Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

07.12.2017 21:11

Steini Vigg

Tók þessa mynd af Steina Vigg í hríðarmuggu á Siglufirði í vikunni.

Steini Vigg SI 110 var smíðaður hjá Vör á Akureyri 1976 og hét upphaflega Hrönn ÞH og var gerður út frá Raufarhöfn. Síðar var hann seldur til Grímseyjar þar sem hann fékk nafnið Þorleifur EA 88. Þá varð hann Guðrún Jónsdóttir SI, ÓF og aftur SI áður en hann fékk núverandi nafn.

Í 9. tbl. Ægis 1976 er sagt frá Hrönn ÞH í þættinum Ný fiskiskip.

Þar segir m.a :

Skipasmíðastöðin Vör h.f. afhenti 14. apríl s.l. nýtt eikarfiskiskip, Hrönn ÞH 275, sem er nýsmíði stöðvarinnar nr. 7. Eigandi skipsins er Þorgeir Hjaltason Raufarhöfn og er hann jafnframt skipstjóri.
Skip þetta er byggt eftir sömu teikningu og fyrri skip frá Vör h.f. nema hvað skut hefur verið breytt í gafllaga skut. 

 

1452. Steini Vigg SI 11 ex Guðrún Jónsdóttir SI. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

05.12.2017 18:17

Sæfari

Grímseyjarferjan Sæfari kemur hér til hafnar á Dalvík í dag eftir ferð út í Hrísey en þangað siglir hún líka í vörusiglingum. Smíðuð 1992 en keypt hingað til lands 2004 og hóf hún siglingar vorið 2008 eftir breytingar á henni.

2691. Sæfari ex Oileain Arann. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

05.12.2017 07:37

Stormur

Nú fer að sjá fyrir endann á breytingum á línuskipinu Stormi HF 294 sem farið hafa fram í Gdansk í Póllandi sl. tvö ár. Það hafði verið til sölu í mörg ár þegar Stormur Seafood keypti það loks árið 2015 í Kanada og lét draga það til Póllands. Verkefnið er á allan hátt merkilegt eins og kemur fram í frétt Fiskirétta sl. föstudag. Fyrir það fyrsta var sett met í lengingu íslensks skips og í annan stað verður skipið rafknúið og með pláss í lest fyrir allt að 400 tonn af frystum afurðum.

Árið 2005 hófst smíði á skipi á Nýfundnalandi sem átti að átti að gera þaðan út á rækju og grálúðunet. Skipið féll inn í ákveðna reglugerð sem var í gildi þar í landi og var 25 metrar á lengd og 9,20 metrar á breidd. Til stóð að skrá hann í þessari lengd en síðan að lengja hann. Smíðin var fjármögnuð af Landsbankanum og í hruninu komst það í eigu þrotabús bankans. Þá hafði verð lokið við um 80% af smíði skipsins. Það hafði verið til sölu í mörg ár þegar Stormur Seafood keypti það loks árið 2015.

„Við komumst að þeirri niðurstöðu að þetta væri fyrirtaks skip til að breyta. Skipið var nýtt og ónotað. Við sömdum við Landsbankann og fengum það á ágætu verði,“ segir Steindór Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri Storms Seafood í viðtali við Fiskifréttir sem lesa má hér.

2926. Stormur HF 294. © útgerð 2017. 

 

Stormur nýkominn til Póllands og hafði vinnuheitið Lurkurinn.

03.12.2017 16:05

Stefnir

Þessa mynd tók Jón Steinar um árið og sýnir hún skuttogarann Stefni ÍS 28 sem upphaflega hét Gyllir ÍS.

1451. Stefnir ÍS 28 ex Gyllir ÍS. © Jón Steinar Sæmundsson.

03.12.2017 11:47

Samið um smíði sjö togskipa

Undirritaður hefur verið samningur um smíði á tveimur nýjum togskipum fyrir útgerðarfélagið Berg-Hugin ehf. í Vestmannaeyjum en Bergur-Huginn er dótturfyrirtæki Síldarvinnslunnar hf. Skipunum er ætlað að leysa af hólmi Vestmannaey VE og Bergey VE og verður heimahöfn þeirra í Vestmannaeyjum. Áætlað er að smíði hvors skips taki 14 mánuði og er gert ráð fyrir að fyrra skipið verði afhent kaupanda í marsmánuði 2019 og hið síðara í maí 2019.

Alls undirrituðu fulltrúar fjögurra íslenskra útgerðarfyrirtækja samninga um smíði á sjö samskonar skipum. Auk skipanna sem smíðuð verða fyrir útgerðarfélagið Berg-Hugin verða tvö skip smíðuð fyrir Gjögur, tvö fyrir Skinney – Þinganes og eitt fyrir Útgerðarfélag Akureyringa.

Frá þessu segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar en þar er hægt að sjá fleiri myndir:

Nýju skipin eru smíðuð af VARD í Noregi og fyrirkomulag og val á búnaði er unnið í samstarfi við útgerðirnar. Skipin verða 28,95 m að lengd og 12 m að breidd. Í skipunum verða tvær aðalvélar með tveimur skrúfum. Ný kynslóð rafmagnsspila verða í skipunum frá Seaonics.

Þessi nýju systurskip verða vel búin í alla staði og í þeim verða íbúðir fyrir 13 manns. Þau munu taka 244 x 460 lítra kör í lest (um 80 tonn af ísuðum fiski). Við hönnun skipanna hefur verið vandlega hugað að allri nýtingu á orku.

Við hönnun á vinnsludekki verður höfð að leiðarljósi vinnuaðstaða sjómanna, öflug kæling og góð meðhöndlun á fiski. Horft verður til þeirra gæða og reynslu sem íslenskir framleiðendur búa yfir á smíði vinnslubúnaðar.

 Það var Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar sem undirritaði samninginn fyrir hönd dótturfyrirtækisins en Eyvindur Sólnes lögmaður á Lex lögmannsstofu aðstoðaði útgerðirnar við gerð samninganna. Um samningana hafði Gunnþór eftirfarandi að segja:

„Ástæða þess að ákveðið var að semja við VARD er sú að um er að ræða öflugt fyrirtæki, þar sem ferlið frá hönnun skips til afhendingar á fullbúnu skipi er á hendi sama aðila.  Því er aðeins við einn aðila að semja.“

Síðastliðið sumar kynnti Síldarvinnslan þau áform sín að endurnýja allan ísfisktogaraflota fyrirtækisins og er þessi nýsmíðasamningur fyrsti áfangi þess viðamikla verkefnis.

 

Þannig munu ný Vestmannaey og Bergey líta út. © svn.is 2017.

 

 

Tölvugerð mynd af skipunum sjö sem samið var um smíði á.

Lengst til vinstri eru tvö skip í litum Gjögurs, síðan kemur skip

Útgerðarfélags Akureyringa, þá tvö skip Skinney-Þinganes

og loks skip Bergs-Hugins.

01.12.2017 17:05

Þerney farin

Frystitogarinn Þerney sigldi frá Reykjavík um kaffileytið í dag áleiðis til nýrrar heimahafnar í Saldanha í Suður-Afríku. Óskar Franz tók þessa mynd við það tækifæri en Þerney, sem nú heitir Therney, hafði verið í íslenska fiskiskipaflotanum í síðan 1993.

ZRBB. Therney ex Þerney RE. © Óskar Franz 2017.

 

ZZRB. Therney ex Þerney RE. © Óskar Franz 2017.

30.11.2017 18:26

Björgvin

Björgvin EA 311 að manúera í höfninni á Dalvík í dag en var að leggja í veiðiferð. Myndina tók Haukur Sigtryggur.

1937. Björgvin EA 311. © Haukur Sigtryggur 2017.

27.11.2017 21:16

Afrika

Hér er það risatogarinn Afrika sem ratað hefur fyrir linsun hjá Berki vélstjóra á Víkingi AK 100. Afrika var smíðuð 1999 og er 126 metrar að lengd, 17 metra breið og tonnin eru 7005 GT.

Afrika siglir undir hollensku flaggi og er heimahöfnin í Scheveningen.

Afrika SCH24. © Börkur Kjartansson.

26.11.2017 22:52

Melkart 3

Þessa mynd tók ég fyrir rúmri viku á Akureyri og sýnir hún rússneska skuttogarann Melkart 3 sem þar var í slipp. 

Togarinn var smíðaður 1988 og hét upphaflega Tampen. Síðar hét hann Mogstertral, Varegg og Andøybuen áður en hann var seldur til Rússlands árið 2011 og fékk núverandi nafn.

Melkart 3 M-350 ex Andeøybuen. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

26.11.2017 12:24

Keilir

Keilir SI 145 kemur að bryggju á Húsavík í septembermánuði 2004.

1420. Keilir SI 145 ex GK. © Hafþór Hreiðarsson 2004.

25.11.2017 18:02

Júlíus Havsteen

Hér er Júlíus Hvasteen ÞH 1 að veiðum á Flæmska hattinum en myndina tók Birgir Mikaelsson skipverji á Júlíusi.

Samið var um kaupin á togaranum sem keyptur var frá Grænlandi um mitt ár 1995 og birtist eftirfarandi frétt í Morgunblaðinu þann 15. júlí það ár:

Útgerðarfyrirtækið Höfði Húsavík hefur skrifað undiur samninga um kaup á rækjufrystitogara frá Grænlandi. Skipið er um 400 tonn, smíðað í Danmörku árið 1987.

Höfði á fyrir skuttogarann Júlíus Havsteen ÞH-1 og bátana Aldey ÞH- 110 sem er um 100 brúttórúmlestir og eikarbátinn Kristey ÞH- 25 sem er 50 brúttórúmlestir.

Að sögn Kristjáns Ásgeirssonar, framkvæmdastjóra Höfða, er ekki ljóst hvort Júlíus Havsteen fer úr rekstri í stað nýja skipsins en verið er að vinna í hvernig kvótamál verða leyst.

Nýja skipið er að sögn Kristjáns í góðu ásigkomulagi.

Það á að koma til landsins í desember og fer fyrst í slipp hjá Slippstöðinni-Odda á Akureyri áður en Höfði tekur við því. Hann sagðist reikna með 15 manna áhöfn á skipinu.

 

Júlíus Havsteen sem áður hét Quaasiut kom svo til heimahafnar á Húsavík í síðari hluta janúarmánaðar 1996 og hélt til veiða skömmu síðar undir skipstjórn Jóhanns Gunnarssonar.

Togarinn heitir í dag Sóley Sigurjóns GK 200.

 

2262. Júlíus Havsteen ÞH ex Quaasiut II. © Birgir Mikalesson.

25.11.2017 00:08

Nýja Hafborgin

Það fer að styttast í nýju Hafborgina EA 152 sem er í smíðum í Hvide Sand í Danmörku. Að sögn Guðlaugs Óla útgerðarmanns og skipstjóra á Hafborginni er stefnt á að hún verði afhent um miðjan janúar. Skrokk­ur báts­ins var smíðaður í Szczeciní Póllandi og smíðin fullkláruð í Hvi­de Sande í Dan­mörku. Upphaflega átti Hafborgin að afhendast um miðjan desember. En m.a vegna mikillar rigningar í Póllandi í sumar hefur smíðin tafist þar sem ekki var hægt að mála bátinn fyrr en tjaldað var yfir hann. Þaðan var hann svo dreginn til Danmerkur.

Hér kemur mynd af bátnum í Danmörku sem þeir feðgar og nafnar á Hafborginni, Guðlaugur Óli Þorláksson og Guðlaugur Óli Guðlaugsson sendu mér.

Ég fékk fleiri myndir og eins munu koma fleiri þegar þeir fara út í byrjun desember til að líta eftir smíðinni.

2940. Hafborg EA 152. © Guðlaugur Óli 2017.

24.11.2017 18:49

Valdimar

Línubáturinn Valdimar GK 195 leitaði til hafnar á Húsavík undan brælunni í morgun. Langt síðan bátur úr Vogunum hefur komið hingað, sennilega var það Þuríður Halldórsdóttir GK 94 sem kom í desember 1991. Og varð síðan upp úr því Kristbjörg ÞH 44. Reyndar Kristbjörg II ÞH 244 um tíma.

Smíðaður í Noregi 1982 og lengdur 1987. Keyptur til landsins 1999 og hét þá Vesturborg GK til að byrja með en fékk síðan Valdimarsnafnið. Hét áður Vestborg, Aarsheim Senior og Bömmelgutt í Noregi.

2354. Valdimar GK 195 ex Vesturborg GK. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

 

2354. Valdimar GK 195 ex Vesturborg GK. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

 

 

 

 

 

 

 

 

23.11.2017 20:31

Siglir

Frystitogarinn Siglir SI 250 kemur hér að bryggju í Reykjavík um árið.

í 12. tbl. Ægis 1995 sagði m.a um feril skipsins:

Skipið, sem hét í upphafi Scombrus, er smíðað árið 1975 í Vestur- Þýskalandi hjá Rickmers Rhederei GmbH, Rickmers Werft í Bremerhaven, smíðanúmer 385 hjá stöðinni, og er síðasti verksmiðjutogarinn sem stöðin smíðaði og tilheyrir svokallaðri þriðu kynslóð verksmiðjutogara. Á tuttugu ára tímabili, frá 1957 til 1976, smíðaði stöðin um og yfir 40 skut- og verksmiðjutogara. Scombrus var eini togarinn sem smíðaður var eftir þessari teikningu. Þess má geta að ísfisktogarinn Karlsefni RE (1253), sem keyptur var til landsins árið 1972, var smíðaður hjá stöðinni.

Scombrus var smíðaður fyrir FMS "Scombrus" Fischfang GmbH & Co (meðlimur í Pickenpack Group), Hamborg í Vestur-Þýskalandi, en árið 1986 kaupir National Sea Products Ltd. í Halifax, Kanada, skipið og fær það þá nafnið Cape North. í febrúar 1994 kaupir Siglfirðingur hf. á Siglufirði skipið og fær það þá nafnið Siglir og í febrúar 1995 fær skipið íslenskt skrásetningarskírteini og verður Siglir SI 250, skipaskrárnúmer 2236. 

Eftir að skipið kemur til landsins eru gerðar ákveðnar breytingar á vinnslu- og frystibúnaði o.fl., m.a. bætt við tveimur plötufrystum. 

 

Hvað skipið heitir í dag eða hvort það er yfirleitt til veit ég ekki en árið 2014 hét það Polyarniy og var skráð í Rússlandi.

 

2236. Siglir SI 250 ex Cape North. © Hafþór Hreiðarsson.

23.11.2017 19:36

Guðbjörg

Guðbjörg RE 21 kemur hér til hafnar í Reykjavík um miðjan níunda áratuginn.

3. janúar 1972 skrifaði Albert Kemp fréttaritari Morgunblaðsins frétt þar sem m.a þetta kom fram:

FIMMTUDAGINN 30. desember var sjósettur 26 rúmlesta fiskibátur hjá Trésmiðju Austurlands á Fáskrúðsfirði. Eigandi er FIosi Gunnarsson, Reykjavík.

Báturinn er með Saab-dísilvél, 220 hestöfl. Hann er auk þess búinn fullkomnustu siglingartækjum, ratsjá, 64 mílna, dýptarmæli og fisksjá og sjálfstýring er í bátnum og miðunarstöð.

Þá er i bátnum Jjósavél af Petters-gerð. Báturinn verður útbúinn fyrir togveiðar og línuveiðar og rafmagnsrúllur verða settar i hann fyrir handfæri.

Báturinn hlaut nafnið Guðbjörg RE 21, og er þetta 6. þilfarsbáturinn, sem Trésmiðja Austurlands h.f. afgreiðir á árinu 1971 og 4. báturinn af þessari gerð. Teikningu gerði Egill Þorfinnsson í Keflavík. 

Auk þess hefur trésmiðjan afgreitt tvo trillubáta, um það bil 4 rúmlesta og var hinn 3. sjósettur i dag. Búið er að semja í dag um smíði 3ja 15 tonna báta, eins 25 tonna og eins 10 tonna ásamt 3 trillubátum.

Samtals eru þetta verkefni fyrir um 30 milljónir króna. Allir þessir bátar sem samið hefur verið um eiga að afhendast á árinu 1972.

 

1201. Guðbjörg RE 21. © Hafþór Hreiðarsson. 

 

 

Flettingar í dag: 2202
Gestir í dag: 147
Flettingar í gær: 1617
Gestir í gær: 506
Samtals flettingar: 8671103
Samtals gestir: 1907442
Tölur uppfærðar: 21.9.2018 16:40:39
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is