Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

05.03.2018 14:50

Hafborg EA farin á veiðar

Þá er nýja Hafborgin farin á veiðar og landaði hún fyrsta afla sínum á Húsavík í morgun.

Ég tók meðfylgjandi mynd áðan þegar hún lét úr höfn en Óli tók góðan hring fyrir mig við Bökugarðinn.

Ég hef grun um að fleiri myndir eigi eftir að birtast af henni hér og jafnvel syrpa.

2940. Hafborg EA 152. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

04.03.2018 15:47

Jóna Eðvalds

Það var Ásgrímur í gær svo Jóna kemur í dag. Jóna Eðvalds SF 200 siglir hér til hafnar í Hafnarfirði í dag en Óskar Franz tók þessa mynd.

Jóna Eðvalds hét áður Krossey SF 20 og þar áður Björg Jónsdóttir ÞH 321. Keypt frá Noregi 2004.

2618. Jóna Eðvalds SF 200 ex Krossey SF. © Óskar Franz 2018.

 

04.03.2018 12:27

Sleipnir

Þessa mynd af Sleipni VE 83 koma til hafnar í Vestmanneyjum tók Viðar Breiðfjörð síðdegis í gær.

968. Sleipnir VE 83 ex Glófaxi VE. © Viðar Breiðfjörð 2018.

03.03.2018 22:02

Fri Tide

Flutningaskipið Fri Tide kom til Húsavíkur 22. apríl 2016 með áburðarfarm og er að koma að Norðurgarðinum á þessari mynd sem ég tók.

Fri Tide var smíðað árið 2000 og hét Claudia til ársins 2006 er það fékk nafnið Fri Tide.

Heimahöfnin er Nassau á Bahamas en skipið mælsit 2,218 GT að stærð.

Fri Tide ex Claudia. © Hafþór Hreiðarsson 2016.

03.03.2018 14:34

Ásgrímur Halldórsson

Ásgrímur Halldórsson Sf 250 sést hér á mynd sem Þorsteinn Eyfjörð skipverji á Hákoni tók á dögunum.

Skinney -Þinganes keypti skipið fyrri hluta ár 2008 frá Skotlandi.

Skipið var smíðað hjá hjá Simek skipamíðastöðinni í Noregi árið 2000 fyrir Lunar Fishing í Skotlandi og hlaut þá nafnið Lunar Bow. 

2780. Ásgrímur Halldórsson SF 250 ex Lunar Bow. © Þ.E.F 2018.

03.03.2018 00:03

Magnús

Hér er Magnús SH 11 í Ólafsvíkurhöfn um árið en myndina tók Þórður Birgisson þá bátsverji á Aron ÞH 105.

Ég hef áður birt færslu um þennan bát sem segir sögu hans en þar hét hann Halldóra Jónsdóttir ÍS 99.

Þar vantar reyndar söguna eftir að hann var seldur frá Bolungarvík til Ólafsvíkur sem var að ég held árið 1988.

Hann lá síðan einhver ár við Brjánslæk eftir að hætt var að gera hann út en þar gerði Rekey hf. hann út undir nafninu Magnús BA127 frá árinu 1989 eða1990.

939. Magnús SH 11 ex Halldóra Jónsdóttir ÍS 99. © Þórður Birgisson.

 

02.03.2018 21:07

Haukur

Þessa mynd tók ég í maímánuði 2005 og sýnir hún flutningaskipip Hauk koma til hafnar á Húsavík.

Haukur var smíðaður árið 1990 og hét til ársins 2000 Sava River. Hann er 74.65 metrar á lengd og 12.7 metrar á breidd. Mælist 2030 GT að stærð.

Hann hefur verið undir fána Færeyja með heimahöfn í Þórshöfn. Spurning hvort hann var einhvern tímann undir íslensku flaggi ?

Sé ekki betur á Marinetraffic að skipið heiti núna Hav Nord.

Haukur ex Sava River. © Hafþór Hreiðarsson 26. maí 2005.

02.03.2018 16:04

Sturla

Þessar myndir tók Jón Steinar sl. þriðjudag þegar línuskipið Sturla GK lét úr höfn í Grindavík.

Í áhöfn Sturlu hefur verið um árabil Húsvíkingurinn Hermundur Svansson, nú búsettur í Hafnarfirði.

Þetta er fróðleiksmoli í boði síðunnar.

1272. Sturla GK 12 ex Guðmundur VE. © Jón Steinar 2018.

 

1272. Sturla GK 12 ex Guðmundur VE. © Jón Steinar 2018.

 

1272. Sturla GK 12 ex Guðmundur VE. © Jón Steinar 2018.

01.03.2018 20:49

Tómas Þorvaldsson

Hér kemur mynd sem Jón Steinar sendi mér í morgun af Tómasi Þorvaldssyni GK 10. Myndina tók hann í gærkveldi og taldi hana geta orðið merka mynd því þetta gæti hafa verið í síðasta skipti sem hann kemur til hafnar í grindavík.

Bátnum hefur verið lagt, amk., í bili þar sem einhverjir kvillar eru að hrjá hann sem gæti orðið kostnaðarsamt að laga.

Það verða 52 ár í vor frá þetta glæsilega skip kom fyrst til heimahafnar á Húsavík sem Héðinn ÞH 57.

1006. Tómas Þorvaldsson GK 10 ex Þorbjörn GK. © Jón Steinar 2018.

 

 

27.02.2018 20:52

Arnar - Njörður

Þessi hét upphaflega Orri EA 101, smíðaður á Akureyri 1962 og var í eigu Báru h/f þar í bæ. Síðar Arnar EA 101 frá árinu 1968 og frá árinu 1972 ÓF 3.

Eftir að hann var seldur frá Ólafsfirði hét hann Njörður EA 151. 

Hreiðar Olgeirsson tók þessar myndir og þær voru teknar 1999 að ég held.  Spurning hvort þarna hafi hann farið grænn upp og blár niður.

Hafsteinn Jóhannsson eignaðist síðan bátinn og fór með hann til Noregs að ég best veit.

 

Vikublaðið Íslendingur sem gefið var út á Akureyri sagðis svo frá 11. mars 1962:

Um síðustu helgi helgi var nýr bátur sjósettur á Akureyri. Hlaut hann nafnið Orri EA 101. Báturinn, sem er 27 tonn og frambyggður, er  smíðaður í skipasmíðastöð K. E. A., yfirsmiður var Tryggvi Gunnarsson, og gerði hann einnig teikninguna. 

Orri er búinn 200 ha Scania Vabis vél, og auk alls venjulegs öryggisútbúnaðar, verður síðar sett í bátinn ratsjá, en það mun  óvenjulegt í ekki stærri bát. 

Orri mun fara á veiðar seinna í mánuðinum. Eigendur bátsins  eru Jóhann Malmquist, Jón Helgason, Kristján Jónsson, Páll Jónsson og Sigurhörður Frímannsson.

Það er mjög virðingarvert framtak hjá þessum ungu mönnum að láta smíða svo glæsilegan bát.

714. Arnar ÓF 3 ex EA 101. © Hreiðar Olgeirsson 1999.

 

714. Njörður EA 151 ex Arnar ÓF. © Hreiðar Olgeirsson 1999.

 

27.02.2018 15:06

Vilhelm Þorsteinsson

Þessa mynd tók Gundi á Frosta um síðustu helgi við Vestmannaeyjar. Þar var bræla eins og sjá má en það er Vilhelm Þorsteinsson EA 10sem er á myndinni.

2410. Vilhelm Þorsteinsson EA 10. © Gundi 2018.

 

26.02.2018 18:36

Saltflutningaskipið Famita

Flutningaskipið Famita kom til Húsavíkur í morgun með salt til GPG og fór aftur um kaffileytið.

Famita var smíðað 2002, er 90 metra langt, 14 metrar á breidd og mælist 2,999 GT að stærð.

Siglir undir flaggi Bahamas með heimahöfn í Nassau.

Hét áður Arklow Ranger, sigldi undir hollenskum fána með heimahöfn í Rotterdam. 

Famita við Þvergarðinn í Húsavíkuhöfn. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

Famita siglir frá Húsavík. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

25.02.2018 22:24

Bjarni Ólafsson

Bjarni Ólafsson AK 70 á loðnumiðunum fyrir viku síðan. Fallegt veður á milli storma.

Bjarni Ólafsson var keyptur frá Noregi 2015 og bar áður heitið Fiskeskjer. Skipið var smíðað árið 1999 og er um 2000 brúttótonn að stærð, 67,4m að lengd og 13m að breidd.

Aðalvél  er 7500 hestöfl af gerðinni Wartsila. Burðargeta skipsins er 1980 tonn og er unnt að kæla allan aflann. 

2909. Bjarni Ólafsson AK 70 ex Fiskeskjer. © Þorsteinn Eyfjörð 2018.

25.02.2018 12:39

Wilson Linito

Wilson Linito kom til Húsavíkur með áburð í marsmánuði árið 2003.

Skipið var smíðað árið 2000, siglir undir Maltneskum fána með heimahöfn í Walletta.

Lengd þess er 113 metrar og breiddin 15 metrar. Mælist 4.200 GT að stærð.

Nafn þess í dag er Wilson Stadt en það nafn kom á skipið árið 2006.

Wilson Linito. © Hafþór Hreiðarsson 2003.

25.02.2018 00:28

Gústi í Papey

Rækjubáturinn Gústi í Papey SF 88 að koma til hafnar á Húsavík um árið.

Sigrún ÍS 900. Hann var fyrst í eigu Theodórs Nordquist og Svavars Péturssonar og síðar Ásrúnar hf. á Ísafirði. Hann var smíðaður í Finnlandi 1979 en keyptur hingað til lands 1986.

Báturinn var seldur til Ólafsvíkur og fékk nafnið Geir SH 217. 1994 var hann seldur til Hafnar í Hornafirði þar sem hann fékk nafnið Gústi í Papey Sf 88.

DV sagði svo frá þann 5. febrúar 1994:

Togveiðiskipið Gústi í Papey SF 88 kom til Hafnar á dögunum. Eigendur eru Þorvarður Helgason og Jón Hafdal ásamt eiginkonum þeirra.

Það er Útgerðarfélagið Papós sem gerir skipið út og verður fyrst farið á fiskitroll en síðan á rækju og humar.

Gústi í Papey hét áður Geir SH197 og skipinu fylgdu 400 tonna þorskígildiskvóti. Þorvarður Helgason verður skipstjóri en til gamans má geta þess að skipið heitir eftir afa hans.

Gústi í Papey var seldur frá Höfn til Raufarhafnar 1995 en þar staldraði hann stutt við og seldur úr landi 1996.

1739. Gústi í Papey SF 88 ex Geir SH. © Hafþór Hreiðarsson.
Flettingar í dag: 1344
Gestir í dag: 237
Flettingar í gær: 1720
Gestir í gær: 399
Samtals flettingar: 8677501
Samtals gestir: 1908938
Tölur uppfærðar: 24.9.2018 06:35:00
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is