Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

29.01.2018 15:09

Björg og Kapitan Varganov

Hér liggja við slippkantinn á Akureyri togararnir Björg EA 7 og rússinn Kapitan Varganov. Björg smíðuð í Tyrklandi 2017 en sá rússneski á Spáni 1993.

2894. Björg EA 7 - Kapitan Varganov ex Hekktind. © Hafþór 2018.

28.01.2018 18:52

Akureyri í dag

Tók þessa mynd við slippinn á Akureyri í dag. Uppi eru Smári ÞH 59, Máni, Dagur SK 17 og Húni II EA 740 en við bryggjuna liggja Áskell Egilsson og Hafborg sem nú er EA 242 á skipaskrá. Í forgrunni má sjá í Fjólu EA 35 og Ester EA 3.

Við slippinn á Akureyri 28. janúar 2018. © Hafþór Hreiðarsson.

27.01.2018 13:16

Orri

Þarna hefur Orri ÍS 20 frá ísafirði komið í slipp á Akureyri. Orri var smíðaður í Flekkefjørd í Noregi árið 1967 fyrir Hraðfrystihúsið Norðurtangann hf. og hét í fyrstu Guðbjartur Kristján ÍS 20 og síðan Orri ÍS 20. Skipið var síðan selt Bakka hf. í Bolungarvík og fékk þá nafnið Vinur ÍS. Síðar var skipið selt Fiskanesi hf. í Grindavík og fékk nafnið Albatros GK 60. Selt aftur vestur til Bolungarvíkur þar sem það fékk nafnið Einar Hálfdáns ÍS 11. Selt til Noregs 2007.

1052 Orri ÍS 20 ex Guðbjartur Kristján ÍS. © Hafþór Hreiðarsson.

26.01.2018 15:37

Höfðavík og Víkingur

Þessi mynd var tekin úr Akraborginni og sýnir skuttogarann Höfðavík AK 200 og nótaskipið Víking AK 100 við bryggju á Akranesi.

Höfðavík var upphaflega Óskar Magnússon AK 177 smíðaður í Slippstöðinni 1978. 

Dagur á Akureyri sagði frá sjósetningu togarans þann 14. desember 1977 og þar kom m.a þetta fram:

 

Laugardaginn 10. desember var sjósettur í Slippstöðinni hf. á Akureyri 490 lesta skuttogari, sem jafnframt er búinn til nótaveiða. 

Eigandi skipsins er Útgerðarfélag Vesturlands hf. og stærstu hluthafar Þórður Óskarsson og fleiri á Akranesi, og auk þeirra nokkrir Borgnesingar. 

Fyrir sjósetningu flutti Gunnar Ragnars forstjóri ræðu og óskaði nýjum eigendum heilla, en að því búnu gaf Halldóra Þórðardóttir skipinu nafnið „Óskar Magnússon AK 177".

Síðan rann skipið á örfáum andartökum til sjávar. 

Skipið er systurskip Guðmundar Jónssonar GK, en þó með allmörgum breytingum og endurbótum. Áætlað er að skipið verði afhent eigendum sínum snemma á næsta ári.

Skipið verður búið fullkomnum búnaði til veiða með botnvörpu, flotvörpu og nót. 

 

Höfðavík var síðar seld Langanesi hf. á Húsavík og hét Björg Jónsdóttir ÞH 321 og síðar Bjarni Sveinsson ÞH 322. Seldur til Noregs og hét þar Polynia Viking.

1508. Höfðavík AK 200 og 220. Víkingur AK 100. © Hafþór Hreiðarsson.

 

26.01.2018 15:16

Guðmundur

Guðmundur VE 29 kemur hér að bryggju í Krossanesi um árið. Skömmu fyrir aldamótin ef ég man rétt. Saga hans hefur komið fram hér áður en hann var smíðaður 1967 í Noregi en keyptur hingað til lands 1972. 

Seldur Ísfélagi Vestmannaeyja 1983 og varð þá VE 29 en hafði verið RE 29 frá því hann kom til landsins.

Í dag er báturinn gerður út á línu undir nafninu Sturla GK 12 og er í eigu Þorbjarnar hf. í Grindavík.

1272. Guðmundur VE 29 ex RE 29. © Hafþór Hreiðarsson.

26.01.2018 14:56

Sighvatur

Sighvatur GK 357 lætur hér úr höfn í Grindavík í gær áleiðis á miðin. Já ég segi og skrifa GK 357 því sá gamli er kominn með nýtt númer. Sævíkin sem er nú í endurbyggingu í Póllandi hefur fengið nafnið Sighvatur GK 57 og mun leysa gamla Sighvat af hólmi.

975. Sighvatur GK 357 ex GK 57. © Jón Steinar 2018.

25.01.2018 14:09

Guðrún Björg

Hér eru kallarnir á Guðrúnu Björgu ÞH 355 að draga netin um árið. Þeirra á meðal er Þorgeir nokkur Baldursson. Guðrún Björg, sem var 16 brl., hét áður Sæborg ÞH 55 og var smíðuð hjá Gunnlaugi og Trausta á Akureyri 1970.

Seld suður og fékk nafnið Ársæll Sigurðsson HF 80 og örlög hans þekkja margir. Fórst í innsiglingunni til Grindavíkur, mannbjörg varð.

1097. Guðrún Björg ÞH 355 ex Sæborg ÞH . © Hafþór Hreiðarsson.

 

24.01.2018 17:16

Masilik

Jón Steinar tók þessa mynd af grænlenska línuskipinu Masilik GR-8-350 í Reykjavíkurhöfn á dögunum. Skipið hét áður Carisma Viking og er með heimahöfn í Sisimiut.

Smíðað í Kristiansund í Noregi 2001 og á sér eitt systurskip í Íslenska flotanum, Önnu EA 305.

Masilik, sem gert er út af Royal Greenland, hét upphaflega Avor Viking (2004) því næst Argos Helena (2009) og loks Carisma Viking til ársins 2016 er það fékk núverandi nafn.

Masilik G-8-350 ex Carisma Viking. © Jón Steinar 2018.

23.01.2018 20:03

Ægir Jóhannsson

Hér er Ægir Jóhannsson ÞH 212 að koma að landi í Sandgerði um árið.

Í Tímanum þann 15. júlí 1975 sagði svo frá:

Nýr bátur hefur verið afhentur frá Skipasmíðastöðinni Vör h/f á Akureyri og ber hann nafnið Ægir Jóhannsson ÞH-212.

Eigendurnir eru fimm ungir menn frá Grenivík.

Ægir Jóhannsson er 29 tonn að stærð, búinn öllum venjulegum siglingar.og fiskileitartækjum. Aðalvél er Volvo Penta 300 hestöfl.

Báturinn er teiknaður af Páli Hjartarsyni, en hann hefur teiknað alla báta Varar h/f.sem með Ægi Jóhannssyni eru orðnir sex talsins.

Skipstjóri á Ægi er Sævar Sigurðsson. 

1430. Ægir Jóhannsson ÞH 212. © Hafþór Hreiðarsson.

22.01.2018 15:49

Örfirisey farin aftur til veiða

Frystiogarinn Örfirisey RE er farinn aftur til veiða, nú í norsku lögsögunni, eftir óhapp sem varð í lok október sl. er skipið var að veiðum  í rússnesku lögsögunni í Barentshafi. Þá brotnaði skiptiteinn í skrúfu skipsins með þeim afleiðingum að draga varð Örfirisey til Svolvær í Norður-Noregi til viðgerðar. 

Frá þessu segir á heimasíðu HB Granda 20. janúar.

Að sögn Lofts Bjarna Gíslasonar, útgerðarstjóra frystiskipa HB Granda, þurfti að fá varahluti senda frá framleiðanda vegna bilunarinnar. Við blasti einnig einnig að skipið þyrfti að fara í hefðbundna klössun á árinu 2018 og því var ákveðið að klössunin færi fram samhliða viðgerðinni hjá Skarvik skipasmíðastöðinni í Svolvær.

,,Auk viðgerðarinnar á skrúfubúnaðnum var aðalvél og niðurfærslugír skipsins tekinn upp og því verki lauk nú í byrjun vikunnar. Örfirisey fór svo til veiða að nýju að kvöldi sl. miðvikudags og framundan er 40 daga veiðiferð. Ég reikna með því að togarinn komi heim að veiðiferð lokinnni og landi aflanum í Reykjavík,“ sagði Loftur Bjarni Gíslason. hbgrandi.is

ÖRFIRISEY BACK AT SEA

HB Grandi’s freezer trawler Örfirisey is back at sea in the Norwegian sector, following an incident while fishing in the Russian part of the Barents Sea in October last year.A control rod in the controllable pitch propeller failed, with the result that Örfirisey was towed to Svolvær in northern Norway for repairs.

According to the company’s freezer trawler operations manager Loftur Bjarni Gíslason, spare parts had to be sourced from the manufacturer before repairs could be carried out. With the prospect of the ship also being due for a scheduled maintenance layup in 2018, the decision was taken to carry out both the repair and scheduled maintenance at the Skarvik shipyard in Svolvær at the same time.

‘As well as the repairs to the propeller, the main engine and the reduction gear were both stripped down and checked, and that was complete at the beginning of the week. Örfirisey sailed on Wednesday and has a 40-day trip ahead. I expect the trawler to be back at the end of this trip to land its catch in Reykjavík,’ Loftur Bjarni Gíslason said.

2170. Örfirisey RE 4 ex Polarborg. © Hafþór Hreiðarsson 2004.

 

 

 

22.01.2018 15:22

Sandfell búið að fiska yfir 4000 tonn

Sandfell SU 75 hefur rótfiskað frá því Loðnuvinnslan hf. á Fáskrúðsfirði keypti bátinn.  

19 janúar var sagt frá því á heimasíðu fyrirtækisins að afli hans væri kominn í 4000 tonn:

Sandfellið kom að landi í dag með 10 tonn og þar með er heildarafli Sandfellsins, undir eignarhaldi Loðnuvinnslunnar, kominn í 4000 tonn.  Loðnuvinnslan festi kaup á Sandfellinu og hóf útgerð á því í gegn um dótturfyrirtækið Hjálmar, þann 6. Febrúar 2016. Vel hefur gengið að afla hjá Sandfellinu og þrátt fyrir tveggja mánaða verkfalla sjómanna í síðasta ári er aflinn kominn í 4000 tonn.  Örn Rafnsson skipstjóri á Sandfellinu var inntur eftir því hverju hann þakkaði þetta góða gengi og svaraði hann því til að það væru nokkrir samverkandi þættir; gott skipulag, góð útgerð, góð kvótastaða og góður fastur mannskapur um borð.  Og svo bætti hann því við að það þyrfti aldrei að stoppa því á Sandfellinu eru tvær áhafnir sem róa í tvær vikur í senn.  Þegar Örn var spurður að því hvort að það hefði verið markmið að fiska í kring um 2000 tonn á ári sagði hann: „markmiðið er alltaf að gera eins vel og hægt er“.

Aflinn sem Sandfell kom með að landi í dag er að megin uppistöðu þorskur sem fer til vinnslu í frystihúsi Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði.

Að lokum er full ástæða til þess að óska áhafnarmeðlimun á Sandfellinu innilega til hamingju með áfangann og óska þeim áframhaldandi velgengni. lvn.is

 

 
2841. Sandfell SU 75 ex Óli á Stað GK. © Hafþór Hreiðarsson 2017.

21.01.2018 16:27

Bonacieux

Flutningaskipið Bonacieux kom til hafnar á Húsavík í gærkveldi. Þetta 86 metra langa og 12 metra breipa skip var byggt árið 2009 og siglir undir fána Gíbraltar. Farmur þess er trjábolir fyrir verskmiðju PCC á Bakka og er honum skipað upp við Bökugarðinn.

Bonacieux ex Leybucht. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

21.01.2018 00:42

Hágangar

Hér liggja Hágangar tveir við bryggju á Vopnafirði. 

Frá komu þeirra til Vopnafjarðar sagði svo í Morgunblaðinu þann 9. mars 1994:

Hágangur I og Hágangur II, systurskip Úthafs hf., komu til Vopnafjarðar sl. laugardag. Skipin eru keypt frá Kanada og smíðuð 1973 og 1975. Þau eru 53 m á lengd og 12 m á breidd og kosta 18 milljónir kr. hvort hingað komin, með miklu magni varahluta og veiðarfæra. Skipin fara í lagfæringar og breytingar á Vopnafirði og til veiða utan 200 mílna landhelginnar að því loknu. Skipin eru skráð í Balize-City. Um 100 manns hafa sótt um skipspláss og verða skipin eingöngu mönnum Íslendingum.

Hágangur hét áður Cape Le Have og Hágangur II Cape Hunter.

Hágangur 1 og 2 í höfninni á Vopnafirði. © Hafþór Hreiðarsson.

20.01.2018 22:59

Sólfari

Þessa mynd af Sólfara AK 170 tók ég á Breiðafirði um árið. Sólfari hét upphaflega Arinbjörn RE 54 og var smíðaður á Akureyri 1971.

Dagur sagði svo frá þegar Arinbjörn var sjósettur þann 2. apríl 1971:

TVEIR nýir fiskibátar voru sjósettir í Slippstöðinni í gær í blíðskaparveðri að viðstöddu fjölda fólks. Bátar þessir hlutu nöfnin Arinbjörn RE 54 og Sigurbergur GK 212. Arinbjörn er smíðaður fyrir Sæfinn h.f. í Reykjavík og er hann 150 brúttólestir, en Sigurbergur er smíðaður fyrir Sigurberg h.f. í

Hafnarfirði og hann er 110 brúttólestir að stærð.

Kjölur var lagður að báðum bátunum í byrjun október sl. og hefur smíði þeirra gengið samkvæmt áætlun. Arinbjörn RE verður fullsmíðaður hjá Slippstöðinni.

Hann verður með 600 ha. Alphadísilvél, togvinda og línuvinda eru smíðaðar hjá Vélsmiðju Sigurðar Sveinbjörnssonar h.f. Auk þess verður báturinn með

kraftblökk.

Sigurbergur GK verður dreginn suður til Hafnarfjarðar, þar sem lokið verður smíði hans, í Skipasmíðastöðinni Dröfn h.f.

Báðir bátarnir verða búnir öllum helztu fiskileitartækjum og útbúnir fyrir línu-, neta- og togveiðar.

Sjósetningin í dag gekk eins og bezt verður á kosið, bátarnir runnu út á flóðinu laust eftir kl. 3, með örstuttu millibili.

Tveir dráttarbátar biðu þeirra fyrir utan. Veður var gott og fjöldi fólks viðstatt.  

 

Arinbjörn hét síðar Elías Steinsson VE 167, Fagurey SH 71, Sólfari AK 170, Lómur SH 177,  Lómur BA 257,  Jón Klemenz ÁR 313,  Trausti ÁR 313,  Hrausti ÁR 313, Látraröst ÍS 100, Látraröst GK 306, Sólfari RE 16 ogSólfari SU 16.

Afskráður og tekinn úr rekstri 23.05.2008. 

Í 12. tbl. Ægis 191 sagði:

Í apríl mánuði s.l. hljóp af stokkunum nýtt 149 brl. stálfiskiskip hjá Slippstöðinni h.f. á Akureyri og hlaut það nafnið Arinbjörn RE 54. Skipið er um 31 m. langt, 6.70 m. breitt og 3,35 m. djúpt. Það er útbúið til línu-, neta-, tog- og nótaveiða og í því eru öll fullkomnustu fiskleitar- og siglingatæki og má þar nefna 2 Kelvin Hughes radara 48 smál. og 68 smál., Simrad S. K. 3 asdic, Kelvin Hughes fisksjá, Kodan miðunarstöð og Kelvin dýptarmæli Aðalvélin er 660 hö Alpha, ljósavélar eru 2 af Mercedes Benz gerð 57 hö. hvor og stærð rafala 37 KW. Togvindan er smíðuð af Sigurði Sveinbjarnarsyni Garðahreppi (stærð 16 tonn). Kælibúnaður er í lestum og einnig í línu- og beitugeymslu. Vistarverur eru fyrir 12 manna áhöfn. Eigandi hins nýja skips er Sæfinnur h.f., Reykjavík, og óskar Ægir eiganda til hamingju með hinn nýja farkost. 

 

1156. Sólfari Ak 170 ex Fagurey SH. © Hafþór Hreiðarsson 1987.
 

20.01.2018 12:19

Haförn og Karólína

Hér koma myndir sem ég tók í vikunni þegar dragnótabáturinn Haförn ÞH 26 kom að landi á Húsavík. Í sama mund var línubáturinn Karólína ÞH 100 að leggja í róður og mættust bátarnir í innri höfninni.

1979. Haförn ÞH 26 ex Þorsteinn BA. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

1979. Haförn ÞH 26 - 2760. Karólína ÞH 100. © Hafþór Hreiðarsson 2018.
 
Flettingar í dag: 3225
Gestir í dag: 1317
Flettingar í gær: 4329
Gestir í gær: 2212
Samtals flettingar: 8521057
Samtals gestir: 1854316
Tölur uppfærðar: 22.7.2018 23:37:43
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is