósmyndir að ræða og það í mínu tilfelli oft bara skip eða bátar á þeim.

 

Ég get tekið svipuð dæmi og því sem greint er frá hér að ofan, nefni þó engin nöfn.  Við nokkrir félagar sem eigum mikið af skipamyndum á vefnum áttum allir mynd eða myndir á heimasíðu eins útgerðarfyrirtækis, einn okkar hringdi í framkvæmdarstjórann og hann var aldeilis ekki tilbúinn að borga fyrir þessa ólöglegu notkun á myndunum en skyldi taka þær af heimasíðunni sem ekki er þó enn búið að gera.

Ég hef reyndar ekki enn haft samband út af minni mynd þar sem framkoman er oftast í svipuðum dúr og í dæminu hér efst á síðunni.  Ósvífnin hjá þessu tiltekna fyrirtæki er meira að segja svo mikil að á myndina mína, sem er af skipi sem selt var frá Húsavík og er tekin hér, er búið að skrifa á áberandi hátt að höfundaréttur myndarinnar sé fyrirtækisins. Einn okkar rakst á myndir sem hann á á heimasíðu útgerðarfyrirtækis og þar var það sama, reikningurinn var sendur til baka og myndunum skipt út.

 

Ég hef átt ánægjuleg samskipti við ýmsa aðila í gegnum tíðina varðandi það að útvega þeim skipamyndir og alveg óhætt að nefna nokkur þeirra hér, Útgerðarfélagið Langanes á Húsavík en það hefur nú verið selt, Vísir hf. í Grindavík, Síldarvinnsla, skipasölurnar Álasund og Viðskiptahúsið, við náðum saman ég og Reynir Þorsteinsson hjá Kvótamarkaðnum sem og Hibýli og skip sem er skipasala. Rannsóknarnefnd sjóslysa samdi við okkur, Skeljungur og Olíuverzlun Íslands nota myndir frá okkur á dagatöl sín og marga fleiri aðila væri hægt að nefna hér.

 

Þá veit ég að félagar mínir hafa átt mikið samstarf við útgerðir eins og Samherja, ÚA nú Brim, HBGranda og ýmis fyritæki við Breiðafjörð svo ég nefni dæmi.

 

 

22.10.2006 17:36

Bátur vikunnar.........

Bátur vikunnar var seldur úr landi fyrir nokkrum árum, hvert hann fór man ég ekki, held þó til Mexíkó ? Þetta er Ágúst Guðmundsson sem upphaflega hét Viðey RE 12 og var smíðaður í Noregi 1964 fyrir Hraðfrystistöðina í Reykjavík. 1972 var báturinn seldur til Bíldudals þar sem hann fékk nafnið Árni Kristjánsson BA 100. 1974 var nafni skipsins breytt, Andri BA 100 hét hann og sömu eigendur og áður, Sókn hf. 1975 kaupir Meitillinn hf. í Þorlákshöfn bátinn sem fær nafnið Klængur ÁR 2 og er hann gerður út frá Þorlákshöfn til ársins 1982 er Valdimar hf. í Vogum kaupir hann. Þar fær hann nafnið Ágúst Guðmundsson GK 95, Valdimarsmenn láta m.a. byggja yfir hann, skipta um brú og aðalvél meðan hann er í þeirra eigu. Eftir að Valdimar hf. sameinaðist Þorbirni-Fiskanesi hf. í Grindavík varð hagræðing í flota þeirra og Ágúst Guðmundsson GK var einn þeirra báta sem var seldur. Hann hét Thor í skipaskrá árið sem hann var seldur úr landi sem er einhverntímann á árunum 2002-3.

262.Ágúst Guðmundsson GK 95 ex Klængur ÁR 2.

20.10.2006 18:42

Nýr bátur, Nunni EA 87, til Grímseyjar.

Nýr bátur bættist í flota Grímseyinga á dögunum þegar Nunni EA 87 bættist í flota úgerðarfyrirtækisins Sigurbjarnar ehf. sem m.a. gerir einnig út Þorleif EA 88 á fréttavefnum www.grimsey.is segir að Grímseyingar hafi flykkst niður á bryggju og þeyttu flautur til að fagna bátnum þegar hann sigldi inn í höfnina í fyrsta skipti. Þar segir jafnframt að nýji báturinn sé sá sjötti sem ber þetta nafn, sem var gælunafn föður Gylfa Gunnarssonar skipstjóra og eins af eigendum Sigurbjarnar ehf.  Nunni er 25 tonn, smíðaður árið 1987 og er eini báturinn í Grímsey sem er með yfirbyggt þilfar þannig að vinnuaðstaða er góð en þrír menn verða í áhöfn Nunna EA 87 sem gerður verður út á net. Helga Mattína fréttaritari Moggans í Grímsey ljáði mér þessa mynd að neðan og kann ég henni bestu þakkir fyrir.

1851.Nunni EA 87 ex Kristín Finnbogadóttir BA.

 

19.10.2006 17:51

Toagrinn Swanella seldur til Rússland

Skipasalan Álasund í Reykjanesbæ hafði milligöngu um sölu á breska skuttogaranum Swanella til Rússlands og var hann afhentur í Hull á dögunum. Að sögn Sveins Inga Þórarinssonar hjá Álasundi mun skipið leggja af stað núna um helgina áleiðs til austur-Rússlands, á leiðinni fer það í gegnum Suez skipaskurðinn, koma við í Singapore til að taka olíu, þaðan til Kína í sandblástur & málningu og að lokum til Pusan í S. Kóreu þar sem ný fiskvinnsla verður sett um borð.

 
Swanella kemur til með að heita LEBEDEVO þegar hún er kominn í rússneska flotann.
 
Nú hef ég ekki verið mikið að fjalla um erlend skip hér á síðunni en þar sem þessi togari var á sínum tíma í íslenska flotanum fannst mér tilvalið að geta hans hér og spyr um leið hvað hét þessi togari ? hvaðan var hann gerður út og hver var eigandi hans ?

17.10.2006 21:47

Gandí VE 171, óhapp í Skipalyftunni í Eyjum

Það óhapp varð í dag í Vestmannaeyjum þegar verið var að taka netabátinn Gandí VE 171 upp í Skipalyftuna að undirstaða gaf sig undan framenda skipsins. Á fréttavefnum www.eyjar.net segir svo frá þessu:

Fimm starfsmenn Skipalyftunnar duttu í höfnina og tveir slösuðust þegar slys varð þar í dag.  Undirstaða gaf sig undan framenda Gandí VE og reis skutur skipsins nánast beint upp í loftið þegar verið var að taka bátinn upp. Samkvæmt upplýsingum á slystað slösuðust starfsmennirnir ekki alvarlega en tveir þeirra voru þó fluttir á sjúkrahúsið.  Búið er að koma skipinu á flot og engar skemmdir virðast vera á því.  Töluverðar skemmdir virðast hins vegar vera á lyftunni.

Skipamyndir voru að sjálfsögðu með ljósmyndara á staðnum, Sigurpál Sigubjörnsson, og sendi hann þessar myndir af vettvangi.

84.Gandí VE 171 ex Guðjón VE 7

 

 

16.10.2006 20:32

Gamla mynd vikunnar er frá komu Þuríðar Halldórsdóttur GK til Húsavíkur.

Gamla mynd vikunnar er frá komu Þuríðar Halldórsdóttur GK til Húsavíkur í desember 1991 en þá keypti Korri hf. bátinn af Valdimar hf. í Vogum á Vatnsleysuströnd. Korramenn nefndu bátinn Kristbjörgu II ÞH 244 og síðar, eða árið 1992, fékk hann nafnið Kristbjörg ÞH 44 en þá hafði útgerðin  selt minni bát því nafni til Höfða hf. á Húsavík. Korri hf. gerði út þarna á tímabili þrjá báta, Kristbjörgu, Kristbjörgu II og Geira Péturs.

1009.Þuríður Halldórsdóttir GK 94 ex Sóley ÍS.

1009.Kristbjörg ÞH 44.

15.10.2006 14:22

Sighvatur GK 57 kom til löndunar á Húsavík

Línuskipið Sighvatur GK 57 kom til löndunar á Húsavík í dag og var aflinn 230 kör eða um 80 tonn. Tók nokkrar myndir við komu hans sem sjást hér að neðan.

                                    

 

14.10.2006 14:29

Línubátar Vísis hf. afla vel

Línuskip Vísis hf. í Grindavík röðuðu sér í fimm efstu sætin í flokki  aflahæstu línuskipa flotans í septembermánuði samkvæmt lista sem Gísli Reynisson hefur gert og birtist í Fiskifréttum sl. föstudag.

972.Kristín GK 157 var með 489,8 tonn í sex róðrum.

  

1030.Páll Jónsson GK 7 var með 395,1 tonn í sex róðrum.

975.Sighvatur GK 57 var með 370,7 tonn í fjórum róðrum.

237.Hrungnir GK 50 var með 313,0 tonn í sex róðrum.

                              

1076.Jóhanna Gísladóttir ÍS 7 var með 312,4 tonn í fimm róðrum.

 

 

 

 

14.10.2006 13:53

Hafrafellið selt til Siglufjarðar

Arnar Sigurðsson hjá Sjóferðum Arnars ehf. á Húsavík hefur selt línubátinn Hafrafell ÞH 343 til Siglufjarðar. Kaupandinn er Reynir Karlsson sem áðurgerði út Júlíu SI sem nú heitir Oddur á Nesi SI.

2209.Hafrafell ÞH 343 ex Sjófugl ÍS.

10.10.2006 23:33

Gamla myndin þessa vikuna er tekin í Ólafsvík

Gamla mynd þessarar viku er tekin í Ólafsvík af Hreiðari Olgeirssyni og sýnir þrjá svokallað vertíðarbáta við bryggju. Fremstur er 1207 Geiri Péturs ÞH 344 í eigu Korra hf. á Húsavík, þá 185 Sigþór ÞH 100 í eigu Vísis hf. á Húsavík og loks 1415 Fróði SH 15 sem var í eigu Hróa hf. í Ólafsvík en húsavíkurbátarnir sem fóru á vertíð í Ólafsvík lögðu flestir ef ekki allir upp afla sinn hjá Hróa.

Vertíðarbátar við bryggju í Ólafsvík.

Þessir þrír bátar eru ekki lengur á íslenskri skipaskrá, Geiri Péturs, sem upphaflega hét Sigurbergur GK 212 og smíðaður hjá Slippstöðinni á Akureyri 1972 en kláraður hjá skipasmíðastöðinni Dröfn í Hafnarfirði, var seldur 1987 í Garðinn þar sem hann fékk nafnið Una í Garði GK 100. Báturinn sökk þar sem hann var á rækjuveiðum út af Skagafirði í júlí árið 2001. Fjórir menn björguðust en tveir fórust.

Sigþór, sem upphaflega hét Sigurpáll GK 375 og var smíðaður í Svíþjóð 1963, var seldur árið 2001 og fékk í framhaldi af því nafnið Þorvarður Lárusson SH og síðar Starumur RE og loks Valur GK. Eldur kom upp í honum 20 febrúar 2005 þar sem hann lá í Sandgerðishöfn og skemmdist hann það mikið að ekki þótti taka sig að gera við hann. Var hann siðar seldur í brotajárn til Danmerkur en slitnaði aftan úr dráttarskipinu og var síðan hirtur af á reki af færeyingum og dreginn þangað og það það síðasta sem ég frétti af honum var að Hörður Harðarson sem lengi var á Sigþór sá hann við bryggju í Færeyjum.

Fróði SH 15 var yngstur þessara þriggja báta, smíðaður hjá Slippstöðinni á Akureyri árið 1975. Hann var seldur til Ísafjarðar 1989 þar sem hann fékk nafnið Hafdís ÍS 25 og  var húsvíkingurinn Kolbeinn Valsson skipstjóri á honum um tíma. Til Hornafjarðar var hann seldur árið 1994, þar hélt hann Hafdísarnafninu en einkennisstafirnir voru SF 75. Hafdísin var svo seld til Danmerkur í brotajárn árið 2004, ekki langur líftími það á stálbát.

 

 

10.10.2006 16:36

Aldey seld, heitir nú Óskar og fiskar fyrir Nesfisk

Síðasta minnismerkið um rækjuævintýri Íshafs á Húsavík, Aldey ÞH 308, sigldi á brott frá Húsavík seinnipart sumars og fyrir nokkrum vikum sagði Fiskifréttir frá sölu skipsins til hlutafélagsins Sæeyra sem er í eigu Sæmundar Árelíussonar útgm., Elmars Guðmundssonar skipstjóra ofl. aðila.

Í fréttinni kom m.a. fram að skipið væri keypt án kvóta og ætlunin væri að gera út á ýsu og landa aflanum hjá Nesfiski í Garði.

Ég sá svo á vef Fiskisstofu www.fiskistofa.is að skipið hefur fengið nafnið Óskar en er með sömu einkennisstafi og númer.

962 Aldey ÞH 380 nú Óskar ÞH 380.

Flettingar í dag: 568
Gestir í dag: 82
Flettingar í gær: 771
Gestir í gær: 113
Samtals flettingar: 9399662
Samtals gestir: 2008174
Tölur uppfærðar: 13.12.2019 13:12:35
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is