Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2006 Júlí

31.07.2006 00:11

Húsavíkurhátíðinni lokið.

Þá er Húsavíkurhátíðinni lokið og óhætt að segja að vel hafi tekist, stútfull dagskrá Sænskra daga og Mærudaga og veðurguðirnir gerðu þessa hátíð frábæra. Ég mun setja inn myndaalbúm frá þessu innan tíðar en hér kemur sýnishorn af blómstrandi mannlífi þessa daga.

Um 180 manns þáðu boð Norðursiglingar og Veitingahússins Sölku um siglingu yfir í Náttfaravíkur, nánar tiltekið í Rauðuvík þar sem Sölkumenn grilluðu lambakjöt ofan í liðið. Ferðin þótti takast með miklum ágætum og áttu farþegar varla til nógu sterk orð til að lýsa upplifun sinni í ferðinni.

Meðal þeirra sem fóru yfir í Rauðuvík var Kristján Óskarsson á Húsavík og var dótturdóttir hans Guðrún Kristín Svavarsdóttir með honum í för.

 

Leikmenn úr liði Völsunga sem komust upp í efstu deild fyrir tuttugu árum, komu saman á Húsavíkurhátíðinni og léku leik þar sem skipt var í ungir gamlir.Mjög góð mæting var hjá leikmönnum og margir komnir langt að en sínu lengst Helgi Helgason frá Grafarbakka sem býr í Þýskalandi,og þá dúkkaði Guðmundur Ólafssonn þjálfari upp í þann mund sem leikurinn var að byrja og varð leikurinnhin besta skemmtun.

Meðal þeirra sem nutu góða veðursins og mannlífsins á hafnarstéttinni á laugardag voru prestshjónin á Húsavík, Sr. Sighvatur Karlsson og Auður Ásmundsdóttir.                                  

29.07.2006 13:31

Húsavíkurhátíðin í fullum gangi

Húsavíkurhátíðin hófst sl. mánudag og nær hámarki um helgina, hátíðarhöldin hafa farið mjög vel fram og dagskrá hennar svo viðamikil að ekki ætla ég að telja hana upp hér.  Myndir koma í myndaalbúmið eftir helgi en ég set hér myndir sem verða duga þangað til.

Tveir góðir, Þorgeir Bald & Kúti.

Vinirnir Olli Egils og Balli Viðars.

 

26.07.2006 21:31

Eldri borgarar grilla í Sultum í Kelduhverfi.

Var að setja inn nýtt myndaalbúm með myndum sem ég tók þegar eldri borgarar á Húsavík og í nærsveitum héldu grillveislu í Sultum í Kelduhverfi á dögunum. Farið á tengil á myndaalbúm hér til hægri á síðunni.

Íbúðarhúsið í Sultum. (ekki er búið á jörðinni lengur en hún er nýtt til frístunda af afkomendum Hallgríms Björnssonar og Önnu Gunnarsdóttur síðustu ábúenda í Sultum).

Séð suður í Stekkjarsult þar sem sumarhúsin og tjaldstæðin eru.

 

26.07.2006 21:17

Gamla mynd vikunnar er frá síldarvertíð..

Gamla mynd þessarar vikur er af Geira Péturs ÞH 344 sem ég tók af honum vel hlöðnum af síld, við vorum að koma til löndunar á Eskifirði árið 1984 og Siggi Valli hleypti mér í land til að mynda bátinn. Farinn var aukahringur og ég smellti slatta af myndum en þær mistókust allar vegna þess að ég var með Olympus myndavél frá Hödda vini mínum á Sigþór í láni og eitthvað hafa stillingarnar klikkað hjá mér.

1207.Geiri Péturs ÞH 344 ex Sigurbergur GK 212.

Læt aðra mynd fylgja með sem var tekin 1986 þegar við vorum að landa síld á Eskifirði.

24.07.2006 21:56

Bátur vikunnar er úr Ólafsvík...

Bátur vikunnar er gamall eikarbátur, byggður í Danmörku 1964. Sveinbjörn Jakobsson SH 10 hefur verið gerður út frá Ólafsvík alla tíð og verið í eigu Dvergs hf.

260.Sveinbjörn Jakobsson SH 10.

Sveinbjörn Jakobsson SH 10 var upphaflega mældur 109 brl. en var endurmældur 1969 og mældist þá vera 103 br. Upphafleg aðalvél bátsins var 495 hestafla Lister en árið 1983 var sett í það 495 hestafla Mirrles Blackstone. (heimild Íslensk skip eftir Jón Björnsson)

Nú hefur orðið breyting á því samkvæmt vef Fiskistofu er einkennisstafir bátsins nú SH 104 og nýr Sveinbjörn Jakobsson SH 10 er væntanlegur til heimahafnar í Ólafsvík innan tíðar. Þar er á ferðinni 101 brl. stálbátur sem að stofninum til telst vera smíðaður 1967 á Akranesi og hét upphaflega Drífa RE. Báturinn gekk undir ýmsum nöfnum en hét síðast Sæbjörg ST 7 og var endurbyggður hjá Ósey í Hafnarfirði 1997. Skipt var um aðalvél árið 2001 en þá var sett í hann 632 hestafla Caterpillar.

1054.Sæbjörg ST 7 nú Sveinbjörn Jakobsson SH 10.

23.07.2006 23:52

Karlakórinn Hreimur sótti Sultir í Kelduhverfi heim.

Var að setja i nn myndir frá því um helgina er félagar úr Karlakórnum Hreim í Þingeyjarsýslu sótti Sultir í Kelduhverfi heim og slóu upp grillveislu fyrir sig og gesti sína. Farið í Myndaalbúm hér til hægri og þar finnið þið albúmið.

19.07.2006 20:12

Skip vikunnar er Sigurður VE 15

183.Sigurður VE 15.

Bátur vikunnar er skip, nótaskip Sigurður VE 15. Sigurður hefur verið á síldveiðum að undanförnu og hefur gengið vel hjá Bóba og áhöfn hans að ná síldinni. Sigurður er smíðaður 1960 í Bremenhaven þýskalandi og bar upphaflega einkennisstafina ÍS 33, síðar RE 4 og loks VE 15.

Það alltaf gaman þegar jólasveinar koma fram á ritvöllinn með visku sína eins og t.d. sá sem skrifar álit hér að neðan (sjá álit) þar virðist hann eitthvað hafa út á fréttaflutning, eða skort á honum, af síldveiðum Sigurðar VE að segja. Morgunblaðið stendur sína vakt með ágætum og þann 9. júlí sl. (fyrir 10 dögum) birtist þessi frétt af gangi síldveiða Sigurðar VE:

Sunnudaginn 9. júlí, 2006 - Innlendar fréttir

Sigurður VE kominn með tæp 8.000 tonn af síld

NÓTASKIPIÐ Sigurður VE er búið að fá tæp 8.000 tonn af síld frá því úthaldið byrjaði um 20. maí. Undanfarið hefur síldin veiðst djúpt norðaustur af Kolbeinsey.

Sigurður VE kominn með tæp 8.000 tonn af síld - mynd
Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson
Sigurður VE hefur fengið norsk-íslenska síld norðan við Kolbeinsey.

NÓTASKIPIÐ Sigurður VE er búið að fá tæp 8.000 tonn af síld frá því úthaldið byrjaði um 20. maí. Undanfarið hefur síldin veiðst djúpt norðaustur af Kolbeinsey.

"Það hefur gengið ágætlega hjá okkur," sagði Kristbjörn Árnason, skipstjóri á Sigurði VE, í samtali við Morgunblaðið. "Þetta er mjög stór og falleg síld. Hún verður ekki stærri held ég."

Kristbjörn taldi engan vafa leika á að síldin væri úr norsk-íslenska stofninum og sagði að hún hefði öll veiðst í íslensku lögsögunni. "Þetta byrjaði Íslandsmegin við miðlínuna milli færeysku smugunnar og Jan Mayen-línunnar. Svo barst þetta vestar og þar hvarf hún skyndilega og fannst svo hér upp við landið."

Búið er að leita mjög stóru svæði fyrir norðan land en ekkert hefur fundist þar af síld. Kristbjörn sagði að dýpra væri kaldari sjór. Síldin virðist því hafa haldið sig á ákveðnu belti.

"Ég held að hún sé á svipuðum slóðum og hún gekk á á árum áður. Kannski heldur lengra frá landi. Við vorum síðast 40-50 mílur norðaustur úr Kolbeinseynni. Þar var svolítið af síld, en svo hvarf hún þegar gerði norðanáttina." Kristbjörn minntist þess að fyrir nokkrum árum hefðu Færeyingar verið að veiða síld djúpt út af Norðausturlandinu. Þá hefði hann verið á loðnuveiðum og vitað af Færeyingunum ekki langt frá að veiða síld.

Sigurður VE hefur landað nær allri síldinni í sumar í Krossanesi við Eyjafjörð. Farið var með einn farm til Vestmannaeyja fyrir sjómannadag og landað í heimahöfn. En á að halda áfram?

"Við ætlum að skoða þetta núna þegar norðanáttin gengur niður. Þá er meiningin að fara út og vita hvort við finnum eitthvað. Það er óvíst að það verði neitt. Síldin fór oft í leiðindaástand þegar hún var orðin svona feit."

Svo mörg voru þau orð í Morgunblaðinu og www.skip.is hafði reyndar birt frétt um sama efni byggt á viðtali við Bóba í Fiskifréttum þrem dögum fyrr, eða þann 6. júlí sem er svohljóðandi:

Góður árangur hjá Sigurði VE á síldveiðum í landhelginni

6.7.2006

Kristbjörn Þór Árnason skipstjóri og áhöfn hans á Sigurði VE hafa gert það gott á síldveiðum úr norsk-íslenska síldarstofninum í sumar. Aflinn er kominn í um 8000 tonn og það skemmtilega er að allur aflinn hefur veiðst innan íslenskrar lögsögu og það í nót.Í tölvupósti sem Skip.is barst frá Friðriki Björgvinssyni í morgun segir að nú síðast hafi Sigurður VE fengið síld á 67°30´N og 17°30´ V þannig að ljóst sé að eitthvað af norsk-íslensku síldinni hafi náð að ganga vestur fyrir hina svokölluðu köldu tungu sem er fyrir austan landið.Þess má geta að rætt er við Kristbjörn Þór Árnason í þættinum Karlinn í brúnni í nýjustu Fiskifréttum en þar greinir hann frá því að síld hafi fundist á Héraðsflóa og Vopnafjarðagrunni um 30 mílur frá landi. Í viðtalinu kemur fram sú skoðun Kristbjörns að skilyrðislaust eigi að banna allar flottrollsveiðar á síld og loðnu. Hann segir flottrollin splundra torfunum og erfitt sé að finna síld í veiðanlegu magni fyrir nótina eftir að farið hafi verið yfir veiðisvæðið með trolli.
 
Svo mörg voru þau orð sem skrifuð hafa verið um síldveiðar nótaskipsins Sigurðar VE 15 í fjölmiðlum síðustu daga og er ekki annað hægt en að benda öllum þeim jólasveinum sem áhuga hafa á sjávarútvegsfréttum að kaupa Moggann, Fiskifréttir eða skoða www.skip.iswww.123.is/skipamyndir segja svo kannski einhverjar fréttir af sjávarútvegi og þá helst tengdar myndum mínum. 
 
Annars er ágætt að fá svona álit við myndirnar því þá skapast stundum umræða sem leiðir af sér upplýsingar og fróðleik um viðkomandi báta.
 
HH

 

19.07.2006 01:22

Mokveiði á rækju, gamla mynd vikunnar.

Gamla mynd þessarar vikur er frá því í gömlu góðu daga er rækjan mokveiddist og var síðan unnin í rækjuverksmiðjum í landi. Nú er þetta liðin tíð, þó er einhver veiði enn í hafinu, en svo er búið að koma málum fyrir á Húsavík að rækja verður vart unnin þar í nánustu framtíð ef einhvern tímann aftur.

Myndina tók Hreiðar Olgeirsson skipstjóri á Kristbjörgu ÞH 44 þegar verið var á innfjarðarrækjuveiðum í Öxarfirði og eru þeir Már Höskuldsson og Stefán Hallgrímsson að losa síðasta pokan úr hali sem greinilega gaf vel. Fjórði skipverjinn um borð var Skarphéðinn Olgeirsson en myndin er tekin einhvern tímann á árunum 1985-7 að ég held. Innfjarðarrækjunni úr Öxarfirði var landað til vinnslu á Kópaskeri en þegar báturinn var á úthafsrækjuveiðum fór aflinn til vinnslu á Húsavík.

12.07.2006 22:42

Bátur vikunnar er smíðaður 1963

Bátur vikunnar að þessu sinni er smíðaður árið 1963 í Noregi, þetta er Faxi GK 44 eigandi Einar Þorgilsson & co h/f. í Hafnarfirði.

Einar Þorgilsson & co h/f gerði skipið út til ársins 1985 er Júlíus Stefánsson kaupir það og nefnir Snæfara RE 76, síðar HF 186. Skipið var selt Langanesi h/f. á Húsavík og hét þá Björg Jónsdóttir ÞH 321en fljótlega kaupir Júlíus það aftur. Skipið er síðan selt Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum þar sem það fær nafnið Styrmir VE 82. Síðan heitir skipið Styrmir KE, Styrmir ÍS , aftur Styrmir KE og loks Hera Sigurgeirs BA og eftir nokkuð langa legu í höfn var það selt erlendis í brotajárn.

 

12.07.2006 00:02

Nýtt glæsilegt fjölveiðiskip Samherja kom til Akureyrar.

Í dag kom nýtt glæsilegt fjölveiðiskip til Akureyrar en Samherji hf. festi kaup á skipinu fyrir skömmu. Svo segir á heimasíðu Samherja hf. www.samherji.is í dag:

Samherji kaupir skip til uppsjávarveiða

Samherji hf. hefur fest kaup á skipi á Shetlandseyjum. Skipið er 71 metri að lengd og 13 metrar á breidd og sérstaklega hannað til uppsjávarveiða. Það hefur 10.000 hestafla vél og burðargeta þess er 2.100 tonn í sjókælitönkum (RSW). Skipið var smíðað í Noregi árið 1998.

Skipið, sem nú ber nafnið Serene LK-297, kemur til Akureyrar á morgun þriðjudag en verður afhent Samherja síðar í vikunni. Það mun hljóta nafnið Margrét EA-710 en skip með því nafni hefur nú verið í eigu félagsins í 20 ár. Ráðgert er að skipið fari í sína fyrstu veiðiferð fyrir Samherja innan skamms.

Samherji hefur ávallt kappkostað að hafa sem bestan og fullkomnastan búnað í veiðum og vinnslu til að búa sem best að starfsfólki sínu og auka samkeppnishæfni félagsins. Kaupin á Serene eru þannig liður í nauðsynlegri endurnýjun skipastóls fyrirtækisins en reiknað er með að á næsta ári fari eldra skip úr rekstri fyrir hið nýja skip.

Ég renndi á eyrina til að mynda skipið og hér eru nokkrar myndir frá komu þess, fleiri myndir fara inn í albúm fljótlega. Þessi mynd hér að ofan er ekki alveg sannleikanum samkvæmt og því er hún orginal hér:

Serene LK 297 frá Whalsay á Hjaltlandseyjum.

Samherjafrændur Kristján Vilhelmsson tv. og Þorsteinn Már Baldvinsson með skipstjóra Serene og einn fyrrum sjö eigenda þess á milli sín í brúnni.

Þorsteinn Már benti mér á merkið á stefni skipsins en það sýnir eyjuna Whalsay og eins og fyrr segir voru eigendur skipsins sjö talsins og eru upphafsstafirnir í nöfnum þeirra í hring um myndina af Whalsay en þaðan er Serene LK-297 og útgerð þess.

Hægt er að skoða tæknilegar upplýsingar um skipið á síðunni hjá þeim bræðrum á Skagaströnd, Jobba og Gumma á slóðinni

http://www.123.is/jobbioggummi 

Eins og segir hér að ofan í fréttatilkynningu Samherja hf. hefur fyrirtækið haft Margréti EA 710 í sínum flota í  20 ár og hér að neðan má sjá það skip eins og það leit út eftir lengingu 1986 en síðar var skipt um brú á skipinu.

Svo segir um Margréti EA-710 á heimasíðu Samherja hf.
Tegund: Frystitogari
Smíðaár: 1977
Smíðastaður: Kristiansund, Noregi
Lengd: 58.50 metrar
Vélarafl: 2.203 hestöfl
Brúttótonn: 842 tonn
Athugasemdir: Lengt og hækkað 1986

Margrét EA 710 bættist í flota Samherja í lok ársins 1986.  Skipið var ísfisktogari er það var keypt en gekkst undir breytingar í frystiskip.  Margrét hefur verið gerð út til ræku- og bolfiskveiða. 

 

05.07.2006 18:38

Lea Hrund rauð á lit

Setti inn albúm hér fyrir systur mínar svo þær geti séð hvernig dóttir mín varð útlítandi eftir að hún komst yfir snyrtidót í eigu systur sinnar. Pabbinn var að passa en sjónvarpið fangaði athygli hans og sú stutta notaði tímann til að snyrta sig aðeins til, gott ef pabbinnn opnaði ekki litaboxið.

Lea Hrund Hafþórsdóttir.

 

04.07.2006 19:00

Bátur vikunnar vekur athygli ferðamanna

Bátur vikunnar hefur verið í slipp frá árinu 2002, á Húsavík. Hann heitir Reynir GK 177 og var smíðaður 1970 í Stykkishólmi. Hann hét upphaflega Jón Helgason ÁR en hefur borið þó nokkur nöfn síðan þá. Var m.a. hér fyrir norðan og hét á þeim tíma Bliki EA, þá Guðrún Jónsdóttir SI og loks Þorleifur EA.

1105.Reynir GK 177 í sinni hinstu siglingu, frá bryggjunni í slippinn.

Þessi langi tími Reynis í slippnum á Húsavík er tilkominn vegna þess að menn uggðu ekki að sér á leið sini til hafnar á Húsavík og sigldu á fullri ferð á brimvarnargarð sem var verið að gera framan við höfnina á Húsavík. Við það skemmdist báturinn og var tekinn upp í slipp til að kanna skemmdirnar og þar er hann ennþá. Báturinn reyndist svo illa skemmdur að ekki þótti borga sig að gera við hann og síðan hefur hann drabbast þarna niður.

Reynir GK hefur verið hið ágætasta módel þarna í slippnum og hafa oft sést ferðamenn, ljósmyndarar og aðrir listamenn á vappi við hann og hér hefur hann vakið áhuga litstamanns sem dró upp þessa fínu mynd af honum. 

04.07.2006 12:17

Ný Cleopatra 38 til Tálknafjarðar

Þeir slá ekki slöku við hjá Trefjujm hf. í Hafnarfirði en frá því segir á heimasíðu fyrirtækisins í dag að ný Cleópatra 38 hafi verið afhent til Tálknafjarðar.

www.trefjar.is :

Ný Cleopatra 38 til Tálknafjarðar


Útgerðarfélagið Stegla ehf á Tálknafirði fékk í síðustu viku afhentann nýjan Cleopatra 38 bát.
Að útgerðinni stendur Tryggvi Ársælsson sem jafnframt er skipstjóri á bátnum.

Nýi báturinn hefur hlotið nafnið Sæli BA 333 og leysir af hólmi eldri Cleopatra 31 bát með sama nafni. Báturinn er 15 brúttótonn og er í krókaaflamarkskerfinu.
Aðalvél bátsins er af gerðinni Volvo Penta D12 715hp tengd ZF gír. Ljósavél er af gerðinni Kohler. Í bátnum er ískrapavél frá Kælingu.
Báturinn er útbúinn siglingatækjum af gerðinni Furuno frá Brimrún.
Báturinn er einnig útbúin með vökvadrifinni hliðarskrúfu sem tengd er sjálfstýringu bátsins. Báturinn er útbúinn til línuveiða. Línuspil og færaspil eru frá Sjóvélum.
Öryggisbúnaður bátsins kemur frá Viking.

Rými er fyrir 12 stk. 660 lítra kör í lest. Í bátnum er innangeng upphituð stakkageymsla. Borðsalur er í brúnni auk stóla fyrir skipstjóra og háseta. Svefnpláss er fyrir fjóra í lúkar auk eldunaraðstöðu með eldavél, örbylgjuofn og ísskáp.


 

 

02.07.2006 12:28

Gamla mynd vikunnar er af.....

Gamla mynd þessarar viku er af Geira Péturs ÞH 344, þeim fyrsta sem bar það nafn. Hreiðar Olgeirsson tók þessa mynd,1980 að ég held, og er Geiri Péturs nýlagstur að bryggju eftir velheppnaða grálúðutúr en grálúðan var veidd á línu.

1207.Geiri Péturs ÞH 344 ex Sigurbergur GK 212.

  • 1
Flettingar í dag: 485
Gestir í dag: 86
Flettingar í gær: 694
Gestir í gær: 121
Samtals flettingar: 9394410
Samtals gestir: 2007267
Tölur uppfærðar: 6.12.2019 13:24:28
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is