Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

Færslur: 2005 Desember

24.12.2005 01:47

Helgi Helga frá Grafarbakka eldar skötu í Þýskalandi

Er Helgi Helgason frá Grafarbakka vestfirðingur ?
Sá eftirfarandi frétt á bb.is :
 
Halldór Hermanns gaf ráðleggingar í gegnum síma
 
.
Vestfirðingar borða skötu víðar en í fjórðungnum. Þannig hélt Helgi Helgason sem búsettur er í Cuxhaven í Þýskalandi mikla veislu. Sem kunnugt er lék Helgi fótbolta með Boltafélagi Ísafjarðar á árum áður. Á meðfylgjandi mynd er verið að sjóða skötuna. Halldór Hermannsson, skipstjóri á Ísafirði, er á línunni að gefa ráðleggingar um suðuna.

Skatan soðin að hætti Halldórs

Þar sem vestfirðingar hafa eignað sér Helga þá setti ég upp nýja skoðanakönnun um þetta mál, sjá forsíðu.

23.12.2005 23:18

Skerplu almanakið 2006 komið út

Hið glæsilega sjómannaalmana Skerplu 2006 er komið út og og eftirfarandi frétt birtist á skip.is í dag:

Sjómannaalmanak Skerplu 2006 er komið út

23.12.2005

Sjómannaalmanak Skerplu 2006 er komið út og er þetta almanak það tíunda í röðinni. Í bókinni eru rúmlega 1200 litmyndir af íslenskum skipum en um fimmtungur þeirra hefur verið endurnýjaður frá síðustu útgáfu. Auk skipaskrárinnar er bókin fullgilt íslenskt sjómannaalmanak.

Óhætt er að fullyrða að Sjómannaalmanak Skerplu er vinsælasta bókin um borð í íslenskum skipum og þótt víðar væri leitað. Almanakið hefur notið yfirburða hylli hjá sjómönnum, enda hafa útgefendur þess frá upphafi verið í fararbroddi hvað varðar nýjungar og þjónustu við lesendur sína. Sérstök áhersla hefur verið lögð á það á undanförnum árum að endurnýja myndir af skipum í skipaskránni í Sjómannaalmanakinu sem og á vefnum Skip.is. Við það verk hafa ljósmyndararnir Alfons Finnsson, Hafþór Hreiðarsson, Jón Páll Ásgeirsson og Þorgeir Baldursson, sem eiga flestar skipamyndanna í skipaskránni, lagt mest af mörkum.

Sjómannaalmanak Skerplu 2006

Í Sjómannalmanaki Skerplu 2006 er m.a. að finna upplýsingar um skipaskrá, aflaheimildir, hafnaskrá, sjávarföll, vitaskrá, sólartöflur og auk þess upplýsingar eins og lög og reglur sem snúa að veiðum ásamt mörgu öðru. Samkvæmt könnunum sem útgefandi hefur gert þá nota um 90% skipstjórnarmanna Sjómannaalmanak Skerplu mikið eða mjög mikið.

Sjómannaalmanak Skerplu er 880 síður að stærð. Ritstjóri er Sævar Helgason, sölustjóri skráninga er Sigríður Hermannsdóttir og auglýsingastjóri er Hertha Árnadóttir.

Útgefandi er Fiskifréttir ehf. en allir áskrifendur Fiskifrétta fá bókina senda sér að kostnaðarlausu. Almennt verð er kr. 4.480-. Pöntunarsími er 511-6622 en einnig verður hægt að panta Sjómannaalmanak Skerplu á Skip.is.

23.12.2005 23:12

Aron ÞH 105, nýr glæsilegur bátur í flota Húsvíkinga.

Nýr yfirbyggður línubátur, Aron ÞH 105, kom til heimahafnar á Húsavík seint í gærkveldi eftir heimsiglingu frá Akranesi. Það var fyrirtækið Spútnikbátar ehf. á Akranesi sem smíðaði bátinn sem er af gerðinni Spútnik 3 de Lux.

Útgerðarfyrirtækið Knarrareyri ehf. er eigandi Arons ÞH og að sögn Stefáns Guðmundssonar skipstjóra er báturinn um 15 brúttótonn að stærð og verður gerður út í krókaaflamarkskerfinu.

Aron ÞH er með 650 hestafla Yanmar aðalvél og er báturinn glæsilegur að sjá, jafnt að utan sem innan. Um borð er Mustad línubeitningarkerfi, 12 rekkar, sem taka um 15000 króka línu og verður því enginn balaburður hjá áhöfn þessa báts.

Sputnik 3 de Luxe

2651.Aron ÞH 105

Aron ÞH 105 er annar yfirbyggði smábáturinn útbúinn línubeitningarvél sem kemur í flota húsvíkinga á skömmum tíma. Karólína ÞH 111 kom fyrir einum og hálfum mánuði og var þá fyrsti smábáturinn í flota norðlendinga  með beitningavél um borð.  Í millitíðinni kom beitningavélabátur til Hríseyjar þegar útgerðarfélagið Rif ehf. festi kaup á Matthíasi SH frá Rifi.  Hefur báturinn, sem er af gerðinni Seigur 1160, fengið nafnið Svanur og einkennisstafina EA 114.

12.12.2005 22:57

Eikarbátarnir langfallegastir

Þá er skoðanakönnuninni um það hvort eikarbátar, stálbátar eða plastbátar eru fallegastir lokið og afgerandi úrslit liggja fyrir.  Það kusu fjörutíu aðilar og 82,5 % svöruðu því til að þeim þætti eikarbátarnir fallegastir. 15 % sögðu stálbátana vera fallegasta en aðeins 2,5 % plastbátana.

1153.Búi EA100

Búi EA 100 er einn af þeim fallegastu eikarbátum sem eru í flotanum í dag að mínu mati, vel útlítandi og umhirða góð að sjá.  Búi er smíðaður á Seyðisfirði 1971og hét upphaflega Sæþór SU, síðar bar hann einkennisstafina SF þar til hann fékk Búa nafnið og einkennisstafina EA 100.

10.12.2005 22:27

Heimsókn til Jólasveinanna í Dimmuborgum.

Í dag sóttum við hjónin, ásamt örverpinu okkar, jólasveinana heim í Dimmuborgir í Mývatnssveit. Það reyndist hin besta skemmtun þó ég hefði efasemdir í byrjun.  En þær voru nú þess eðlis (efasemdirnar) að sú stutta, sem Lea Hrund heitir, vildi alls fara ekki upp í Mývatnssveit og hvað þá að hitta jólasveinana. Hún vældi á leiðinni um að hún vildi fara ekki í Mývatnssveit, og stundum kom í vælutón "éeeeg viiil faraaa á Glerártorg". Þegar að Dimmuborgum var komið hætti hún að væla og fór að gráta og þá flaug í huga mér fyrir hvern væri verið að fara í þetta ferðalag. En þrátt fyrir þetta var gengið af stað inn í borgirnar að finna jólasveinana og eftir smá labb sáum við þá á hallarflötinni ásamt fleirum gestum sem komnir voru að heimsækja þá. Lea Hrund hafði svona smám saman hætt að gráta og fannst þetta bara gaman en var ansi vör um sig hjá þeim Giljagaur og Kjötkrók sem stóðu vaktina í dag.  Hún vildi alls ekki setjast hjá Giljagaur og láta mynda sig en eftir nokkurn tíma vann Kjötkrókur traust hennar og leiddi hana að eplapokanum og launaði hann traustið með epli. Eftir að hafa sungið nokkur jólalög með bræðrunum fórum við af stað heim á leið til Húsavíkur en komum við í Selinu þar sem við kíktum í Jólalandið og fengum okkur heitt kakó á hótelinu. Er heim var komið var sest niður framan við imbakassann og horft á leik Newcastle og Arsenal, hann fór 1-0 fyrir NEWCASTLE og var það frábær endir á góðum degi.

                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                     Kjötkrókur & Giljagaur í Dimmuborgum 2005 copy.jpg                                                                                                           

Kjötkrókur og Giljagaur (sitjandi)

Jólasveinarnir í Dimmiborgum eru með heimasíðu og er slóðin: www.santaworld.is/myvatn/is

Setti nokkrar myndir úr heimsókninni í Dimmuborgir í albúmið mannlíf á Húsavík.

05.12.2005 22:23

Kallarnir komnir inn

Þegar maður hittir mann og annann á förnum vegi þessa dagana berst þessi myndasíða mín oft í tal. Hafa margir haft á orði hvort ég ætti ekki myndir af körlunum í fjörunni, þ.e.a.s. sjómönnum , beitningamönnum og öðrum þeim sem þar vinna eða dvelja löngum stundum í kringum hina karlanna.  Því hef ég nú komið því verk að búa til albúm af körlunum og eru þó nokkrar myndir komnar inn og margar eftir að bætast við.  Vona að menn hafi gaman af þessu.

123.is Heimir Bessason.jpg

Þetta er einn af köllunum, Heimir Bessaon skipstjóri og útgerðarmaður á Lauga ÞH.

Þegar þessi mynd birtist í Morgunblaðinu í sumar birtist eftirfarandi í blaðinu daginn eftir: Frá því var sagt í Minni stund í gær, að Heimir Bessason hefði keypt Sómabát úr Grímsey og ætti hann að heita Laugi. Hann var að koma úr róðri, hafði verið við Mánáreyjar, Háey og Lágey. Karl af Laugaveginum kvað:

 

Mið og strauma þekkir þar

þó hann fari að kula

Heimir út við eyjarnar

eltist við þann gula.

 

  • 1
Flettingar í dag: 535
Gestir í dag: 81
Flettingar í gær: 771
Gestir í gær: 113
Samtals flettingar: 9399629
Samtals gestir: 2008173
Tölur uppfærðar: 13.12.2019 12:41:15
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is