Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar

19.07.2006 20:12

Skip vikunnar er Sigurður VE 15

183.Sigurður VE 15.

Bátur vikunnar er skip, nótaskip Sigurður VE 15. Sigurður hefur verið á síldveiðum að undanförnu og hefur gengið vel hjá Bóba og áhöfn hans að ná síldinni. Sigurður er smíðaður 1960 í Bremenhaven þýskalandi og bar upphaflega einkennisstafina ÍS 33, síðar RE 4 og loks VE 15.

Það alltaf gaman þegar jólasveinar koma fram á ritvöllinn með visku sína eins og t.d. sá sem skrifar álit hér að neðan (sjá álit) þar virðist hann eitthvað hafa út á fréttaflutning, eða skort á honum, af síldveiðum Sigurðar VE að segja. Morgunblaðið stendur sína vakt með ágætum og þann 9. júlí sl. (fyrir 10 dögum) birtist þessi frétt af gangi síldveiða Sigurðar VE:

Sunnudaginn 9. júlí, 2006 - Innlendar fréttir

Sigurður VE kominn með tæp 8.000 tonn af síld

NÓTASKIPIÐ Sigurður VE er búið að fá tæp 8.000 tonn af síld frá því úthaldið byrjaði um 20. maí. Undanfarið hefur síldin veiðst djúpt norðaustur af Kolbeinsey.

Sigurður VE kominn með tæp 8.000 tonn af síld - mynd
Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson
Sigurður VE hefur fengið norsk-íslenska síld norðan við Kolbeinsey.

NÓTASKIPIÐ Sigurður VE er búið að fá tæp 8.000 tonn af síld frá því úthaldið byrjaði um 20. maí. Undanfarið hefur síldin veiðst djúpt norðaustur af Kolbeinsey.

"Það hefur gengið ágætlega hjá okkur," sagði Kristbjörn Árnason, skipstjóri á Sigurði VE, í samtali við Morgunblaðið. "Þetta er mjög stór og falleg síld. Hún verður ekki stærri held ég."

Kristbjörn taldi engan vafa leika á að síldin væri úr norsk-íslenska stofninum og sagði að hún hefði öll veiðst í íslensku lögsögunni. "Þetta byrjaði Íslandsmegin við miðlínuna milli færeysku smugunnar og Jan Mayen-línunnar. Svo barst þetta vestar og þar hvarf hún skyndilega og fannst svo hér upp við landið."

Búið er að leita mjög stóru svæði fyrir norðan land en ekkert hefur fundist þar af síld. Kristbjörn sagði að dýpra væri kaldari sjór. Síldin virðist því hafa haldið sig á ákveðnu belti.

"Ég held að hún sé á svipuðum slóðum og hún gekk á á árum áður. Kannski heldur lengra frá landi. Við vorum síðast 40-50 mílur norðaustur úr Kolbeinseynni. Þar var svolítið af síld, en svo hvarf hún þegar gerði norðanáttina." Kristbjörn minntist þess að fyrir nokkrum árum hefðu Færeyingar verið að veiða síld djúpt út af Norðausturlandinu. Þá hefði hann verið á loðnuveiðum og vitað af Færeyingunum ekki langt frá að veiða síld.

Sigurður VE hefur landað nær allri síldinni í sumar í Krossanesi við Eyjafjörð. Farið var með einn farm til Vestmannaeyja fyrir sjómannadag og landað í heimahöfn. En á að halda áfram?

"Við ætlum að skoða þetta núna þegar norðanáttin gengur niður. Þá er meiningin að fara út og vita hvort við finnum eitthvað. Það er óvíst að það verði neitt. Síldin fór oft í leiðindaástand þegar hún var orðin svona feit."

Svo mörg voru þau orð í Morgunblaðinu og www.skip.is hafði reyndar birt frétt um sama efni byggt á viðtali við Bóba í Fiskifréttum þrem dögum fyrr, eða þann 6. júlí sem er svohljóðandi:

Góður árangur hjá Sigurði VE á síldveiðum í landhelginni

6.7.2006

Kristbjörn Þór Árnason skipstjóri og áhöfn hans á Sigurði VE hafa gert það gott á síldveiðum úr norsk-íslenska síldarstofninum í sumar. Aflinn er kominn í um 8000 tonn og það skemmtilega er að allur aflinn hefur veiðst innan íslenskrar lögsögu og það í nót.Í tölvupósti sem Skip.is barst frá Friðriki Björgvinssyni í morgun segir að nú síðast hafi Sigurður VE fengið síld á 67°30´N og 17°30´ V þannig að ljóst sé að eitthvað af norsk-íslensku síldinni hafi náð að ganga vestur fyrir hina svokölluðu köldu tungu sem er fyrir austan landið.Þess má geta að rætt er við Kristbjörn Þór Árnason í þættinum Karlinn í brúnni í nýjustu Fiskifréttum en þar greinir hann frá því að síld hafi fundist á Héraðsflóa og Vopnafjarðagrunni um 30 mílur frá landi. Í viðtalinu kemur fram sú skoðun Kristbjörns að skilyrðislaust eigi að banna allar flottrollsveiðar á síld og loðnu. Hann segir flottrollin splundra torfunum og erfitt sé að finna síld í veiðanlegu magni fyrir nótina eftir að farið hafi verið yfir veiðisvæðið með trolli.
 
Svo mörg voru þau orð sem skrifuð hafa verið um síldveiðar nótaskipsins Sigurðar VE 15 í fjölmiðlum síðustu daga og er ekki annað hægt en að benda öllum þeim jólasveinum sem áhuga hafa á sjávarútvegsfréttum að kaupa Moggann, Fiskifréttir eða skoða www.skip.iswww.123.is/skipamyndir segja svo kannski einhverjar fréttir af sjávarútvegi og þá helst tengdar myndum mínum. 
 
Annars er ágætt að fá svona álit við myndirnar því þá skapast stundum umræða sem leiðir af sér upplýsingar og fróðleik um viðkomandi báta.
 
HH

 

Flettingar í dag: 546
Gestir í dag: 100
Flettingar í gær: 1100
Gestir í gær: 132
Samtals flettingar: 9396287
Samtals gestir: 2007526
Tölur uppfærðar: 8.12.2019 21:36:41
 


Eldra efni

clockhere

Tenglar

Um mig

Nafn:

Hafþór Hreiðarsson

Farsími:

8956744

Heimilisfang:

Sólbrekka 29

Staðsetning:

Húsavík

Heimasími:

4642030

Önnur vefsíða:

www.640.is