Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2006 September

30.09.2006 22:29

Bátur vikunnar er löngu farinn...

Gamli báturinn að þessu sinni er löngu horfinn úr flotanum, þetta er Fanney ÞH 130,17 brl. eikarbátur, sem upphaflega hét Byr NK 77. Byr var smíðaður árið 1955 á Ísafirði en í árslok 1960 kaupir Sigurbjörn Kristjánssynir ásamt fleirum bátinn og nefna þeir hann Fanney. Þeir eiga bátinn allt til ársins 1975 er þeir selja Pálma Karlssyni hann en í stað hans kom nýsmíði, Fanney ÞH 130, 22 brl. eikarbátur smíðaður á Akureyri.

398.Fanney ÞH 130 ex Byr NK 77.

Þegar Pálmi Karlsson kaupir bátinn fær hann nafnið Helga Guðmundsdóttir ÞH 133 og síðar hét hann Húni HU 2, Haftindur HF 123 og loks Gísli Gunnarsson II SH 85 (SH 285 í lokin). Hann var talinn ónýtur og tekinn af skrá 1987. Heimild: Íslensk skip 2. bindi.

 

30.09.2006 20:47

Sigurborgin hætt á rækju...

Á eyfirska fréttavefnum dagur.net segir frá því að Sigurborgin SH sé hætt rækjuveiðum á þessu ári. Þar er jafnframt sagt að hún sé eina skipið sem hafi stundað rækjuveiðar í ár, sem er ekki rétt. Bæði Sjöfnin frá Grenivík, sem nú heitir Saxhamar SH 50, og Hinni ÞH frá Húsavík, sem einnig hefur verið seldur, stunduðu rækjuveiðar um tíma, skamman þó. Þá var Hannes Andrésson SH við rækjuveiðar í Kolluál. En svona er fréttin á www.dagur.net :

Fimmtudagur 28. september 2006 15:16
Úthafsrækjuveiðum lokið þetta árið
- Aðeins eitt skip stundaði rækjuveiðar í ár

Sigurborg SH 12 landaði á Dalvík í morgun um 6 tonnum af rækju, sem kannski væri ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að Sigurborgin var eina íslenska skipið sem stundaði veiðar á úthafsrækju í sumar, og fór öll rækjan til vinnslu hjá Strýtu á Akureyri. Ómar Þorleifsson, skipstjóri á Sigurborgu segir að hjá þeim hafi vertíðin í ár verið sú stærsta frá árinu 1997.

Við fengum 734 tonn af rækju frá því í byrjun mars, sem er að meðaltali um 28 tonn í veiðiferð. Rækjan er á uppleið aftur og veiðar að glæðast, og því til staðfestingar má nefna að árið 1999 var meðalafli í túr hjá okkur um 17 tonn. Það er í raun sama hvar er borið niður. Í mars byrjuðum við á Skjálfandanum og á svokölluðum Ostahrygg, í maí vorum við á Breiðafirðinum og í sumar höfum við verið austan við Grímsey, og á Rifsbankanum.

Mikið hefur verið rætt um að rækjan væri nánast uppurin og ekki svaraði kostnaði að eltast við hana. Ómar segist ekki taka undir það, segir víða ágætisveiði og það sé vissulega pláss fyrir fleiri skip á rækjuveiðum á Íslandsmiðum. Því er hins vegar ekki að leyna að hátt olíuverð hefur leitt til þess að menn hröklast úr þessu, auk umræðunnar um að það veiðist ekkert.? Sigurborgin fer nú á fiskitroll og segir Ómar að það hafi verið rúnturinn undanfarin ár, rækjuveiðar frá mars og fram í september og síðan farið á fiskitroll á milli. Það er útgerðarfyrirtækið Soffanías Cecilsson ehf. í Grundarfirði sem gerir Sigurborgina út.

1012.Sigurborg SH 12.

30.09.2006 20:22

Hver er báturinn ?

Jæja þá spyr ég loksins aftur hver er báturinn ? það sem meira er að ég hef ekki hugmynd um það sjálfur. Fékk þessa mynd senda og veit ekki hvar hún er tekin.

Hver hann þessi ?

30.09.2006 20:17

Eyrún ÁR komin til Englands

Hér birti ég mynd sem Þórarinn S. Guðbergsson í skipasölunni Álasundi tók af Eyrúnu ÁR í höfninni í Portsmouth á suður Englandi en þangað var báturinn seldur fyrir milligöngu skipasölunar. Nýr eigandi ætlar að gera bátinn út til krabbaveiða með gildru og fær hann sitt fyrra nafn, Sparkling Line aftur.

 

27.09.2006 21:50

Þá er gamla mynd vikunnar komin aftur....

Þá er gamla mynd vikunnar komin aftur af stað og byrjar hún í Þorlákshöfn á vetravertíð 1982. Hreiðar, faðir minn, tók myndina en hann var skipstjóri á Kristbjörgu ÞH 44 þegar þetta var. Á myndinni sést þegar Geiri Péturs, sá fyrsti, er við bryggju og verið er að koma trossu í land sem þeir höfðu dregið, eða sett krökuna í hana og híft um borð, fyrir Guðmund Ragnarsson á Tjaldi SU 115. Guðmundur, sem kallaður er Muggur, og hans menn höfðu tapað trossuni og fannst hún einhverju síðar og Tjaldurinn (1538.Laxdal NS 37)) sem var og er einungis 17 brl. að stærð hafði ekki burði til að ná henni.

Á myndinni sjást um borð fv. Friðbjörn Sigurðsson og Hinrik heitinn Þórarinsson skipverjar á Geira Péturs og Jón Kr. Gíslason heldur í gilsinn, Muggur er aftast á pallinum, Sigurgeir Pétursson er bak við hann og ég man ekki hvað sá fjórði í áhöfn Tjaldsins hét en þetta voru Vopnfirðingar þá, nema Geiri er náttúrulega húsvíkingur að upplagi.

Hafliði er þetta gálginn á Jóni Vídalín þarna á bak við ?

26.09.2006 18:11

Ný mynd af Eika Matta ÞH 301

Hér er ný mynd af Eika Matta ÞH 301 þar sem hann er á siglingu.

2450.Eiki Matta ÞH 301 ex Hrönn ÞH 36.

Eins og segir hér að neðan er Eiki Matta ÞH 301 í eigu Skjóna ehf. á Húsavík en að þeirri útgerð standa þeir Jón Óli Sigfússon og Hörður Eiríksson ásamt fjölskyldum. Báturinn er nefndur í höfðuðið á Eiríki Marteinssyni, föður Harðar og Guðrúnar konu Jóns Óla, en hann hóf þessa útgerð á sínum tíma og er nýji báturinn sá sjötti í röðinni. Eiríkur lést langt um aldur fram um borð í Sigurði VE 15 í janúarmánuði 2003 en hann var skipverji á Sigurði í um þrjá áratugi.

25.09.2006 22:24

Kristbjörg VE í brotajárn, eftir að hafa legið í 14 ár...

Við Sveinn Ingi Þórarinsson hjá skipasölunni Álasundi höfum stundum gaukað hvor að öðrum skipamyndum og þessar sendi hann mér á dögunum en þær sýna Kristbjörgu VE í slippnum í Njarðvík. Kristbjörg, sem upphaflega hét Engey RE 11, hafði legið í Njarðvíkurhöfn í 14 ár en verður nú tekin í brotajárn.

44.Kristbjörg VE 70 ex Hafnarvík ÁR.

Eitthvað hefur safnast utan á skipið í öll þessi ár.

Á vef Víkurfrétta www.vf.is kom þessi frétt um það þegar Kristbjörgin yfirgaf bryggjukantinn í Njarðvík, fór þó ekki langt.

Kristbjörg dregin á brott

Í gær var einu langlegu-skipinu færra í Njarðvíkurhöfn þegar Kristbjörg VE var dregin á brott úr höfninni. Þar hafði hún legið við festar síðan árið 1992 eða í heil 14 ár. Kristbjörg var dregin að dráttarbrautinni í Njarðvík þar sem hún mun enda ævidagana sem brotajárn.
Í höfninni er annar ryðkláfur sem býður þess að hljóta sömu örlög en bæði skipin þurftu hafnaryfirvöld  að kaupa til að geta losnað við þau. Annars hefðu skipin sjálfsagt legið þar við festar til eilífðarnóns. 
Sú var tíðin að úreltum skipum var sökkt í sæ út á Reykjaneshrygg. Síðasta skipið sem hlaut þau örlög var Siggi Bjarna í Sandgerði. Með breyttum lögum sem tóku gildi undir lok 9. áratugarins var bannað að farga skipum á þann hátt og kveðið á um að þau skyldu rifin í brotajárn.

24.09.2006 19:28

Eiki Matta ÞH 301

Útgerðarfélagið Skjóni ehf. á Húsavík keypti á dögunum Hrönn ÞH 36 af útgerðarfélaginu Barmi ehf. á Húsavík. Hrönnin sem er af gerðinni Cleopatra 33 hefur fengið nafnið Eiki Matta og einkennsistafir og númer er ÞH 301. Fyrir átti Skjóni Fleyg ÞH 301, 27 ára plastbát sem upphaflega hét Gulaþing RE.

2450.Eiki Matta ÞH 301 ex Hrönn ÞH 36.

1540.Fleygur ÞH 301 ex Eyrún ÞH.

24.09.2006 18:55

Krossey SF 20 ex Björg Jónsdóttir ÞH

Þá hefur nóta- og togskipið Björg Jónsdóttir ÞH 321 fengið nýtt nafn en sem kunnugt er var útgerðarfélagið Langanes hf. selt Skinney-Þinganesi hf. á Hornafirði. Nýja nafnið er Krossey og einkennisstafir og númer SF 20.

Stýrimennirnir Brynjar Freyr Jónsson og Stefán Geir Jónsson eru öllu vanir og hér mála þeir nýtt nafn og númer á  nóta-og togskipið Krossey SF 20.

22.09.2006 17:11

Nýr bátur til Raufarhafnar...

Nýr bátur bættist í flota Norðurþings á dögunum, nánar tiltekið til Raufarhafnar. Þetta er Kristinn ÞH 163, kunnulegt nafn í útgerðarsögu Raufarhafnar,  sem er í eigu Hólmsteins Helgasonar ehf. Kristinn ÞH er 15 tonna Vikingur og er hann í krókaaflamarkinu. Báturinn hét áður Kópur HF 44 og er nánast nýr, afhentur í vor. Skipstjóri á Kristni ÞH er Ríkharður Reynisson.  www.raufarhofn.is

2661.Kristinn ÞH 163 ex Kópur HF 44.

Samkvæmt því sem ég hef fregnað hefur Hólmsteinn Helgason ehf. selt eikarbátinn Viðar ÞH 17, 36 brl. að stærð byggður hjá Gunnlaugi og Trausta á Akureyri 1974. Hét báturinn upphaflega Múli ÓF, síðar Fiskines NS, Faxavík GK,  Harpa II GK, Skálavík SH og loks Guðbjörg Ósk VE áður en hann fékk Viðarsnafnið.

 

1354.Viðar ÞH 17 ex Guðbjörg Ósk VE. 

21.09.2006 18:15

Bátur vikunnar er smíðaður í Póllandi...

Þá er ég mættur aftur og bátur vikunnar er fyrstur á dagskránni. Að þessu sinni er hann smíðaður í Póllandi árið 1976 en keyptur frá Færeyjum til Íslands árið 1981. Þetta er línuskipið Núpur BA 69 sem er í eigu Odda hf. á Patreksfirði. Þetta 237 brl./358 BT stálskip hefur alltaf heitið Núpur frá því það var keypt til Patreksfjarðar(hét reyndar Nupur í Færeyjum). Fyrst BA 4, þá í eigu Skjaldar hf. og síðar Þórsbergs hf. á Tálknafirði. Þaðan var það selt til Grenivíkur og fékk einkennisstafina ÞH 3 og loks til Eskifjarðar þar sem einkennistafirnir voru SU 3 (minnir mig) Eftir að Núpur komst í eigu Odda hf. hefur það borið einkennisstafina BA 69. Skipið var lengt árið 1998, á Spáni held ég, og eftir að það strandaði síðla árs 2001 við Patreksfjörð, var sett ný brú á það árið 2002 .

1591.Núpur BA 69.

 

12.09.2006 00:37

Er farinn í frí til Búlgaríu

Er farinn í stutt frí til Búlgaríu með saumaklúbbi konunnar, nánar tiltekið til Sunny Beach. Það verður því lítið um að vera á síðunni nema ég sendi einhverjar myndir úr símanum frá Búlgaríu.

Þetta er hótelið sem við munum dvelja á, Victoria Palace.

Þetta er ekki dónalegt, eiginlega bara glæsilegt.

                                                                                                                                                           Ljósmyndir af www.apollo.is

11.09.2006 17:00

Húsavíkurrétt 2006

Hobbýbændur á Húsavík réttuðu um helgina síðustu og tók ég nokkra myndir þar sem eru komnar inn í albúm sem heitir Húsavíkurrétt 2006.

Hér rýna þau tengdafeðginin Jón Gunnarsson og Guðrún Eiríksdóttir og reyna finna sitt fé.

11.09.2006 16:03

Bátur vikunnar hefur verið seldur úr landi...

Bátur vikunnar að þessu sinni hefur verið seldur til Englands,þar sem nota á hann til krabbaveiða með gildru. Þetta er Eyrún ÁR 66, 108 BT að stærð, sem áður hér Sparkiling Line og var smíðaður í Skotlandi árið 1989. Útgerðafyrirtækið Ævarr ehf. í Þorlákshöfn keypti hann til landsins árið 2000 og hefur gert hann út til netaveiða fram til þessa.

2476.Eyrún ÁR 66.

06.09.2006 15:10

Bátur vikunnar er Strákur....

Bátur vikunnar að þessu sinni er smíðaður 1970 hjá skipasmíðastöði Þorgeirs og Ellerts á Akranesi og hét upphaflega Siglunes SH. Siglunesið sem er á annað hundrað tonn á stærð (101 brl.) hét síðar þessum nöfnum: Siglunes SH, Siglunes HU, Siglunes ÞH, Siglunes SH, Siglunes HF, Erlingur GK, Sigurbjörg Þorsteins BA, Strákur ÍS  og  loks Strákur SK.

1100.Strákur SK 126 ex Strákur ÍS.

 

 

 

Flettingar í dag: 535
Gestir í dag: 81
Flettingar í gær: 771
Gestir í gær: 113
Samtals flettingar: 9399629
Samtals gestir: 2008173
Tölur uppfærðar: 13.12.2019 12:41:15
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is