Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2006 Mars

31.03.2006 09:49

Er í myndatúr á suðvesturlandi

Þessa dagana er ég á myndatúr í höfnum suðvestanlands, í gær var ég kominn í Grindavík rúmlega 12 og kom aftur til Reykjavíkur um kl. 20.30.

Það lágu nokkrir þarna , sumt átti ég fyrir, aðrir höfðu breyst og einn nýr lenti fyrir linsunni. Í dag reikna ég með að fara í Sandgerði og Keflavík. Annars er þetta orðið hörmung að sjá eins og hafnirnar hér í Reykjavík og Hafnarfirði, yfirfullt af skipum og bátum sem enginn virðist hafa not fyrir.

Línu-og togskipið Þuríður Halldórsdóttir GK 94 var eitt þeirra skipa sem ég myndaði í gær og hér er hún á útleið.

1645.Þuríður Halldórsdóttir GK 94.

27.03.2006 21:31

Bátur vikunnar

Bátur þessarar viku er neta- og dragnótabáturinn Geir ÞH 150 frá Þórshöfn á Langanesi. Báturinn er smíðaður (skrokkurinn fluttur inn frá Póllandi ) hjá Ósey  í Hafnarfirði árið 2000 og mælist 115,7 brl. að stærð. Eigandi hans er Geir ehf. á Þórshöfn.

2408.Geir ÞH 150.

25.03.2006 13:42

Hver báturinn #2

Þar sem þetta (Hver er báturinn) vakti einhver viðbrögð hjá áhugamönnum um báta og skip hendi ég öðrum hér inn og spyr hver er báturinn.

Svarið í "skrifa álit" hér að neðan.

                                                                                                                                                           Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson

23.03.2006 18:51

Hver báturinn ?

Nýtt á síðunni, hver er báturinn ?

Nýr þáttur sem mun boppa upp svona öðru hverju. Til að svara fara menn í "skrifa álit" og ausa úr viskubrunni sínum þar.

Þetta virðist hafa fallið í kramið hjá nokkrum a.m.k. 4 og höfðu 3 þetta rétt enn einn giskaði á Sveinbjörn Jakobsson SH. Þessi bátur hér að ofan heitir nú Náttfari og er gerður út til hvalaskoðunar frá Húsavík af Norður_Siglingu. Báturinn er smíðaður í Stykishólmi 1965 og hefur heitið of mörgum nöfnum til að ég fari að telja þau upp.

22.03.2006 20:59

Nýtt Digranes NS á Bakkafjörð

Nýtt Digranes NS 124 komið

Svo segir á www.bakkafjordur.is :

Enn einn nýr bátur er kominn á Bakkafjörð og er það Marinó Jónson sem er að stækka við sig bátinn.

Nýji báturinn er af gerðinni Gáski 1150 sem hét Hópsnes og er mikið aflaskip frá Grindavík.

Báturinn mun líkleg taka nafn forvera síns þ.e. Digranes NS 124

Nýja Digranesið er talsvert stærra en það gamla sem var af gerðinni Cleopatra 28 en lengt í 31.

Þá er það spurningin hvað varð/verður um það gamla ?

 

21.03.2006 22:25

Bátur vikunnar

Bátur þessarar viku er ekki alveg nýr af nálinni, smíðaður í Þýkalandi, nánar tiltekið í Travemunde árið 1960 og er því 46 ára á þessu ári.

616.Stefán Rögnvaldsson EA 345

Stefán Rögnvaldsson er 68 brl. að stærð og hét upphaflega Jón Guðmundsson KE 4, hann hét síðan, Ísleifur ÁR, Askur,ÁR, Guðbjörg ST, Laufey ÍS, Dagur SI og Egill BA. Stefán Rögnvaldsson hf. keypti hann frá Patreksfirði 1987 og hefur hann verið gerður út frá Dalvík síðan.

19.03.2006 12:47

Kallarnir 2006

Er búinn að setja inn nýtt albúm sem heitir Kallarnir 2006, í því verða myndir af körlunum neðan við bakkann á Húsavík teknar á þessu ári.

Einn þeirra er Sigurður Kristjánsson á Voninni ÞH 54 og hann myndast alltaf jafn vel og því þurfa menn ekkert að undrast þó myndirnar af honum séu kannski fleiri en af öðrum. Það er einfaldlega staðreynd að menn myndast misjafnlega vel og við því er ekkert að gera.

16.03.2006 21:51

Gamla mynd vikunnar..

Gamla mynd þessarar vikur er ekki svo ýkja gömul eða frá árunum 1987-1989, man það ekki alveg. Hún er tekin á Dalvík, af því ég best man af fyrsta gámi sem sendur var utan, með fisk af Geira Péturs ÞH 344. Við höfðum verið á fiskitrolli fyrir norðurlandi og farið var inn á Dalvík sett í gám sem fór með m/s Mánafossi sem þar var staddur.

Á myndinni eru fv. Snorri Snorrason skipstjóri á Dalvík sem nú er látinn, þá einhver sem ég ekki þekki, Sigurður Valdimar Olgeirsson skipstjóri á Geira Péturs, hann er einnig látinn og þeir Trausti Sverrisson og Eiríkur Guðmundsson skipverjar á Geira Péturs.

1825.Geiri Péturs ÞH 344.

Þarna lögðum við bátnum á meðan landað var, á milli Björgúlfs, eða Björgvins, og Mánafoss. Það kom sér vel að vera stuttur þarna.

16.03.2006 20:58

Ný Cleopatra til Hólamvíkur

Ný Cleopatra 38 til Hólmavíkur

Útgerðarfélagið Hlökk ehf á Hólmavík fékk nýlega afhentan nýjan Cleopatra 38 bát.

Að útgerðinni stendur Ingvar Pétursson sem jafnframt er skipstjóri á bátnum.
Nýji báturinn hefur hlotið nafnið Hlökk ST 66 og leysir af hólmi eldri Cleopötrubát með sama nafni. Báturinn er 15brúttótonn og er í krókaaflamarkskerfinu.

Aðalvél bátsins er af gerðinni Yanmar 6KYM-ETE 650hp tengd ZF325IV gír. Báturinn er útbúinn siglingatækjum af gerðinni Furuno frá Brimrún.

Báturinn er einnig útbúin með vökvadrifinni hliðarskrúfu sem tengd er sjálfstýringu bátsins. Báturinn er útbúinn til línu og netaveiða. Línuspil og færaspil er frá Beiti. Netabúnaður er frá Rapp.

Öryggisbúnaður bátsins kemur frá Viking.
Rými er fyrir 12stk 660lítra kör í lest. Í bátnum er innangeng upphituð stakkageymsla. Borðsalur er í brúnni auk stóla fyrir skipstjóra og háseta. Svefnpláss er fyrir fjóra í lúkar auk eldunaraðstöðu með eldavél, örbylgjuofn og ísskáp.

www.trefjar.is

www.strandir.is

http://www.strandir.is/index.php?option=com_content&task=view&id=2290&Itemid=2

13.03.2006 16:44

Bátur vikunnar

Bátur vikunnar 13 -19 marz

Bátur vikunnar að þessu sinni er Erling KE 140 en hann var aflahæstur netabáta í febrúar með 270,5 tonn. (Heimild Gísli Reynisson/Fiskifréttir)

233.Erling KE 140 ex Óli á Stað GK 4

Erling KE hét upphaflega Akurey RE 6 og var smíðaður í Florö í Noregi 1964 fyrir Hraðfrystistöðina í Reykjavík. Haraldur Böðvarsson hf. á Akranesi keypti síðan skipið þaðan sem Rafn hf. í Sandgerði keypti það og gaf því nafnið Barðinn GK. Síðan hét báturinn Júlli Dan um tíma, einkennistafirnir GK, ÞH og ÍS þar til hann fékk nafnið Óli á Stað GK 4.

 

Skírnir AK 16

11.03.2006 10:18

Gamla myndin þessa vikuna er.....

Gamla mynd þessarar viku er tekin þegar m/b Skálaberg ÞH 244 ex Kristbjörg II ÞH 244 stundaði netaveiðar frá Þorlákshöfn á vertíðinnni 1982.

Á myndinni eru, Aðalgeir Olgeirsson í glugganum og fv. Ólafur Skúli Guðjónsson, Gunnar Jónsson, Grímur Agnarsson og Karl Ólafsson. Aðrir í áhöfn voru Hafþór Hreiðarsson og Númi Helgason var hluta vertíðar.

 

08.03.2006 22:33

Bryggjulíf á Húsavík

Tók rúnt á bryggjuna í dag og var þar margt um manninn enda bátarnir að koma að landi. Meðal þess sem bar fyrir linsuna hjá mér var "Gamli" íbygginn á svip og þegar að gáð, var hann kominn á löndunarkranann, þann nýja og var að landa úr Karólínu.

"Gamli" Eiður Gunnlaugsson á krananum.

Þá var hafnarvörðurinn þarna, hógvær að venju, og var hann ánægðastur með íhaldslituðu körin hjá Jón Óla og Hödda Eika á Fleygnum.

Eitthvað hefur hafnarvörðurinn sagt sem kom Jón Óla til að brosa breitt í dag en annars má segja frá því að þeir voru með tvö tonn á línuna Fleygsmenn.

05.03.2006 22:47

Bátur vikunnar

Þá er kominn nýr liður hér á síðunni sem ber heitið bátur vikunnar. Þar mun ég setja inn mynd af einhverju fiskiskipi sem mér dettur í hug í það og það skiptið. Þessi fleyta getur verið frá þeirri minnstu upp í þá stærstu, elstu eða yngstu, á skrá eða afskráður og allt þarna á milli. Gaman væri ef menn þekkja til báts vikunnar að þeir komi með athugasemdir eða sögur tengdar þessum bátum. Ég veit að Hafliði Óskarsson á Húsavík kann kynstrin öll af sögum um íslenska flotann en hann er bara svo upptekinn þessi dægrin við að keyra rútubíla að hann hefur engann tíma til að láta ljós sitt skína. Hann var þó á þeim bát sem fær þann heiður að vera fyrsti bátur vikunnar.

Bátur vikunnar 6/3-13/3 2006

 

Sá bátur sem fær þann heiður að ríða á vaðið er 37 brl. eikarbátur, smíðaður í Stykkishólmi 1967,sem upphaflega hét Kristjón Jónsson SH 77, eigandi Útgerðarfélagið Korri hf . Síðar hét hann Kristbjörg ÞH 44 frá árinu 1971 þegar hlutafélagið Korri hf. var keypt til Húsavíkur. Þegar Korri hf. lét byggja nýja 50 brl. Kristbjörgu í Skipavík í Stykkishólmi fékk gamli báturinn nafnið Kristbjörg II ÞH 244. Það nafn bar hann þangað til í ársbyrjun 1980 að Egill og Aðalgeir Olgeirssynir kaupa hann og gefa honum nafnið Skálaberg, einkennisstafir þeir sömu. Ég ræðst í skipsrúm hjá þeim, Aðalgeir er skipstjóri og Egill sér um reksturinn í landi samhliða öðrum störfum. Aðrir sem voru í upphaflegri áhöfn voru Pétur Bjarnason frá Grafarbakka, Grímur Agnarsson Hrólfur Þórhallsson og Arnar Sigurðsson. Þarna var ég í þrjú ár og voru þeir margir mennirnir sem voru í áhöfn á þessum tíma og þegar ég hætti var ég sá eini sem byrjaði með Alla á bátnum. Það var róið með línu, þorskanet, dragnót og lagnet á síld auk þess sem prófað var að fara á handfæri, fiskitroll, rækjutroll (að mig minnir). 1985 er báturinn seldur til Flateyrar þar sem hann fær nafnið Jónína ÍS 93 og hefur hann síðan heitið Ver NS, Bára SH, Bára ÍS, Bára RE og í dag heitir hann Fanney RE 31, eigandi Byggðastofnun og hægt er að fá hann fyrir lítið. Eftir því sem ég veit best hefur hann legiðí höfn á Patreksfirði síðustu ár.

Einnig er hægt að sjá link á Bát vikunnar hér til hægri og þar getur verið að ég komi til með að skrifa meira um bátinn en hér á fréttsíðunni.

 

04.03.2006 10:29

Myndirnar frá álvökunni komnar inn

Þá er myndaalbúm frá álvökunni á Gamla Bauk komið inn og er vistað í flokknum Mannlíf á Húsavík.

01.03.2006 23:03

Færumst skrefi nær álveri við Húsavík

 

Þau voru gleðileg tíðindin sem bárust frá New York til Íslands í dag þess efnis að Alcoa hefði valið Bakka við Húsavík sem hugsanlegan stað fyrir nýtt álver. Húsvíkingar ásamt fleiri þingeyingum fjölmenntu á Gamla Bauk til ákvöku og eftirfarandi frétt skrifaði Jóhannes Sigurjónsson blaðamaður á Skarpi á samnefndan netmiðil.

1. mars 2006 - kl. 15.39
Mikill fögnuður á Gamla Bauk fyrir stundu!
Það brutust út mikil fagnaðarlæti á Gamla Baukk kl. 15 þegar Gísli Sigurgeirsson, fréttamaður tilkynnti þær fréttir frá New York að Alcoa og ríkisstjórn Íslands hefðu undirritað samkomulag um að hefja ítarlega könnun á hagkvæmni þess að reisa nýtt, 250.000 tonna álver á Bakka við Húsavík. Mikið fjölmenni var á staðnum, og ekki bara Húsvíkingar, heldur fólk úr nærsveitum, m.a. sveitarstjórnarmenn, þingmaðurinn Einar Már var og mættur og almenn gleði ríkjandi með þessa niðurstöðu. En menn gerður sér jafnframt fulla grein fyrir því að málið væri ekki í höfn og mikið verk óunnið, áður en endanleg niðurstaða verður fengin. Í tilkynningu vegna málsins kemur fram að verði af byggingu álversins mun það nota rafmagn sem að mestu verður framleitt með vistvænni jarðvarmaorku. Verði ákveðið að reisa nýtt álver á Norðurlandi er fyrstu framkvæmda á svæðinu ekki að vænta fyrr en árið 2010. Í tilkynningu kemur fram að samningurinn fylgir í kjölfar þeirrar ákvörðunar Alcoa að velja Bakka við Húsavík fyrir byggingu hugsanlegs álvers eftir samanburðarrannsóknir milli þeirra staða sem komu til greina á Norðurlandi. Aðrir staðir sem einnig voru skoðaðir gaumgæfilega voru Brimnes í Skagafirði og Dysnes í Eyjafirði. Þetta er í fyrsta sinn sem svo umfangsmikil samanburðarrannsókn hefur verið gerð fyrir opnum tjöldum hérlendis í aðdraganda staðarvals fyrir stóriðju. Ráðgjafanefnd um staðarval var skipuð fulltrúum sveitarfélaganna þriggja sem valið stóð um, Invest in Iceland-skrifstofunnar og Alcoa. Nefndin leitaði álits færustu sérfræðinga og lagði jafnframt til grundvallar endanlegu staðarvali mat á efnahags-, samfélags- og umhverfisþáttum. Við ákvörðunina var horft til jarðfræði og vistfræði umræddra svæða, landfræðilegra aðstæðna, hugsanlegra fornleifa, veðurfars, siglingarleiða og hafnaraðstæðna svo og orkuframleiðslu, orkuflutnings og almennra samgangna. Ennfremur var lagt mat á samfélagsleg og efnahagsleg áhrif, svo sem íbúasamsetningu viðkomandi sveitarfélaga, vinnumarkað og áhuga íbúa á hugsanlegum framkvæmdum. Þegar Skarpsfréttmaður hvarf af vettvangi til að rita þessa frétt, var mikil stemmning ríkjandi á Gamla Bauk.

Stemmingin hélt áfram þó Jóhannes hafi horfið á braut og hér að ofan sjást þeir Siddi bóndi í Steindal (á Tjörnesi) og Gummi Salla í góðum gír.

Ég tók eitthvað fleiri myndir á þessari fagnaðarstundu sem álvakan var og mun setja inn sér myndalbúm með þeim fljótlega.

  • 1
Flettingar í dag: 508
Gestir í dag: 88
Flettingar í gær: 694
Gestir í gær: 121
Samtals flettingar: 9394433
Samtals gestir: 2007269
Tölur uppfærðar: 6.12.2019 13:55:12
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is