Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

27.03.2018 09:29

Góður afli í Barensthafi þrátt fyrir þrálátar bilanir

Á heimasíðu HB Granda segir að frystitogarinn Örfirisey RE sé nú að veiðum á heimamiðum eftir langt úthald í Barentshafi og frátafa frá veiðum eftir bilanir.

Að sögn Ævars Jóhannssonar skipstjóra fengust um 1.600 tonn af fiski upp úr sjó á veiðunum í Barentshafi. Þar af fengust ríflega 1.000 tonn á um 20 dögum síðari hluta janúar og fram í febrúar.

,,Þetta var skrautlegt hjá okkur í Barentshafinu. Fyrsta bilunin varð í lok október og viðgerðin fór fram í Svolvær. Við komumst aftur á sjó 15. janúar og gátum verið að veiðum fram í febrúar en þá varð aftur bilun hjá okkur sem varð þess valdandi að við vorum dregnir til hafnar í Tromsö. Þaðan komumst við 15. febrúar eftir stutt stopp en þriðja bilunin varð skömmu síðar eftir að kambáslega gaf sig og þann 17. febúar vorum við komnir til hafnar í Hammerfest. Þaðan fórum við 4. mars eftir viðgerð á veiðar í Barentshafi og aflanum, um 590 tonnum af fiski upp úr sjó, var svo landað í Reykjavík 20. mars sl.,“ segir Ævar Jóhannsson en hann stóð vaktina í öllu þessu Barentshafs- og Noregsúthaldi ef undan er skilinn sá tími sem fór í frí hér heima á meðan viðgerðum stóð. (hbgrandi.is)

Meðfylgjandi mynd tók ég þegar Örfirisey kom til hafnar 20. mars sl. úr umræddri veiðiferð.

2170. Örfirisey RE 4 ex Polarborg 1. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

26.03.2018 17:09

Ottar siglir undir brúnna í Tromsø

Ottar siglir hér undir brúnna sem tengir Tromsø við austurlandið eins og Eiríkur Sigurðsson  orðaði það en hann tók myndirnar í dag.

Þennan þekkjum við Íslendingar sem Ísleif VE 63 og Færeyingar sem Durid.

Á myndunum má grilla í tvo báta sem voru í íslenska flotanum og báru m.a sama nafn.

Ottar ex Ísleifur VE. © Eiríkur Sigurðsson 2018.

 

Ottar ex Ísleifur VE. © Eiríkur Sigurðsson 2018.

26.03.2018 15:01

Akurey AK 10

Hér rennir Akurey AK 10 sér inn á milli garðanna inn í Reykjavíkurhöfn sl. þriðjudag. Hún var með rétt rúmlega 200 tonna afla og fer býsna vel með það sýnist mér.

2890. Akurey AK 10. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

26.03.2018 14:39

Hamar

Hamar SH 224 lá fyrir linsunni hjá Fonsa þegar hann kom til Ólafsvíkur. Upphaflega Jörundur II RE 299, smíðaður í Englandi 1964.

Hamar kom úr breytingum árið 2000 og svo sagði frá þeim í Morgunblaðinu 2. september það ár:

Rækjubáturinn Hamar SH er nýkominn úr breytingum sem á honum voru gerðar hjá Þorgeiri og Ellert á Akranesi. 

Hamar SH var smíðaður 1964 í Englandi og hét upphaflega Jörundur II. Kristinn Jón Friðþjófsson, útgerðarmaður Hamars, segir að hann hafi komið í eign núverandi eigenda árið 1972. "Við höfum gert þennan bát út síðan 1972 en fannst nú að það væri kominn tími á endurbætur á honum. Hann fór því í slipp í maí þar sem settur var á hann nýr skutur, stýri og skrúfa ásamt ýmsum öðrum lagfæringum. Segja má að öftustu átta metrarnir hafi verið lagfærðir og endurbættir en báturinn var ekki lengdur nema um einn metra. Breytingunum lauk nú í ágúst og hann kom hingað heim til Rifs 16. ágúst. Hamar er kominn á rækjuveiðar fyrir norðan land og segir Kristinn að breytingarnar hafi gefist vel.

 

253. Hamar Sh 224 ex Jökull ÞH. © Alfons Finnsson 2018.

26.03.2018 11:16

Sighvatur hinn nýi

Þessa mynd fékk ég senda rétt í þessu en hún var tekin einmitt rétt í þessu. Hún sýnir línuskipið Sighvat GK 57 sem Vísir hf. er að endubyggja í Alkorskipasmíðastöðinni í Gdansk í Póllandi. Upphaflega Skarðsvík SH 205.

1416. Sighvatur GK 57 ex Sævík GK. © KEÓ 2018.

 

25.03.2018 19:39

Marz AK 80

Hér lætur skuttogarinn Marz AK 80 úr höfn í Reykjavík enn þetta var síðasta nafn þessa skips á íslenskri skipaskrá.

Upphaflega hét hann Freyja RE 38 og var hann keyptur til landsins árið 1975. Hann var smíðaður 1972. hjá Ateliers et Chantiers de la Manche í Dieppe Frakklandi Sm No. 1228. Síðar hét hann Hjörleifur RE 211, Hjörleifur ÁR 204, Marz HF 53 og Marz AK 80.  Einhversstaðar í millitíð hét hann Fisherman.

Var ekki afskráður af íslenskri skipaskrá fyrr en áriðð 2013 en fór í núllflokk hjá Fiskistofu 2002. Dagaði uppi í Brasilíu að mig minnir, sem Marz.

 Í Morgunblaðinu þann 25. nóvember 1975 sagði:

Fyrir skömmu bættist nýr skuttogari í flota íslendinga, ber hann nafnið Freyja RE 38 og kemur þessi togari f stað samnefnds skips, sem hefur verið selt til Hafnarfjarðar og ber nú nafnið Ársæll Sigurðsson 2. 

Eigandi Freyju er Gunnar I. Hafsteinsson. Freyja sem er 442 brúttórúmlestir að stærð, var byggð í Frakklandi árið 1972. Skipið bar þar til nú nafnið Ben Idrish og var gert út frá North Shields í Englandi. 

Í skipinu er 1800 hestafla British Polar aðalvél. Skipið er þegar farið til veiða og skipstjóri á því er Pétur Þorbjörnsson.

 

1441. Marz AK 80 ex HF. © Hafþór Hreiðarsson.

25.03.2018 18:42

Indriði Kristins

Línubáturinn Indriði Kristins BA 751 siglir hér inn til Grindavíkur sl. mánudag.

Hörkubátur sem fiskar alla jafna vel, gerður út af Þórsbergi ehf. á Tálknafirði.

2907. Indriði Kristins BA 751. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

25.03.2018 12:15

Þorsteinn ÞH 115

Þar sem ég tók nú fleir en eina og fleiri en tvær myndir af Þorsteini ÞH 115 á dögunum koma til með að birtast nokkrar hér á síðunni.

Hér siglir hann Stakksfjörðinn áleiðis til hafnar í Njarðvík.

Stakksfjörðurin breiður og djúpur fjörður sem gengur til suðurs úr Faxaflóa og afmarkast að austan af Keilisnesi á Vatnsleysuströnd en af Stakksnípu í Hólmsbergi á Rosmhvalanesi að vestan. Viti er á Stakksnípu, reistur 1958. Stakksfjörður dregur nafn af stökum klettadrangi, Stakki sem er undan Hólmsbergi. (visitreykjanes.is)

Þorsteinn var hinsvegar smíðaður í Svíþjóð 1946 og hefur alla tíð heitið þessu nafni, fyrst EA 15, því næst GK 15 og síðustu árin ÞH 115.

Útgerð og eigandi Önundur ehf. á Raufarhöfn.

926. Þorsteinn ÞH 115 ex GK 15. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

25.03.2018 00:58

Engey í slipp

Skuttogarinn Engey RE 1 fór upp í slippinn í Reykjavík á dögunum. Þar sem fram fór ársskoðun á henni en Engey var smíðuð árið 2017 í Tyrklandi.

Eins og glöggir menn hafa tekið eftir og jafnvel bent á er Engey nú RE 1 en ekki 91 eins og hún var í upphafi.

Samkvæmt vef Fiskistofur fór númerabreytingin fram 5. desember 2017.

 

2889. Engey RE 1 ex RE 91. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

 

25.03.2018 00:32

Halldór Afi

Netabáturinn Halldór Afi GK 222 kemur hér til hafnar í Keflavík fyrir viku síðan en það er Maron ehf. sem gerir hann út.

Smíðaður á Skagaströnd 1979 og hét upphaflega Einar Hólm SU 40 frá Eskifirði.

Lengdur 1996. 

1546. Halldór Afi GK 222 ex Glófaxi II VE. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

24.03.2018 19:19

Venus

Uppsjávarveiðiskip HB Granda, Venus NS 150, kom til hafnar í Reykjavík undir kvöld og tók Óskar Franz þessar myndir. Skipið lagðist að Skarfabakkanum þar sem fyrir var í fleti systurskipið Víkingur AK 100. Skipin hafa verið á kolmunnaveiðum upp á síðkastið.

2881. Venus NS 150. © Óskar Franz 2018.

 

2881. Venus NS 150. © Óskar Franz 2018.

24.03.2018 11:59

Kaldbakur á leið í Barentshafið

Haukur Sigtryggur tók þessar myndir í gær þegar skuttogarinn Kaldbakur EA 1 lagði í´ann áleiðis í Barentshafið. 

2981. Kaldbakur EA 1. © Haukur Sigtryggur 2018.

 

2891. Kaldbakur EA 1. © Haukur Sigtryggur 2018.

 

2891. Kaldbakur EA 1. © Haukur Sigtryggur 2018.

 

2891. Kaldbakur EA 1. © Haukur Sigtryggur 2018.

 

2891. Kaldbakur EA 1. © Haukur Sigtryggur 2018.

 

2891. Kaldbakur EA 1. © Haukur Sigtryggur 2018.

 

24.03.2018 11:49

Netabátar koma að landi í Njarðvík - Myndband

Myndband sem ég tók á dögunum af netabátum koma að landi í Njarðvík.

 

23.03.2018 23:47

Litlanes ÞH

Ég birti mynd Jóns Steinars af Litlanesinu frá Þórshöfn á dögunum en sl. mánudag náði ég sjálfur að festa það á filmu, eða kortið og hér kemur ein mynd síðan þá.

Eins og ég sagði við myndin hans Jóns var Litlanesið smíðað árið 2000 Sólplasti í Sandgerði og hét í upphafi Muggur KE 57 . Síðar HU 57. 

Fagranes útgerð ehf. á Þórshöfn, sem er í eigu Ísfélags Vestmannaeyja hf., keypti bátinn 2015 eða 2016 og í framhaldinu fór hann í miklar breytinga hjá Siglufjarðar Seig.

Þær fólust m.a í lengingu og yfirbyggingu ásamt því að sett var á það perustefni.

2771. Litlanes ÞH 3 ex Muggur HU. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

23.03.2018 23:30

Perseus

Hér siglir flutningaskipið Perseus inn sundin sl. þriðjudag og lóðsbátur fylgir.

Persesus var smíðað 2010 og er 9.938 GT að stærð. Hét Delia til ársins 2014.

Siglir undir fána Antigua og Barbuda og heimahöfnin er St. John´s.

Perseus ex Delia. © Hafþór Hreiðarsson 2018.
Flettingar í dag: 1670
Gestir í dag: 128
Flettingar í gær: 2775
Gestir í gær: 233
Samtals flettingar: 8828458
Samtals gestir: 1942578
Tölur uppfærðar: 15.11.2018 15:28:29
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is