Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2006 Júní

27.06.2006 18:35

Ný Cleopatra 38,Auður Vésteins GK 88, til Grindavíkur

Ný Cleopatra 38 til Grindavíkur


Útgerðarfélagið Einhamar ehf. í Grindavík fékk nú á dögunum afhentan nýjan yfirbyggðan Cleopatra 38 bát. Að útgerðinni stendur Stefán Kristjánsson. Skipstjóri á bátnum er Óskar Sveinsson.
Nýji báturinn hefur hlotið nafnið Auður Vésteins GK 88. Báturinn er 15brúttótonn og er í krókaaflamarkskerfinu. Auður Vésteins er af gerðinni Cleopatra 38. Einhamar gerir einnig út Cleopatra 38 bátinn Gísla Súrsson GK 8.

Aðalvél bátsins er af gerðinni Volvo Penta D12 715hp tengd ZF gír. Ljósavél er af gerðinni Kohler. Í bátnum er ískrapavél.
Báturinn er útbúinn siglingatækjum frá Radiomiðun.
Báturinn er einnig útbúin með vökvadrifinni hliðarskrúfu sem tengd er sjálfstýringu bátsins. Báturinn er útbúinn til línuveiða. Línubeitningakerfi af gerðinni Mustad er á millidekki fyrir 17.000 króka. Línuspil og færaspil er frá Beiti.

Öryggisbúnaður bátsins kemur frá Viking.
Rými er fyrir 12stk. 660lítra kör í lest. Í bátnum er innangeng upphituð stakkageymsla. Borðsalur er í brúnni auk stóla fyrir skipstjóra og háseta. Svefnpláss er fyrir fjóra í lúkar auk eldunaraðstöðu með eldavél, örbylgjuofn og ísskáp.
www.trefjar.is

2608.Gísli Súrsson GK 8.

Beitningarvélabáturinn Gísli Súrsson eftir yfirbyggingu, en báturinn var óyfirbyggður balabátur eins og það er kallað í upphafi.

 

 

25.06.2006 00:09

Sjöfn EA 142 seld.

Sjöfn EA 142 hefur verið seld útgerð Saxhamars SH á Rifi en Frosti hf. á Grenivík sem gerir út samnefndan frystitogara keypti þær veiðiheimildir sem á bátnum voru. Sjöfnin er nú í slipp á Akureyri en verður afhent nýjum eigendum innan skamms.

1028.Sjöfn EA 142 ex Sæljón SU 104.

Sjöfnin hét upphaflega Hrafn Sveinbjarnarson GK 255 og var einn þeirra báta sem smíðaðir voru fyrir íslendinga í Boizenburg í Austur Þýskalandi 1964-1967. Síðar hét hann Sæljón SU 104 frá Eskifirði þangað til hann kom til Grenivíkur og fékk nafnið Sjöfn.

24.06.2006 23:47

Steffen C GR 6-22 Nuuk ex Pétur Jónsson RE 69

Þá er búið að afhenda nýjum eigendum rækjufrystitogarann Pétur Jónsson RE 69. . Eins og fram hefur komið í fréttum var togarinn seldur til Grænlands og hefur nú hann fengið nafnið Steffen C. Ég tók þessa mynd inn a Akureyri í dag.

Steffen C GR 6-22 ex Pétur Jónsson RE 69.

 

22.06.2006 19:10

Fanney aftur komin í húsvíska flotann

Fanney aftur komin í húsvíska flotann.

 

2177.Fanney ÞH 16.

Fanney er bátsnafns sem velþekkt er úr útgerðarsögu Húsavíkur en hefur þó ekki verið á bát frá Húsavík síðan Fanney ÞH 130 var seld til Ólafsvíkur.

Nú er Fanneyjarnafnið aftur komið í notkun og er það Sigurjón Sigurbjörnsson, sonur Sigurbjörns Kristjánssonar sem var einn af eigendum Fanneyjar ÞH 130, sem lét bát sem hann keypti í vetur heita þessu nafni. Báturinn sem er af Gáskagerð hét áður Sunna ÍS og var gerður út frá Suðureyri við Súgandafjörð.

18.06.2006 22:53

Gamla mynd vikurnnar er úr saltfiskverkun.

Gamla mynd þessarar vikur er úr saltfiskverkun Korra hf. á Húsavík og er myndin tekin að öllum líkindum árið 1989.

Steini á Fossi (Steingrímur Árnason) og Baldvin Jónsson við störf í saltfiskinum.

Bæti annari við og sýnir hún Hall Jóhannesson við saltfiskmat.

Úgerðarfyrirtækið Korri hf. byggði saltfiskverkunarhús á hafnarsvæðinu á Húsavík og verkaði þar fisk um tíma, eftir að fyrirtækið var selt var GPG fiskverkun stofnuð og er hún til húsa í þessu húsnæði auk þess sem byggt hefur verið við það.

17.06.2006 21:51

Hver er báturinn er...Leiftur frá liðinni tíð.

Myndagetraunin hver er báturinn er komin í sumarfrí en kemur aftur galvösk að því loknu. Nýr liður kemur í hennar stað sem nefnist Leiftur frá liðinni tíð og verður þar á ferðinni mynd eða myndir frá einhverrjum atburði sem sumum þykir athyglisverður en öðrum ekki. Enn verður þetta þó tengt skipum og bátum og rétt að benda á að þetta sem þú ert að lesa núna er liðin tíð um leið og þú ert búinn að lesa þetta. Því er verða bæði eldgamlar myndir og mjög nýlegar í þessu..

14.06.2006 19:58

Áhöfnin á Þinganesinu fær viðurkenningu

Áhöfnin á Þinganesinu fær viðurkenningu

Á sjómannadag veitti Slysavarnafélagið Landsbjörg hina árlegu viðurkenningu til áhafna skipa sem sótt hafa námskeið hjá Slysavarnaskóla sjómanna og sýnt öðrum fremur góða öryggisvitund að mati kennara skólans. Viðurkenningin er farandbikar sem afhentur er til varðveislu um borð í viðkomandi skipi í eitt ár ásamt veggskildi til eignar. Áhöfnin á Þinganesi SF 25 frá Hornafirði hlaut viðurkenningu ársins 2006. Gunnar Þorgeirsson stjórnarmaður hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu afhenti viðurkenninguna og veitti Jón Sigurðsson skipstjóri henni móttöku fyrir hönd áhafnar sinnar. Athöfnin fór fram í Slysavarnaskóla sjómanna um borð í Sæbjörgu skólaskipi Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

                                                                                                                    

Þessi frétt er af heimasíðu Skinneyjar-Þinganess   www.sth.is

 

2040.Þinganes SF 25

13.06.2006 23:00

Nýtt albúm frá sjómannadeginum á Húsavík

Hef sett inn nýtt albúm með myndum frá sjómannadeginum á Húsavík 2006.

Spurning dagsins er hversu lengi var Gunnþór á ránni, eftir að mátti byrja að slá ?

13.06.2006 22:33

Hver báturinn

Þ.A. var greinilega á réttri leið því Dísa kemur með sama bátinn, reyndar undir öðru nafni en hann heitir á þessari mynd.

Báturinn er smíðaður 1963 í Danmörku fyrir Halakotsbræður og nefndist báturinn Ágúst Guðmundsson II GK 94. Hann heitir Jóhannes Ívar á myndinni en hafði heitið m.a. Sigurjón GK, Ver NS og Jónína ÍS.

963.Jóhannes Ívar KE ex Jónína ÍS.

Er Þ.A á réttri leið ?

 

 

Enn set ég hér myndbrot inn og spyr hver er báturinn ?

11.06.2006 23:07

Amma í Skálabrekku heiðruð á sjómannadaginn

Sjómnnadagsráð á Húsavík í ár var í fyrsta skipti eingöngu skipað sjómannskonum og þótti þeim því tilvalið að heiðra að þessu sinni sjómannskonur.

 Heiðraðar voru tvær konur, Bergljót Sigurðardóttir sem er eiginkona Sigtryggs Kristjánssonar ,sem var einn eigenda Fanneyr ÞH 130, og amma mín, Ragnheiður Jónasdóttir, ekkja Olgeirs Sigurgeirssonar útgerðarmanns.  Það var Ósk Þorkelsdóttir sem sá um orðuveitingarnar sem fram fóru í kaffifagnaði slysavarnardeildar kvenna í sal Fosshótels Húsavíkur. 

Fv. Bergljót Sigurðardóttir, Ragnheiður Jónasdóttir og Ósk Þorkelsdóttir.

 

 

09.06.2006 18:13

Gamla mynd vikunnar er í tilefni sjómannadagsins....

Gamla mynd þessarar viku er tekin af Hreiðari Olgeirssyni 1974-75 eða þar um bil. Hún er tekin á sjómannadaginn og sýnir Jón Sör ÞH 220 leggja að bryggju eftir skemmtisiglinuna. Eins og sagt var í upphafi átti gamala mynd vikunar að tengjast Korraútgerðinni á einhvern hátt. Þessi gerir það á þann hátt að Pétur Olgeirsson var skipstjóri og einn eigenda Jóns Sör en Pétur er sonur Olgeirs Sigurgeirssonar sem stofnaði til Korraútgerðarinnar  ásamt sonum sínum (útgerðin var stofnuð 1961 en fékk ekki nafnið Korri fyrr en árið 1969 er keypt var samnefnt hlutafélag úr Ólafsvík).

625.Jón Sör ÞH 220 ex Þórður Bergsveinsson SH 3. Upphaflega Jökull SH 15.

 

09.06.2006 00:16

Hver er báturinn 27 maí

Keilir GK 145 er báturinn, smíðaður 1975 í Skipavík og hét Kristbjörg ÞH 44 í eigu Korra hf. á Húsavík.

 

Er menn einhverju nær ?

Hvar er Hafliði ?

 

Hver er báturinn ?

08.06.2006 23:44

Völsungur Magni 3-1

Í kvöld áttust við í 1. deild kvenna b riðli Völsungur  og Magni frá Grenivík og fór leikurinn fram í blíðskaparveðri á Húsavíkurvelli. Aðsókn að leiknum var góð enda var þetta fyrsti heimaleikur Völsungskvenna siðan 1993 í meistaraflokki enda ekki sent lið síðan þá fyrr en í vor. Völsungur hafði fyrir leikinn í kvöld unnið tvo fyrstu leiki sumarsins á útivelli.

Svo segir www.skarpur.is í kvöld :

Sigurganga Völsungsstúlkna heldur áfram!
Sigurganga kvennaliðs Völsungs í knattspyrnu hélt áfram í kvöld þegar það mætti liði Magna frá Grenivík á Húsavíkurvelli í kvöld. Hafrún Olgeirsdóttir skoraði með hörkuskoti á 23. mín. og kom Völsungi yfir 1-0. Einungis um tveimur mínútum síðar náðu Magnastúlkur að jafna með góðri sókn 1-1. Berglind Ósk Kristjánsdóttir kom Völsungum svo á ný yfir á 54. mín. og kom stöðunni í 2-1. Harpa Ásgeirsdóttir gerði svo út um leikinn þegar hún skoraði á 67. mín. eftir góðan undirbúning Berglindar. Dagný Pálsdóttir átti stórleik í marki Völsungs og var að lokum kosin maður leiksins með innanhúskosningu. Þ.á.m. stöðvaði hún hættulega sókn Magna þegar sóknarmaður Magna komst einn á móti marki snemma leiks. Eftir leikinn trónar Völsungur á toppnum með níu stig, Magni er í öðru með sex og Höttur í þriðja með þrjú stig.

Hafrún Olgeirsdóttir skoraði fyrsta markið.

Harpa Ásgeirsdóttir er hér að skora þriðja markið.

Dagný Linda Kristjánsdóttir markvörður Magna ,sem er kunnari fyrir afrek sín á skíðum, fylgist með Völsungum fagna marki.

Veðrið var alveg frábært í kvöld.

  • 1
Flettingar í dag: 535
Gestir í dag: 81
Flettingar í gær: 771
Gestir í gær: 113
Samtals flettingar: 9399629
Samtals gestir: 2008173
Tölur uppfærðar: 13.12.2019 12:41:15
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is