Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

27.06.2018 10:59

Máni

Hvalaskoðunarbáturinn Máni kemur hér að landi á Dalvík fyrir skömmu.

Þetta er síðasti eikarbáturinn, af þessari stærð amk., sem Skipavík í Stykkishólmi smíðaði.

Í Morgunblaðinu 23. júní 1977 var eftirfarandi frétt að finna:

Í SEINUSTU viku var hleypt af stokkunum 50 lesta nýsmíði hjá Skipasmíðastöðinni Skipavík h.f. í Stykkishólmi. 

Báturinn hlaut nafnið Ásbjörg ST 9 og er heimahöfnin Hólmavík. Eigendur eru þrir, þeir Benedikt Pétursson, Guðlaugur Traustason og Daði Guðjónsson, allir til heimilis á Hólmavík. 

Báturinn er smíðaður úr eik og er búinn öllum fullkomnustu siglinga- og fiskileitartækjum. Aðalvél er 360 hestafla og einnig eru tvær hjálparvélar. Báturinn er útbúinn til tog-, neta- og línu- veiða. Hann verður afhentur eigendum eftir nokkra daga. 

 

1487. Máni ex Númi RE. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

27.06.2018 10:31

Ottó N Þorláksson

Hér liggur Ottó N Þorláksson RE 203 við bryggju í Reykjavík. Verið að skvera hann áður en hann hefur veiðar fyrir nýja eigendur en eins og kunnugt er keypti Ísfélag Vestmannaeyja hf. togarann af HB Granda.

Hann mun leysa Suðurey ÞH 9 af hólmi hef ég heyrt.

1578. Ottó N Þorláksson RE 203. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

26.06.2018 09:56

Hoffell SU 80

Hér kemur mynd Hannesar Baldvinssonar af Hoffelli SU 80 koma til hafnar á Siglufirði.

Hoffell var smíðað í Noregi árið 1959 og í 11-12 tbl. Sjómannablaðsins Víkings það ár kom þessi frétt um komu skipsins til landsins:

Nýtt glæsilegt fiskiskip hefur bætzt í íslenzka fiskiskipaflotann, er það Hoffell SU 80, er kom til Fáskrúðsfjarðar í byrjun októbermánaðar. 

Skipið er byggt í Noregi hjá Ejnar S. Nielsens Mek. Verksted Harstad, eig.: Hraðfrystihús Fáskrúðsf j. hf. Fáskrúðsfirði. 

Útbúnaður er hinn fullkomnasti og skipið mjög vandað. Aflvél er 400 ha. Wichmann. Hjálparvél 25 ha., tveir 220 volta jafnstraums rafalar, annar 12 kw. og hinn 8 kw. Auk þess er 24 volta  rafmagn frá rafgeymum til vara í öll ljósastæði skipsins. Decca radar 48 mílna, dýptarmælir af gerðinni Simrad, ásamt síldarasdic. Sími er um allt skipið og magnari í stýrishúsi þannig að skipstjórinn þarf ekki að kalla sig hásann fram á þilfarið, eða í land. Talstöð er af gerðinni Stentor og er hún 100 wött.

Frystiútbúnaður er í fisklestinni og getur þar verið hvort sem vill kæling 0 gr. C. eða 22 stiga frost. Lestarrúmið er að sjálfsögðu einangrað og klætt aluminium. Öll lestarborð eru af sömu lengdum og skilja sjómenn hversu mikilsvert það er. Í lúkar eru 2 þriggjamanna herbergi og 1 fjögurramanna, en í káetu eru tvö einsmanns herbergi (fyrir stýrimann og vélstjóra) og auk þess eitt tveggjamanna herbergi. 

Vindur eru 8 lesta togvinda og 2.5 lesta línuvinda. Allar íbúðir eru klæddar plasti og fægðum harðviðarlistum. 

Skipið er keypt hjá umboði Magnús Jensson h.f. 

Víkingurinn óskar eigendum og skipstjóra, sem er Friðrik Stefánsson, til hamingju með þetta glæsiega skip.

 

Svo mörg voru þau orð en Hoffellið var 129 brl. að stærð. Það var lengt 1966 og mældist þá 177 brl. að stærð.1973 var sett í það 580 hestafla Cummins aðalvél. Í desember 1974 er Hoffel selt þeim Víkingi Halldórssyni, Pétri Bogasyni og Guðlaugi Wíum í Ólafsvík. Fékk skipið nafnið Fagurey SH 237. Selt tæpu ári síðar til Stokkseyrar, kaupandi Útgerðarfélagið Jórunn h/f og fékk skipið nafnið Jórunn ÁR 237. Um mitt ár 1977 kaupir Stakkholt h/f í ólafsvík skipið sem fær nafnið Jón Jónsson SH 187. 1980 var sett í skipið 800 hestafla Cummins aðalvél í febrúar 1988 var skipið selt aftur til Stokkseyrar. Kaupandi Marver h/f sem nefnir skipið Haförn ÁR 115. (Heimild Íslensk skip)

1995 er hann orðinn Haförn SK 17 í eigu rækjuvinnslunnar Dögunar h/f á Sauðárkróki. 1998 er hannn seldur Auðbjörgu h/f í Þorlákshöfn og fær sitt síðasta nafn sem var Skálafell ÁR 50. Skálafell var afskráð í febrúar 2014 og fór í brotajárn erlendis einhverju síðar.

Spurning hvenær hann var yfirbyggður ? Var hálfyfirbyggður þegar ég sá hann fyrst 1983.

100. Hoffell SU 80. © Hannes Baldvinsson Siglufirði.

 

 

 

25.06.2018 23:38

Cuxhaven NC 100

Cuxhaven NC 100 hefur verið að landa á Akureyri að undanförnu og Jón Steinar tók þessar myndir í síðustu viku sem sýnir togarann á útleið.

DFQH. Cuxhaven NC 100. © Jón Steinar 2018.

 

DFQH. Cuxhaven NC 100. © Jón Steinar 2018.

25.06.2018 22:37

Sighvatur GK 57 - Myndasyrpa

Hér kemur myndasyrpa sem ég tók þegar Sighvatur GK 57 kom til heimahafnar í Grindavík eftir endurbyggingu í Póllandi. Skipið var um eitt ár í Algorskipasmíðastöðinni þar sem það var allt endurbyggt og lengt, um 2/3 hluta stálsins er enn á sínum stað í skrokk skipsins. Allt annað er nýtt.

Sighvatur mun leysa nafna sinn af hólmi sem smíðaður var í Boizenburg 1965 og hét upphaflega Bjartur NK 121.

1416. Sighvatur GK 57 ex Sævík GK. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

1416. Sighvatur GK 57 ex Sævík GK. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

1416. Sighvatur GK 57 ex Sævík GK. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

1416. Sighvatur GK 57 ex Sævík GK. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

1416. Sighvatur GK 57 ex Sævík GK. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

1416. Sighvatur GK 57 ex Sævík GK. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

1416. Sighvatur GK 57 ex Sævík GK. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

1416. Sighvatur GK 57 ex Sævík GK. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

25.06.2018 22:30

Björgvin og Hafborg

Haukur Sigtryggur tók þessa mynd á Dalvík fyrir nokkrum dögum og sýnir hún skuttogarann Björgvin EA 311 koma til hafnar. Hafborg EA 152 fylgir í humátt á eftir.

1937. Björgvin EA 311 - 2940. Hafborg EA 152. © Haukur Sigtryggur 2018.

25.06.2018 17:41

Sylvía og Faldur

Hér koma myndir sem ég tók af hvalaskoðunarbátum Gentle Giants í dag.

Myndina af Sylvíu tók ég eftir hádegið en Faldinn myndaði ég nú síðdegis.

GG gerir einnig út nokkra Ribara og Aþenu ÞH 505 sem er Cleóptatra frá Trefjum.

1468. Sylvía ex Björgvin ÍS. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

1267. Faldur ex Faldur ÞH. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

 

25.06.2018 12:32

Kristín ÓF 49

Þessa mynd af Kristínu ÓF 49 tók ég á Siglufirði fyrr í þessum mánuði.

Þarna er hún að koma að landi eftir handfæraróður en hún er á strandveiðum.

Kristín hét upphaflega Aldan NK 28. Síðar Guðbjörg Kristín RE 92, SH 165, KÓ 6 og ÓF 49.

Frá árinu 2016 hefur hún borið núverandi nafn en báturinn var smíðaður árið 1988 hjá Samtak í Hafnarfirði.

Núverandi eigandi er Andri Viðar Víglundsson.

1765. Kristín ÓF 49 ex Guðbjörg Kristín ÓF. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

24.06.2018 23:45

Sighvatur GK 57 kemur að bryggju

Eins og ég sagði við myndina af Sighvati sem ég birti um helgina þá kemur meira síðar. Og hér kemur ein mynd sem sýnir skipið koma að Eyjabakkanum sl. föstudagskvöld.

Meira síðar...jafnvel á morgun.

En til upprifjunar:

Smíðaður í Mandal í Noregi 1975. Yfirbyggður 1977.

Hefur borið nöfnin Skarðsvík SH 205, Skarðsvík AK 205, Ásborg EA 259, Arney KE 50, Steinunn SF 10, Steinunn SF 107, Hafursey VE 122, Sævík GK 257 og núverandi nafn Sighvatur GK 57.

1416. Sighvatur GK 57 ex Sævík GK. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

24.06.2018 20:23

Svend C

Grænlenski frystitogarinn Svend C GR-6-23 kom til hafnar í Reykjavík í morgun. Ég þar og tók myndir.

Eisn og áður hefur komið fram á síðunni var Svend C hannaður af fyrirtækinu Skipsteknisk í Noregi og smíðaður í Tersanskipasmíðastöðinni í Tyrklandi. 

Sú stöð smíðaði einnig Sólberg ÓF 1 sem kom til landsins í maí 2017 en Svend C var afhentur í desember 2016.

Togarinn er 83,50 metrar að lengd, 17 metrar á breidd og 4.916 BT að stærð.

Samkvæmt upplýsingum sem ég fékk er 9456 hestafla Wartsila aðalvél í honum.

OWZD. Svend C GR-6-23. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

22.06.2018 22:47

Sighvatur GK 57

Nýr Sighvatur GK 57 kom til heimahafnar í Grindavík eftir sjö sólarhringa heimsiglingu frá Gdansk í Póllandi.

Skipið fór út til Póllands í drætti sem Sævík GK 257 en kom heim sem nánast nýsmíði.

Upphaflega Skarðsvík SH 205.

Meira síðar.....

1416. Sighvatur GK 57 ex Sævík GK. © Hafþór Hreiðarsson 2018.
 

22.06.2018 14:46

Kristján HF 100

Nýr Kristján HF 100 var sjósettur hjá Trefjum í Hafnarfirði í dag. Kristján er af gerðinni Cleópatra 46B.

Ég náði myndum þökk sé Hjalta frænda mínum Hálfdánarsyni hafnarverði hjá Hafnarfjarðarhöfn.

Meira síðar nú er það Ísland -Nígería.

2961. Kristján HF 100. © Hafþór Hreiðarsson 2018.
 

 

 

20.06.2018 21:57

Lómur KE 101

Á þessari mynd Hannesar Baldvinsson sést Lómur KE 101 við bryggju og stúlkurnar salta úr honum síldina.

Í 8. tbl. Faxa 1963 sagði svo frá komu Lóms til Keflavíkur í fyrsta skipti:

Nýtt og vandað stálskip til Keflavíkur.

Þann 24. júní kom til heimahafnar sinnar, Keflavíkur, nýtt og vandað stálskip: Lómur KE 101, smíðaður í Molde í Noregi. Skipið er 201 smálest og er aðalvél þess 660 ha. Lister Blackstone.

Lómur er búinn öllum nýtízku fiskileitartækjum af Simrad-gerð og 48 mílna þilfarsradar, Robinson sjálfstýringu og Stentor-talstöð. Vistarverur áhafnar eru hinar vistlegustu og haganlega gerðar.

Ganghraði skipsins á heimsiglingu var 10.8 mílur. Skipstjóri á heimleið var Halldór Brynjólfsson og fer hann einnig með stjórn skipsins á fiskveiðum. Lætur hann mjög vel af þessu nýja skipi og telur, að það muni fara vel með farm.

Eigendur Lóms er hlutafélagið Brynjólfur h.f., en aðaleigendur þeir Jón Karlsson, Neskaupstað, og Halldór Brynjólfsson, Keflavík. Lómur fór strax norður á síldveiðar og fiskaði yfir 22 þúsund mál og tunnur. Lómur, sem búinn er kraftblökk og annarri nýjustu veiðitækni, mun nú vera að búa sig til haustsíldveiða hér í Faxaflóa. 

 

Ég skrifaði eftirfarandi við myndir af Þorsteini GK 16 hér á síðunni í október 2008. Heimildir um bátinn eru úr Íslensk skip.:

Þorsteinn hét upphaflega Lómur KE 101 og var smíðaður í Molde í Noregi 1963 fyrir Brynjólf hf. í Keflavík. Báturinn var 202 brl. að stærð og búinn 660 hestafla Lister aðalvél. Hann var endurmældur 1969 og varð við það 178 brl. Haustið 1973 kaupir Kópanes hf. í Reykjavík bátinn og fær hann nafnið Kópur RE 175.

Í ársbyrjun 1977 kaupa Guðmundur Þortseinsson og Jóhannes Jónsson í Grindavík bátinn sem heldur nafninu en verður GK 175. 1979 var skipt um aðalvél, 720 hestafla Mirrless Blackstone kom í stað Listersins. 1980 er skráður eigandi að bátnum Hóp hf. og hann fær nafnið Þorsteinn GK 16 sem hann bar þar til yfir lauk.

Eins og menn vita sem áhuga hafa á bátum fékk Þorsteinn netin í skrúfuna undan Krýsuvíkurbjargi þann 10. mars 1997. Hann varð við það vélavana og rak upp í bergið eftir að akkerisfestar hans höfðu slitnað, en ekki tókst að koma aðalvélinni í gang. Áður en báturinn strandaði hafði þyrla Landhelgisgæslunnar bjargað tíu manna áhöfn hans. Veðrið var slæmt og Þorsteinn fylltist af sjó eftir að hann strandaði og valt síðan á hliðina. Ægir konungur var síðan ekki lengi að eyðileggja flakið þar sem það lá óvarið fyrir ágangi sjávar. Þorsteinn GK hafði verið yfirbyggður 1985 auk þess sem skipt hafði verið um brú á honum. 

 

145. Lómur KE 101á Siglufirði. © Hannes Baldvinsson.

 

 

19.06.2018 21:44

Nýr Þorsteinn SH 145

Nýverið kom Þorsteinn SH 145, nýr bátur sem Nesver ehf. keypti nýverið, til heimahafnar í Ólafsvík.

Á vef Skessuhorns segir Gylfi Scheving Ásbjörnssonar skipstjóri að Nesver hafi átt minni bát með sama nafni áður en skipti á þeim báti og þessum nýja.

Þorsteinn SH 145 er af gerðinni Kleópatra 38 og hét áður Kristján HF 100, smíðaður árið 2011 fyrir Grunn ehf. í Hafnarfirði.

Báturinn er útbúinn á handfæri og til netaveiða og hefur þegar hafið handfæraveiðar.

Fyrir á Nesver ehf. Tryggva Eðvars SH 2 sem er sömu gerðar og að sögn Alfonsar Finnssonar, sem tók myndina af Þorsteini, er Tryggvi Eðvars SH 2 í breytingum hjá Sólplasti í Sandgerði. Þar verður m.a byggt yfir hann.

2820. Þorsteinn SH 145 ex Kristján HF. © Alfons Finsson 2018.

19.06.2018 21:23

Daðey og Hulda

Þessir bátar tveir eiga það sameiginlegt að hafa heitið Oddur á Nesi SI 76 og voru smíðaðir fyrir Útgerðafélagið BG Nes ehf.

Daðey GK 717 er við bryggjuna en rúv.is sagði svo frá 19. febrúar 2010:

Nýr bátur í flota Siglfirðinga var sjósettur þar í fyrradag. Báturinn ber heitið Oddur á Nesi og einkennisstafina SI 76. Hann var smíðaður hjá Siglufjarðar-Seig ehf. á Siglufirði og er stærsti bátur sem fyrirtækið hefur smíðað til þessa. Oddur á Nesi er tæp 15 brúttótonn og 12,4 metra langur, útbúinn til línuveiða.

Hulda HF 27 er sá stærri og var smíðaður hjá Seiglu á Akureyri og var sjósettur í desember 2016 og kom til heimahafnar á Siglifirði 14 janúar 2017.

Seldur Blikabergi ehf. í júlí sama ár.

2799. Daðey GK 717. - 2912. Hulda HF 27. © Hafþór Hreiðarsson 2018.
Flettingar í dag: 1606
Gestir í dag: 548
Flettingar í gær: 1954
Gestir í gær: 540
Samtals flettingar: 8682156
Samtals gestir: 1910422
Tölur uppfærðar: 26.9.2018 11:22:44
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is