Þessi hét upphaflega Orri EA 101, smíðaður á Akureyri 1962 og var í eigu Báru h/f þar í bæ. Síðar Arnar EA 101 frá árinu 1968 og frá árinu 1972 ÓF 3.
Eftir að hann var seldur frá Ólafsfirði hét hann Njörður EA 151.
Hreiðar Olgeirsson tók þessar myndir og þær voru teknar 1999 að ég held. Spurning hvort þarna hafi hann farið grænn upp og blár niður.
Hafsteinn Jóhannsson eignaðist síðan bátinn og fór með hann til Noregs að ég best veit.
Vikublaðið Íslendingur sem gefið var út á Akureyri sagðis svo frá 11. mars 1962:
Um síðustu helgi helgi var nýr bátur sjósettur á Akureyri. Hlaut hann nafnið Orri EA 101. Báturinn, sem er 27 tonn og frambyggður, er smíðaður í skipasmíðastöð K. E. A., yfirsmiður var Tryggvi Gunnarsson, og gerði hann einnig teikninguna.
Orri er búinn 200 ha Scania Vabis vél, og auk alls venjulegs öryggisútbúnaðar, verður síðar sett í bátinn ratsjá, en það mun óvenjulegt í ekki stærri bát.
Orri mun fara á veiðar seinna í mánuðinum. Eigendur bátsins eru Jóhann Malmquist, Jón Helgason, Kristján Jónsson, Páll Jónsson og Sigurhörður Frímannsson.
Það er mjög virðingarvert framtak hjá þessum ungu mönnum að láta smíða svo glæsilegan bát.
 |
714. Arnar ÓF 3 ex EA 101. © Hreiðar Olgeirsson 1999.
|
 |
714. Njörður EA 151 ex Arnar ÓF. © Hreiðar Olgeirsson 1999. |
Skrifað af Hafþór Hreiðarsson