Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

03.02.2018 13:42

Hafborgirnar fjórar

Nýja Hafborg EA 152 kom til landsins í vikunni eftir heimsiglingu frá Hvide Sande í Danmörku þar sem báturinn var smíðaður. Skrokkurinn reyndar í Póllandi og hann síðan dregin yfir til Danmerkur.

Þetta er fjórða Hafborgin sem Guðlaugur Óli Guðlaugsson og fjölskylda eiga og fara þær sístækkandi eins og sjá má.

Hér koma myndir af þeim en Haukur Sigtryggur tók þær sem sýna nýja bátinn.

2940. Hafborg EA 152. © Haukur Sigtryggur 2018.

 

2940. Hafborg EA 152. © Haukur Sigtryggur 2018.

 

2323. Hafborg EA 152 ex Stapavík AK. © Hafþór Hreiðarsson 2010.

 

1922. Hafborg EA 152. Finni NS 21 í dag. © Hafþór Hreiðarsson.

 

1762. Hafborg EA 152. Lilja HF 15 í dag. © Hafþór Hreiðarsson.

02.02.2018 11:56

70 ný fiskiskip síðustu 5 ár

Hagstofan greinir frá því í dag að á síðustu fimm árum hafi 70 ný skip bæst við fiskveiðiflotann: 

 

Alls voru 1.621 fiskiskip á skrá hjá Samgöngustofu í lok árs 2017 og hafði þeim fækkað um 26 frá árinu áður. Fiskiskip eru flokkuð í þrjá flokka hjá Samgöngustofu, opna báta, togara og vélskip. Vélskip eru öll yfirbyggð skip önnur en skuttogarar, en í þeim flokki eru nokkur skip sem eru stærri en stærstu skuttogararnir.

Vélskip voru alls 735 og samanlögð stærð þeirra um 92.460 brúttótonn. Vélskipum fækkaði um 12 milli ára og stærð flotans minnkaði um 2.046 brúttótonn. Togarar voru alls 44, bættist einn við á milli ára, en nokkur endurnýjun varð í flotanum. Sex nýir togarar voru smíðaðir árið 2017, þar af fjögur systurskip. Heildarstærð togaraflotans var 61.841 brúttótonn í árslok 2017 og hafði aukist um 9.425 tonn frá ársbyrjun. Opnir fiskibátar voru alls 842 og samanlögð stærð þeirra 4.154 brúttótonn. Opnum fiskibátum fækkaði um 15 milli ára og samanlögð stærð þeirra minnkaði um 112 brúttótonn.

Á síðustu fimm árum hafa 70 ný skip bæst við fiskveiðiflotann. Átta skuttogarar, 37 vélskip og 25 opnir bátar. Alls voru 53 þessara skipa smíðuð á Íslandi og eru þau öll úr trefjaplasti og undir 30 brúttótonnum. Allir togararnir voru smíðaðir í Tyrklandi, ásamt fjórum af þeim sjö vélskipum sem voru yfir 1.000 brúttótonn.

Flest fiskiskip voru með skráða heimahöfn á Vestfjörðum í árslok 2017, alls 394 skip, en það eru 24% fiskiskipaflotans. Næst flest, alls 290 skip höfðu heimahöfn skráða á Vesturlandi eða 17,9%. Fæst skip (74) voru með skráða heimahöfn á Suðurlandi eða 4,6% af heildarfjölda fiskiskipa. Flestir opnir bátar voru á Vestfjörðum (231) og á Vesturlandi (163). Fæstir (22) opnir bátar höfðu heimahöfn á Suðurlandi. Vélskip voru einnig flest (160) á Vestfjörðum en fæst á Höfuðborgarsvæðinu (42). Flestir togarar (11) höfðu skráða heimahöfn á Norðurlandi eystra og næst flestir eða átta togarar á höfuðborgarsvæðinu. Fæstir togarar voru skráðir á Vestfjörðum og Austurlandi, alls þrír

English version

 

Sólberg ÓF 1 var einn þeirra nýju togara sem komu í flotann á síðasta ári og þeirra stærstur. Og jafnframt eini frystitogarinn.

2917. Sólberg ÓF 1. © Hafþór Hreiðarsson 2017.
 

01.02.2018 10:33

Hav Nes

Haukur Sigtryggur tók þessar myndir af flutningaskipinu Hav Nes í Dalvíkurhöfn á dögunum.

Hav Nes siglir undir færeyskum fána og er með heimahöfn í Runavík. Var smíðað 1991 og hét Sava Hill til ársins 2009 er það fær núverandi nafn.

Það er 75 metra langt og 13 metra breitt, mælist 2026 GT að stærð.

Hav Nes ex Sava Hill. © Haukur Sigtryggur 2018.

 

Hav Nes ex Sava Hill. © Haukur Sigtryggur 2018.

01.02.2018 10:15

Óli á Stað

Línubáturinn Óli á Stað GK 99 kom til Grindavíkur í gærkveldi og tók Jón Steinar þessar myndir þá. Þetta mun vera í fyrsta skipti sem báturinn kemur til heimahafnar en frá því hann hóf veiðar í vor hefur hann landað fyrir norðan og austan. Þá kom hann suður fyrir áramót og hefur landað í Sandgerði það sem af er þessu ári.

2842. Óli á Stað GK 99. © Jón Steinar Sæmundsson 2018.

 

2842. Óli á Stað GK 99. © Jón Steinar Sæmundsson 2018.

31.01.2018 15:13

Gnúpur

Á þessari flottu mynd Jóns Steinars sést frystitogarinn Gnúpur GK 11 leggja af stað í veiðferð í gær en ferðinni er heitið í Barentshafið. 

1579. Gnúpur GK 11 ex Guðbjörg ÍS. © Jón Steinar Sæmundsson 2018.

29.01.2018 20:26

Þorlákur helgi

Hér er Þorlákur helgi ÁR 11 á rækjuveiðum úti fyrir Norðurlandi um árið en hann var smíðaður í Noregi 1960 fyrir bræðurnar Ársæl og Þorstein Júlíussyni á Neskaupstað. Hann mældist 147 brl. að stærð og var með 400 hestafla Wickmann aðalvél. Nesútgerðin hf. á Neskaupsstað kaupir bátinn í júní 1962 og í nóvember 1964 kaupir Garðar Lárusson á Neskaupsstað bátinn sem fær nafnið Sæfaxi II NK 123. Í ágústmánuði 1970 er Sæfaxi II seldur á Borgarfjörð eystri, kaupandi Útgerðarfélag Borgarfjarðar sem gefur bátnum nafnið Glettingur NS 100. 

Tæpu ári síðar fær báturinn nafnið Höskuldsey SH 2 þegar hann var seldur Eyjum hf. í Stykkishólmi. 15. júlí kaupir Straumnes hf. á Selfossi bátinn sem fær nafnið Birtingur ÁR 44 . Í febrúar 1977 kaupir Guðmundur Haraldsson í Grindavík bátinn sem fær nafnið Búðanes GK 101 sem hann hefur til ársloka 1980 þegar Einarshöfn hf. á Eyrarbakka kaupir bátinn og gefur honum það nafn sem hann ber á myndinni og bar alla tíð eftir það. Varð síðan SI 71 eftir að Sædór hf. á Siglufirði keypti bátinn 1986 og hélt þeim einkennisstöfum og númeri eftir að Samherji keypti hann 1989. (Íslensk skip)

Þann 29 janúar 1960 sagði svo frá komu bátsins til landsins í Austurlandi:

 

Nýr bátur, Stefán Ben N.K. 55

Eins og lesendum blaðsins er kunnugt, hafa þeir bræður Ársæll og Þorsteinn Júlíussynir, átt bát í smíðum í Noregi. Í fyrravetur sökk bátur þeirra, Langanes, við Vestmannaeyjar og réðust þeir þá í að láta smíða þetta nýja skip, sem er nær þrisvar sinnum stærra. Stefán Ben er smíðaður eftir sömu teikningu og v/s Guðrún Þorkelsdóttir á Eskifirði og að flestu leyti eins búinn að tækjum. Var þeim báti nýlega lýst hér í blaðinu og gildir það, sem þar var sagt einnig um Stefán Ben.

Stefán Ben fékk slæmt veður fyrsta sólarhring heimferðarinnar og reyndist hið ágætasta sjósskip. Að undanförnu hafa menn verið að vakna til meðvitundar um að Norðfirðingar þyrftu að eignast báta af svipaðri stærð og þessi er, til að afla fiskjar með heimalöndun fyrir augum. Stefán Ben er fyrsta skipið, sem Norðfirðingar eignast af þessari stærð, og það er trú mín, að síðar verði litið svo á, að með komu hans hafi verið mörkuð merk tímamót í útgerðarsögu þessa bæjar. Og það er von allra, að fleiri bátar af svipaðri stærð komi á eftir og þá frekar fyrr en síðar.

Stefán Ben verður gerður út með línu, á útilegu og síðan net héðan að heiman í vetur og á væntanlega eftir að flytja mikla björg að landi. Atvinnuhorfur í vetur batna til mikilla muna við komu þessa skips. Frá því Stefán Ben kom, hefur verið unnið af kappi að því að búa hann á veiðar og mun hann fara í fyrstu veiðiferðina í dag.

Skipstjóri á bátnum er Einar G. Guðmundsson, stýrimaður Birgir Sigurðsson og 1. vélstjóri Freysteinn Þórarinsson.

Austurland óskar þeim bræðrum til hamingju með bátinn og Norðfirðingum öllum til hamingju með þessa þýðingarmiklu viðbót við flotann og þau merku tímamót sem koma Stefáns Ben táknar í útgerðarsögu staðarins.

 

Svo mörg voru þau orð en báturinn, sem var lengdur 1967, fór í brotajárn árið 1992.

200. Þorlákur helgi ÁR 200 ex Búðanes GK. © Hreiðar Olgeirsson.

 

 

 

 

 

29.01.2018 15:09

Björg og Kapitan Varganov

Hér liggja við slippkantinn á Akureyri togararnir Björg EA 7 og rússinn Kapitan Varganov. Björg smíðuð í Tyrklandi 2017 en sá rússneski á Spáni 1993.

2894. Björg EA 7 - Kapitan Varganov ex Hekktind. © Hafþór 2018.

28.01.2018 18:52

Akureyri í dag

Tók þessa mynd við slippinn á Akureyri í dag. Uppi eru Smári ÞH 59, Máni, Dagur SK 17 og Húni II EA 740 en við bryggjuna liggja Áskell Egilsson og Hafborg sem nú er EA 242 á skipaskrá. Í forgrunni má sjá í Fjólu EA 35 og Ester EA 3.

Við slippinn á Akureyri 28. janúar 2018. © Hafþór Hreiðarsson.

27.01.2018 13:16

Orri

Þarna hefur Orri ÍS 20 frá ísafirði komið í slipp á Akureyri. Orri var smíðaður í Flekkefjørd í Noregi árið 1967 fyrir Hraðfrystihúsið Norðurtangann hf. og hét í fyrstu Guðbjartur Kristján ÍS 20 og síðan Orri ÍS 20. Skipið var síðan selt Bakka hf. í Bolungarvík og fékk þá nafnið Vinur ÍS. Síðar var skipið selt Fiskanesi hf. í Grindavík og fékk nafnið Albatros GK 60. Selt aftur vestur til Bolungarvíkur þar sem það fékk nafnið Einar Hálfdáns ÍS 11. Selt til Noregs 2007.

1052 Orri ÍS 20 ex Guðbjartur Kristján ÍS. © Hafþór Hreiðarsson.

26.01.2018 15:37

Höfðavík og Víkingur

Þessi mynd var tekin úr Akraborginni og sýnir skuttogarann Höfðavík AK 200 og nótaskipið Víking AK 100 við bryggju á Akranesi.

Höfðavík var upphaflega Óskar Magnússon AK 177 smíðaður í Slippstöðinni 1978. 

Dagur á Akureyri sagði frá sjósetningu togarans þann 14. desember 1977 og þar kom m.a þetta fram:

 

Laugardaginn 10. desember var sjósettur í Slippstöðinni hf. á Akureyri 490 lesta skuttogari, sem jafnframt er búinn til nótaveiða. 

Eigandi skipsins er Útgerðarfélag Vesturlands hf. og stærstu hluthafar Þórður Óskarsson og fleiri á Akranesi, og auk þeirra nokkrir Borgnesingar. 

Fyrir sjósetningu flutti Gunnar Ragnars forstjóri ræðu og óskaði nýjum eigendum heilla, en að því búnu gaf Halldóra Þórðardóttir skipinu nafnið „Óskar Magnússon AK 177".

Síðan rann skipið á örfáum andartökum til sjávar. 

Skipið er systurskip Guðmundar Jónssonar GK, en þó með allmörgum breytingum og endurbótum. Áætlað er að skipið verði afhent eigendum sínum snemma á næsta ári.

Skipið verður búið fullkomnum búnaði til veiða með botnvörpu, flotvörpu og nót. 

 

Höfðavík var síðar seld Langanesi hf. á Húsavík og hét Björg Jónsdóttir ÞH 321 og síðar Bjarni Sveinsson ÞH 322. Seldur til Noregs og hét þar Polynia Viking.

1508. Höfðavík AK 200 og 220. Víkingur AK 100. © Hafþór Hreiðarsson.

 

26.01.2018 15:16

Guðmundur

Guðmundur VE 29 kemur hér að bryggju í Krossanesi um árið. Skömmu fyrir aldamótin ef ég man rétt. Saga hans hefur komið fram hér áður en hann var smíðaður 1967 í Noregi en keyptur hingað til lands 1972. 

Seldur Ísfélagi Vestmannaeyja 1983 og varð þá VE 29 en hafði verið RE 29 frá því hann kom til landsins.

Í dag er báturinn gerður út á línu undir nafninu Sturla GK 12 og er í eigu Þorbjarnar hf. í Grindavík.

1272. Guðmundur VE 29 ex RE 29. © Hafþór Hreiðarsson.

26.01.2018 14:56

Sighvatur

Sighvatur GK 357 lætur hér úr höfn í Grindavík í gær áleiðis á miðin. Já ég segi og skrifa GK 357 því sá gamli er kominn með nýtt númer. Sævíkin sem er nú í endurbyggingu í Póllandi hefur fengið nafnið Sighvatur GK 57 og mun leysa gamla Sighvat af hólmi.

975. Sighvatur GK 357 ex GK 57. © Jón Steinar 2018.

25.01.2018 14:09

Guðrún Björg

Hér eru kallarnir á Guðrúnu Björgu ÞH 355 að draga netin um árið. Þeirra á meðal er Þorgeir nokkur Baldursson. Guðrún Björg, sem var 16 brl., hét áður Sæborg ÞH 55 og var smíðuð hjá Gunnlaugi og Trausta á Akureyri 1970.

Seld suður og fékk nafnið Ársæll Sigurðsson HF 80 og örlög hans þekkja margir. Fórst í innsiglingunni til Grindavíkur, mannbjörg varð.

1097. Guðrún Björg ÞH 355 ex Sæborg ÞH . © Hafþór Hreiðarsson.

 

24.01.2018 17:16

Masilik

Jón Steinar tók þessa mynd af grænlenska línuskipinu Masilik GR-8-350 í Reykjavíkurhöfn á dögunum. Skipið hét áður Carisma Viking og er með heimahöfn í Sisimiut.

Smíðað í Kristiansund í Noregi 2001 og á sér eitt systurskip í Íslenska flotanum, Önnu EA 305.

Masilik, sem gert er út af Royal Greenland, hét upphaflega Avor Viking (2004) því næst Argos Helena (2009) og loks Carisma Viking til ársins 2016 er það fékk núverandi nafn.

Masilik G-8-350 ex Carisma Viking. © Jón Steinar 2018.

23.01.2018 20:03

Ægir Jóhannsson

Hér er Ægir Jóhannsson ÞH 212 að koma að landi í Sandgerði um árið.

Í Tímanum þann 15. júlí 1975 sagði svo frá:

Nýr bátur hefur verið afhentur frá Skipasmíðastöðinni Vör h/f á Akureyri og ber hann nafnið Ægir Jóhannsson ÞH-212.

Eigendurnir eru fimm ungir menn frá Grenivík.

Ægir Jóhannsson er 29 tonn að stærð, búinn öllum venjulegum siglingar.og fiskileitartækjum. Aðalvél er Volvo Penta 300 hestöfl.

Báturinn er teiknaður af Páli Hjartarsyni, en hann hefur teiknað alla báta Varar h/f.sem með Ægi Jóhannssyni eru orðnir sex talsins.

Skipstjóri á Ægi er Sævar Sigurðsson. 

1430. Ægir Jóhannsson ÞH 212. © Hafþór Hreiðarsson.
Flettingar í dag: 2202
Gestir í dag: 147
Flettingar í gær: 1617
Gestir í gær: 506
Samtals flettingar: 8671103
Samtals gestir: 1907442
Tölur uppfærðar: 21.9.2018 16:40:39
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is