Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2006 Maí

30.05.2006 20:40

Bátur vikunnar

Bátur vikunnar að þessu sinni er 22 brl. eikarbátur byggður árið 1934 í Danmörku. Hann hét upphaflega Ægir GK 8 en þegar myndin er tekin heitir hann Kristbjörg ÞH 44, sú fyrsta af 4.

541.Kristbjörg ÞH 44 ex Hallsteinn EA 130.

 

25.05.2006 00:14

Gamla mynd vikunnar er....bátur á leið í slipp.

Gamla mynd þessarar vikur er tekin að ég held þegar fyrsti báturinn var tekin upp í dráttarbrautina á Húsavík einhvern tímann upp úr 1980.

 

1420.Kristbjörg ÞH 44 á leið í slipp á Húsavík.

Kristbjörgin var fyrsti báturinn sem tekinn var upp í dráttarbrautina á Húsavík og samkvæmt Sögu Húsavíkur IV bindi var það þann 3. nóvember 1982.

24.05.2006 21:02

Strandvegagangan 2006, styrktarganga fyrir Krabbameinsfélag Íslands.

Strandvegagangan er styrktarganga fyrir Krabbameinsfélag Íslands og hana gengur Jón Eggert Guðmundsson en hann lagði upp í þessa göngu árið 2005 er hann gekk sl. sumar á fimm vikum frá Hafnarfirði suður og austur um til Egilsstaða. alls 986 km. Hann átti því fyrir í ár höndum (eða kannski ætti maður að segja fótum) að ganga norður og vestur um landið alls 2.114 km og ætlar hann sér tíma í það fram í miðjan ágúst nk.

Jón Eggert Guðmundsson og Friðrika Baldvinsdóttir formaður Krabbameinsfélags S-Þingeyinga við Húsavíkurkirkju í dag.

Jón Eggert kom til Húsavíkur á þriðja tímanum í dag og tók fjöldi fólks á móti honum, munaði þar mestu um leikskólabörn af leikskólum bæjarins en einnig voru þarna fólk úr Krabbameinsfélagi S-Þingeyinga ofl. auk þess sem nokkrir frambjóðendur til sveitarsjórnar mættu. Til að minna á sig hlýtur að vera. Jón Eggert hóf gönguna í morgun á Tjörnesi, 15 km. norðan Húsavíkur en hann hvíldi í gær vegna veðurs. Hann sagði veðrið hafa verið með ýmsu móti frá því Strandvegagangan hófst á Egilsstöðum í um 17 stiga hita þann 6. maí. "Ég hef lent í öllum veðrum, allt frá 20 stiga hita og niður að frostmarki eins og núna" sagði Jón Eggert borubrattur og gekk sem leið lá gegnum Húsavík, reyndar með smá stoppi til myndatöku á tröppum Húsavíkurkirkju.

Öll þekkjum við einhverja sem greinst hafa með krabbamein, ættingja, vini eða aðra samferðarmenn, sumir hafa sigrast á því en aðrir fallið fyrir því. Ég vil því benda á að ganga Jóns Eggerts er styrktarganga fyrir Krabbameinsfélag Íslands og getum við lagt henni lið með því að að hringja í söfnunarsímann 9075050 eða lagt inn á söfnunarreikning 0301-26-102005 kennitala 700169-2789.

Hægt er að fylgjast með göngunni á mbl.is en þar er hlekkur til vinstri á síðunni sem heitir Strandvegagangan.

Ég hef sett nokkra myndir frá komu Jóns í albúm undir nafninu Strandvegagangan 2006.

22.05.2006 23:37

Hver skyldi nú vera báturinn

 

Eyborg EA 59 er báturinn eins og Þ.A. giskaði fljótlega á, báturinn hét upphaflega Vattarnes SU 22, síðan Björg NK 103, Sólborg ÁR 15, Ölduberg ÁR 18 og loks Sæunn Sæmundsdóttir ÁR 60 áður en hann var seldur norður til Hríseyjar 1986. Þar tók hann við af gömlum eikarbát sem fékk nafnið Ísborg og var síðan seldur til Patreksfjarðar. Eyborgina gerði Birgir Sigurjónsson út þangað til hann fékk nýsmíðaða Eyborgu frá Portúgal árið 1993 og var sú gamla úreld á móti þeirri nýju.

Er Þ.A. á réttri leið ?

Hver er báturinn hér að neðan ?

22.05.2006 22:10

Hver er báturinn enn einu sinni

Sólfari AK 170 er báturinn, smíðaður á Akureyri 1971 og hét upphaflega Arinbjörn RE. Hann heitir nú Sólfari SU 16 en hefur borið þessi nöfní gegnum tíðina:  Sólfari RE, Látraröst GK, Látraröst ÍS, Hrausti ÁR, Trausti ÁR, Jón Klemenz ÁR, Lómur BA, Lómur SH, Sólfari AK, Fagurey SH, Elías Steinsson VE.

1156.Sólfari RE 26.

Eru Þ.A. GHS og Óðinn enn sama sinnis ?

Hér kemur næsta myndbrot.

 

Hver er báturinn ?

 

21.05.2006 23:26

Bátur vikunnar er rækjubátur

Bátur vikunnar að þessu sinni er rækjubáturinn Sigurborg SH 12.

1012.Sigurborg SH 12.

Sigurborgin er eina skipið sem stundar rækjuveiðar við Ísland um þessar mundir og hafa kallarnir verið að mokfiska fyrir vestan nú í maí. Þann 13. maí voru þeir komnir með yfir 120 tonn í þremum löndunum. Sigurborgin er smíðuð í Noregi árið 1966 og hét upphaflega Sveinn Sveinbjörnsson NK frá Neskaupsstað, því næst Freyja RE 38 en hefur síðan heitið Sigurborg og borið einkennisstafina AK, KE, VE, HU og SH.

Hörður Harðarson  vinur minn og félagi er skipverji á Sigurborginni og því upplagt að birta þessa mynd af honum.

21.05.2006 02:01

Nýtt albúm-myndir frá Sjómannadeginum á Húsavík 2005

Nú nálgast Sjómannadagurinn og af því tilefni hef ég sett inn nýtt albúm með myndum sem ég tók á Sjómannadeginum á Húsavík árið 2005. Er það í nýjum flokki sem nefnist Sjómannadagurinn á Húsavík og mun ég setja inn eldri myndir frá þessum degi á Húsavík í þann flokk.

Þeir tóku á því í reptoginu smábátasjómennirnir í fyrra og höfðu sigur.

20.05.2006 11:57

Gamla mynd þessarar viku er tekin í Þorlákshöfn

 

Gamla mynd þessarar vikur er frá árinu 1982, tekin af Hreiðari Olgeirssyni skipstjóra á Kristbjörgu ÞH 44. Þessa vertíð fóru bátar frá Húsavík á vetrarvertíð á Breiðafjörð nema Skálabergið ÞH 244 sem fór í Þorlákshöfn. Eftir páska komu svo margir bátar af Breiðafirðinum suður fyrir og margir þeirra til Þorlákshafnar, m.a. Kristbjörgin.

 

Kristbjörg ÞH 44 við bryggju í Þorlákshöfn í apríl 1982, hún liggur utan á Jósef Geir ÁR 36 sem var byggður í Skipavík í Stykkishólmi 1972 en Kristbjörgin (1420) 1975. Jósef Geir (1266) var í eigu Hraðfrystihúss Stokkseyrar en hann sökk síðar. Ég hef reynt að komast að því hvaða ár það var enn ekki tekist enn, ef einhver veit það væri gaman að það kæmi fram. Báturinn utan á Kristbjörginni er Sæbjörg ST 7 (314) og aftan við hana er Jón Helgason ÁR 12 (892).

17.05.2006 23:09

Siggi Davíðs kominn með myndasíðu

Sigurður Davíðsson togarasjómaður er kominn með myndasíðu á 123.is og hef ég sett tengil á síðuna hans hér til hægri. Siggi Davíðs eins og hann er kallaður var búsettur á Húsavík í nokkur ár, var á rækjutogaranum Geira Péturs ÞH 344, hefur myndað mikið til sjós og því bendi áhugasömum á þessa síðu hans.

 

Siggi Davíðs lét sitt ekki eftir liggja á sjómanndeginum á Húsavík og hér keppir hann í naglaboðhlaupi fyrir Geira Péturs ÞH árið 2003. Eins og hann heldur á hamrinum á þessari mynd er kannski eins gott að hann er á sjó en ekki við smíðar.

17.05.2006 19:30

Hver er báturinn að þessu sinni..

Júlía VE 123 er báturinn eins og Þ.A giskaði á, báturinn er smíðaður í Hafnarfirði 1943, 53 brl. að stærð og hét upphaflega Skálafell RE 20.(heimild:Íslensk skip eftir Jón Björnsson)

623.Júlía VE 123.

Hér kemur næsta myndbrot af þessum bát.

 

 

 

Hver er báturinn ?

13.05.2006 19:07

Bátur vikunnar er Sæborg ÞH 55

Bátur þessarar viku er Sæborg ÞH 55 í eigu Hraunútgerðarinnar ehf. á Húsavík. Sæborgin er 40 brl. eikarbátur smíðaður hjá Gunnlaugi og Trausta á Akureyri 1977 fyrir Karl Aðalsteinsson og syni hans, þá Aðalstein  og Óskar. Sæborgin var seld suður til Keflavíkur og fékk nafnið Eyvindur KE en Karl Óskar Geirsson og Úlfhildur Sigurðardóttir, eigendur Hraunútgerðarinnar, keyptu hann aftur til Húsavíkur. Á meðan Sæborgin var á Suðunesjunum breyttist hún talsvert í útliti þegar hvalbaku var settur á bátinn.

1475.Sæborg ÞH 55 ex Eyvindur KE 37.

12.05.2006 20:33

Gamla mynd vikunnar er

Gamla mynd þessarar vikur er tekin af Hreiðari Olgeirssyni skipstjóra á Kristbjörgu ÞH 44 fyrir rúmlega tuttugu árum. Myndin sýnir áhöfn bátsins (að skipstjóranum frátöldum) við bílaleigubíl sem tekinn var til að fara til Húsavíkur frá Vopnafirði. Kristbjörgin var þar við síldveiðar í lagnet.

Fv. Róbert Jónsson, Skarphéðinn Olgeirsson, Már Höskuldsson, Eiríkur Guðmundsson aftan við Má, Einar Geirdal og Þorgrímur Ármann Þórgrímsson.

1420.Kristbjörg ÞH 44.

10.05.2006 18:59

Hver er báturinn ?

Jæja það er best að upplýsa hver báturinn er. Óðinn hafði rétt fyrir sér þegar hann sagði þetta vera Báru ÍS 364(Nú Fanney RE 31).

1053.Bára ÍS 364.

Þ.A. var með spurningu hvort karlarnir hafi verið að skvera og mála á landleiðinni, ekki veit ég það en litað var yfir nafn og númer á myndinni, og járnið þarna(rauða) fyrir neðan nafnið en það á ekki að rugla jafn glöggann mann og Þ.A í ríminu.

Hafliði myndin er tekin við suðurströndina, í Þorlákshöfn.

 

 

Hér kemur næsta myndbrot, hvernig væri að Haflið myndi skjóta svona einnu sinni á nafn bátsins.Það er ekki alltaf nóg að segja þetta tekið við suðurströndina.

 

Hver er báturinn ?

09.05.2006 21:43

Hvernig beittu karlarnir línuna...

Hvernig beittu karlarnir eiginlega línuna gæti Haukur Hauksson landforðamur á Sigrúnu ÞH 136 verið að hugsa í dag þegar verið var að landa úr bátnum.

Haukur Hauksson

Haukur fór nefnilega á netin með Ingólfi og Simma á Hrönninni ÞH 36, en það er sama útgerðin og á Sigrúnu ÞH, og á meðan beittu tveir menn komnir vel á aldur(miðað við Hauk) línuna af Sigrúnu ÞH.

Í dag réru svo Ingólfur og Simmi með 18 bjóð af þessari línu, lögðu hana í Öxarfirðinum og komu á Sigrúnu drekkhlaðinni til hafnar aftur.

Ingólfur (að ofan) og Simmi lönduðu 8,3 tonnum sem gerir c.a. 460 kg. á bjóð sem vel að merkja voru ekki beitt af landformanni bátsins.

06.05.2006 14:30

Myndir frá Húsavík

Setti inn nokkrar myndir frá Húsavík á síðuna hér til hægri "Fréttir tengdar Húsavík". Þetta eru myndir sem ég hef tekið á undanförnum vikum.
Flettingar í dag: 457
Gestir í dag: 82
Flettingar í gær: 694
Gestir í gær: 121
Samtals flettingar: 9394382
Samtals gestir: 2007263
Tölur uppfærðar: 6.12.2019 12:16:01
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is