Hér kemur mynd úr safni Vigfúsar Markússonar af Sigurþór GK 43 við bryggju. Sigurþór hét upphaflega Gylfi EA 628 og var í eigu Valtýrs Þorsteinssonar í rauðuvík við Eyjafjörð. Gylfi var smíðaður á Akureyri 1939 úr eik og beyki. Upphaflega var í honum 100hestafla Alpha aðalvél en 1944 var skipt um vél og kom 240 hestafla GM í stað Alphavélarinnar. Í árslok 1965 er báturinn seldur suður til Reykjavíkur, Guðmundur Ragnarsson er kaupandinn og nefnir hann bátinn Fróða RE 44. Í júnímánuði 1971 er báturinn aftur kominn norður í Eyjafjörð. Nú Þingeyjarsýslumegin, nánar tiltekið á grenivík. Þangað keyptu þeir Svavar og Guðlaugur Gunnþórssynir bátinn og nefndu hann Eyfirðing ÞH 39. Í ársbyrjun 1974 er hann aftur seldur suður þar sem hann fær Fróðananfið að nýju en verður RE 111. Kaupandinn Sigurjón Jónsson á Seltjarnarnesi. Í marsmánuði 1975 skiptir báturinn aftur um eigendur þegar Steinþór Þorleifsson í Grindavík kaupir hann. Hann fær nafnið Sigurþór GK 43 sem hann ber á myndinni hér að neðan. Sigurþór GK 43 var talinn ónýtur og tekinn af skrá síðla októbermánaðar 1983. Heimildir fékk ég að þessu sinni í bókinni Íslensk skip 1. bindi.

509.Sigurþór GK 43 ex Fróði RE 111. © Vigfús Markússon.