Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

04.07.2018 10:36

Wilson Nice

Flutningaskipið Wilson Nice liggur nú í Húsavíkurhöfn þar sem uppskipun á trjábolum fyrir PCC á Bakka fer fram.

Wilson Nice er 123 metra langt og 17 metra breitt, smíðað árið 2010.

Siglir undir fána Möltu með heimahöfn í Valletta.

Wilson Nice. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

03.07.2018 10:53

Tveir frá Tersan

Hér koma myndir af tveim nýjum og glæsilegum togurum sem smíðaðir voru í sömu skipasmíðastöð í Tyrklandi.

Ég var búinn að birta myndir af þeim saman sem sýndu bakborðshliðina en núr er það stjórnborðshliðin sem fær að njóta sín.

Efri myndin sýnir Sólbergi ÓF 1 og var hún tekin þegar skipið kom nýtt til landsins.

Á neðri myndinni er grænlenski togarinn Svend C en hana tók ég á dögunum.

Eins og komið hefur fram var Svend C afhentur eigendum sínum í desember 2016 en Sólbergið kom til landsins í maí 2017.

Þessi glæsilegu fley eru hönnuð af fyrirtækinu Skipsteknisk í Noregi og smíðuð í Tersanskipasmíðastöðinni rétt hjá Istanbúl. 

Sólberg er með smíðanúmer 1065 og Svend C 1066.

Sólbergið er tæpir 80 metrar að lengd, 15,4 metrar á breidd og alls 3.720 bt. Sá gænlenski er tæpum þremur metrum lengri og 1,6 meter breiðari og alls 4.916 bt. að stærð.

2917. Sólberg ÓF 1. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

 

OWZD. Svend C GR-6-23. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

03.07.2018 10:08

Meira af Svend C

Hér koma fleiri myndir sem ég tók af grænlenska rækjufrystitogaranum Svend C á dögunum þegar hann kom til hafnar í Reykjavík.

Eigandi togarans, sem er með heimahöfn í Nuuk, er Sikuaq Trawl A/S og kom hann í stað Steffen C sem Reyktal keypti og nefndi Steffano.

OWZD. Svend C GR-6-23. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

OWZD. Svend C GR-6-23. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

OWZD. Svend C GR-6-23. © Hafþór Hreiðarsson 2018
OWZD. Svend C GR-6-23. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

02.07.2018 09:17

Helga María AK 16

Skuttogari HB Granda, Helga María AK 16, kom til hafnar í Reykjavík í gær og tók Óskar Franz þessar myndir af henni.

Helga María var smíðuð árið 1988 í Flekkefjord í Noregi. Hún var smíðuð  fyrir Sjólastöðina í Hafnarfirði  hét upphaflega Haraldur Kristjánsson HF 2.

Árið 1999 var Haraldur Kristjánsson HF 2 seldur til Haraldar Böðvarssonar á Akranesi og fékk skipið þá núverandi nafn, Helga María AK 16.

Helga María var frystitogari en var breytt í ísfiskstogara í Alkorskipasmíðastöðinni í Gdansk árið 2013 og hóf veiðar sem slíkur árið 2014.

1868. Helga María AK 16 ex Haraldur Kristjánsson HF 2. © ÓFÓ 2018.

 

1868. Helga María AK 16 ex Haraldur Kristjánsson HF 2. © Óskar Franz.

01.07.2018 10:16

Hafrún ÍS 400

Hafrún ÍS 400 kemur hér að landi á Siglufirði á síldarárunum. Myndina tók Hannes Baldvinsson.

Hafrún hét upphaflega Jón Trausti TH 52, síðar ÞH , og var einn tappatogaranna svokölluðu. Smíðaður í A-Þýskalandi 1959 og gerður út frá Raufarhöfn.

Í júníbyrjun 1962 fékk skipið nafnið Hafrún ÍS 400 sem það ber á þessari mynd. 1971 fékk það nafnið Hinrik KÓ 7, 1975 var það Danni Péturs KÓ 7 og síðan koll af kolli: Danni Péturs KE 175, Frigg BA 4, Helgi S. KE 7, Einir HF 202, Einir GK 475, Mummi GK 120, Særún GK 120, Særún HF 4, Kristján ÓF 51, Njarðvík GK 275, Tjaldur RE 272 og Guðrún Björg HF 125.

Í nóvember 2008  átti Guðrún Björg að fara í pottinn erlendis. Togarinn Gréta ex Margrét EA var með hana í drætti þegar Guðrún Björg sökk austur af Aberdeen í Skotlandi.

76. Hafrún ÍS 400 ex Jón Trausti ÞH. © Hannes Baldvinsson.

30.06.2018 22:19

Frystitogarinn Volstad

Eiríkur Sigurðsson skipstjóri á rækjutogaranun Reval Viking sendi mér þessa mynd sem hann tók í morgun. Hún sýnir norska frystitogarann Volstad á toginu.

Volstad er 74,7 metrar að lengd og 15,4 metra breiður og mælist 3430 GT að stærð. Smíðaður 2013 í skipasmíðastöðinni Tersan utan við Istanbul í Tyrklandi.

3YYB. Volstad M-11-A. © Eiríkur Sigurðsson 2018.

29.06.2018 23:05

Óli Gísla verður Sævík GK

Línubáturinn Óli Gísla GK 112 hefur samkvæmt vef Fiskistofu fengið nafnið Sævík GK 757. Eins og kunnugt er keypti Vísir hf. í Grindavík útgerð Óla Gísla, Sjávarmál ehf.  fyrir skömmu.

2714. Óli Gísla GK 112 nú Sævík GK 757. © Jón Steinar.

29.06.2018 18:32

Ósk ÞH 54

Ósk ÞH 54 er á handfærum þessa dagana og hér kemur hún að landi á Húsavík í gær.

Áður Guðný NS 7.

2447. Ósk ÞH 54 ex Guðný NS. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

29.06.2018 10:13

Færabátar koma að landi í Ólafsvík

Vonsku­veður var á Breiðafirði í gær og á mbl.is sagði að nokkr­ir strand­veiðibátar frá Ólafs­vík hafi róið snemma um nóttina til þess að freista þess að vera á und­an veðrinu. 

Frosti HF var ekki einn þeirra en skipperinn á honum var á bryggjunni að mynda bátana þegar þeir komu að og hér má sjá nokkra þeirra.

2813. Magnús HU 23. © Alfons 2018.

 

7757. Jónas SH 159 ex Jói á Nesi SH. © Alfons 2018.

 

6342. Oliver SH 248 ex Seley SH. © Alfons 2018.

 

2586. Júlli Páls SH 712 ex Alda HU. © Alfons 2018.

 

2939. Katrín II SH 475. © Alfons 2018.

29.06.2018 10:01

Hrafnreyður KÓ 100

Hrefnubáturinn Hrafnreyður KÓ 100 lét úr höfn í Hafnarfirði í þann mund sem Berlin kom að bryggju á dögunum. Maggi Jóns tók þessa mynd og ljóst að stærðarmunurinn er nokkur.

Hrafnreyður hét upphaflega Ottó Wathne NS 90, smíðaður á Seyðisfirði 1973. Seldur til Hornafjarðar 1980 og fékk þá nafnið Bjarni Gíslason SF 90. Yfirbyggður 1991 og einnig skipt um aðalvél.

Í maí 2005 varð hann VE 30 og í ársbyrjun 2007 fékk hann nafnið Valur ÍS 18. Það nafn bar hann þar til núverandi nafn kom á hann í maí 2010.

1324. Hrafnreyður KÓ 100 ex Valur ÍS 18. © Maggi Jóns 2018.

28.06.2018 12:05

Freymundur ÓF 6

Þessa mynd tók ég á Ólafsfirði fyrir nokkur en hún sýnir Freymund ÓF 6 nýskveraðann og flottan í miðbæ Ólafsfjarðar.

Kristján Nói Kristjánsson bátasmiður á Akureyri smíðaði Freymund fyrir Magnús J. Guðmundsson Ólafsfirði og syni hans Sigurð og Júlíus Magnússyni.

Á vef Árna Björns Árnasonar, aba.is, segir m.a:

Afturbyggður súðbyrðingur með kappa. Stærð 3,87 brl. Smíðaár 1954. Fura og eik.
Upphaflega vélin í bátnum var 16 ha. Lister, sem var í honum fyrstu 12 árin. Næsta var sett í bátinn 28 ha. Volvo Penta og var hún í bátnum fram til ársins 1980 en þá var henni skipt út fyrir 22 ha. SABB og er sú vél enn í bátnum árið 2014.
Báturinn var smíðaður fyrir Magnús J. Guðmundsson, Ólafsfirði og syni hans þá Sigurð og Júlíus Magnússyni, Ólafsfirði. 
Eftir lát Magnúsar áttu þeir bræður bátinn saman en eftir lát Sigurðar þá hefur Júlíus Magnússon átt bátinn einn og á enn árið 2014, en í gegnum eignarhaldsfélagið Freymund ehf. Ólafsfirði frá árinu 2002.
Bátnum hefur alla tíð verið sérstaklega vel við haldið en aldur hans spannar nú 60 ár. 
Árið 1997 var báturinn endurbyggður af skipasmiðunum Gunnlaugi Traustasyni og Sigurði Lárussyni. Endurbyggingin fólst í að sauma bátinn upp og endurnýja á hluta banda og byrðingsborða. Ný skjólborð voru smíðuð á bátinn og hvalbakur lagfærður. 
Freymundur ÓF-6 var afskráður 29. janúar 2014 og er nafn hans og einkennisstafir nú  komnir á annan bát. 

Freymundur sá sem sagt er frá í restina er í eigu Árna Helgasonar ehf. og spurning hvort hann það fyrirtæki hafi látið skvera gamla Freymund upp og koma honum þarna fyrir.

5313. Freymundur ÓF 6. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

28.06.2018 00:03

Viðey RE 50

Óskar Franz tók myndir í kvöld þegar Viðey RE 50 kom til hafnar í Reykjavík. Viðey er þriðja eyjan sem HB Grandi lét smíða í Tyrklandi, hinar eru Engey RE 1 og Akurey AK 10.

Á vef HB Granda segir 25. júní að veiðar hjá Viðey hafi byrjað vel:

,,Það er óhætt að segja að allt hefur gengið eins og í sögu eftir að við tókum við skipinu. Tilraunatúrarnir gengu vel og það tók skamman tíma til að fá allt til að virka eins og að var stefnt. Við erum búnir að fara í tvær veiðiferðir á Vestfjarðamið og vorum með nánast fullfermi í báðum túrum,“ segir Jóhannes Ellert Eiríksson, skipstjóri á Viðey RE, hinum nýja ísfisktogara HB Granda.

Viðey kom til landsins í desember sl. en eftir komuna var skipinu siglt til Akraness þar sem millidekk skipsins var innréttað og sjálfvirku lestarkerfi komið fyrir. Því verki lauk fyrir sjómannadag.

,,Við erum reyndar enn að læra á tækni- og tölvubúnaðinn en heilt yfir hefur allt farið fram úr okkar björtustu vonum,“ segir skipstjórinn sem er hæst ánægður með nýja skipið.

,,Það er í raun ekki hægt að lýsa viðbrigðunum að fara af Ottó N. Þorlákssyni RE yfir á nýja skipið. Ottó er reyndar gott skip en með sínar takmarkanir. Á Viðey finnur maður varla fyrir veltingi. Hljóðvistin er sú besta sem hægt er að hugsa sér. Maður í koju heyrir ekki þegar verið er að hífa og skrölt í keðjum heyrist ekki í íbúðum. Stundum var ekki hægt að tala saman um borð í Ottó vegna hávaða en það vandamál heyrir sögunni til. Um annan aðbúnað fyrir mannskapinn þarf ekki að fjölyrða. Allt er fyrsta flokks,“ segir Jóhnnes Ellert eða Elli eins og hann er jafnan nefndur.

Elli hefur góða reynslu af notkun svokallaðra Bacalao trolla á veiðum og um borð í Viðey eru tvö ný slík troll. Toghlerar eru af gerðinni Thyborön og vegur hvor um sig fjögur tonn.

,,Við erum reyndar nú með mun stærri troll en við vorum með á Ottó. Hlerarnir voru þriggja tonna en þrátt fyrir það er troll og hlerar nú mun léttari í drætti en áður,“ segir Jóhannes Ellert Eiríksson.

 

2895. Viðey RE 50. © Óskar Franz 2018.

27.06.2018 21:01

Viking Saga á Húsavík

Ég tók þessar myndir í kvöld þegar brunnbáturinn Viking Saga frá Bergen kom til Húsavíkur. Báturinn var hér fyrir í byrjun vikunnar en fór vestur í Dýrafjörð og er kominn aftur.

Er að ég held í seiðaflutningum.

Viking Saga var smíðaður 1999 og hét upphaflega Havstrand. Það nafn bar hann til ársins 2014 að hann fær nafnið Lifjell. Það var svo 2017 sem hann verður Viking Saga.

Báturinn er 42 metrar á lengd og 9 metra breiður.

 

Viking Saga ex Lifjell. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

Viking Saga ex Lifjell. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

Viking Saga ex Lifjell. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

Viking Saga ex Lifjell. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

27.06.2018 19:15

Berlin NC 105

Frystitogarinn Berlin NC 105 kom til hafnar í Hafnarfirði í dag og náði Maggi Jóns þessum myndum við það tækifæri.

Systurskip Cuxhaven NC 100 sem ég birti myndir af í gær.

DFQB. Berlin NC 105. © Magnús Jónsson 2018.

 

DFQB. Berlin NC 105. © Magnús Jónsson 2018.

 

Berlin NC 105 - Eldborg EK. © Magnús Jónsson 2018.

27.06.2018 13:22

Sævík GK 257

Það hefur aðeins borið á því að menn spyrji hvort nýi Sighvatur GK 57 sé þessi Sævík GK 257 sem sést hér láta úr höfn á Húsavík. 

Svo er ekki, þessi fékk síðar nafnið Valur ÍS 82 og því næst Guðrún Guðleifsdóttir ÍS 25 sem var einmitt hennar fyrsta nafn árið 1965. Var að vísu ÍS 102 þá.

Síðasta nafnið á þessu skipi var Fram ÍS 25 og fór það í pottinn 2014 að ég held.

Nöfnin sem skipið bar var: Guðrún Guðleifsdóttir, ÍS 102, síðar ÍS 364. Boði KE 132, Boði GK 24, Eldeyjarboði GK 24, Aðalvík KE 95, Sævík GK 257, Valur ÍS 82, Guðrún Guðleifsdóttir ÍS 25 og Fram ÍS 25.

971. Sævík GK 257 ex Aðalvík KE. © Hafþór Hreiðarsson 2004.

 

Flettingar í dag: 1606
Gestir í dag: 548
Flettingar í gær: 1954
Gestir í gær: 540
Samtals flettingar: 8682156
Samtals gestir: 1910422
Tölur uppfærðar: 26.9.2018 11:22:44
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is