Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

26.06.2018 09:56

Hoffell SU 80

Hér kemur mynd Hannesar Baldvinssonar af Hoffelli SU 80 koma til hafnar á Siglufirði.

Hoffell var smíðað í Noregi árið 1959 og í 11-12 tbl. Sjómannablaðsins Víkings það ár kom þessi frétt um komu skipsins til landsins:

Nýtt glæsilegt fiskiskip hefur bætzt í íslenzka fiskiskipaflotann, er það Hoffell SU 80, er kom til Fáskrúðsfjarðar í byrjun októbermánaðar. 

Skipið er byggt í Noregi hjá Ejnar S. Nielsens Mek. Verksted Harstad, eig.: Hraðfrystihús Fáskrúðsf j. hf. Fáskrúðsfirði. 

Útbúnaður er hinn fullkomnasti og skipið mjög vandað. Aflvél er 400 ha. Wichmann. Hjálparvél 25 ha., tveir 220 volta jafnstraums rafalar, annar 12 kw. og hinn 8 kw. Auk þess er 24 volta  rafmagn frá rafgeymum til vara í öll ljósastæði skipsins. Decca radar 48 mílna, dýptarmælir af gerðinni Simrad, ásamt síldarasdic. Sími er um allt skipið og magnari í stýrishúsi þannig að skipstjórinn þarf ekki að kalla sig hásann fram á þilfarið, eða í land. Talstöð er af gerðinni Stentor og er hún 100 wött.

Frystiútbúnaður er í fisklestinni og getur þar verið hvort sem vill kæling 0 gr. C. eða 22 stiga frost. Lestarrúmið er að sjálfsögðu einangrað og klætt aluminium. Öll lestarborð eru af sömu lengdum og skilja sjómenn hversu mikilsvert það er. Í lúkar eru 2 þriggjamanna herbergi og 1 fjögurramanna, en í káetu eru tvö einsmanns herbergi (fyrir stýrimann og vélstjóra) og auk þess eitt tveggjamanna herbergi. 

Vindur eru 8 lesta togvinda og 2.5 lesta línuvinda. Allar íbúðir eru klæddar plasti og fægðum harðviðarlistum. 

Skipið er keypt hjá umboði Magnús Jensson h.f. 

Víkingurinn óskar eigendum og skipstjóra, sem er Friðrik Stefánsson, til hamingju með þetta glæsiega skip.

 

Svo mörg voru þau orð en Hoffellið var 129 brl. að stærð. Það var lengt 1966 og mældist þá 177 brl. að stærð.1973 var sett í það 580 hestafla Cummins aðalvél. Í desember 1974 er Hoffel selt þeim Víkingi Halldórssyni, Pétri Bogasyni og Guðlaugi Wíum í Ólafsvík. Fékk skipið nafnið Fagurey SH 237. Selt tæpu ári síðar til Stokkseyrar, kaupandi Útgerðarfélagið Jórunn h/f og fékk skipið nafnið Jórunn ÁR 237. Um mitt ár 1977 kaupir Stakkholt h/f í ólafsvík skipið sem fær nafnið Jón Jónsson SH 187. 1980 var sett í skipið 800 hestafla Cummins aðalvél í febrúar 1988 var skipið selt aftur til Stokkseyrar. Kaupandi Marver h/f sem nefnir skipið Haförn ÁR 115. (Heimild Íslensk skip)

1995 er hann orðinn Haförn SK 17 í eigu rækjuvinnslunnar Dögunar h/f á Sauðárkróki. 1998 er hannn seldur Auðbjörgu h/f í Þorlákshöfn og fær sitt síðasta nafn sem var Skálafell ÁR 50. Skálafell var afskráð í febrúar 2014 og fór í brotajárn erlendis einhverju síðar.

Spurning hvenær hann var yfirbyggður ? Var hálfyfirbyggður þegar ég sá hann fyrst 1983.

100. Hoffell SU 80. © Hannes Baldvinsson Siglufirði.

 

 

 

Flettingar í dag: 524
Gestir í dag: 96
Flettingar í gær: 1100
Gestir í gær: 132
Samtals flettingar: 9396265
Samtals gestir: 2007522
Tölur uppfærðar: 8.12.2019 21:03:35
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is