Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2006 Janúar

25.01.2006 23:07

Hvar er Palli..........Villi er á lyftaranum.

Hvar er Palli gæti maður hafa spurt í dag á bryggjunni þegar Villi Sigmunds var allt í einu kominn á GPG lyftarann, þennan græna, og tók hvert karið af fætur öðru frá smábátunum sem voru að landa. En auðvitað spurði maður ekki því þó Palli sé besti lyftaramaður sem ég þekki þá er Villi ágætur, er ekki frá því að það hafi hann lært á Skipaafgreiðslunni í den. Villi gaf sér tíma til að pósa fyrir myndavélina og kvartaði sáran í leiðinni að það væri engin mynd af sér á síðunni og því ákvað ég að bæta úr því hið snarasta og skella einni inn og  er hún hér að neðan.

 

 

 

22.01.2006 21:48

Skipin rifin í tætlur í Danmörku.

Eiríkur frændi minnn Guðmundsson býr nú í danaveldi og er hann var á ferðinni í Grenaa á Jótlandi rakst hann á nokkur kunnuleg íslensk skip. Þau voru greinilega að enda sitt líf eins og Eiki sagði er hann sendi mér myndir sem hann tók af þeim . Þetta ku nefnilega vera á þeim slóðum þar sem menn dunda sér við að rífa skip í tætlur eða brotajárn eins og sagt er. Þarna koma fyrrum húsvísk skip við sögu og á myndinni hér að neðan eru tvö þeirra.

 

Báturinn fremst á myndinni er Brynjólfur ÁR 3 sem var nú síðustu árin í eigu Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Hann var smíðaður í Noregi 1962, í Risör, fyrir útgerðarfélagið Svan hf. á Húsavík (heimild Íslensk skip, 4 bindi eftir Jón Björnsson) og hét Helgi Flóventsson ÞH 77. Skipaskrárnúmer 93. Togarinn fyrir aftan það sem eftir er af Brynjólfi ÁR er Húsey ÞH 383 sem var í eigu Íshafs hf. á Húsavík um skeið en hét lengst af Hólmanes SU 1. Togarinn var smíðaður 1974 í Vigo á Spáni og var með skipaskrárnúmerið 1346.

Hér standa gömul stýrishús í röðum og það fremsta er af Stafnesi KE 130, báti sem síðast var í eigu Þorbjarnar Fiskaness hf. í Grindavík. Upphaflega hét báturinn Sigurborg SI 275, smíðaður fyrir þá Þráinn Sigurðsson á Siglufirði og Þórð Guðjónsson Akranesi í Hollandi árið 1965. (Heimild Íslensk skip, 3 bindi eftir Jón Björnsson)

20.01.2006 21:57

Loðnan ekki alveg búin, Björg Jónsdóttir ÞH með fyrsta loðnufarminn til Neskaupsstaðar á árinu

Björg Jónsdóttir ÞH 321 frá Húsavík var fyrsta skipið til að landa loðnu á Neskaupsstað á árinu 2006 og er eftrifarandi frétt tekin af vef Síldarvinnslunnar:

Fyrstu loðnu ársins landaði til vinnslu í Neskaupstað
Björg Jónsdóttir ÞH 321 kom í morgun með fyrstu loðnu ársins til Neskaupstaðar í frystingu. Loðnan fékkst á loðnumiðunum norður af Langanesi, en góð veiði hefur verið hjá þeim skipum sem hafa verið á miðunum síðustu daga. Skipstjórar segja töluvert efni vera á ferðinni enda hafa skip verið að fá góð hol síðustu daga og lóðningar verið að skila góðu. Rannsóknarskipið er á Seyðisfirði og heldur aftur til loðnurannsókna með kvöldinu og ætti að vera á slóðum veiðiskipanna um helgina. Það er ekki óalgengt að þorrinn og loðnan fylgist að og vonum við að óábyrgar hrakspár einstakra þingmanna um loðnustofninn breyti engu þar um. Það er alveg ljóst að mikið er í húfi hjá þeim fyrirtækjum sem byggja afkomu sína á loðnustofninum. Hundruðir starfa eru í uppnámi og eiga mörg byggðarlög mikið undir.

2618.Björg Jónsdóttir ÞH 321.

 

Gísli S Gíslason hafnarstjóri afhenti Sigurði Bjarnasyni skipstjóra á Björgu Jónsdóttir tertu allstóra í tilefni þess að um fyrstu löndun ársins var að ræða en ég var ekki á staðnum til að mynda. Ég birti hins vegar hér mynd mynd sem ég tók sumarið 1989 er ég fór einn afleysingatúr á Björgu Jónsdóttur. Ef mig minnir rétt var þetta fyrsti túr Sigga sem skipstjóra. Ef svo er ekki getur einhver sem veit betur commentað um það hér að neðan. 
 
 
Sigurður Bjarnason.
 
Þetta er Björgin sem um ræðir að ofan.
 
973.Björg Jónsdóttir ÞH 321 ex Galti ÞH 320.

 

18.01.2006 20:54

Kall og kall að detta inn.

Ég er alltaf að setja inn svona einn og einn kall í myndaalbúmið Kallarnir en þar eru myndir af köllum sem verið hafa við leik og störf í gegnum tíðina neðan við bakkann á Húsavík.

Þessir fjallmyndarlegu kallar bættust t.d. við í dag, þeir heita Egill Hjartarson og Gunnar Skarphéðinsson th. en þeir starfa núna við trukkaakstur hjá Alla Geira ehf. á Húsavík. Þeir sóttu sjóinn á árum áður, Egill m.a á Sigþóri ÞH 100 og Gunnar var lengi á Geira Péturs ÞH 344, reyndar þremum skipum með því nafni.

15.01.2006 21:44

Myndir notaðar í leyfisleysi

Ég hef oft verið spurður að því af hverju ég hafi ekki tengla inn á fleiri heimasíður skipa- og bátasala, það sé svo gott að hafa þetta á einum stað.

Þessu hef ég átt auðvelt með að svara, ég lít þjófnað alvarlegum augum, það er því mjög auðvelt fyrir mig að ákveða það hvaða skipasölur ég vísa á. Það eru einfaldlega þær sem virða rétt minn á ljósmyndum mínum og eru ekki að stela þeim af netinu til að nota í auglýsingum.

Rakst á skemmtilega orðsendingu um svona mál á heimasíðu Kvótamarkaðsins, hún er svona:

Af gefnu tilefni skal eftirfarandi tekið fram:
Kvótamarkaðurinn ehf. leggur mikið á sig til að þjónusta viðskiptavini sína sem allra best m.a. með því að, oftar en ekki, ferðast um langan veg til þess að taka myndir af bátum, fiskvinnsluvélum og öðrum eignum sem viðskiptavinir félagsins hafa hug á að selja. Æ oftar ber á því að aðrir kvóta- og skipasalar fari á vefinn hjá Kvótamarkaðinum og noti þær myndir sem þar eru til þess að snapa sér viðskipti. Þetta er með öllu ólíðandi og áskilur Kvótamarkaðurinn ehf. sér fullan rétt til þess að innheimta þóknun samkvæmt gildandi gjaldskrá félagsins fyrir óheimil afnot af myndu þeim sem hér eru birtar og eru eign félagsins.

Svo mörg voru þau orð en samt eru á söluskrá þessa fyrirtækis núna 3 myndir eftir mig sem aldrei hefur verið beðið um leyfi fyrir að nota.

. Mónes NK ex Dúddi Gísla GK

 Knolli GK 3 ex Nóna GK

 Berti G ÍS ex Gyða Jónsdóttir EA ex Björn EA

 

09.01.2006 21:42

Aron ÞH 105 kominn af stað

Nýji Aron ÞH 105, sem er 15 brt. yfirbyggður plastbátur, hefur hafið róðra en báturinn kom nýr til Húsavíkur rétt fyrir jól.  Í áhöfn hans verða fjórir menn og hitti ég á Stefán Guðmundsson einn þeirra þegar verið var að landa úr bátnum í Húsavíkurhöfn í dag. Stefán sem verður skipstjóri á bátnum sagði allan búnað hans hafa virkað vel og menn væru að læra á bátinn sem er búinn beitningakefri frá Mustad. Það var helst að vandræði væru þegar verið væri að landa úr bátnum sagði Stefán því löndunarkranarnir í Húsavíkuhöfn eru vart boðlegir í það verkefni. 

 

En von er á nýjum krana innan skamms og þá skánar aðstaðan til löndunar................spurning hvað innan skamms þýðir ? vika, mánuður, misseri eða ár ? hann hlýtur að koma fyrir kosningar, þ.e.a.s sveitarstjórnarkosningarnar ekki sameiningarkosningarnar, ég trúi ekki öðru ! ég tippa á það.

Ég skrifaði þessa frétt hér að neðan sem birtist í Mogganum 24 sept. 2005

Biðröð undir krananum

Þegar húsvískir smábátar koma að landi eftir róðra dagsins myndast oft á tíðum biðröð undir löndunarkrönunum tveimur sem eru til staðar í Húsavíkurhöfn.


Biðröð undir krananum - mynd
Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson

Þegar húsvískir smábátar koma að landi eftir róðra dagsins myndast oft á tíðum biðröð undir löndunarkrönunum tveimur sem eru til staðar í Húsavíkurhöfn. Og bátunum fjölgar frekar en hitt því síðar í haust eru væntanlegir tveir nýir yfirbyggðir línuvélbátar í flotann.

Stefán Stefánsson hafnarvörður gekk á fund umhverfis- og framkvæmdanefndar bæjarins á dögunum og gerði henni grein fyrir að ekki yrði hægt að þjónusta þá báta á fullnægjandi hátt með þeim krönum sem fyrir eru. Niðurstaða þess fundar var að ákveðið var að kaupa nýjan krana og hafnarstjóra ásamt hafnarverði falið að velja honum stað í samráði við notendur.

Það lítur því allt út fyrir að biðtími trillukarlanna eftir að komast undir löndunarkranann styttist auk þess sem hægt verði að þjónusta betur þá nýju öflugu báta sem bætast í flotann í framtíðinni.

01.01.2006 01:52

Gleðilegt nýtt ár

Óska þeim sem heimsækja síðuna mína gleðilegs nýs árs um leið og ég þakka fyrir það gamla.

Þetta er fyrsta myndin sem ég tók á árinu 2006, smellti af kl. 00.00.36

Skoðanakönnunin sem verið hefur í gangi um það hvort Helgi Helga sé húsvíkingur, vestfirðingur eða þjóðverji er nú lokið. Helgi sem borinn er og barnfæddur húsvíkingur er greinilega enn í huga margra húsvíkingur þó vestfirðingar hefðu gert tilkalls til hans um daginn því svona fór skoðanakönnunin :

Húsvíkingur

81,25%

Vestfirðingur

6,25%

Þjóðverji

12,5%

16 kusu.

  • 1
Flettingar í dag: 89
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 664
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 9254637
Samtals gestir: 1995063
Tölur uppfærðar: 24.8.2019 01:05:55
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is