Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

19.09.2018 17:05

Ísleifur VE 63

Hólmgeir Austfjörð tók þessa mynd í dag þegar Ísleifur VE 63 kom til hafnar í Eyjum af makrílmiðunum.

2388. Ísleifur VE 63 ex Ingunn AK. © Hólmgeir Austfjörð 2018.

 

17.09.2018 22:42

Hörður Björnsson ÞH 260 aftur

Í gær var það bakborðhliðin á Herði Björnssyni ÞH 260 sem bar fyrir augu síðulesara en í kvöld er það stjórnborði séð svona framan á hann.

264. Hörður Björnsson ÞH 260 ex Gullhólmi SH. © Hafþór 2018.
 

16.09.2018 13:02

Hörður Björnsson ÞH 260

Línuskipið Hörður Bjönsson ÞH 260 kom til löndunar á Húsavík nú fyrir hádegið og tók ég þessa mynd af honum.

Það er GPG Seafood ehf. sem á og gerir Hörð Björnsson út og er hann með heimahöfn á Raufarhöfn.

Upphaflega hét skipið Þórður Jónasson, fyrst RE 350 en lengst af EA 350. Smíðaður í Noregi 1964.

GPG keypti hann frá Stykkishólmi árið 2015 en þar hét hann Gullhólmi SH 201.

264. Hörður Björnsson ÞH 260 ex Gullhólmi SH. © Hafþór 2018.

 

15.09.2018 11:04

Grettir SH 104

Hér koma myndir af Gretti SH 104 leggja úr höfn á Húsavík 15. nóvember árið 2004.

Rúmum fimm árum áður kom báturinn úr breytingum frá Póllandi og svo sagði frá í Morgunblaðinu 18. ágúst 1999:

Grettir SH 104 kom til heimahafnar í Stykkishólmi sunnudaginn 8. ágúst eftir gagngerar endurbætur í Póllandi. Eftir breytingarnar er um nýtt skip að ræða. Aðeins vél og spil eru frá gamla skipinu. Smíðaður var nýr skrokkur, stýrishús og gálgar. Skipið var stytt um 1,50 m metra og mælist 29 metra langt. Breidd skipsins var aukin og er Grettir nú 8,10 metra breiður. Öll aðstaða áhafnar er ný. Svefnrými er fyrir níu manns, borðsalur og setustofa og er öllu vel fyrir komið. Grettir var byggður í Noregi árið 1963. Hann var keyptur til Stykkishólms árið 1983 þegar Sæfell ehf. festi kaup á bátnum. Hann var kominn til ára sinna og var því ráðist í endurbæturnar. Leitað var tilboða í að endurbyggja skipið frá grunni. Langlægsta tilboðið kom frá Vélasölunni Nauta í Gdynia í Póllandi. Það var tæplega þrisvar sinnum lægra en það tilboð sem kom frá íslenskri skipasmíðastöð. Samningar voru undirritaðir í byrjun nóvember sl. Skipið sigldi síðan til Póllands 5. apríl. Skipasmíðastöðin afhenti skipið á tilsettum tíma Allt verkið tók alls 107 daga og það vekur athygli að verktími stóðst upp á dag en það er óvenjulegt í svona stóru verki. Heimssiglingin tók síðan sjö daga. Það var Verkfræðistofan Fengur í Hafnarfirði sem teiknaði skipið, bauð út verkið og hafði umsjón með verkinu. Grettir SH 104 mælist nú 290 brúttótonn. Skipið er tilbúið til skelveiða og mun fljótlega hefja veiðar, því skelvertíð er að byrja í Stykkishólmi. Í áhöfn skipsins verða sjö menn og er skipstjóri Páll Guðmundsson. 

 

Grettir heitir í dag Vestri BA 63.

182. Grettir SH 104 ex Ólafur Ingi KE. © Hafþór Hreiðarsson 2004.

 

182. Grettir SH 104 ex Ólafur Ingi KE. © Hafþór Hreiðarsson 2004.

 

182. Grettir SH 104 ex Ólafur Ingi KE. © Hafþór Hreiðarsson 2004.

13.09.2018 18:17

Garðar

Hvalaskoðunarbáturinn Garðar var að koma inn áðan og tók þessa mynd við það tækifæri.

Um Garðar segir á heimasíðu Norðursiglingar:

Garðar, áður Sveinbjörn Jakobsson frá Ólafsvík, er 103 brúttórúmlestir (109 brt) og tæpir 28 metrar á lengd. Skipið er eitt af þeim síðustu af þessari stærðargráðu sem eftir er í þokkalegu standi og raunar er ástand bátsins mjög gott enda er útgerðarsaga þess einstök. Skipið var smíðað í Esbjerg árið 1964 fyrir útgerðarfélagið Dverg í Ólafsvík og var gert út þaðan samfellt þangað til því var lagt sumarið 2006. Stuttu síðar keypti Norðursigling bátinn og á síðustu árum hefur mikil vinna farið í breytingar og endurbætur. Garðar er lengsti eikarbátur í notkun á Íslandi, rúmgóður og þægilegur fyrir farþega.

260. Garðar ex Sveinbjörn Jakobsson SH. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

12.09.2018 20:40

Ísborg ÍS 250

Rækjuskipið Ísborg ÍS 250 kemur hér til löndunar á Húsavík 15. ágúst 2010. Nú fer að styttast í því hjá þessu fræga skipi sem smíðað var í Austur-Þýskalandi árið 1959.

78. Ísborg ÍS 250 ex Vatneyri BA. © Hafþór Hreiðarsson 2010.

11.09.2018 21:52

Hersir RE 162

Þessa mynd fékk ég senda með spurningu um hvort ég vissi um hvaða bátur þetta sé á myndinni. Eftir bollaleggingar við Hauk Sigtrygg og uppflettingu í Íslensk skip erum við á því að þetta sé Hersir RE 162.

Hersir var smíðaður árið 1915,  hann var 12 brl. að stærð smíðaður úr eik og furu.  Vél 22 ha. Tuxham. Báturinn var smíðaður fyrir Jón Halldórsson, Reykjavík.

Hersir fórst í róðri 21. janúar 1919 með fimm manna áhöfn. 

Hersir RE 162. Aðsend mynd - Ljósmyndari óþekktur.

11.09.2018 19:59

Hafborg EA

Langt síðan þessi bátur hefur birts hér á síðunni enda legið við bryggju á Akureyri allt þetta ár. Hafborg EA 152 sem nú er EA 242 eftir að nýja Hafborgin leysti hana af hólmi.

Upphaflega Stapavík AK 132.

2323. Hafborg EA 152 nú EA 242. © Hafþór Hreiðarsson 2009.

10.09.2018 22:24

Dala-Rafn og Ottó N

Hólmgeir Austfjörð tók þessa mynd í morgun af Ísfélagsskipunum Dala-Rafni VE 508 og Ottó N Þorlákssyni VE 5 við bryggju í Eyjum.

2758. Dala-Rafn VE 508 - 1578. Ottó N Þorláksson VE 5. © Hólmgeir 2018.

07.09.2018 22:55

Suðurey ÞH 9 seld utan og farin af stað

Um kl 16:30 í dag sigldi Suðurey ÞH 9 frá Vestmanneyjum áleiðis til Agadir í Marokko en hún hefur verið seld Svíum sem gera þaðan út.

Það er áætlað að siglingin þarna niður eftir taki um það bil 10 sólarhringa segir Tryggvi Sigurðsson sem tók þessa mynd í dag.

2020. Suðurey ÞH 9 ex VE. © Tryggvi Sigurðsson 2018.

07.09.2018 17:17

Börkur NK 122 og Vilhelm Þorsteinsson EA 11

Hér koma tvær tölvugerðar myndir af Berki NK 122 og Vilhelm Þortseinssyni EA sem skipasmíðastöðin Karstensen A/S í Skagen mun smíða fyrir Síldarvinnsluna og Samherja. Vilhelm er með smíðanúmer 452 og Börkur 453. Skrokkarnir verða smíðaðir í skipasmíðastöð í Gdynia í Póllandi sem danska stöðin á.

Börkur NK 122. Tölvugerðar myndir af heimasíðu Karstensen A/S 

 

Vilhelm Þorsteinsson EA 11. Tölvugerð mynd af heimasíðu Karstensen  A/S

07.09.2018 08:15

Nýr Vilhelm Þorsteinsson EA 11

Samherji hefur samið um smíði á nýju uppsjávarskipi við Karstensen Skipsverft í Skagen, Danmörku.  Skipið sem á að afhenda um mitt sumar árið 2020 verður vel búið í alla staði, bæði hvað varðar veiðar og meðferð á afla, sem og vinnuaðstöðu og aðbúnað áhafnar.

Burðargeta skipsins verður um 3.000 tonn af kældum afurðum.

Á heimasíðu Samherja segir að nýsmíðin mun leysa af hólmi núverandi Vilhelm Þorsteinsson EA 11 sem kom nýr til landsins fyrir 18 árum.  Samningar voru fullfrágengnir þann 4. september en þann dag hefðu tvíburabræðurnir Baldvin og Vilhelm Þorsteinsssynir orðið 90 ára gamlir, Baldvin lést 21. desember árið 1991 og Vilhelm þann 22. desember árið 1993.

Afmælisdagur þeirra bræðra, 4. september, hefur áður tengst stórviðburðum í sögu fyrirtækisins. Þann 4. september árið 1992 var nýsmíði Samherja, Baldvin Þorsteinssyni EA 10, gefið nafn og  3. september árið 2000 var núverandi Vilhelm Þorsteinssyni EA 11 gefið nafn.  Ástæðan fyrir 3. september var sú að 4. september bar upp á mánudag.

Hjátrú hefur lengi fylgt lífi sjómannsins þar sem haldið er í hefðirnar til að reyna að tryggja farsæla heimkomu og góðan afla og voru þeir bræður engin undantekning. Á tímabili þegar Baldvin starfaði sem skipstjóri þurfti hann iðulega að fara í ákveðna peysu áður en nótinni var kastað en peysuna hafði hann erft eftir mág sinn, Alfreð Finnbogason, hinn mikla aflaskipstjóra.

Samherji heldur í góðar hefðir líkt og bræðurnir Vilhelm og Baldvin gerðu. Til að mynda skulu skip ekki fara til veiða á nýju ári á mánudegi né nýr starfsmaður að hefja störf. Það er því engin tilviljun að gengið var frá samningum um smíði nýs skips á þessum degi 4. september.

Lesa meira á heimasíðu Samherja

 

       Tölvuteikning af Vilhelm Þorsteinssyni EA 11 af heima síðu Samherja.

 

Icelandic fishing and processing firm Samherji has commissioned the building of the Vilhelm Thorsteinsson EA, a new pelagic vessel at Karstensen Shipyard in Skagen, Denmark. 

The vessel is expected to be delivered by mid-summer in 2020 and will be well-equipped in terms of fishing and the handling of catches, as well as the working facilities and crew equipment, the company said.

The capacity of the ship is around 3,000 metric tons of chilled products.

The new vessel will replace the existing Vilhelm Thorsteinsson EA 11. (Intrafish.com)

06.09.2018 18:16

Ísborg II ÍS 260

Hér liggur Ísborg II ÍS 260 klár til brottfarar frá Akureyri til nýrrar heimahafnar á Ísafirði. Áður Klakkur SK 5, SH 510 og VE 103. Smíðaður1977 í Gdynia í Póllandi.

1472. Ísborg II ÍS 260 ex Klakkur SK 5. © Haukur Sigtryggur 2018.

 

05.09.2018 22:28

Gnúpur GK 11

Frystitogarinn Gnúpur GK 11 hélt til veiða frá Grindavík í kvöld og Jón Steinar tók þessa mynd með drónanum sínum.

1579. Gnúpur GK 11 ex Guðbjörg ÍS. © Jón Steinar 2018.

04.09.2018 18:36

Nýr Börkur verður afhentur í árslok 2020

Stjórn Síldarvinnslunnar hefur samþykkt að ganga til samninga við danska skipasmíðafyrirtækið Karstensens Skibsværft AS um smíði á nýju uppsjávarskipi. Mun skipið fá nafnið Börkur og verður það væntanlega afhent Síldarvinnslunni í lok árs 2020. Þessi nýi Börkur mun leysa af hólmi núverandi Börk sem verið hefur í eigu Síldarvinnslunnar frá árinu 2014, en nýsmíðin verður fimmta skipið í eigu fyrirtækisins sem ber þetta nafn.

Karstensens er með höfuðstöðvar sínar í Skagen í Danmörku,  en auk þess rekur fyrirtækið skipasmíðastöð í Gdynia í Póllandi. Gert er ráð fyrir að skrokkur skipsins verði smíðaður í Póllandi.  Skipið verði síðan dregið til Danmerkur þar sem það verður fullklárað.  Karstensen hefur verið leiðandi í smíði uppsjávarskipa undanfarin ár en fyrirtækið hefur verið að afhenda 6-7 skip ári að undanförnu.

Hinn nýi Börkur verður smíðaður fyrir flotvörpu- og hringnótaveiðar. Lengd skipsins verður 88 metrar, breiddin 16,6 metrar og dýptin 9,6 metrar. Stærðin er 4.100 brúttótonn. Aðalvélar verða tvær 3200 kw hvor vél og rafall skipsins verður 3500 kw.   Þá verður í skipinu 820 kw hjálparvél.  Tvö kerfi, hvort um sig 1.500 kw, verða í skipinu til að kæla aflann, en samtals verða kælitankarnir 13 talsins og eru þeir alls 3.420 rúmmetrar. Vistarverur í skipinu verða fyrir 16.

Lesa nánar á heimasíðu Síldarvinnslunnar

Börkur NK 122 - Tölvuteikning af heimasíðu Síldarvinnslunnar.

 

Börkur NK 122 - Tölvuteikning af heimasíðu Síldarvinnslunnar.

 

Börkur NK 122 - Tölvuteikning af heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Flettingar í dag: 1551
Gestir í dag: 248
Flettingar í gær: 1056
Gestir í gær: 221
Samtals flettingar: 9114445
Samtals gestir: 1975197
Tölur uppfærðar: 23.4.2019 20:55:30
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is