Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2006 Ágúst

26.08.2006 19:28

Meðmælaganga á Húsavík..........

Í morgun var gengin meðmælaganga í landi Bakka við Húsavík en áhugamenn á Húsavík stóðu fyrir henni þar sem tilgangurinn var að lýsa yfir stuðningi við nýtingu á umhverfisvænni orku og byggingu álvers í Bakka við Húsavík. Á vef stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslu www.vh.is skrifaði Aðalsteinn Á. Baldursson formaður að um hundrað manns hafi tekið þátt í meðmælagöngunni. Gengið var um Bakkaland þar sem reiknað er með að álverið rísi innan fárra ára. Fluttar voru stuttar ræður sem tengdust verkefninu og Sigurður Hallmarsson spilaði og stjórnaði fjöldasöng. Meðmælagangan fór mjög vel fram en henni lauk við styttu Einars Benediktssonar í landi Tjörnesinga.

Jón Ásberg Salómonsson slökkviliðsstjóri var sá eini sem veifaði kröfuspjaldi en á því var þó engin krafa heldur stóð á því "Hér byggjum við álver" en lóð fyrirhugaðs álvers er í bakgrunni á myndinni.

 

Meðmælagangan lögð af stað og pickupinn í Kaldbak fór fyrir henni með harmónikkuleikarann Didda Hall á palli.

Sigurjón skólastjóri sá um að upplýsa meðmælagöngumenn um sögu,örnefni og staðhætti í Bakka. Takið eftir að þarna er fréttamaður frá RUV að störfum ! spurning hvort hann hafi staðið fyrir þessari göngu  ? Skyldi Andri Snær vita af þessu ?

Sigurjón og Örlygur Hnefill eru ekki alltaf sammála en í þessu máli ganga þeir saman.

Ekki hafa allir sömu skoðanir og þessir ungu menn biðu göngufólksins við minnismerki Einars Ben og héldu uppi mótmælaspjaldi sem m.a. stóð á "Álver, nei takk".

Fleiri myndir verða settar inn í albúm fljótlega.

26.08.2006 10:05

Sigurvin GK 119 sökk á Breiðafirði.

Mannbjörg varð þegar Sigurvin GK 119, 28 brl. eikarbátur, sökk á Breiðafirði í gærkveldi. Þá var báturinn staddur um 15 sjm. norðvestur af Rifi á Snæfellsnesi. Svo segir frá þessu á vef Landsbjargar, www.landsbjorg.is í gærkveldi:

Rétt fyrir klukkan níu í kvöld bárust boð frá neyðarsendi 30 tonna eikarbáts sem staddur var NV af Rifi. Björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Björg frá Rifi, hélt skömmu síðar á sjó til leitar sem og skemmtibáturinn Svalan. Þyrla landhelgisgæslunnar TF-LÍF fór einnig á staðinn.
 
Skemmtibáturinn Svalan fann mennina þrjá í gúmbjörgunarbát og tók þá um borð en eikarbáturinn var þá sokkinn. Því næst fóru mennirnir þrír um borð í björgunarskipið Björg þaðan sem þyrlan hífði þá upp og flaug með til Reykjavíkur. Skipverjarnir voru nokkuð hressir miðað við aðstæður.

1201.Sigurvin GK 119 ex Sigurvin SH 119.

Sigurvin GK 119 var smíðaður á Fáskrúðsfirði árið 1972 og hét upphaflega Guðbjörg HU, það held ég að hafi verið vegna þess að báturinn var á innfjarðarveiðum á rækju í Húnaflóa og ef einhver veit eitthvað um það skrifið um það í álitiðð hér að neðan. Síðar var hann lengi gerður út frá Reykjavík, hét enn Guðbjörg og einkennisstafirnir voru RE 21.

1201.Guðbjörg RE 21 ex Guðbjörg HU.

Báturinn var seldur til Vestmannaeyja frá Reykjavík þar sem hann bar nöfnin Sigurbára VE og Gæfa VE og síðar er hann í Grindavík sem Gæfa GK, síðar Sigurvin SH og loks Sigurvin GK.

 

 

 

26.08.2006 01:17

Gamla mynd vikunnar

Þá er það gamla mynd vikunnar en þessi þáttur hjá mér hefur legið niðri að undanförnu en nú skal herða róðurinn. Þessi mynd er tekin að mig minnir í Héraðsflóa, sumarið 1995, þegar ég fór afleysingartúr á rækjuskipinu Geira Péturs ÞH 344, þeim sænska. Bátarnir á myndinni eru Kristbjörg ÞH 44 sem er nær og Haförn SK 17.

1009.Kristbjörg ÞH 44 ex Þuríður Halldórsdóttir GK 94 og Haförn SK 17 ex Haförn ÁR 115.

Það er eitt sem er sameiginlegt í útgerðarsögu þessara báta og þeir sem vita hvað það er geta skrifað það í álitið hér að neðan.

24.08.2006 22:26

Bátur vikunnar er smíðaður 1954

Bátur vikunnar að þessu sinni er smíðaður úr eik  í Svíþjóð árið 1954, nánar tiltekið í Halmstad. Það voru Hornfirðingar sem keyptu hann þaðan og fékk hann nafnið Sigurfari SF 58. Síðar hét hann Farsæll SH 30, Örninn KE 127 og loks Kári GK 146 en það nafn bar hann í tæp 40 ár allt þangað til hann var seldur til Dalvíkur vorið 2005 og fékk hann þá nafnið Aggi Afi EA 399.

399.Aggi Afi EA 399 ex Kári GK 146.

22.08.2006 20:08

Langanes hf. selt til Hornafjarðar

Þá er það orðið opinbert að Skinney-Þinganes hf. á Hornafirði hefur keypt útgerðarfélagið Langanes hf. á Húsavík en það hefur gert út skip undir nafninu Björg Jónsdóttir ÞH 321, ásamt fleiri skipum um tíma,  í áratugi.

Svo segir á www.skarpur.is í dag:

Skinney-Þinganes hefur keypt Langanes hf
Í dag voru undirritaðir samningar um sölu á hlut fjölskyldu Bjarna Aðalgeirssonar í Langanesi hf. til Skinneyjar-Þinganess á Höfn. Áður hafði Skinney-Þinganes keypt þann hlut í Langnesi sem eitt sinn var seldur Síldarvinnslunni, en síðan keyptur til baka. Að sögn Bjarna hefur þessi sala staðið fyrir dyrum um skeið og áhöfninni á Björgu Jónsdóttur var tilkynnt um þau áform fyrir nokkrum vikum. Engum hefur hinsvegar verið sagt upp og sagði Bjarni að nýir eigendur tækju við skipi og áhöfn með þeim skuldbindingum sem því fylgdu og gert væri ráð fyrir að Björgin yrði áfram gerð úr með sama hætti og hingað til. Það eru skipin Björg Jónsdóttir og Bjarni Sveinsson og aflaheimildir þeirra sem eru seld nú og afhending fer formlega fram 1. október. Að sögn Bjarna heldur fjölskyldan eftir húsi Langaness á hafnarstétt, hlutabréfum í Alla Geira og öðrum lausafjármunum. Útgerðarfélagið Langanes var stofnað á Þórshöfn árið 1975 en flutti starfsemi sína til Húsavíkur 1979. Nýjasta skipið í eigu Langaness er það áttunda sem fyrirtækið hefur gert út og sjöunda skipið sem ber nafnið Björg Jónsdóttir. Jafnan hefur þótt gott að vera í skipsrúmi hjá þessari ágætu fjölskylduútgerð sem margir munu sakna þegar hún hverfur nú frá Húsavík.

Svo mörg voru þau orð og óhætt að segja að útgerð fiskiskipa frá Húsavík sé á niðurleið.

2618.Björg Jónsdóttir ÞH 321.

1508.Bjarni Sveinsson ÞH 322 ex Björg Jónsdóttir ÞH 321.

 

 

 

14.08.2006 14:02

Páll Jónsson GK 7

Í dag kom línuskipið Páll Jónsson GK 7 til löndunar hjá Vísi hf. á Húsavík en starfsemi er að hefjast hjá Vísi hf. eftir sumarfrí. Páll Jónsson GK 7 hefur gengið í gegnum talsverðar breytingar í sumar auk þess sem mikið var unnið neðan þilja við endurbætur.  M.a. er kominn nýr veltitankur aftan við brú og toggálginn fjarlægður.

1030.Páll Jónsson GK 7.

Svona var hann í marz á þessu ári.

12.08.2006 22:41

Myndir frá Húsavíkurhátíðinni 2006

Þá eru allar myndir komnar inn frá Húsavíkurhátíðinni 2006 og eru þær í albúmi sem heitir Húsavíkurhátíðin.

12.08.2006 10:52

Bátur vikunnar er hálfrar aldar gamall.

Bátur vikunnar að þessu sinni er 199 brl. að stærð, smíðaður í Haugasundi 1956, og er því hálfrar aldar gamall um þessar mundir. Hann er í dag gerður út frá Hornafirði og er í eigu Skinneyjar-Þinganess  hf. Þetta er að sjálfsögðu Þórir SF 77 sem upphaflega hét Vaco en þegar hann var keyptur til landsins 1958 fékk hann nafnið Haförn og einkennisstafina GK 321. Eigandi Jón Kr. Gunnarsson Hafnarfirði. Hann seldi Ingimundi hf. í Reykjavík bátinn árið 1961 og fékk hann þá nafnið Helga  RE 49 sem hann bar allt til fram til þess að Þinganes hf. á Hornafirði keypti hann árið 1996.

91.Þórir SF 77.

05.08.2006 12:35

Sigur Rós í Ásbyrgi

Brá mér í Ásbyrgi í gær á tónleikana með Sigur Rós og var þetta mögnuð upplifun, ágætis tónlist í stórkostlegu umhverfi.

03.08.2006 23:10

Símamynd af Leu Hrund

Fórum í ostakarið áðan og ég prófaði að senda mynd, sem ég tók af Leu Hrund á GSM símann minn,inn á bloggið .

Það virkaði.

03.08.2006 18:00

Skip vikunnar er smíðað í Póllandi

Skip vikunnar er togari, smíðaður í Póllandi árið 1974 fyrir Ísfell hf. í Reykjavík og hét þá Engeyr RE. Í dag heitir togarinn Kleifaberg ÓF 2 og er í eigu Þormóðas-Ramma hf. í Fjallabyggð.

1360.Kleifaberg ÓF 2

Björn Valur Gíslason er stýrimaður og og afleysingaskipstjóri á Kleifaberginu og á heimasíðu sinni www.bvg.is segir hann m.a. sögu skipsins á sem sjá má hér http://www.simnet.is/kleifaberg/skipid/saga_klb.htm

 

03.08.2006 17:31

Bergur Elías Ágústsson ráðinn sveitarstjóri Norðurþings..........

     Bergur Elías Ágústsson, Mynd www.eyjar.net

Og það fór eins og www.skarpur.is sagði frá áðan, að Bergur Elías Ágústsson yrði ráðinn sveitarstjóri Norðurþings.

www.skarpur.is :
Byggðaráð sveitarfélagsins Norðurþings samþykkti á fundi sínum í dag að ráða Berg Elías Ágústsson í starf sveitarstjóra til næstu fjögurra ára. Auglýst var eftir sveitarstjóra og bárust 13 umsóknir en tvær voru dregnar til baka. Eftir umsögn utanaðkomandi ráðningarþjónstu var einn umsækjendanna metinn hæfur en niðurstaða meirihluta byggðaráðs var að hafna öllum umsóknum. Í framhaldi af því var ákveðið að ráða Berg Elías í starfið. Bergur Elías Ágústsson var á síðasta kjörtímabili bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar. Bergur er 43 ára að aldri, fæddur og uppalinn Vestmannaeyingur og menntaður í hagfræði frá Sjávarútvegsháskólanum í Tromsö í Noregi. Hann hefur gegnt margvíslegum stjórnundarstörfum í atvinnulífi hér á landi, m.a. sem rekstrarstjóri og síðar framkvæmdastjóri Skagstrendings hf. , Dvergasteins, framkvæmdastjóri fisk-vinnslufyrirtækjanna NASCO og Norðuróss á Blönduósi. Árið 2003 tók Bergur Elías við starfi bæjarstjóra í Vestmannaeyjum og gegndi því til loka kjörtímabils í ár. ?Ég er fullur tilhlökkunar að takast á við þau spennandi viðfangsefni sem framundan eru hjá Norðurþingi. Þetta er nýtt sveitarfélag og mjög áhugavert að vinna að uppbyggingu á því og öllum þeim tækifærum sem nýju sveitarfélagi fylgja. Í öðru lagi er framundan uppbygging á stóriðju við Húsavík og verður mjög áhugavert að fá að vera þátttakandi í því stóra verkefni,? segir Bergur Elías, sem kemur til starfa hjá Norðurþingi nú í ágústmánuði. Bergur Elías er í sambúð með Bryndísi Sigurðardóttir og eiga þau tvo syni fædda 1998 og 2001. Auk þess á Bergur tvær dætur frá fyrra hjónabandi fæddar 1991 og 1993.

www.skarpur.is greinir frá því rétt í þessu að nú sé fundað um ráðningu sveitarstjóra Norðurþings :

Nú stendur yfir fundur í byggðaráði Norðurþings. Fundurinn hófst kl. 16 og sagði Jón Helgi Björnsson bæjarfulltrúi að stefnt væri að því á fundinum að ganga frá ráðningu sveitarstjóra Norðurþings. Samkvæmt heimildum Skarps er sá Bergur Elías Ágústsson. Bergur Elías er fyrrverandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum og starfaði sem slíkur á sínum tíma í umboði meirihluta V-listans (kosningabandalags Vinstri-Grænna, Samfylkingarinnar og framsóknarmanna). Bergur Elías er sjávarútvegsfræðingur að mennt frá Tromsö, og stundaði meðal annars rannsóknarstörf hjá hagfræðideild norsku sjávarútvegsstofnunarinnar um sex ára skeið. Eftir að hann kom frá Noregi starfaði hann við sjávarútveg þar til hann tók við bæjarstjórastarfinu í Vestmannaeyjum.

 

  • 1
Flettingar í dag: 78
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 694
Gestir í gær: 121
Samtals flettingar: 9394003
Samtals gestir: 2007199
Tölur uppfærðar: 6.12.2019 01:19:18
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is