Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

18.02.2018 15:56

Loðnuveiðar á Skjálfanda

Þessa mynd tók ég um miðjan dag af Gónhólnum út á Skjálfandaflóa þar sem norsk loðnuskip voru að veiðum. Og hvalurinn var þarna líka eins og Smaragd og Rogne sem hér sjást, Smaragd með nótina á síðunni.

Smaragd M-65-HØ -Rogne M-70-HØ. © Hafþór Hreiðarsson.

16.02.2018 20:10

Hringur

Hér er Hringur GK 18 koma til heimahafnar í Hafnarfirði um árið. Hringur hét upphaflega Þorlákur ÁR og  var smíðaður í Garðabæ 1972. Síðan hét hann Brimnes SH og Rita NS 13 áður en hann fékk Hringsnafnið. Í dag heitir hann Grundfirðingur SH 24 í eigu Soffaníasar Cesilssonar hf. í Grundarfirði.

1202. Hringur GK 18 ex Rita NS. © Hafþór Hreiðarsson.

15.02.2018 11:11

Fjölnir

Jón Steinar tók glæsilega myndasyrpu á dögunum þegar Fjölnir GK 157 hélt í róður frá Grindavík. Og þessi mynd er úr henni en farið var að skyggja og gekk á með éljum í sunnan fýlu eins og ljósmyndarinn orðaði það.

1136. Fjölnir GK 157 ex Ocean Breezer. © Jón Steinar 2018.

14.02.2018 18:34

Byr

Hér kemur mynd sem ég tók af Byr NS 192 á Húsavík um árið en hann var þá í eigu Hvítafells h/f á Bakkafirði. Samkvæmt bókinni Íslensk skip átti Hvítafell bátinn frá því í júlí 1984 til júnímánaðar 1985 er hann var seldur til Ólafsfjarðar.

Upphaflega Benedikt Sæmundsson GK 28 og í Alþýðublaðinu birtist eftirfarandi frétt þann 27. október 1965:

Í gær var hleypt af stokkunum nýjum báti hjá skipasmíðastöðinni Bátalón í Hafnarfirði. Báturinn, sem hlaut nafnið Benedikt Sæmundsson, er 35 lestir að stærð og er stærsti báturinn, sem Bátalón hefur smíðað.

Þorbergur Ólafsson framkvæmdastjóri Bátalóns skýrði blaðinu svo frá í gær, að tvö ár væru liðin síðan smíði bátsins hófst,  en verkið hefur að nokkru leyti verið ígripavinna, þegar önnur verkefni hafa ekki legið fyrir, og auk þess hefur rekstrarfjárskortur tafið smíðina nokkuð.

Þetta er stærsti báturinn sem Bátalón hefur smíðað, en hann er sem fyrr segir rúmlega 35 lestir að stærð. Smíðanúmer bátsins er 345, og er þá talið frá einum. 

Benedikt Sæmundsson GK 28 er eign hlutafélagsins BEN h.f. í Garðinum, og skipstjóri á honum verður Sveinn R. Björnsson. 

Í bátnum er 205 hestafla Scania Vabis vél, radar af gerðinni Kelvin Hughes, Simrad dýptarmælir og miðunarstöð af gerðinni Autozonia. 

Njáll Benediktsson, einn af eigendum bátsins gaf honum nafn, en allmargt manna var viðstatt er báturinn hljóp af stokkunum. 

Báturinn er smíðaður samkvæmt teikningu Egils Þorfinnssonar skipasmíðameistara. 

 

992. Byr NS 192 ex Fiskines GK. © Hafþór Hreiðarsson.

 

 

14.02.2018 10:36

Júlíus Havsteen

Júlíus Hvasteen ÞH 1 kemur til hafnar á Húsavík um árið. Smíðaður á Akranesi 1976 og hét lengst af þessu nafni en þegar nýr Júlíus kom þá var þessi seldur og fékk nafnið Þórunn Havsteen ÞH 40.

Seldur til Noregs 1999 þar sem hann fékk nafnið Bergstrål og síðar Solheimfisk. Seldur til Möltu þar sem hann fékk nafnið Sunfish.

1462. Júlíus Havsteen ÞH 1. © Hafþór Hreiðarsson.

 

 

14.02.2018 08:27

Sturla

Í gær var ég með mynd af norska loðnuskipinu Senior N-60-B frá Bodø. Hér kemur línuskipið Sturla GK 12 sem áður fyrr stundaði loðnuveiðar undir nafninu Guðmundur, RE og síðar VE. Upphaflega hét Sturla  Senior H-33 og var með heimahöfn í Bergen. Myndina tók Jón Steinar á dögunum þegar Sturla hélt í róður frá Grindavík.

1272. Sturla GK 12 ex Guðmundur VE. © Jón Steinar 2018.

13.02.2018 13:44

Senior á Skjálfanda

Norska loðnuskipið Senior hefur verið að lóna um Skjálfandaflóa í morgun og náði ég þessari mynd af því. Hún er töluvert kroppuð og óskýr eftir því.

Um fimmtán norsk loðnuskip eru á Öxarfirði og nokkur á Þistilfiði samkvæmt AIS-kerfinu.

Senior er 63 metra langur, 12 metra breiður og mælist 1693 GT að stærð. Smíðaður 1989 og með heimahöfn í Bodø.

Senior N-60-B ex Kvannoy.  © Hafþór Hreiðarsson 2018.

12.02.2018 22:42

Dettifoss

Jón Steinar tók þessa mynd af Dettifossi fyrir skömmu. Þarna öslar hann á 17 mílna ferð í Reykjanesröstinni með Eldey í bakgrunni.

Á heimasíðu Eimskips segir: Dettifoss var smíðaður í Danmörku árið 1995 og er fimmta skip Eimskips sem ber þetta nafn. Skipið kom í þjónustu Eimskips árið 2000, um leið og systurskip þess Goðafoss. Dettifoss siglir á bláu línunni til Íslands, Færeyja og Norður-Evrópu. Fyrsti Dettifossinn var í þjónustu Eimskips frá árinu 1930-1945.

Dettifoss er 165.6 metrar að lengd og 28.6 metra breiður. Mælist 14.664 GT að stærð. 

Siglir undir fána  Antigua & Barbuda með heimahöfn í St. John´s.

Dettifoss. © Jón Steinar Sæmundsson 2018.

12.02.2018 22:11

Baldur

Breiðafjarðarferjan Baldur kemur hér til hafnar á Brjánslæk að ég held. Aldrei komið þangað.

Baldur var smíðaður hjá Skipasmíðastöð Þorgeirs og Ellerts hf. á Akranesi 1989.  Hann var sjósettur laugardaginn 2. desember það ár við hátíðlega athöfn að viðstöddum fjölda gesta og starfesmanna stöðvarinnar eins og sagði í Morgunblaðinu 13 desember 1989.

 Baldur var nýsmíði nr. 38 hjá stöðinni og var smíðaður sem farþega- og bílferja fyrir Baldur hf. í Stykkishólmi. 

Breiðafjarðarferjan Baldur kemur til hafnar á Brjánslæk. © Ágúst Guðm.

12.02.2018 08:49

Hannah Kristina

Þessu skipi mætti Svafar Gestsson á dögunum við Noregsstrendur en það heitir Hannah Kristina.

Smíðað 1999 og hét upphaflega Parida. Síðan Korsoer og Cfs Parida áður en það fékk núverandi nafn 2013.

Þetta er svokallað Ro Roskip, eða ekjuskip upp á íslenskuna,  101 metra langt og 18 metra breitt.

Mælist 5.801 Gt að stærð og siglir undir fána Noregs með heimahöfn í Bergen.

Hanna Kristina ex Cfs Parida. © Svafar Gestsson 2018.

 

11.02.2018 20:29

Bíldudalshöfn

Hér kemur mynd  af bátum við bryggju á Bíldudal sem Ágúst Guðmundsson tók á sínum tíma. Þarna má sjá báta sem horfnir eru sjónum okkar í dag. En samt er eitthvað þarna innan um sem enn er til í misjöfnu ástandi þó.

Efst við bryggjuna liggja Pétur Þór BA 44 og Elías BA 23.

Fyrir aftan þá eru Dröfn BA 28 innst við bryggjuna og því næst Bátalónsbátur með skipaskrárnúmerið 1198 og er BA 2. Þá tvær trillur sem ekki sjást nöfnin á.

Síðan þekki ég ekki innsta bátinn í fremstu röðinni en utan á honum liggja Þröstur BA 48 og Pilot BA 6.

Bátar við bryggju á Bíldudal. © Ágúst Guðmundsson.

11.02.2018 19:55

Gunnbjörn

Rækjutogarinn Gunnbjörn ÍS 302 er hér að koma til hafnar á Húsavík sumarið 2013. Þetta var síðasta árið sem hann var gerður út undir þessu nafni. 2015 fékk hann nafnið Arnarborg ÍS 260 og var í eigu útgerðarfélagsins Sólberg ehf. á Ísafirði. Seldur til Dubai 2016 þar sem hann fékk nafnið Ara og er undir Mongólísku flaggi. Upphaflega Framnes 1 ÍS 708, smíðaður í Flekkefjörd 1973. 

1327. Gunnbjörn ÍS 302 ex Framnes ÍS. © Hafþór Hreiðarsson 2013.

11.02.2018 14:27

Nyksund

Svafar Gestsson vélstjóri á Martin H tók þessa mynd af flutningaskipinu Nyksund á dögunum við strendur Noregs.

Nyksund er 80 metra langt og 20 metra breitt, smíðað 2017 og siglir undir norskum fána. Heimahöfn þess er Myre.

Nyksund. © Svafar Gestsson 2018.

10.02.2018 17:13

Pálína Ágústsdóttir

Togbáturinn Pálína Ágústsdóttir EA 85 er hér að færa sig til í Dalvíkurhöfn eftir löndun í morgun.

1674. Pálína Ágústsdóttir EA 85 ex Sóley SH. © Haukur Sigtryggur 2018.

 

10.02.2018 10:57

Faldur í slipp

Hér er Faldur ÞH 153 í slipp á Húsavík. Faldur hét upphaflega Votaberg ÞH 153 og var smíðaður í Vestmannaeyjum 1973 fyrir Sveinbjörn Joensen á Þórshöfn. Votabergið kom til Þórshafnar í marsmánuði en 1. desember 1973 kaupa Þorbergur og Níels Jóhannssynir bátinn og nefna Fald.

Faldur er í dag hvalaskoðunarbátur á Húsavík, í eigu Gentle Giants.

1267. Faldur ÞH 153 ex Votaberg ÞH. © Hreiðar Olgeirsson.
Flettingar í dag: 1344
Gestir í dag: 237
Flettingar í gær: 1720
Gestir í gær: 399
Samtals flettingar: 8677501
Samtals gestir: 1908938
Tölur uppfærðar: 24.9.2018 06:35:00
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is