Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

27.12.2017 16:17

Hrafn

Hér er Hrafn GK 12 í Njarðvíkurslipp á síðari hluta níunda áratug síðustu aldar. Hann var smíðaður í Ulsteinvik í Noregi 1966 og þótti fullkomnasta síldveiðiskip í heim þegar hann var afhentur eigendum sínum. Það var Hreifi h/f á Húsavík sem lét smíða hann og fékk hann nafnið Héðinn ÞH 57. 

Héðinn ÞH var seldur Þorbirninum í Grindavík árið 1975 og fékk þá það nafn sem hann ber á myndinni, Hrafn GK 12.

Hann hefur alla tíð síðan verið gerður út frá Grindavík, undir nöfnunum Hrafn, Háberg, Geirfugl, Þorbjörn og Tómas Þorvaldsson sem hann ber í dag.

Báturinn var lengdur 1971 og yfirbyggður 1977. Honum var breytt í línuskip árið 2001.

1006. Hrafn GK 12 ex Héðinn ÞH. © Hafþór Hreiðarsson.

 

25.12.2017 20:04

Karelia

Hér liggur skuttogarinn Karelia við bryggju í Hafnarfirði árið 2002. Nánar tiltekið þann 27 en viku áður birtist frétt í Morgunblaðinu þar sem sagði:

ÚTGERÐARFÉLGIÐ Stálskip hf. í Hafnarfirði hefur fest kaup á rússneska frystitogaranum Karelia af dótturfélagi Royal Greenland.

Skipið var byggt í Ørskov Christensens Staalskibsværft A/S í Danmörku árið 1998 og er 1.000 brúttólestir eða 1.500 brúttótonn, 58 metra langt og 13,5 metra breitt. Skipið er systurskip Sléttbaks EA sem Útgerðarfélag Akureyringa hf. keypti í marsmánuði. Skipið hefur hlotið nafnið Þór HF en Stálskip hefur áður gert út skip með sama nafni.

Fyrir gerir Stálskip út frystitogarana Rán HF og Ými HF. Guðrún Lárusdóttir, framkvæmdastjóri Stálskipa, segir að skipin hafi bæði verið sett á sölu og að aflaheimildir þeirra verði færðar yfir á nýja skipið þegar takist að selja þau. Skipin eru þó enn að veiðum, Rán HF á úthafskarfaveiðum og Ýmir HF á rækjuveiðum.

Guðrún segir að gerðar verði þó nokkrar breytingar á skipinu til að laga vinnsluna um borð að íslenskum kröfum og aðstæðum, skipt verði um flökunarvélar til að bæta nýtingu, auka frystigetu með því að setja um borð lárétta frysta í stað lóðréttra, auk þess sem sett verður um borð ísvél og ný pökkunarvél sem hentar þeim pakkningastærðum sem útgerðin hefur unnið með. Skipið muni því ekki fara á veiðar fyrr en á næsta fiskveiðiári.

Þór var seldur úr landi 2014 og aflaheimildir hans til þriggja útgerða hér á landi.

Karelia síðar 2549. Þór HF 4. í dag Kholmogory. © Hafþór 2002.

25.12.2017 13:22

Karoløs

Hér er mynd af hinum norska Karoløs sem Eiki frændi minn tók í norður Noregi. Karoløs er í dag notaður til flutninga á afskurði frá fiskvinnslustöðvum.

Karoløs var smíðaður 1977 í Hellesøy skipasmíðastöðinni í Noregi og hét þessu nafni upphaflega og til ársins 1984 þegar hann fær nafnið Herøytrål. 1997 verður hann Vestfart og 2015 það nafn sem hann ber í dag.

Karoløs er 52 metrar að lengd og 10 metra breiður með heimahöfn í Florø.

 

Karoløs ex Vestfart. © Eiríkur Guðmundsson 2017.

24.12.2017 17:37

Jólakveðja - Merry Christmas

Óska öllum þeim sem sækja síðuna heim gleðilegrar jólahátíðar með þökk fyrir innlitið á árinu sem er að líða.

Merry Christmas to you all who visit this site with thanks for stopping by.

Húsavíkurhöfn - 1576. Kolbeinsey ÞH 10. © Hafþór Hreiðarsson ca. 1996.

24.12.2017 09:59

Akraborg

Þessa flottu mynd af Akaraborginni og erlendu skemmtiferðaskipi tók Ágúst Guðmundsson.

Akraborgin hætti siglingum milli Akraness og Reykjavíkur þegar Hvalfjarðargöngin voru tekin í notkun.

Akraborgin var smíðuð 1974 í Noregi en var keypt hingað til lands 1982 og kom til heimahafnar 17. júní það ár.

í DV þann 19. júní mátti lesa þessa frétt:

Ný Akraborg lagðist að bryggju á Akranesi á 17. júní. Að sögn Viðars Vésteinssonar starfsmanns Skallagríms, eiganda Akraborgar, var fjöldi fólks staddur á bryggjunni við komu skipsins. Hann

sagði það mjög glæsilegt og að aðbúnaður farþega væri miklu betri en var í því eldra.

„Skipið tekur 70 til 75 fólksbíla og er því mun stærra en það gamla. Það tók mest 43 bíla. Sama áhöfn verður á nýja skipinu og við reiknum með að reksturskostnaður þess verði svipaður og hins,"sagði Viðar.

Nýja Akraborgin er byggð í Noregi árið 1974. Skipið er keypt frá Kanaríeyjum. Það var dótturfyrirtæki norska fyrirtækisins Fred Olsen sem gerði það út frá Kanaríeyjum.

Búizt er við að skipið fari sína fyrstu ferð, sem Akraborg, á fimmtudag.

 

Í dag er Akraborgin skólaskip Slysavarnarskóla sjómanna og á heimasíðu Landsbjargar má m.a. lesa eftirfarandi:

Sumarið 1998 eignaðist Slysavarnafélag Íslands, nú Slysavarnafélagið Landsbjörg, nýtt skip til að leysa það eldra af hólmi. Þá gaf ríkisstjórn Íslands félaginu ferjuna Akraborg til nota fyrir starfsemi Slysavarnaskóla sjómanna. Skipið var þá um það bil að hætta siglingum vegna tilkomu Hvalfjarðarganganna. Var skipinu gefið nafnið Sæbjörg er það var afhent 12. júlí 1998. Fóru fram umtalsverðar breytingar á skipinu svo það hentaði til nota sem skólaskip, en starfsemi Slysavarnaskóla sjómanna hófst í nýrri Sæbjörgu í október 1998.

1627. Akraborg. © Ágúst Guðmundsson.

23.12.2017 11:06

Nýja Hafborgin

Hér koma nokkrar myndir sem Óli sendi mér af nýju Hafborginni EA 152 sem hann er með í smíðum í Hvide Sand í Danmörku. Glæsilegur bátur að sjá.

2940. Hafborg EA 152. © Útgerð 2017.

 

2940. Hafborg EA 152. © Útgerð 2017.

 

2940. Hafborg EA 152. © Útgerð 2017.

 

2940. Hafborg EA 152. © Útgerð 2017.

 

2940. Hafborg EA 152. © Útgerð 2017.

 

2940. Hafborg EA 152. © Útgerð 2017.

 

2940. Hafborg EA 152. © Útgerð 2017.

 

2940. Hafborg EA 152. © Útgerð 2017.

 

23.12.2017 00:56

Drangey

Kíkti á Marintraffíkið áðan og það eru flest skip komin til hafnar fyrir jólahátíðina. Drangey SK 2 var á siglingu inn Skagafjörðinn til heimahafnar á Sauðárkróki. Hún hefur verið á Akranesi frá því í haust þar sem settur var  vinnslubúnaður í hana.

Drangey er eitt þeirra skipa sem prýða dagatal Skipamynda 2018 en nokkur eintök eru eftir úr fyrstu prentun. 

Áhugasamir geta pantað dagatalið á korri@internet.is eða í skilaboðum á fésbókarsíðu minni.

Verð 3000 kr.

2893. Drangey SK 2. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

20.12.2017 18:51

Notos

Flutningaskipið Notos kom til Húsavíkur í fyrrinótt en það er með kolafarm fyrir PCC á Bakka. 

Notos var smíðað 2004 í Tyrklandi og hét áður Azerbaycan. 125 metra langt og 16 metra breitt með heimahöfn í St. John's á Antigua and Barbuda.

Notos ex Azerbaycan. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

19.12.2017 20:37

Múlaberg

Skipin eru farin að koma til hafnar fyrir hátíðarnar og hér liggur Múlabergið prýtt jólaljósum á Siglufirði.

1281. Múlaberg SI 22 ex ÓF. © Gundi 2017.

18.12.2017 18:51

Stormur kominn heim

Línuskipið Stormur HF 294 kom til hafnar í Reykjavík um hádegisbil í dag eftir heimsiglingu frá Póllandi með viðkomu í Þórshöfn, Höfn í Hornafirði og Vestmannaeyjum.

Skipaáhugamenn hafa fylgst með framvindu breytinga á þessu skips undanfarin misseri á fésbókarsíðu þess þar sem það hafði vinnuheitið Lurkurinn.

2926. Stormur HF 294 ex Arctic Leader. © Þórarinn Guðni Sveinsson 2017.

 

Þórarinn Guðni Sveinsson tók meðfylgjandi myndir í dag og kann ég honum bestu þakkir fyrir afnotin.

 

Fiskifréttir birtu eftirfarandi viðtal við Steindór Sigurgeirsson framkvæmdarstjóra Storms Seafood fyrir nokkrum vikum:

Íslandsmet sett í lengingu 

Árið 2005 hófst smíði á skipi á Nýfundnalandi sem átti að átti að gera þaðan út á rækju og grálúðunet. Skipið féll inn í ákveðna reglugerð sem var í gildi þar í landi og var 25 metrar á lengd og 9,20 metrar á breidd. Til stóð að skrá hann í þessari lengd en síðan að lengja hann. Smíðin var fjármögnuð af Landsbankanum og í hruninu komst það í eigu þrotabús bankans. Þá hafði verð lokið við um 80% af smíði skipsins. Það hafði verið til sölu í mörg ár þegar Stormur Seafood keypti það loks árið 2015.

„Við komumst að þeirri niðurstöðu að þetta væri fyrirtaks skip til að breyta. Skipið var nýtt og ónotað. Við sömdum við Landsbankann og fengum það á ágætu verði,“ segir Steindór Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri Storms Seafood.

Hagkvæmara en að kaupa nýtt skip

Skipið var dregið frá Nýfundnalandi til Gdansk í Póllandi og tók ferðin mánuð. Upphaflega hugmyndin var sú að breyta því í dragnótarskip en hún þróaðist á þann hátt að gera úr því línu- og netaskip.

Heil Facebook síða er helguð skipinu sem þar gengur undir nafninu Lurkurinn. Tvö ár tók að breyta skipinu. Það var skorið í tvennt um miðjuna og lengt um 23 metra. „Þetta er Íslandsmet í lengingu. Eyborg ST átti fyrra met en það var lenging upp á 19 metra.“

Steindór segir að fjárhagslega hafi það komið betur út að láta breyta skipinu en að kaupa nýtt.

Lengingin var smíðuð í annarri skipasmíðastöð og henni skeytt saman við skipið.

Rafdrifið brunnskip

„Þetta var flókið verkefni.  Teikningar af upphaflega skipinu voru af skornum skammti og það þurfti að vinna mjög mikla vinnu í að koma slíkum málum í góðan farveg  áður en hafist var handa við breytingarnar.   En nú er skipið tilbúið til notkunar og við erum mjög ánægðir með útkomuna. Upphaflega var það hannað til að vera rafdrifið, en við vorum ekki sáttir við þann drifbúnað sem fylgdi skipinu.   Þess vegna keyptum  við og settum í það Scana Volda rafmótor, en héldum þremur nýjum Caterpillar ljósavélum sem í upphaflega skipinu voru. Þær drífa áfram drifmótorinn og sinna öðrum orkuþörfum skipsins. Við áætlum að olíueyðsla skipsins sé um helmingi minni en í hefðbundnu skipi af svipaðri stærð,“ segir Steindór.

Þetta er nýjung hér á landi en þekkt, t.a.m. í Noregi. Það sem einnig vinnst við það að hafa skipið rafdrifið er að lestarrýmið verður mjög stórt miðað við skip af þessari stærð. Hægt er að koma fyrir í lestinni 456 kerum með samtals um 140 tonn af ferskum fisk og um 400 tonn af frystri afurð.

„Lestin er því litlu minni en í nýjum togurum HB Granda. Í norskum bátum hefur þekkst í mörg ár að draga línuna í gegnum miðjubrunn en á skipinu okkar er hliðarbrunnur, sem er einnig þekkt tækni frá Noregi og hefur verið notuð í á annan áratug þar með góðum árangri. Fiskurinn fer því nánast aldrei upp úr sjó heldur í gegnum lúgu á hliðinni. Þetta eykur til muna öryggið til sjós þar sem enginn stendur í lúgu við línudrátt, nema til að taka færi.   Einnig heyra goggstungur sögunni til með þessu kerfi og því mun betra hráefni sem skilar sér til vinnslu.“

Skipið er með nýrri beitningarvél frá Mustad og nánast sama kerfi og í norska línubátnum Loran sem hefur verið aflahæsti línubáturinn í Noregi í mörg ár.

„Við munum nú á endanum líklega aldrei gera þetta skip út því ég hef ákveðið að selja það og fyrirtækið Storm Seafood einnig. Fyrir því liggja ýmsar, persónulegar ástæður,“ segir Steindór.

 

2926. Stormur HF 294 ex Arctic Leader. © Þórarinn Guðni Sveinsson 2017.

 

2926. Stormur HF 294 ex Arctic Leader. © Þórarinn Guðni Sveinsson 2017.

 

2926. Stormur HF 294 ex Arctic Leader. © Þórarinn Guðni Sveinsson 2017.

 

Arctic Leader © Fésbókarsíða Lurksins 2016.

18.12.2017 18:41

Óli á Stað

Gundi tók þessa mynd af línubátnum Óla á Stað GK 99 á Siglufirði í gær. 

Óli á Stað var smíðaður hjá Seiglu á Akureyri og hóf veiðar í vor. Hann hefur verið við veiðar úti fyrir Norðurlandi sem og Austurlandi til þessa og landað mest á Siglufirði og Neskaupsstað..

 
2842. Óli á Stað GK 99. © Gundi 2017.

18.12.2017 14:10

Ný Cleopatra 36 til Troms

Bátasmiðjan Trefjar í Hafnarfirði afgreiddi nú á dögunum nýjan Cleopatra bát til Nord-Lenangen í Tromsfylki í Noregi.

Kaupandi bátsins er Terje Moltubakk sem jafnframt verður skipstjóri á bátnum.

Báturinn hefur hlotið nafnið Sara Louise.  Báturinn mælist 14brúttótonn.  Sara Louise er af gerðinni Cleopatra 36.

Aðalvél bátsins er af gerðinni Scania D13 650hp tengd ZF V-gír.  Í bátnum er Nanni ljósavél.  Báturinn er útbúinn fullkomnum siglingatækjum af gerðinni Furuno.

Báturinn er einnig útbúin með tveimur vökvadrifnum hliðarskrúfum sem tengdar eru sjálfstýringu bátsins.  Báturinn er útbúinn til línuveiða.

Veiðibúnaður kemur frá Noregi.

Öryggisbúnaður bátsins kemur frá Viking-björgunarbúnaði.

Rými er fyrir 15stk 380lítra kör í lest.  Fullkomin eldunaraðstaða auk borðsals er staðsett í brúnni.  Svefnpláss er fyrir þrjá í lúkar.  Salerni með sturtu er í lúkar. 

Báturinn hefur þegar hafið veiðar.

Sara Louise T-24-L. © Trefjar.is 2017.

17.12.2017 22:39

Björg með jólaljósin

Hér liggur Björg EA 7 ljósum prýdd á Akureyri. Tekið í dag.

2894. Björg EA 7. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

17.12.2017 22:06

Gissur hvíti

Hér er verið að landa úr línuskipinu Gissuri hvíta SF 55 á Húsavík en þetta var í marsmánuði 2002.

Gissur hvíti hét upphaflega Hafrenningur GK 38, smíðaður 1976 í Danmörku, en keyptur hingað til lands árið 1982. Hans fyrra nafn var Michelle Cherie.

 

Í Morgunblaðinu 3. júní 1982  var örlítil klausa sem sagði frá komur Hafrennings til Grindavíkur:

Á mánudagsmorgun kom til Grindavíkur ms. Hafrenningur GK 38, eign Hafrennings hf. í Grindavík. Skipið, sem er 296 smálestir, er smíðað í Danmörku 1976 og var keypt þaðan.

Hafrenningur verður gerður út á net og troll frá Grindavík.

Hafrenningur kemur í skiptum fyrir Sigfús Bergmann frá Grindavík, sem var eign sama aðila, Og gekk Upp í kaupin. 

 

Skipið hefur verið í Kanada síðan árið 2005 og heitir í dag Sikuvut.

1626. Gissur Hvíti SF 55 ex Vigdís Helga VE. © Hafþór Hreiðarsson 2002.

16.12.2017 18:43

Súlan, Kolbeinsey og Hilmir

Ég hef áður birt myndir sem Árni Vilhjálmsson á Húsavík gaf mér en þær tók hann þegar Kolbeinsey ÞH 10 var sjósett hjá Slippstöðinni á Akureyri. Súlan var notuð til að draga hana að bryggju og eitthva var Hilmir Su 171 að snúlla þarna.

Í Morgunbalðinu 3. febrúar 1981 sagði:

Hinn nýi togari Húsvíkinga, sem nú er í smíðum i Slippstöðinni á Akureyri, verður væntanlega sjósettur 7. febrúar næstkomandi, að því er segir í Víkurblaðinu á Húsavik. 

Togaranum hefur verið  valið nafnið Kolbeinsey og mun bera einkennisstafina ÞH 10. Kolbeinsey er 500 tonna skip, sem taka á 160—180 tonn í kassa. 

Skipstjóri á Kolbeinsey verður Benjamín Antonsson.

Kolbeinsey komin á flot. © Árni Vihjálmsson 1981.
Flettingar í dag: 1344
Gestir í dag: 237
Flettingar í gær: 1720
Gestir í gær: 399
Samtals flettingar: 8677501
Samtals gestir: 1908938
Tölur uppfærðar: 24.9.2018 06:35:00
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is