Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

21.04.2018 23:05

Ragnar Alfreðs

Jón Steinar tók þessa mynd af Ragnari Alfreðs GK 183 koma til hafnar í Grindavík í dag.

Ragnar Alfreð hét í upphafi Sif ÍS 90 og var smíðaður hjá Skipasmíðastöð Guðmundar Lárussonar á Skagaströnd 1978. 

Í 8. tbl. Ægis það ár segir m.a:

 7. maí s.l. afhenti Skipasmíðastöð Guðmundar Lárussonar h.f. á Skagaströnd 15 rúmlesta (36 feta) fiskiskip úr trefjaplasti, smíðanúmer 13, sem hlotið hefur nafnið Sif ÍS 90. Sif ÍS er þriðja fiskiskipið úr trefjaplasti, sem stöðin afhendir, en fyrstu tvö skipin voru afhent á s.l. ári, þ.e- Anný HU 3, 36 feta gerð (sjá 20. tbl. 1977) og Sindri RE 46, 28 feta gerð.

Hliðstætt fyrri skipunum tveimur þá var skipsbolur þessarar nýsmíðar, ásamt stýrishúsi, keyptur frá fyrirtækinu Halmatic Ltd. í Skotlandi, en smíðinni síðan lokið hjá stöðinni, innréttingar, niðursetning á véla- og tækjabúnaði og frágangur. Sif ÍS er af 36 feta gerð eins og Anný HU en sú breyting hefur verið gerð að dýpt að þilfari hefur verið aukin um 25 cm.

Sif ÍS er í eigu Bjarna H. Ásgrímssonar sem jafnframt er skipstjóri, og Eiríks Sigurðssonar Suðureyri.

 

Það er Kussungur ehf. sem gerir út Ragnar Alfreðs íi dga og er heimahöfnin í Garði.

 

1511. Ragnar Alfreðs GK 183 ex HU. © Jón Steinar 2018.

20.04.2018 16:54

Mykines

Vöruflutningaferjan Mykines er hér á mynd sem Steinólfur Guðmundsson flutningabílstjóri tók í Þorlákshöfn.

Mykines var smíðað 1996 og er í eigu Smyril - Line Cargo í Færeyjum. Það er tæplega 19.000 BT að stærð og hét áður Auto Baltic og sigldi undir finnsku flaggi.

Skipið hóf vikulegar siglingar fyrir rúmu ári milli Þorlákshafnar og Rotterdam í Hollandi.

Mykines í Þorlákshöfn. © Steinó 2018.

20.04.2018 16:29

Aron

Grásleppubáturinn Aron ÞH 105 kemur hér til hafnar á Húsavík í dag. Aron er í eigu Knarrareyris ehf. á Húsavík og var smíðaður 1992 en lengdur og þiljaður 2004.

Hét áður Liljan RE 89.

7361. Aron ÞH 105 ex Liljan RE. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

17.04.2018 21:01

Páll Jónsson

Línuskipið Páll Jónsson GK 7 á útleið. Myndina tók Jón Steinar í gærkveldi.

1030. Páll Jónsson GK 7 ex Goðatindur SU. © Jón Steinar 2018.

15.04.2018 23:25

Kalon Ísland ný Clepoatra 50 til Frakklands

Jean Pierre Vaillant útgerðarmaður frá Frakklandi fékk núna á dögunum afhentan nýjan yfirbyggðan Cleopatra 50 frá Bátasmiðjunni Trefjum í Hafnarfirði. Nýi báturinn heitir Kalon Ísland. Báturinn er 15metrar á lengd og mælist 30 brúttótonn.

Báturinn á heimahöfn í Le Conquet sem er á vestasta odda Bretónskagans i Frakklandi.  Báturinn er útbúinn til neta og gildruveiða.  Jean Pierre Vaillant verður skipstjóri á bátnum.

Aðalvél bátsins er af gerðinni Caterpillar C18 tengd ZF 665 A-gír. Báturinn er útbúinn siglingatækjum af gerðinni Furuno. Báturinn er einnig útbúin með vökvadrifnum hliðarskrúfum sem tengdar eru sjálfstýringu bátsins. Báturinn er útbúinn til Neta og gildruveiða.  Veiðibúnaður kemur frá Frakklandi.

Lífbátar og annar öryggisbúnaður bátsins kemur frá Zodiac. Rými er fyrir allt að 41 stk. 460 lítra kör í lest.  Í bátnum er upphituð stakkageymsla.  Stór borðsalur er í brúnni.  Svefnpláss er fyrir fimm í lúkar auk fullkominnar eldunaraðstöðu með eldavél, örbylgjuofn og ísskáp. Báturinn er útbúinn til lengri útiveru ef þarf og aðbúnaður um borð fyrir áhöfn í takt við það.

Báturinn var fluttur til Rotterdam núna á dögunum og siglt þaðan til heimahafnar í Frakklandi.  Hann hefur þegar hafið veiðar.

Kalon Ísland BR 933 569. © trefjar.is 2018.

09.04.2018 18:56

Kaldbakur

Kaldbakur EA 1 kom til löndunar í Hafnarfirði síðdegis í dag og tók Óskar Franz þessa mynd af honum.

2891. Kaldbakur EA 1. © Óskar Franz 2018.

09.04.2018 18:01

Tjaldur

Línuskipið Tjaldur SH 270 kom inn til löndunar í Grindavík um helgina og tók Jón Steinar þessa mynd af honum við bryggju. Tjaldur var smíðaður hjá Solstand Slip & Baatb í Tomrefjørd í Noregi árið 1992.

2158. Tjaldur SH 270. © Jón Steinar 2018.

09.04.2018 17:54

Karólína

Línubáturinn Karólína ÞH 100 kemur hér að bryggju á Húsavík í gær.

Karólína er í eigu Doddu ehf. og var smíðuð hjá Bátagerðinnu Samtak í Hafnarfirði árið 2007.

2760. Karólína ÞH 100. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

08.04.2018 10:36

Sigrún Hrönn

Grásleppubáturinn Sigrún Hrönn ÞH 36 kemur að landi sl. föstudag. Fínasta veiði sögðu kallarnir en það eru feðgarnir Ingólfur H. Árnason og Sigmar Ingólfsson sem róa á bátnum.

Sigrún Hrönn hét upphaflega Bára SH 340. Síðar Hilmir SH 197 og aftur Bára SH, nú 297 og loks núverandi nafn.

Útgerð þeirra feðga heitir Barmur ehf. og á einnig Ásdísi ÞH 136 sem er Cleópatra 31.

2370. Sigrún Hrönn ÞH 36 ex Bára SH. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

08.04.2018 10:10

Stefnir

Skuttogarinn Stefnir ÍS 28 kom til hafnar í Grindavík í gær og tók Jón Steinar þessar myndir. Erindið var að landa 200 körum af fiski sem veiddist við Surtinn.

Stefnir var smíðaður í Flekkefjørd í Noregi 1976 fyrir Flateyringa og hét Gyllir ÍS 261.

Hraðfrystihúsið - Gunnvör á Ísafirði á og gerir Stefni út.

1451. Stefnir ÍS 28 ex Gyllir ÍS. © Jón Steinar 2018.

 

1451. Stefnir ÍS 28 ex Gyllir ÍS. © Jón Steinar 2018.

 

1451. Stefnir ÍS 28 ex Gyllir ÍS. © Jón Steinar 2018.

 

1451. Stefnir ÍS 28 ex Gyllir ÍS. © Jón Steinar 2018.

 

07.04.2018 19:04

Maí TH 194

Hér birtist mynd af bát sem ég hef ekki séð mynd af áður en það er Maí TH 194.

Báturinn var smíðaður á Akureyri 1955, af Nóa bátasmið, og var 8 brl. að stærð búinn 44 hestafla Kelvin díselvél.

Eigendur frá 10. júlí 1956 voru Pálmi Héðinsson, Sigtryggur Brynjólfsson, Helgi Árnason, Kristján St. Jónsson og Halldór Þorvaldsson.

Báturinn fórst á Axarfirði 21. október 1959 og með honum tveir menn. Heimild Íslensk skip.

Í Þjóðviljanum 25. október er að finna þessa frétt:

Talið er nú fullvíst að vélbáturinn Maí frá Húsavík, sem á voru tveir menn, hafi farizt.

Á bátnum voru þessir menn: Kristján Stefán Jónsson,51 árs, kvæntur og átti 5 börn, Aðalsteinn Baldursson, 26 ára, kvæntur og átti 1 barn.

Maí fór í róður frá Húsavík sl. miðvikudag austur að Mánáreyjum. Kl. 12 talaði hann í talstöðina og bjóst við að verða á Húsavík kl hálf-fjögur til fimm. Þá átti hann eftir að draga nokkuð af línunni. Síðan hefur ekkert til hans spurzt. Leit var hafinn þegar hann kom ekki fram á tilsettum tíma. Ýmislegt úr bátnum fannst austan Mánáreyja en leit sem var haldið áfram síðast í gær hefur engan árangur borið, og er nú talið fullvíst að báturinn hafi farið með mjög skjótum hætti.

 

Myndin kemur úr safni Helga Árnasonar frá Ásgarði á Húsavík en hann var einn eigenda bátsins um tíma.

Helgi var síðar bóndi á Alviðru í Dýrafirði. Hann lést fyrir skömmu og var jarðsunginn frá Ísafjarðarkirkju í dag.

 

Maí TH 194. Mynd úr safni Helga Árnasonar.

 

07.04.2018 18:41

Fram

Netabáturinn Fram ÞH 62 kemur að bryggju á Húsavík í gær. 

1999. Fram ÞH 62 ex Sigurvin GK. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

06.04.2018 20:09

Ósk

Grásleppubáturinn Ósk ÞH 54 kemur að bryggju á Húsavík í dag eftir að hafa dregið netin á Skjálfanda.

2447. Ósk ÞH 54 ex Guðný NS. © Hafþór Hreiðarsson 2018.

 

Sjá fleiri myndir og texta hér

05.04.2018 20:50

Guðbjörg kemur að bryggju í Grindavík

Drónakallinn Jón Steinar tók þessa mynd í dag en hún sýnir línubátinn Guðbjörgu GK 666 koma að bryggju í Grindavík.

Það er Stakkavík sem gerir Guðbjörgina út en hún er einn Kínabátann svokölluðu sem smíðaðir voru 2001 fyrir íslenskar útgerðir.

Lengdur 2016 enbyggt var yfir hann 2005. 

Hét upphaflega Ársæll Sigurðsson HF 80.

2468. Guðbjörg GK 666 ex Guðbjörg HF. © Jón Steinar 2018.

04.04.2018 21:22

Acadienne Gale II

Skuttogarinn Acadienne Gale II kom til landsins í dag eftir að hafa dregið skuttogarann Markus hingað frá Nuuk á Grænlandi en gírinn í Markusi er bilaður. 

Myndina af Acadienne Gale II tók Magnús Jónsson í Hafnarfirði en togarinn var smíðaður 1985 og hét áður Tasiilaq.

Acadienne Gale II GR 06-08 ex Tasiilaq. © Magnús Jónsson 2018.
Flettingar í dag: 1606
Gestir í dag: 548
Flettingar í gær: 1954
Gestir í gær: 540
Samtals flettingar: 8682156
Samtals gestir: 1910422
Tölur uppfærðar: 26.9.2018 11:22:44
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is